24.11.1964
Efri deild: 22. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

5. mál, verðtrygging launa

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. svör hans. Hann minnti á lækna og læknisdóma. Nú var það ekki illa til fundið í þessu tilfelli. Mér dettur í hug, að það kemur því miður stundum fyrir, að læknir gefi sjúklingi lyf, sem hjálpar honum ekki neitt í sjúkdómi hans, og getur meira að segja komið fyrir, að sjúklingnum versni. Þá kemur þar að, að læknir sannfærist um þetta, og þá hættir hann að gefa lyfið. Ég held, að líkt hafi farið fyrir hæstv. ríkisstj. 1960. Lyfið, sem hún vildi reyna, var óvirkt, það var gagnslaust og það var verra en gagnslaust, það var skaðlegt. Lífskjör almennings versnuðu og verðbólgan óx meira en nokkru sinni áður. Út frá þessari reynslu er það vissulega skynsamlegt, að hæstv. ríkisstj. skuli nú snúa við á þessari villubraut, eins og læknirinn mundi gera, þegar hann kæmist að raun um, að lyfið væri gagnslaust eða jafnvel skaðlegt.

Það, sem eykur nokkuð á sekt hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, er það, að henni var mjög einarðlega og úr mörgum áttum ráðið frá því árið 1960 að nota þetta lyf. Það voru margir ágætir menn úr ýmsum stéttum og sérfróðir menn um efnahagsmál, sem réðu hæstv. ríkisstj. frá að nota þetta lyf og sögðu henni, að það gæti orðið hættulegt. Þetta vildi hæstv. ríkisstj. ekki hlusta á, og hún fór sínu fram þrátt fyrir aðvaranir. Þetta tel ég vera aukna sök í þessu tilfelli, aukna sök hæstv. ríkisstj., að hafa ekki viljað í tæka tíð hlusta á holl ráð. Þá voru meira að segja menn úr hennar eigin sérfræðingaröðum og þar að auki erlendir menn, sem réðu hæstv. ríkisstj. t.d. til þess að fara ekki út í viðreisnarráðstafanirnar nema hafa fengið til þess samþykki eða hlutleysi vinnustéttanna í landinu. Á þetta ráð vildi hæstv. ríkisstj. ekki hlýða. Nú er hún búin að reka sig á, og nú flytur hún hér frv. að ráði þeirra aðila, sem hún vildi ekki hlusta á fyrir 4 árum.

Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh., að það er engin skömm að því að breyta um skoðun og læra af reynslunni. En hins vegar hefði ég haldið, að lýðræðisleg ríkisstj. yrði þó að bera nokkra ábyrgð á þeim afglöpum, sem hún fremur.