16.03.1965
Neðri deild: 55. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að ræða þetta frv. sérstaklega, heldur þann boðskap, sem boðaður er í grg. frv., en vil þó í upphafi máls míns minna á það, að skömmu eftir s.l. áramót fór fram á vegum ríkisútvarpsins í þættinum „Á blaðamannafundi“ viðtal við einn af stærstu útgerðarmönnum landsins, Einar Sigurðsson, sem í daglegu tali er kallaður Einar ríki. Spyrjendurnir voru m.a. hv. 5. þm. Vesturl. og ritstjóri Þjóðviljans. Þeir spurðu margs, og þar á meðal var sérstaklega rætt um þá ákvörðun útgerðarmannsins að hafa skilið við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. En rökin, sem hann færði fyrir því, voru m.a. þessi: Nú er svo auðvelt að selja, að það selst hver uggi, sem á land kemur. Hann selst fyrir hærra verð en áður hefur verið. Svo kom til viðbótar um afkomu útvegsins, en fiskiríið hafi verið betra nú en nokkru sinni fyrr, en þegar svo útgerðarmaðurinn var spurður um afkomuna og hann hafði áður upplýst, að hann hefði byggt þrjú frystihús, var svarið þetta: Ég byggði frystihúsin áður fyrr. Það var á þeim árum, þegar

Framsfl. stjórnaði. En ég get ekki haldið þeim við á viðreisnartímum. Ég ætlaði að reyna að endurbæta lítils háttar eitt frystihúsið, sagði útgerðarmaðurinn, en ég varð að hætta við það vegna fjárskorts, því að viðreisnin leyfði það ekki. Þetta var einn af stjórnarstuðningsmönnunum, sem gaf þennan dóm, og niðurstaðan af samtalinu var þetta: Ég gat byggt þrjú frystihús, þegar Framsókn stjórnaði, en ekki haldið þeim við undir stjórn viðreisnar.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, segir sömu sögu. Þegar árferðið er þannig, að metaflaár er ár eftir ár, hver uggi selst fyrir hærra verð en nokkru sinni fyrr, er uppbótakerfið tekið upp á ný og endurbætt. Það hefur sitt að segja.

En það, sem ég vildi sérstaklega ræða hér um, er boðskapur sá, sem kemur fram í grg. frv. á þskj. 333 um það, að fjárins til þess að mæta þeim útgjöldum, sem hér er stefnt að, skuli aflað með því að skera niður verklegar framkvæmdir, eins og það er orðað, um 20%. Þegar við vorum að afgreiða fjárlög fyrir jól, var það eitt af síðustu lögum þingsins þá, að hæstv. ríkisstj. flutti frv. um hækkun á söluskatti. Ég sagði frá því við 3. umr. fjárl. eða vakti athygli á því réttara sagt, að Alþýðublaðið birti sama daginn frásögnina af söluskattshækkuninni og kindinni, sem var komin í sjálfheldu. Mér finnst þetta frv. eða þessi aðgerð hæstv. ríkisstj. sýna það og sanna, að Alþýðublaðið vissi, hvað það var að fara. Því var ljóst, að hæstv. ríkisstj. var komin í sjálfheldu og var að reyna að leita eftir stráunum, sem enn þá var hægt að ná til úr sjálfheldunni. Og áfram er haldið á þeirri braut að kroppa nú enn á ný í sinustráin, sem enn kunna að vera í syllunni.

Ég verð að segja, að það er ekki nein fyrirmyndarstefna, sem rekin er af hæstv. ríkisstj., að hún skuli hafa hækkað söluskattinn um verulega fjárhæð á síðustu dögum fyrir jólin, en sker niður fjárl. nú. Ég benti á það í þeirri ræðu, sem ég flutti þá, að ef ríkisstj. áleit sjálf, að fjárhag landsins væri þannig komið, að það væri ekki hægt að koma áfram málefnum þjóðarinnar nema með nýjum álögum ofan á álöguflóðið, sem yfir þjóðina hefði gengið, þá bar henni skylda til að leita samstarfs við Alþingi um að skera niður á fjárl. Þetta gerði hún ekki, heldur hækkaði álögurnar fyrir jól, en sker niður hluta fjárlaganna eftir áramót. Hæstv. ríkisstj. fer í þann endann, eins og á hefur verið bent, sem sízt skyldi. Hæstv. ríkisstj. er ekki að lækka eyðsluna. Ég benti á það í fjárlagaumr., að eyðslan í sambandi við utanferðir, veizlur og önnur slík atriði hjá hæstv. ríkisstj. hefur hækkað um 500% síðan 1958. Það er ekki talin ástæða til þess að skera hér niður. Hvað hefur kostnaðurinn við skattaálagninguna í landinu aukizt? Í árslok 1963 um 200—300%, en miklu meira núna. Það er ekki verið að skera þar niður. Það er ekki verið að gera tillögu um að leggja niður ýmis embætti og stofnanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur stofnað nú á síðustu árum. Það er a.m.k. ekki enn þá komin fram tillaga um að draga saman eða leggja niður Efnahagsstofnunina, og það er ekki einu sinni uppi till. um að leggja niður prestsembættið í Kaupmannahöfn, sem var stofnað án lagaheimildar og án allra venjulegra framkvæmda á slíkum málum á s.l. ári. Væri nú ekki nær, að hæstv. ríkisstj. færi að hyggja að þessum atriðum í íslenzkum fjárl., ef á að fara að skera stórkostlega niður? Það þýðir ekki að tala hér um, að þetta séu smámunir einir. Ef á annað borð er orðið það ástand í góðærinu, að við verðum að fara að skera niður af þeim verkefnum, sem mest nauðsyn er fyrir fólkið í landinu, þá verðum við einnig að fara í þessi og fyrst og fremst í þessi atriði.

Hvaða málaflokkar eru það, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að skera niður? 20% lækkun á fjárveitingum er ekkert smáræði. Ég vil geta þess og mun hafa getið þess fyrr í umr., hæstv. heilbrmrh. til verðugs hróss, að á fjárl. fyrir árið 1965 er veruleg hækkun til byggingar sjúkrahúsa, læknisbústaða, svo að það stefndi að því að gera nokkurt átak í þeim málum. Þörfin var greinileg, eins og allir vita. En með þessari framkvæmd á að skera niður 20% einnig af þeim framkvæmdum, að því er bezt verður séð. Hér er þó ekki um neinar óþarfaframkvæmdir að ræða. Landsfólkið hefur lagt mikið á sig í þessum efnum, og stórar stofnanir, eins og Landsspítalinn, eru búnar að vera geysilengi í byggingu, og sá kostnaðarauki, sem er orðinn við þá framkvæmd vegna þess, hve hún hefur dregizt, verður ekki talinn í milljónum, heldur í milljónatugum. Og nú á að skera niður einnig þar 20% af framkvæmdafé. Þetta er þó sú heilbrigðisstofnun í landinu, sem er sú fullkomnasta og bezta og þar sem þrengslin eru orðin slík, að það er fyrir löngu raunverulega í óefni komið. Samt á nú að bíða með þessa framkvæmd eins og fleiri.

Það lá fyrir í áætlun vita- og hafnarmálastjóra við fjárlagaafgreiðsluna, að hann kom með framkvæmdalista upp á einar 200 millj., og það þýddi 80 millj. kr. útgjöld hjá ríkinu — og 100 millj. kr., ef með var tekið það, sem vantaði á greiðslu í eldri framkvæmdir. Það kom einnig fram í þeirri skýrslu, að það var nokkurt átak gert í því á árinu 1964 að greiða niður eldri skuldir og var notaður til þess hluti af greiðsluafgangi ríkissjóðs. Nú var fjárveiting til hafnargerða í landinu svo lág, að ljóst var, að það hlaut að sækja í sama horfið aftur. En með þessum niðurskurði, sem nú á að fara að gera, eru þar skornar niður um 8 millj. kr., svo að það verður til 1/4 af því fé, sem ríkið þyrfti að leggja í sinn hluta til hafnarframkvæmda í landinu árið 1965. Og við skulum gera okkur grein fyrir því, að þegar hafnir eru farnar að kosta tugi millj. í framkvæmd, segja 700 þús. kr. lítið til þess að greiða ríkissjóðshlutann, en það er hæsta fjárveitingin, sem er þó á fjárl., og eftir þennan niðurskurð munu aðeins 5 hafnir á landinu fá fjárveitingu, sem nemur 500 þús. kr., allar aðrar hafnir á

landinu eru þar fyrir neðan. Þetta er myndin af hafnargerðinni. Sýnist hv. þm., að hafi verið ástæða til að taka 1/5 hluta þar af? Við afgreiðslu fjárl. lá fyrir skýrsla frá fræðslumálastjóra um umsóknir vegna nýrra skólabygginga í landinu. Þessi skýrsla bar með sér, að það þurfti um 40 millj. kr. til þess að fullnægja umsóknum um skólabyggingar og greiða 1/5 hluta kostnaðar, eins og gert er ráð fyrir samkvæmt lögum, að ríkið greiði. Nú voru þessar framkvæmdir ekki allar samþykktar, þó að nauðsyn hefði borið til. Og það hafa orðið hér í hv. Alþ. í vetur miklar umr. um skólamál, og hæstv. menntmrh. svaraði hér fsp. um daginn, þar sem hann hélt því fram, að það hefði raunverulega verið fullnægt að koma unglingum í skóla, þeim sem það vildu, og væri stefnt að því. En hvað gerist á þessu ári? Af þeim 40 millj., sem ríkið þurfti að leggja til nýrra skólabygginga á árinu 1965, mun það greiða um 11 millj. Verður þetta til þess, að fullnægt verði því, að börnin og unglingarnir í landinu geti komizt í skóla, þau sem vilja? Það verður ekki. En það er þó meira að gert en þetta, því að á s.l. ári var gefin út reglugerð, sem tekur af öll tvímæli um það, að ekki má hefja skólaframkvæmd, fyrr en fjármagn fyrir 1/5 hluta liggur fyrir. Nú hafði engin skólaframkvæmd í landinu meiri fjárveitingu en 1/5 hluta til nýbygginga, og með því að skera þann hluta niður um 20%, er komið niður fyrir þetta mark, og það þýðir í raun og veru, að það verður ekki byrjað að byggja nýjan barnaskóla eða unglingaskóla í þessu landi árið 1965. Þetta gerist, þegar góðæri er meira en nokkru sinni fyrr. Þetta er árangurinn af 5 ára viðreisnarstjórn. Og það er ekki öll sagan sögð með þessu, því að mörg sveitarfélög hafa orðið að hafa framkvæmd skólabygginganna miklu örari en lögin gerðu ráð fyrir og eru í stórfelldum skuldum vegna þessara framkvæmda. Það er ekki vegna þess, að þau hafi viljað vinna að því að fjárfesta of mikið, heldur hefur þörfin knúið sveitarfélögin áfram, vegna þess að börnin og unglingarnir biðu eftir skólastofunum, og það var óframkvæmanlegt að stöðva verkið, þó að forráðamenn sveitarfélaganna hefðu ætlað sér þetta. Þess vegna sitja nú einnig eftir stórar fjárhæðir í skuldum, og sveitarfélögin og bæjarfélögin verða að greiða aukna vexti vegna þessara framkvæmda, auk þess sem verðbólgan heldur áfram að aukast og gera verkið dýrara.

Við áramótin 1963—64 sameinaðist hv. Alþ. um það að leggja á þjóðina um 100 millj. kr. í nýjum sköttum vegna vegamálanna. Þetta var gert af því, að hv. alþm. var ljóst, að það stefndi í fullkomið óefni með vegagerðina í landinu, og þeir vildu leggja það á sig og fólkið í landinu, að greiða 100 millj. kr. nýja skatta til þess að reyna að bæta úr þessu. Nú hefur svo til tekizt, að úr þessu fjármagni hefur m.a. vegna dýrtíðarinnar orðið miklu minna, þegar til framkvæmdanna hefur komið. En annað hefur skeð, og það er það, að bílainnflutningur til landsins og bílar í umferð hafa aukizt stórkostlega og tekjur ríkissjóðs af þeim hafa líka stórkostlega aukizt. Við afgreiðslu síðustu fjárl. hækkaði ríkissjóður ,sinn hluta í þessum tekjum með því að hækka leyfisgjöldin af bifreiðum, og ég sýndi fram á það með rökum, að nettótekjur ríkissjóðs af umferðinni munu verða á þessu ári, ef miðað er við fyrri áætlanir, um 500 millj. kr. a.m.k. 47 millj. kr. ætlaði ríkissjóður skv. fjárl. að leggja til umferðarinnar aftur í sambandi við vegina. Þetta á einnig að skera niður um 20%.

Við sitjum yfir því þessa dagana að reyna að koma saman vegáætlun. Erfiðleikarnir eru fólgnir í því, að það vantar meira fjármagn til þess, að það sé hægt að vinna hin nauðsynlegustu verkefni í vegamálunum, sem við teljum, sem þekkjum til úti í kjördæmunum. En á sama tíma sem við erum að reyna að teygja þannig úr krónunum, er hæstv. ríkisstj. að skera af fjárveitingunum uppi í Efnahagsstofnun og í ráðuneyti.

Þannig er nú að farið, að það er verið að skera af þessum fáu krónum, á sama tíma sem tekjur ríkissjóðs af umferðinni aukast stórlega. Og þunginn í umferðinni, bæði af bílafjölgun og stærri bilum, vex dag frá degi.

Um flugmálin vil ég segja, að það kom fram í fjvn. við fjárlagaafgreiðslu, að fyrir það fé, sem varið er til flugmála á árinu 1965, er að mestu eða öllu leyti búið að vinna. Nú verður það eitt af því, sem á að beita skurðarhnífnum á, og þeir, sem skuldirnar bera, verða að standa undir þeim áfram, og verkefnin bíða.

En hver er svo tilgangurinn með öllu þessu? Í fyrra var söluskatturinn hækkaður í byrjun ársins 1964 til þess að bjarga sjávarútveginum. Á síðari hluta ársins, þegar fjárlög voru sett upp á nýjan leik, fékk ríkissjóður tekjustofnana. Þá var bara bætt við nýjum tekjustofni, einnig vegna ríkissjóðs. Og nú á að skera niður af ríkisútgjöldunum, ekki til þess að taka minni skatta af fólkinu í landinu, heldur til þess að fleyta áfram, reyna að ná í fleiri strá í sjálfheldunni, því að þessi aðgerð leysir engan vanda, og hæstv. ríkisstj. verður áfram í sjálfheldunni, en stráunum fækkar, sem hún hefur möguleika til að ná til.