16.03.1965
Neðri deild: 55. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

101. mál, Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna

Frsm. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Frv. um lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna var á sínum tíma lagt fyrir Ed. Í meðferð málsins í Ed. var gerð sú breyt. á, að heiti frv. var breytt. Í stað lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna var sett: lífeyrissjóður hjúkrunarfólks, og önnur breyt., sem af því leiddi, varð við 1. gr. frv. Í meðferð málsins í fjhn. þessarar hv. d. kom það til umr. samkv. ósk forustukvenna Hjúkrunarfélagsins, að þessu yrði breytt aftur í sitt upprunalega horf, og færðu þær fram þau rök fyrir því, að lengst af hefðu hjúkrunarkonur verið þær einu í þessari stétt, en aðeins nú nýlega hefðu karlmenn komið þar til, gerzt hjúkrunarmenn, en þær töldu það nokkurs virði og ekki lítils virði að viðhalda heitinu hjúkrunarkona, þar sem því yrði við komið. N. féllst á þetta sjónarmið hjúkrunarkvennanna og taldi eftir atvikum rétt að breyta aftur heiti frv. í sitt upprunalega form, þannig að það yrði lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna. Þetta getur verið nokkurt aukaatriði, en greinilega var það mjög mikið áhugamál hjúkrunarkvennanna, að hinu upprunalega heiti yrði haldið, sem til hafi orðið eftir mjög gaumgæfilega athugun, áður en málið var lagt fyrir þingið við samningu frv., og taldi n. því rétt að verða við þessum mjög svo ákveðnu óskum og leggur því til, að frv. verði nú breytt í sitt upprunalega horf, þannig að heiti þess verði: frv. til l. um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna, og 1, gr. breytist samkv. því og þar komi orðin „hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna“ í stað: hjúkrunarfólks, eins og frv. er nú, eins og það kom frá Ed.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. N. leggur til, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.