18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ef marka mætti orð hv. stjórnarandstæðinga við fyrri hluta þessarar umr., er ekki vel komið fyrir ríkisstj. Viðreisnin er úr sögunni, og sjálf er stjórnin líkust kind, sem komin er í sjálfheldu og hefur nokkur strá til að naga, eftir hinni áhrifaríku lýsingu hv. 3. þm. Vesturl. Þó var svo að heyra sem ófarir stjórnarinnar væru ekki nema smáræði miðað við það, hvernig atvinnurekendur í landinu hefðu verið leiknir. Þeir voru tveir nefndir með nafni, annar af hv. 1. þm. Austf. og hinn af hv. 3. þm. Vesturl., og það voru heiðursmennirnir Haraldur Böðvarsson og Einar Sigurðsson. Eftir lýsingum þeirra flokksbræðra var svo að sjá, að þessir tveir atvinnurekendur væru nú á algeru nástrái, nær dauða komnir, ef þeir þá enn halda lífi þá sólarhringa, sem liðnir eru frá því, að hin ömurlega lýsing var gefin hér í d. s.l. þriðjudag.

Nú vitum við það allir, að það er rétt, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði, að þessir tveir ágætu menn voru ekki alveg örsnauðir, áður en viðreisnin hófst, svo að það má að vissu leyti kenna viðreisninni þeirra ófarir, ef þeir eru nú jafnilla staddir og þessir tveir ágætu þm. vildu vera láta. En þá skýtur óneitanlega dálítið skökku við í málflutningnum, bæði því, sem hér hefur verið básúnað ár eftir ár að undanförnu og raunar einnig skaut upp í máli þessara hv. þm. s.l. þriðjudag, að höfuðárangur viðreisnárinnar væri sá, að hinir ríku væru orðnir ríkari, en hinir fátæku fátækari. Eftir lýsingu hv. 3. þm. Vesturl. er nú ekki lengur hægt að tala um Einar ríka, heldur Einar fátæka, eftir að viðreisnin fór að hafa sín áhrif.

Nei, það er vissulega dálítið betra að gæta orða sinna og hafa eitthvert samræmi í því, sem sagt er. Nú hef ég að vísu ekki heyrt, að þessir tveir góðu atvinnurekendur séu búnir að segja sig til sveitar, enda er það nú úr sögunni, svo að eitthvað kynni að vera orðum aukið um þeirra bága hag eftir hinum ömurlegu lýsingum þessara félaga. En látum það vera. Það má vel vera, að þeirra hagur sé hlutfallslega lakari nú en áður. En þá er það einungis staðfesting þess, að hv. framsóknarmenn hafa haft algerlega rangt fyrir sér, þegar þeir hafa sagt, að hinir ríku hafi orðið ríkari vegna aðgerða núv. ríkisstj., því að ég hygg, að fáa tvo menn, ef nokkra, væri hægt að nefna, sem betur voru staddir hér á landi, áður en viðreisnin hófst.

En hvort sem þessir menn hafa auðgazt á þessum árum eða tapað eða eru jafnilla staddir og þeir félagar vildu vera láta, er hitt alger misskilningur hjá hv. þm., þegar þeir halda því fram eða láta í það skína, að ráðstafanir núv. ríkisstj. hafi orðið til þess að draga úr framkvæmdum í sjávarútvegi eða öflun atvinnutækja, og þá á það jafnt við um fiskiskip, um hús til fiskvinnslu og fiskvinnsluvélar, einmitt þessi atriði gerðu hv. þm. sérstaklega að umræðuefni, og hv. 3. þm. Vesturl. a.m.k. vitnaði hér til þess, að Einar hefði þó verið búinn áður fyrr að eignast þrjú frystihús, héngi e.t.v. á þeim enn, en gæti a.m.k. ekki mikið um þau bætt.

Nú skulum við líta á þessi síðustu ár og miða við það, sem oft er hér til vitnað og þessum hv. þm. er stöðugt mjög ríkt í huga, vinstristjórnartímabilið.

Er það svo, að nú hafi dregið úr fiskiskipakaupum eða byggingu fiskiðjuvera og véla til þeirra? Hvað segja opinberar skýrslur um það? Það liggja hér fyrir um þetta gögn, annars vegar úr ritinu Úr þjóðarbúskapnum, 13. hefti, frá febrúar 1964, og hins vegar úr sama riti, 14. hefti, febrúar 1965. Þar eru skýrslur um fjármunamyndun á árunum frá 1957—1963. Og tölurnar eru allar færðar til sambærilegs verðlags, þ.e. til verðlags ársins 1960. Samkv. þessu var fjármunamyndun í fiskveiðum, þ.e.a.s. togurum og bátum, á árinu 1957 128.4 millj. og 1958 150.7 millj. En á árinu 1962 var sambærileg fjármunamyndun 150.6, þ.e.a.s. nærri því hin sama og á árinu 1958, þar sem þessi fjármunamyndun var mun meiri en 1957. En á árinu 1963 er sambærileg fjármunamyndun 287.2 millj., og samkv. bráðabirgðatölum, sem ég hef fengið frá Efnahagsstofnuninni, er á árinu 1964 sambærileg tala 362 millj. eða meira en tvisvar sinnum hærri en 1958.

Þetta gefur síður en svo til kynna, að dregið hafi úr áhuga manna eða getu til að stunda fiskveiðar hér við land, enda veit hvert mannsbarn, að svo er ekki. En á hitt ber að leggja áherzlu, að þessi stórkostlegu skipakaup, — og þau eru einkanlega bátakaup á hinum síðari árum, — eru ekki sízt fyrir margvíslega fyrirgreiðslu ríkisvaldsins nú eins og áður. En sú fyrirgreiðsla hefur að sjálfsögðu þurft að aukast, eftir því sem eftirspurnin hefur vaxið. Vitanlega verður mér svarað með því, að þau séu ekki ríkisstj. að þakka, þessi mjög auknu skipakaup, það séu aflabrögðin. Vissulega er það rétt. Það eru aflabrögðin, sem skera úr. En þá þýðir ekki heldur að tala um samdrátt eða að þessi atvinnuvegur sé á nástrái um fyrirgreiðsluskort ríkisstj., þegar ríkisstj. hefur með sinum ráðstöfunum getað greitt fyrir því að fullnægja hinni stórkostlegu eftirspurn, sem vaxið hefur nú ár frá ári.

Með svipuðum hætti kemur í ljós, hvílík öfugmæli það eru, að dregið hafi úr ráðstöfunum til vinnslu sjávarafurða í landi. Þær tölur eru í þessum skýrslum taldar undir iðnaði, en b-liður þar er vinnsla sjávarafurða. Til þeirra var fjármunamyndun á árinu 1957 110.6 millj., 1958 153.4 millj., en 1962 var sambærileg tala 179.4 millj. og árið 1963 173.7 millj. Allt eru þetta sambærilegar tölur og afsanna gersamlega þá fullyrðingu, að í þessu hafi orðið stöðnun, að nú sé verr búið að atvinnuvegunum en áður, að nú geti menn ekki aflað sér nauðsynlegra atvinnuhýsa eða véla vegna ráðstafana ríkisvaldsins. Í þessu hefur orðið fyllilega eðlileg aukning, svo að varlega sé talað, — aukning, sem auðvitað ytri ástæður eru grundvöllur fyrir, — aukning sem hefði ekki getað átt sér stað, ef ekki hefði verið fyrir hendi margs konar fyrirgreiðsla af hálfu ríkisvaldsins.

Ef það er svo, eins og varð að leiða af ummælum hv. 1. þm. Austf. og hv. 3. þm. Vesturl., að þeir Einar Sigurðsson og Haraldur Böðvarsson hafi orðið þarna afskiptir og þeirra hlutur sé nú verri en áður, er það vegna þess, að aðrir, sem áður voru fátækir og gátu ekki bjargað sér, hafa nú átt kost á því, sem þeir áttu ekki kost á á hinum sælu vinstristjórnardögum. Ég hygg þó sanni nær, að þessir atvinnurekendur tveir, sem hér hafa verið gerðir að umræðuefni, ekki af mér að fyrra bragði, heldur af hv. framsóknarmönnum, hafi átt fyllilega sinn þátt í þeirri atvinnuuppbyggingu, sem hefur verið í landinu, þeir hafi ekki farið þar halloka, en þeir hafi ekki heldur auðgazt með óeðlilegum hætti fyrir atbeina núv. ríkisstj., sem ég yrði þó ekki hissa á, að hv. framsóknarmenn færu að halda fram hér nú á eftir og þar með ómerkja sitt tal s.l. þriðjudag.

Einhvern hag hefðu þessir atvinnurekendur, svo illa sem þeir eru nú komnir að mati þessara hv. þm., átt að hafa af vaxtalækkun ríkisstjórnarinnar. En hv. 1. þm. Austf. vill ekki þakka ríkisstj. þá athöfn, heldur er hún af honum sögð fyrir atbeina og harða baráttu framsóknarmanna, enda segir hann, að það séu engin ytri skilyrði nú, sem réttlæti það frekar í ár en í fyrra að lækka vexti, og það sé rangt, sem haldið hafi verið fram, að meiri jöfnuður bæði á verðlagi og lánveitingum, lántökum, lánaeftirspurn, hafi réttlætt þessa vaxtalækkun. Í sjálfu sér er það ákaflega barnalegt að vera ætíð að deila um það, hverjum eitthvað sé að þakka. Það eru auðvitað þeir, sem ábyrgðina bera og ákvörðun verða að taka, sem valdið hafa og hljóta að hafa skömm eða heiður af sínum gerðum. Hitt er auðvitað ekki hægt að forðast, að stundum verður að gera það, sem hv. framsóknarmenn hafa mælt með, enda er erfitt hjá því að komast, nú eftir að þeir eru farnir að prédika það, að þeir séu gersamlega skoðanalausir og haldi fram öllum skoðunum, sem til séu í landinu, og það eina, sem máli skipti, séu ekki ólíkar skoðanir, heldur það, hvort þeir vilji ganga undir áraburð til þess að gera Eysteini kleift að semja við íhaldið að nýju og koma honum þannig í ríkisstj.

Það er mjög erfitt, þegar flokkur er jafngersamlega skoðanalaus og heldur fram öllu, sem hugsanlegt er um lausn mála, að komast hjá því, að einhvern tíma hittist svo á, að eftir hans till. sé farið, að hann hafi nefnt, hvað gera skyldi. En hv. 1. þm. Austf. ætti þó auðveldlega að hafa getað aflað sér upplýsinga um, að einmitt í lánamálunum varð gerbreyting á árinu 1964 frá því á árinu 1963. Samkv. þeim skýrslum, sem nú liggja fyrir yfir árin tvö, voru heildarinnlán hjá bönkunum, þ.e. fjármálastofnunum, á árinu 1963 660 millj. kr., en útlán 762 millj. kr. Á árinu 1964 er þetta aftur á móti mjög breytt og mjög breytt til batnaðar. Þá voru heildarinnlán 1029 millj., en útlán einungis 707 millj. Þessar tölur sýna mjög glögglega gersamlega breytt viðhorf í þessum efnum, og þær réttlættu því frekar, að vaxtalækkun mætti eiga sér stað, þar sem meiri jöfnuður hafði verið á verðlagi síðari hluta ársins 1964, meiri kyrrstaða en um langt bil þar á undan. Það var þess vegna mjög eðlileg fjármálaráðstöfun, að vextir skyldu nú lækkaðir, og í fullu samræmi við það, sem fram hefur verið haldið af ríkisstj. og hennar stuðningsmönnum fyrr og síðar.

Þá deila hv. stjórnarandstæðingar mjög á ríkisstj. fyrir það að hafa nú tekið ákvörðun um að draga úr fjárfestingarútgjöldum samkv. fjárl. fyrir 1965, svo að nemi 1/5 eða 20%. Og einkanlega hv. 3. þm. Vesturl. flutti hér mjög hjartnæma ræðu um það, hversu illa margir væru nú leiknir af þessu verki ríkisstj. og hversu miklu verr væri nú komið bæði hag ríkissjóðs og almennings af þessum sökum heldur en hefði verið á árinu 1958, sem hann sérstaklega vitnaði til í því sambandi. Nú er það svo, að einmitt þessi ummæli gefa sérstaka ástæðu til þess að bera saman, hvort nú sé ætlunin að hafa minni verklegar framkvæmdir heldur en voru á því dýrðarinnar ári 1958, þegar vinstri stjórnin var í fullu veldi. Og því hef ég fengið Efnahagsstofnunina til þess að bera þetta saman fyrir mig og breyta árunum til sambærilegs verðs og er þá miðað við árið 1960 í öllum tilfellum.

Ef vegamálum er sleppt, lítur þetta þannig út, að eftir að búið er að draga frá fimmtungslækkunina og miðað við ríkisreikninginn 1958, en þar eru útgjöldin hærri en í fjárl. 1958, er það svo, að til verklegra framkvæmda, og það er sem sagt sama verðlag notað í báðum tilfellum, var á ríkisreikningi 1958 varið 166 millj. 105 þús., en eftir lækkunina nú verður sambærileg tala 251 millj. 134 þús. Ef vegamál eru tekin með í báðum tilfellum, sýnir ríkisreikningurinn 1955 töluna 216 millj. 10 þús., en með niðurskurði nú eða lækkun 365 millj. 81 þús. Hvernig sem á er litið, er því alveg ljóst, að þrátt fyrir lækkunina verður nú varið mun meira fé til verklegra framkvæmda en var á árinu 1958, — mun meira fé. Og heyri menn svo harmagrát og sjái krókódílstár hv. 3. þm. Vesturl. hér á dögunum, þegar hann var að tala um það, hversu illa menn væru nú leiknir miðað við það, sem verið hefði á vinstristjórnarárunum. En einmitt þeir, sem hann barmaði sér mest yfir, eins og sjúkir menn, ungmenni í skólum og þeir, sem njóta eiga veganna, eru nú hlutfallslega enn betur staddir en þessar tölur gefa til kynna, miðað við árið 1958, þegar samanburður er gerður á þessum tveimur árum, 1958 og 1965.

Segja má að vísu, að fólki hafi fjölgað í landinu og þess vegna sé eðlilegt, að nú séu hærri fjárhæðir til verklegra framkvæmda en áður var. En ef litið er á það, hvað á mann er ætlað nú og samkv. niðurstöðu ríkisreikningsins 1958 og allt talið með, eru það þá 1295 kr.; miðað við 1923 kr. nú. Slíkt er hlutfallið og sýnir, hversu stórlega verklegar framkvæmdir hafa aukizt í tíð núv. ríkisstj. og hversu fjarri því fer, að nú sé verr búið að almenningi í þessum efnum en var áður fyrr og þó einkum á vinstristjórnartímanum. Þrátt fyrir það, að nú hafi þótt eðlilegt að lækka þessar fjárveitingar, eru þær hlutfallslega miklu hærri en áður var. Um þetta tjáir ekki að deila.

En þá segja hv. þm., og þeir vitna oft til þess, að nú sé hlutfallslega minna varið af ríkisfé til verklegra framkvæmda en áður var, og vitna þá í heildarútgjöld fjárl. Slíkur samanburður er sannast sagt ákaflega lítils virði, og einkanlega hæpinn hér, þar sem á vinstristjórnartímanum var svo komið um skeið, að það voru tvenn fjárlög og í raun og veru mjög erfitt að átta sig á öllu reikningshaldi. En látum það út af fyrir sig vera. Höfuðástæðurnar til þess, að nú hefur farið svo, sem vafalaust er rétt, að í þessu skyni er varið hlutfallslega minna fé en oft áður af heildarútgjöldum, eru fyrst og fremst tvær:

Annars vegar eru hinar stórkostlega auknu almannatryggingar, sem eins og Páll heitinn Hermannsson á Eiðum sagði, þegar hann skar sig úr flokki sinna félagsbræðra hér á þingi og greiddi atkv. með alþýðutryggingal. 1946, hafa skapað annað og betra þjóðfélag á Íslandi. Og voru þó tryggingal. 1946 ekki nema upphaf, það má segja, lítið upphaf þess, sem síðan hefur margfaldlega verið aukið við. Þessi löggjöf hefur átt meiri þátt í því að jafna lífskjör á Íslandi og skapa öllum landsmönnum mannsæmandi líf heldur en flest annað, löggjöf, sem að vísu hefur getað staðizt vegna stöðugra framfara í atvinnuháttum, vegna nýrrar tækni, aukins afla og ýmislegs annars, en löggjöf, sem vissulega hefði ekki orðið jafngóð eða almenningi til nytja, ef þar hefði notið við ráða framsóknarmanna, sem streittust þar á móti, sátu hjá, þegar mest á reyndi, og gerðu sitt til að gera tortryggilegt það, sem helzt horfði til umbóta.

Þessi miklu útgjöld hljóta vitanlega að setja sinn svip á fjárl., og vitanlega verður að taka tillit til þeirra, þegar metið er og talað er um skattabyrði á öllum almenningi. Fjárl. eru nú að verulegu leyti orðin til þess, eins og ég segi, að jafna lífskjör í landinu, og einkanlega þeir, sem verr eru staddir, fá fyrir þá milligöngu bættan upp þann mun, sem þeim væri erfitt að þola og hlyti að verða þeim til mikils trafala í þeirra lífsbaráttu, ef þessi hjálp kæmi ekki.

Önnur útgjöld, sem verulega þýðingu hafa og úrslitum ráða einnig um afkomu ríkissjóðs, eru niðurgreiðslur á ýmiss konar vörum og útflutningsuppbætur og þá ekki sízt til landbúnaðarins. Það hefur áður verið til þess vitnað, að það sýnir sannast að segja kalda vináttu og umhyggju framsóknarmanna til bændastéttarinnar að gera slíkt veður eins og þeir gerðu í vetur út af söluskattshækkuninni, vegna þess að það liggur fyrir, að hana varð að ákveða til að draga úr sárasta broddinum gagnvart almenningi af bændavöruverðsákvörðuninni í haust. Ég segi ekki, að bændur hafi verið illa að því verðlagi komnir, sem þá var ákveðið. Hitt þori ég að fullyrða, að það hefði ekki einungis skapað mikla truflun í atvinnulífi og atvinnurekstri, heldur megna óvild milli atvinnustétta, ef ekki hefði í haust verið tekið það ráð að greiða landbúnaðarvörurnar niður í stórauknum mæli, eins og ríkisstj. gerði. Við vitum, að það er ærin tortryggni, að langsamlega mestu leyti ástæðulaus, en tortryggni, sem er fyrir hendi, hvort sem okkur líkar betur eða verr, af þessum sökum jafnvel eins og er. En ef vöruverðshækkunin hefði komið beint inn í verðlagið, eins og við blasti, ef niðurgreiðslurnar hefðu ekki verið auknar, hefði allt verðlag hækkað hér um bil tvöfalt á við það, sem þó varð eftir áramótin, þegar söluskatturinn fór að segja til sín. Út af fyrir sig væri það skiljanlegt, að verkalýðshreyfingin hefði uppi hörð mótmæli vegna þessarar vöruverðsniðurgreiðslu og segði: „Það er verið að fara í kringum þá kauphækkun, sem við í raun og veru eigum vegna þeirrar vöruverðshækkunar, sem til bænda rennur, og við frábiðjum okkur þessa milligöngu ríkisvaldsins.“ Þessu hefur þó sáralítið verið haldið fram, enda erfitt fyrir þá sömu málsvara verkalýðsins, sem eru tregir, svo að vægt sé talað, til endurskoðunar á vísitöluútreikningnum. Þeir hafa látið sér skiljast, að það væri, þegar allt kæmi til alls, heppilegra að greiða vöruverðið niður eða við skulum segja a.m.k. ekki ámælisvert, þó að þeir vitanlega fagni því ekki sérstaklega og hafi haft uppi mótmæli gegn því, að skattheimta væri gerð í því skyni að standa undir þessum greiðslum. En hitt er sannast sagt óskiljanlegt og lýsir sömu starblindunni, sömu feigðarþránni, sem forustumenn Framsfl. virðast vera haldnir, a.m.k. frá árinu 1956 fram á þennan dag, fyrir sinn eigin flokk og fyrir sína skjólstæðinga, að þeir skuli sérstaklega vera að magna óvild gegn þessari skattheimtu, sem var óhjákvæmilegt skilyrði þess, að hægt væri að draga úr þeim augljósu, fyrirsjáanlegu vandræðum, sem hlutu að verða, ef þessi aðferð um auknar niðurgreiðslur var ekki viðhöfð.

Hv. þm. segja: „Við erum ekki út af fyrir sig á móti niðurgreiðslunum, en það er bara hægt að taka þetta fé annars staðar.“ En hvar á að taka það? Þeir segja: „Ja, með auknum sparnaði.“ Hvar voru þeirra sparnaðartill. við afgreiðslu fjárl.? Ég held ekki, að þeir hafi einu sinni haft rænu á því að bera fram till. um að afnema blessaðan prestinn í Kaupmannahöfn, sem er þó þeirra aðalkeppikefli að reyna. Þeir höfðu ekki einu sinni svo mikið við. Hitt held ég, að sé sanni nær, að það liggi fyrir við skjótlega athugun þingskjala, að ef farið hefði verið eftir þeirra till. nú frá því við afgreiðslu fjárl. og síðan, mundi rekstrarafkoma á þessu ári í beinu fé vera kringum 770 millj. lakari en hún er. Þeir hafa ýmist viljað svipta ríkissjóð tekjum eða auka útgjöld án þess að afla annarra tekna í staðinn, sem nemur hvorki meira né minna en kringum 770 millj.

Og sparnaðartill., það má margt segja um þau frv., sem þessir hv. þm. bera fram, og þeirra ágætu till. Einn þeirra sagði, að flokksbróðir hans hefði flutt till. um að ráða hvorki meira né minna en 60 menn til þess að fara um landið til þess að sýna kvikmyndir, það fælist í hans till. Eitthvað mundu nú þessir 60 menn kosta, þó að því sé sleppt, sem er dálítið gaman, að þessir herrar — (Gripið fram í.) Ja, þeir geta talað um það á flokksfundi hjá sér, hvort það sé rétt talið eða ekki. Við heyrðum þm. segja það hér í d. og þeir geta gert það upp sín á milli, hvor þeirra er betri í reikningi. En hitt getum við svo gert okkur í hugarlund, samræmið, að einmitt þessi þm., sem vildi láta að sögn flokksbróður síns gera út 60 menn til að sýna kvikmyndir í sveitum landsins, var að tala hér um hina miklu hættu af ameríska sjónvarpinu. En hann minntist ekkert á það, að yfirleitt flestar kvikmyndir, sem hér eru sýndar, eru með enskum texta, og væri þá ekki nokkru nær, áður en ríkið færi að gera sérstaka ráðstöfun með 60 manna sendinefndina út um allt land til að fara inn á heimilin og sýna kvikmyndir, að snúa textanum a.m.k. á íslenzku, og yrði það þó viðbótarkostnaður ofan á annað?

Við getum líka margt sagt um það, hvort það sé hyggilegt að taka upp ömtin gömlu á Íslandi, sem einvaldskonungarnir fyrirskipuðu hér, en var fyrsta verk frjálsrar þingstjórnar á Íslandi að afnema. En um það verður ekki deilt, enda ekki heldur á móti borið, að slík skipan, jafnvel þótt nafnið sé nú ekki haft á dönsku lengur, heldur tekið upp norska nafnið fylki, mundi hafa í för með sér töluvert aukinn kostnað.

Það má líka tala og færa mörg rök fyrir eflingu háskólans, sem till. liggur fyrir um nú. En að sjálfsögðu hlýtur sú efling háskólans að hafa kostnað í för með sér. Ég er ekki að telja eftir peningana. En mennirnir, sem segja: Það á að spara, — þeir verða sjálfir að gera grein fyrir, hvað þeir ætla að spara til þess að fá fé fyrir öllum þeim nytjatill., sem þeir eru með.

Ein till., sem hv. 1. þm. Norðurl. v. flutti í gær, var um auknar raforkuframkvæmdir í landinu. Vafalaust eru þær mjög nauðsynlegar og æskilegar. En þetta kostar peninga, það verður ekki gert án þess að hafa fé til þess.

Það gæti líka vel hent sig, að einstaka maður, þótt þeir væru ekki margir, vildi brjóta móti kenningu Jóns Sigurðssonar og flytja Alþ. til Þingvalla, eins og tveir hv. framsóknarmenn gera nú till. um og vilja láta hefja deilur um í landinu. En dettur nokkrum í hug, að það yrði gert án þess, að það mundi kosta verulegt fé, að það mundi kosta töluvert fé, ég vil segja milljónatugi, milljónahundruð að koma upp þeim aðbúnaði á Þingvelli, sem þyrfti til þess, að þar væri hægt að halda þing, og síðan milljónatugi, milljónahundruð í auknum rekstrarkostnaði hvert einasta ár að halda þingið þar, en ekki þar sem stjórnsýsluvöldin eru saman komin, eins og í sjálfum höfuðstað landsins?

Svo eru þessir menn, sem flytja þessar till., eina á dag a.m.k., að tala um sparnað. Sannleikurinn er sá, að það er engin svo fjarstæð till. flutt á Alþ. eða lausri hugmynd hreyft, sérstaklega ef það er í hópi hv. Alþb.- manna, að ekki sé kominn einhver framsóknarmaður á sömu stundu hér í ræðustólinn til þess að yfirbjóða og heimta dálítið meira, eyða meira fé úr ríkissjóði, sýna, að hann sé ívið ábyrgðarlausari en sá ábyrgðarlausasti af þeim, sem menn höfðu hingað til ímyndað sér að fyrirfyndust í landinu.

Vitanlega er hér við vandamál að etja. En það tjáir ekki að tala svo, eins og hv. þm., að hér sé um einhvern nýjan vanda að ræða, sem núv. ríkisstj. hafi skapað og sé að kenna okkar ýmist illvilja eða úrræðaleysi. Það hefur öðru hverju hér í vetur verið viðurkennt af talsmönnum allra flokka, að verðbólgan væri vandamál, sem við hefðum verið að etja við í full 25 ár og ekki enn tekizt að leysa. Og það er miklu einlægara að gera sér grein fyrir þessu og tala út frá því hreinskilnislega um vandann, a.m.k. gera sér grein fyrir þeim spurningum, sem menn verða að reyna að leysa, heldur en tala algerlega út í hött, eins og hv. þm. gera, og láta sem þessi vandi sé okkar uppfinning og eins og ég segi: sökum okkar illvilja eða úrræðaleysis. Ég játa það, að okkur hefur ekki tekizt til hlítar að ráða við þennan vanda frekar en okkar fyrirrennurum hefur, frekar en flestum stjórnum a.m.k. í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku hefur tekizt, þó að ég játi, að verðbólgan er hér meiri og hefur vaxið hraðar og er þar af leiðandi hættulegri á Íslandi en í flestum þessara landa. Sums staðar hefur hún orðið enn þá hættulegri og valdið meira tjóni en þó hjá okkur. Ég veit, að sumir þm. hafa rennt augunum yfir lítinn umræðuútdrátt í Nordisk kontakt um orðaskipti í sænska þinginu, þar sem stjórnarandstæðingar kölluðu stjórnina þar verðbólgustjórn og kenndu henni um, að allt væri að fara úr skorðum. Þetta eru sams konar ásakanir og stjórnarandstæðingar hafa yfirleitt beint að ríkisstj. hér á landi á þessu tímabili, sem ég vitnaði til. Okkur hefur hins vegar reynzt erfiðara að ráða við vandann heldur en mörgum, en þó engan veginn og langt frá því öllum öðrum. En það er vissulega líka rétt, sem kom fram í þessum sænsku umr., og því var haldið fram af hálfu ríkisstj., þegar sagt var: „Við viljum miklu heldur hafa þann óstöðugleika í verðlagi, sem við höfum nú og játum, að við ráðum ekki við til hlítar, heldur en það atvinnuástand, sem var á millistríðsárunum.“

Hver okkar er sá, sem játi ekki, að þó að verðbólgan sé hættuleg og við verðum að reyna að berjast gegn henni og ráða við vandamálin, sem af henni stafa, er ástandið nú í íslenzku þjóðlífi, íslenzkum þjóðmálum, ég vil nærri því segja eins og himnaríki miðað við helvíti, samanborið við það, sem var 1934–1939 hér í Reykjavík og víðs vegar á landinu. Ég er ekki að kenna neinum um það ástand, sem þá var. Það sé fjarri mér að halda, að það hafi verið illvilji eða sérstök skammsýni þáverandi valdhafa, að ekki tókst betur til. Svipað var ástandið víðast hvar þá, sums staðar enn þá lakara, eins og í Rússlandi, þar sem milljónir manna beinlínis dóu úr hungri. Það gerðist þó ekki á Vesturlöndum. En hér í Reykjavík var það sannarlega ekki öfundsvert, ekki fyrir stjórnendur og þá auðvitað miklu síður fyrir atvinnuleysingjana, þegar þeir stundum, meðan bærinn hafði 30—40 þús. íbúa, voru kannske 3—-4 þús. yfir mikinn hluta vetrarins.

Við skulum vissulega viðurkenna, að þó að okkur hafi ekki tekizt að ráða við allan vanda, hefur okkur þó tekizt að bægja þessum vanda frá, því mesta böli, sem yfir Ísland hefur gengið a.m.k. á þessari öld og kannske allt frá móðuharðindatímabilinu.

Það eru margar orsakir, sem til þess liggja, að ekki hefur farið eins eftir stríðið nú og fór á milli stríðsáranna. Ein af höfuðástæðunum er sú, að nú kunna menn betur að nota sér sérfræði hagfræðinganna heldur en þeir kunnu þá, og þegar menn eru hér í þingsölum og annars staðar öðru hverju að senda hagfræðingum hnútur, skulum við vissulega viðurkenna, að þeir hafa mikið gagn gert öllum þjóðum og einnig okkar íslenzku þjóð. Án þeirra leiðbeininga, án þeirra áhrifa til góðs hefði vissulega getað farið, og margir hefðu spáð því, að það hlyti að fara á sömu leið og fór á árunum milli 1930 og 1940. Það er vegna þess að menn hafa kunnað að læra af reynslunni, þótt þeir kunni ekki að ráða við allt, að þessu böli hefur verið afstýrt. Og þrátt fyrir allt er ekki einungis svo, að nú búi menn við fulla atvinnu víðast hvar á Íslandi, þar sem ekki koma til alveg staðbundnir, sérstakir örðugleikar, sem vel má segja, að meira ætti að gera til að leysa, en þar fyrir utan búa menn við fulla atvinnu, eftirspurn eftir vinnuafli, og þrátt fyrir allt tal um mikla skatta, um dýrtíð og erfiðleika búa þeir við ólíkt betri kjör en nokkru sinni fyrr, kjör, sem hafa batnað ár frá ári.

Það kom fram í umr. á þriðjudaginn, að ríkisstj. hefði með ráðstöfunum sínum, sérstaklega söluskattinum, átt þátt í því að veikja trú manna á, að hægt væri að gera að nýju svipað samkomulag og var gert í sumar og að verkalýðurinn mundi nú móta sínar kröfur, þá væntanlega um kauphækkanir, miðað við það. Um það skal ég ekkert segja. Ég ræð því ekki, og sá hv. þm., sem um þetta talaði, ræður því ekki heldur, hvað verkalýðsfélógin ákveða og hvers þau krefjast, og enn þá síður um hvað verður samið að lokum, því að þar ræðast engir einir við, heldur a.m.k. tveir og stundum fleiri aðilar. Hitt veit ég, eins og kom hér fram hjá hv. 5. þm. Austurl. á fundinum fyrr, að allir, sem áttu hlut að júnísamkomulaginu, gátu sér fyrir það gott orð og uxu af því að hafa komið þar nærri. Þetta samkomulag varð strax vinsælt, og það er vinsælt enn þrátt fyrir það, sem á milli kann að hafa borið. Ég veit með vissu, að verkalýðurinn mun íhuga það rólega og öfgalaust, hvort sú stefna, sem þar var upp tekin um að krefjast þess, sem menn hafa von um að sé framkvæmanlegt, og fari ekki þar fram úr, sé honum ekki heillaríkari og veiti honum meiri raunverulegar kjarabætur en þær óraunhæfu kröfur, sem hingað til hafa oft verið fram knúnar.

Það er ekki mitt að dæma um það. Það er verkalýðurinn sjálfur, sem sker úr um það, hvaða kröfur hann gerir, með hverjum krafti hann fylgir þeim eftir og um hvað að lokum verður samið. En þá mun hann einnig vissulega skoða og kynna sér árangurinn, sem af júnísamkomulaginu varð, miðað við árangur af samningum, sem höfðu í sér fólgnar miklu meiri nafnkauphækkanir áður fyrr. Og mér blandast ekki hugur um, að dómurinn getur ekki orðið nema á einn veg, og hann er sá, að það hafi verið hyggilega að málum staðið í sumar og það þyki óhyggilegt að hverfa frá þeirri heillastefnu, sem þá var valin.

Ég hef, herra forseti, talað um þetta mál almennt, eins og umr. gáfu tilefni til. Hv. stjórnarandstæðingar játuðu, að þeir væru út af fyrir sig ekki ósamþykkir frv., sem fyrir liggur, og hef ég því ekki þurft að fjölyrða um það. En það, sem á stjórnina var deilt fyrir, var hennar almenna efnahagsstefna og þessi gamli söngur, að hér væri allt í kaldakoli, snúið við staðreyndum, sögð auðn og uppblástur, þar sem er „gróandi þjóðlíf með þverrandi tár“.