22.03.1965
Efri deild: 57. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

157. mál, Myndlista- og handíðaskóli Íslands

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. ráðh., að hér er um gagnlegt og merkt mál að ræða og þess að vænta, að þetta frv. nái fram að ganga hér á hinu háa Alþ. nú í vetur. Það er eitt atriði þó, sem mig langar til að vekja athygli á nú þegar, áður en frv. fer til n. Það er varðandi kostnaðinn, en um hann fjallar 13. gr.

Eins og hæstv. ráðh. tók fram í grg. fyrir þessu frv., var Handíðaskólinn upprunalega stofnaður sem einkaskóli og hefur verið það að vissu leyti fram til þessa dags. Það var þess vegna ekki nema eðlilegt, að aðstandendur skólans leituðu bæði til Reykjavíkurborgar og ríkissjóðs um styrk, enda hefur skólinn allt frá fyrstu tíð notið styrks bæði úr borgarsjóði og ríkissjóði. Nú er fyrirhuguð gagnger breyting á þann veg, að Handíðaskólinn skuli gerður að ríkisskóla. Þá hefði mér fundizt eðlilegt um leið, að hlutverki borgarsjóðs Reykjavíkur væri þar með lokið og að eftirleiðis yrði það ríkissjóður einn, sem stæði undir öllum kostnaði í sambandi við skólann. Ég held, að það gildi um aðra ríkisskóla, svo sem menntaskólann, kennaraskólann, sjómannaskólann o.s.frv., að þeir séu að öllu leyti kostaðir af ríkinu, en ekki af viðkomandi sveitarfélagi. Borgarsjóði Reykjavíkur er samkv. þessu frv. ætlað að standa undir verulegum kostnaði í sambandi við þennan ríkisskóla og er áætlað, að kostnaðurinn í heild muni nema 1/3, sem borgarsjóður eigi að standa undir. Að vísu er tekið fram, að kennaradeildin skuli eingöngu kostuð af ríkisfé, en þegar hún er undanskilin, verður það um helming kostnaðar, sem á að leggja á borgarsjóð Reykjavíkur. Ég vil vekja athygli á þessu. Mér fyrir mitt leyti finnst þetta óeðlilegt, eftir að sú breyting, sem hér er fyrirhuguð, er á orðin og teldi rétt, að sú breyting yrði á gerð, að borgarsjóður Reykjavíkur yrði alveg laus við kostnað í sambandi við þennan skóla eftirleiðis.

Ég tel að vísu eðlilegt og sjálfsagt, að Myndlista- og handíðaskólinn verði í Reykjavík, höfuðborg landsins, mesta þéttbýlinu. Annars kemur það til greina við stofnun nýrra skóla, að þeir gætu sumir hverjir átt allt eins vel heima í öðrum sveitarfélögum, en Reykjavík, en ég held það ekki í þessu tilfelli. Hitt vil ég benda á, að ég teldi mjög æskilegt, að það gæti orðið sem fyrst, eftir að þessi skóli er tekinn til starfa í þeirri mynd, sem nú er fyrirhuguð, að hann gæti rekið einhvers konar fræðslustarfsemi viðar, en í Reykjavík og á ég þar sérstaklega við þau ágætu námskeið, sem fram hafa farið í Handíðaskólanum og fram eiga að fara. Ég teldi vera mjög mikilsvert, að námskeið af ýmsu tagi yrðu rekin í stærri kaupstöðum utan Reykjavíkur, svo fljótt sem verða má og að sú starfsemi færi fram í sambandi við Myndlista- og handíðaskólann, og þá sjáum við enn betur, ef þetta yrði gert, hversu ósanngjarnt það væri að láta Reykjavíkurborg standa undir verulegum rekstrarkostnaði skólans, eins og fyrirhugað er í þessu frv.