20.10.1964
Neðri deild: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

5. mál, verðtrygging launa

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ef umr. um stjórnarstefnuna almennt væru hér á dagskrá, hefði ég vissulega enn þá margt og mikið við hana að athuga og gæti haldið alistrangan pistil um hana. En ef litið er eingöngu á þetta þskj. og það þingmál, sem hér er til umr., get ég sagt það í örfáum orðum, að allur texti þessa lagafrv. er gerður í samráði við verkalýðshreyfinguna og þá menn, sem stóðu að samningum við hæstv. ríkisstj. og vinnuveitendasamtökin á s.l. vori. Við höfum ekkert við þetta frv. að athuga og erum því samþykkir. Í því felast tvö meginatriði, eins og fram hefur verið tekið. Það er aftur tekin upp verðtrygging á kaupgjaldi, þ.e.a.s. vísitölukerfi eftir ákveðnum reglum, sem í frv. greinir, er lögfest, og í annan stað eru felld niður ákvæði laga nr. 4 frá 1960, um efnahagsmál, þ.e. bannið við að binda kaupgjald í einhverri mynd við vísitölukerfið, það er nú afnumið. Um þetta var samið á s.l. vori, og þessum samningsákvæðum fullnægir þetta frv. Af því leiðir það vitanlega, að ég sem þingmaður mun greiða þessu frv. atkvæði og tel það vera fullnægingu á samningsákvæðum frá 5. júní s.l.

Hitt er hins vegar alveg rétt hjá hv. 5. þm. Reykv., að þegar litið er á það kaupgjald, sem nú gildir í landinu samkv. stéttarfélagssamningum, þá er það svo lágt, að meðalfjölskyldu er ekki kleift að lifa af tekjum 8 stunda vinnudags. Og það var okkur vissulega ljóst, þegar við gengum frá samningaborði s.l. vor. En við höfðum boðið ríkisstj. að freista þess að finna einhverjar leiðir til stöðvunar verðbólgu, og þegar við höfðum látið það tilboð frá okkur fara, þá var okkur ljóst, að við mundum verða miklu fremur að leggja höfuðáherzlu á önnur atriði en hækkun kaupsins, þrátt fyrir það að við teldum kaupið ófullnægjandi. Um það er hægt að deila, hvort við höfum gert rétt í þessu. Við lögðum höfuðáherzlu á að fá numið úr lögum bannið við vísitölugreiðslu á kaup, lögðum fram höfuðkröfu um verðtryggingu kaups. Ríkisstj. reyndist vera til viðræðu um það. Og samningar báru þann árangur, að vísitölubannið fékkst úr gildi fellt, og við vildum annað tveggja, fá þannig frjálsan samningsrétt í stéttarfélagssamningum um að taka upp vísitölu á kaup á ný eða þá, eins og hæstv. ríkisstj. lagði meiri áherzlu á, að þetta skyldi verða ákveðið með lagasetningu, sem í einn og sama stað kom niður, og á það gátum við fallizt.

Nú er spurningin, hvort það muni vera rétt að taka upp vísitölugreiðslur á kaup, og um það er hægt að deila. Meðan vísitölukerfið gilti hér áður, voru margir, sem sáu á því ýmsa galla, ýmsa vankanta. En ég hélt því alltaf fram, að þrátt fyrir ýmsa galla á því kerfi mundu vísitölugreiðslur á kaup veita ríkisvaldinu á hverjum tíma visst aðhald í verðlags- og dýrtíðarmálum. Og það held ég enn, að sé rétt. Þegar vísitölukerfið var afnumið, sló ríkisvaldið slakara við en áður í þeim efnum að hafa taumhald á verðlagsmálunum. Meðan vísitölukerfið gilti, vissi sérhver ríkisstj. það, að ef hún sleppti verðlaginu lausu, kæmi kaupgjaldið upp á eftir innan eins ársfjórðungs, og það brást ekki heldur. En það var sem afleiðing. Þegar ríkisvaldið gat ekki gert sér vonir um það, að kaupgjaldið drægist aftur úr, þó að verðbólgan geisaði og verðhækkanirnar geisuðu áfram, þá fór það þannig, að verðlagið fór í geysingi á undan og ríkisvaldi var síðan beitt með afli atvinnuvinnurekenda til þess að halda kaupgjaldinu niðri, og þetta héldu menn vera lækningu á þjóðfélagsmeinsemd, en það hefur ekki reynzt það.

Þetta tímabil, síðan vísitölukerfið var afnumið, hefur reynzt verkalýðnum, að því er snertir tekjuöflun hans í vaxandi dýrtíð, erfitt tímabil, það ber að játa. En þetta tímabil hefur líka verið íslenzku atvinnulífi, atvinnurekendum, erfitt. Atvinnurekendurnir hafa búið við miklu meiri óvissu en nokkru sinni fyrr viðvíkjandi möguleikum sins atvinnurekstrar. Þeir vissu aldrei stundinni lengur, við hvaða kaupgjald þeir mundu eiga að búa og hver þau útgjöld yrðu, sem þeir yrðu að hafa í sambandi við aðkeypt vinnuafl, og þessi óvissa náði hámarki sínu á árinu 1963, þegar þrisvar sinnum var allt í óvissu um kaupgjaldsmálin. Þetta var því eins óhafandi fyrir öryggi í atvinnurekstri og fyrir afkomu launastéttanna. og þegar svo var komið, að hvorum tveggja var þetta ljóst, hygg ég, að hæstv. ríkisstj. hafi gert alveg rétt í því að horfast þarna í augu við staðreyndir og hefja viðræður við verkalýðshreyfinguna um, að þetta óvissuástand skyldi afnumið og vísitalan heldur viðurkennd á ný. Og það er enginn minni maður fyrir það, þó að hann að fenginni reynslu játi á sig að hafa haft rangt fyrir sér og breyti þá um stefnu. Og sízt af öllu skal ég ámæla hæstv. ríkisstj. fyrir að hafa gert þetta í þessu atriði.

Ég tel það einn höfuðávinning síðustu samninga, sem bundinn var endi á 5. júní s.l., að verðtrygging fékkst aftur á kaup. Og ég vona, að það verði ekki aðeins verkalýðnum til hagsbóta, heldur einnig atvinnurekstrinum, og það skapi meiri stöðugleika og öryggi hjá atvinnurekendum. Ég tel líka, að vísitölukerfið, þegar það er komið í gang aftur, leggi hæstv. ríkisstj. þungar byrðar á herðar um að reyna að hafa hemil á dýrtíðarmálunum. Ef hún hins vegar gætir sín ekki í því og lætur allt vaða á súðum áfram í fjárhags- og efnahagsmálum, bregzt hún skyldu sinni og þá mun það koma henni í koll. Hún verður að taka upp nokkuð breytta stjórnarhætti í þessu efni, hafa ekki uppi eintóm sparnaðarloforð, heldur láta sparnað koma til framkvæmda í ýmsum þáttum ríkisins, því að stöðvun og stöðugleika í efnahagskerfinu fáum við ekki nema því aðeins, að ríkisvaldið gæti þessarar skyldu sinnar. Ég álít t.d., að 100 millj. umframgreiðslur á fjárl., eftir að allir eru farnir að stefna að því að stöðva, eigi ekki heima innan þessa kerfis og það sé beinn vegur til ógæfu.

Hér er stefnt að samstarfi verkalýðssamtaka, atvinnurekenda og ríkisvalds um mikið þjóðfélagsvandamál, og ef allir standa vel við þetta og skilja anda þess, sem á bak við er, þá held ég, að takist að leysa þessi mál. En ef annaðhvort ríkisvaldið eða atvinnurekendur eða verkalýðshreyfingin bregzt í þessu samstarfi, er að mínu álíti ekki hægt að bjarga því með einni saman lagasetningu um vísitölukerfi á laun.

Í annan stað lögðum við höfuðáherzlu á, að reynt yrði að reisa skorður við óhóflega löngum vinnutíma hér á landi. Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði áðan, hann hefur um alllangt skeið tekið vel undir þá kröfu verkalýðssamtakanna og gert nokkrar ráðstafanir til þess, að stefnt væri í þá átt að stytta hinn óhóflega langa vinnutíma, og þeirri kröfu var að nokkru sinnt núna í samningunum í vor og því lofað, að áfram skyldi unnið að lausn þess máls í áföngum. Og ég held, að það mál, hinn óhóflega langi vinnutími hér á landi, verði ekkí heldur leystur nema í smáskrefum á nokkuð löngum tíma og það sé ekki hægt að fá öllum kröfum fullnægt í einu, svo langt úrskeiðis hefur okkur borið í þessu efni á undanförnum árum.

Í þriðja lagi lögðum við höfuðáherzlu á að leysa einn vanda, sem algerlega var kominn í öngþveiti. Það voru húsnæðismál almennings, langt út fyrir raðir verkalýðssamtakanna, og þar fengum við tvennu til vegar komið með samningum við hæstv. ríkisstj., lækkun vaxta, að vísu með vísitölukvöð, og hækkun lána, og þar með allverulegt skref stigið í þá átt að opna ungu fólki og öðrum, sem eru að byggja yfir sig og sína, möguleika til þess að leysa húsnæðismálin með nokkru auðveldari hætti en áður var, því að þau mál voru komin í algert öngþveiti hjá efnaminna fólki. Enn fremur fengum við svo fyrirheit um það, að öfl innan Alþingis skyldu sameinuð um að setja á þessu þingi, sem nú hefur hafið störf sín, löggjöf með samkomulagi um vinnuvernd, og þeirrar löggjafar tel ég mikla þörf.

Þegar við höfðum fengið þetta fram í samningum, urðum við að slaka nokkuð á í kaupgjaldskröfum okkar. Og það má segja, að í því efni hafi lítið úr rætzt með samningunum í vor, og það vitum við vel. Það er rétt, sem hér var sagt áðan, að sá verkamaður, sem vinnur alla virka daga ársins, 8 stundir á dag, fær ekki nema 77 þús. kr. í árstekjur, innan við 80 þús. kr., og það vita allir, að af þeim tekjum verður engri 5 manna fjölskyldu framfleytt. Kaupið er því of lágt. Til þess að árstekjur verkamanns yrðu 108 þús. kr., þyrfti tímakaupið að vera 45 kr. eða 12 kr. hærra en það er nú. Ég geri mér fyllilega ljóst, að hvaða ríkisstj. sem sæti á stjórnarstóli nú mundi ekki telja fært, án þess að tjón hlytist af í efnahagslífi þjóðfélagsins, að framkvæma þessa leiðréttingu á kaupgjaldi í einu stökki. Okkur hefur borið, eins og um tímavinnulengdina, svo langt úrskeiðis á undanförnum árum um þessi efni, að það er mín sannfæring, að ríkisstj. gæti ekki haft hemil á efnahagsmálunum, ef kaupið yrði allt í einu hækkað um 12—13 kr. á tímann, upp í 45 kr., sem þyrfti til þess, að verkamaður hefði 108 þús. kr. tekjur, sem ég álít í raun og veru vera eiginlega það lágmark, sem hugsanlegt sé að framfleyta meðalfjölskyldu á, ef ekki kæmu eftirvinnu- eða næturvinnutekjur til. Í kaupgjaldsmálinu er ég því sannfærður um, að við verðum að fara samningaleið og beina þar í einn farveg öllum meginöflum atvinnurekenda, ríkisvalds og verkalýðssamtaka að framkvæma leiðréttingar á kaupgjaldsmálinu sjálfu í áföngum. Það verð ég að játa. Þetta er það stórt stökk, sem hér yrði að gera, að það yrði áreiðanlega ekki hægt að rúma það innan þess efnahagsmálaramma, sem okkur er sniðinn, í einu vetfangi. Hér verðum við að þoka okkur áfram að réttu marki einnig í áföngum. Og verði ég einhver ráðamaður í þessum málum utan þings eða innan, mun ég halda mér við það, að við þurfum að semja hér um lagfæringu á vinnutímanum og kaupgjaldinu í áföngum og beina öllu afli að því að gera það á þann veg, að enginn, hvorki núv. ríkisstj. né neinir aðrir, fái afsökun í því, að allt hafi farið úr böndum og efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar steypt í glötun vegna þess, að ekki hafi verið farnar færar leiðir eða gefinn kostur á að fara þær.

Ég held því, að hæstv. ríkisstj. hafi farið inn á réttar brautir með því lagafrv., sem var ávöxtur samkomulagsins í vor og rætt var hér í hv. þd. í gær, og með því að gangast inn á þau samningsákvæði, sem felast í þessu frv., sem nú er til umr., og fyrir það mun ég aldrei álasa henni. Ég held, að hún hafi gert rétt í því. Hitt er svo annað mál, það verður okkar sök, sem hinum megin vorum við samningaborðið, ef hægt er að segja, að við höfum verið of linir í kaupgjaldsmálinu og gefið þar of slakan taum. En það var okkar sannfæring, eftir að við höfðum staðið í þessu samningaþófi, að þar gætum við ekki komizt lengra, eins og sakir stóðu, þó að vitanlega hyggjum við á lagfæringu í því efni við næstu samningagerð og samningagerðir, eins og ég þegar hef gert grein fyrir.

Fleira skal ég ekki segja um þetta frv. Ég tel það fullnægja samningsákvæðum við okkur og mæli með frv. og samþykkt þess.