08.03.1965
Neðri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

70. mál, búfjárrækt

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til 1. um búfjárrækt var flutt í Ed. og fékk jákvæða afgreiðslu þar, en nokkrar breytingar voru þó samþykktar, sem eru ekki veigamiklar, heldur aðeins til frekari skýringar og fyllingar á málinu.

Frv. þetta er samið af nefnd, sem valin var af Búnaðarfélagi Íslands í samráði við landbrn. Var n. skipuð 1964 og lauk hún störfum einnig á því ári. Þetta frv. er flutt eins og það kom frá n. að undanteknu því, að nokkur breyting var gerð á 4. gr. frv. og 54. gr. Þar var gert ráð fyrir, að héraðsráðunautar og sérfræðingar í búfjársæðingu tækju laun samkv. tilgreindum launaflokki í núgildandi launakerfi starfsmanna ríkisins. Launakerfi þetta er tímabundið og breytingum háð, og þótti því eðlilegra, að laun ráðunauta væru ákveðin af landbrh. að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands. Þá var breytt út af þeirri reglu, sem gilt hefur um laun ráðunauta, að nú eru laun þeirra greidd að 65% úr ríkissjóði í stað 50% áður. Hins vegar lagði n. til, að það yrðu sömu hlutföll í ferðakostnaði ráðunautanna, en á það hefur ekki verið fallizt. Hins vegar þótti eðlilegt að benda á sérstakan lið í fjárl., sem Búnaðarfélag Íslands hefur árlega til meðferðar, þ.e. 850 þús. kr. núna á gildandi fjárl., og það þykir eðlilegra, að sá liður verði hækkaður og notaður eins og verið hefur til þess að skipta á milli búnaðarsambandanna til að mæta sérstökum kostnaði, m.a. ferðakostnaði ráðunautanna. Það þykir eðlilegt, að þetta sé hverju sinni eftir því, sem veitt er á fjárl., frekar en að binda það í lögum. Að öðru leyti er frv. eins og n. skilaði því af sér.

Í nefndinni áttu sæti Einar Gestsson bóndi á Hæli, Gísli Magnússon bóndi og Sigurður Snorrason bóndi, og var Sigurður Snorrason formaður nefndarinnar.

Þetta frv. er, eins og sjá má, í 9 köflum og allviðamikið. Lög um búfjárrækt eru frá 1931 og voru endurskoðuð 1957, og þótt ekki sé lengra liðið en síðan 1957, þótti ástæða til að endurskoða lögin á ný. Það er ekki um veigamiklar breytingar að ræða í þessu frv. frá gildandi lögum, ekki um neinar veigamiklar breytingar eða stefnubreytingar að ræða. Það, sem í þessu frv. felst, er aðallega að færa til hækkunar nokkuð marga liði, sem búfjárræktin er bundin við, og er það vitanlega ekki meira en hægt er að segja, að til samræmis sé við aukinn tilkostnað frá því, sem var 1957. Þá er tekið inn í þetta frv., eins og jarðræktarlagafrv., eftir að vísitalan er tekin að verka aftur á kaup, þá er það eitt tekið inn í þetta frv., að greiðslur séu samkv. sérstakri vísitölu, sem hagstofan reiknar út.

Hv. Ed. gerði nokkrar breytingar á frv., eins og áður er sagt. Sú fyrsta var gerð við 10. gr. frv. á þskj. 275 og við 12. gr. á sama þskj., 17. gr., 18. gr., 64 gr., 65. gr., 66. gr., 72. gr. og 73. gr., allt á þskj. 275, og geta hv. þm. kynnt sér það. Einnig var gerð breyting á 48. gr., sem er á þskj. 295, þ.e. að veita hrossaræktarfélögum heimild til þess að fá nokkurn styrk til stofnræktar hrossa, ef ráðunautur Búnaðarfélags Íslands og stjórn hrossaræktarsambandanna eða búnaðarsambanda þeirra, sem sett hafa sér búfjárræktarsamþykkt, mæla með því. Það er ekki talið, að það geti verið veigamikil útgjöld í sambandi við það, og í trausti þess var þetta nú samþ., enda þótt um það væri samið, þegar þetta frv. var flutt, hversu langt það skyldi ganga í útgjöldum, og var í samræmi við það, sem mþn. búnaðarþings hafði lagt til.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að fara nánar út í frv., það liggur fyrir og ljóst, hvað í því felst, og er því ekki ástæða til þess að rekja það nánar.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.