14.10.1965
Neðri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

12. mál, iðnfræðsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fyrir síðasta Alþ., en ekki vannst þá tími til þess að afgreiða það. Er frv. nú flutt öðru sinni í óbreyttri mynd.

Í þeirri yfirlýsingu ríkisstj., sem hæstv. forsrh. flutti í Sþ. í gær, er það tekið fram, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir setningu nýrrar löggjafar um iðnfræðslu á þessu þingi. Frv. það, sem átt er við í yfirlýsingu ríkisstj., er frv. það, sem hér um ræðir.

Yfirleitt munu menn vera um það sammála, að fá verkefni séu nú brýnni í skólamálum Íslendinga en að bæta tæknimenntun og verkkunnáttu þjóðarinnar. Ýmis mikilvæg spor hafa verið stigin í þá átt á undanförnum árum, svo sem stofnun Tækniskóla Íslands, sem segja má, að markað hafi tímamót í sögu íslenzkrar tæknimenntunar. En við það má ekki sitja. Samhliða því ber til þess brýna nauðsyn að auka og bæta menntun iðnaðarmanna. Að því miðar þetta frv.

Það hefur lengi verið ljóst, að brýna nauðsyn bæri til þess að endurskoða skipulag og námsefni íslenzkrar iðnfræðslu. Hefur það mál lengi verið rætt, en við ýmis vandamál og viðkvæm atriði er að fást í því sambandi. Hefur t.d. skólamönnum, iðnaðarmönnum og iðnnemum gjarnan sýnzt nokkuð sitt hvað í þessum efnum. En með hliðsjón af því, hversu menntunarmál iðnstéttanna hafa geysimikilvæga þýðingu fyrir þjóðarbúskapinn og aukna framleiðni í landinu, taldi ég nauðsynlegt, að einskis yrði látið ófreistað til þess, að samræmd yrðu þau sjónarmið, sem uppi hefðu verið í iðnfræðslumálum, og skipulag iðnfræðslunnar endurskoðað frá grunni. Hinn 31. okt. 1961 skipaði ég því nefnd til þess að endurskoða gildandi lög um iðnskóla og iðnfræðslu, og voru skipaðir í n. Guðmundur Halldórsson þáv. formaður Landssambands iðnaðarmanna, Óskar Hallgrímsson formaður iðnfræðsluráðs, Sigurður Ingimundarson efnafræðingur, Snorri Jónsson framkvæmdastjóri A.S.Í. og Þór Sandholt skólastjóri iðnskólans í Reykjavík. Var Sigurður Ingimundarson skipaður formaður nefndarinnar.

Hinn 18. sept. 1964 skilaði n. ýtarlegum till. um gagngera endurskipulagningu iðnfræðslunnar í landinu og var sammála um álit sitt. Fól menntmrn. Jónatan Hallvarðssyni hæstaréttardómara að semja frv. til l. um iðnfræðslu á grundvelli till. n. En áður var skýrsla um störf iðnfræðslunefndar send ýmsum aðilum til umsagnar, þ.e.a.s. iðnfræðsluráði, iðnskólanum í Reykjavík, Landssambandi iðnaðarmanna, Alþýðusambandi Íslands og Félagi ísl. iðnrekenda. Allir þessir aðilar lýstu sig sammála þeim meginsjónarmiðum, sem fram komu í nál., og eru umsagnir þeirra prentaðar sem fskj. með þessu frv. Iðnfræðslunefndin fékk síðan frv. hæstaréttardómarans til umsagnar, gerði á því nokkrar breytingar, sem rn. tók til greina í samráði við hæstaréttardómarann. Varð þannig til það frv., sem hér er flutt.

Frv. var enn fremur sent til umsagnar Sambandi iðnskóla á Íslandi, Alþýðusambandi Íslands, iðnfræðsluráði og Landssambandi iðnaðarmanna. Frá Sambandi iðnskóla á Íslandi og Landssambandi iðnaðarmanna komu nokkrar brtt. við frv. Taldi rn. ekki rétt að taka afstöðu til þeirra, en þær eru prentaðar sem fskj. með frv. og til þess ætlazt, að um þær verði fjallað í n. þingsins.

Þá skal ég gera grein fyrir helztu breytingunum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir frá gildandi

l. Meginbreytingin, sem frv. gerir ráð fyrir, er, að lagt er til, að iðnfræðsluskólar verði 8 að tölu, þ.e.a.s. einn í hverju núverandi kjördæma landsins, og skólasetur verði að jafnaði þar, sem nemendafjöldi er mestur innan hvers kjördæmis Nú eru hins vegar starfandi um 20 iðnskólar í landinu, en aðeins 7 þeirra hafa 60 nemendur eða fleiri, þar af 3 yfir 100 nemendur. Þar eð ljóst er, að slíkum breytingum verður ekki komið í framkvæmd á fáum árum, er gert ráð fyrir, að ráðh. ákveði, hverjir núverandi skóla starfi áfram fyrst um sinn eða til frambúðar. Einnig er heimilt að ákveða fjölda iðnskóla meiri, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi eða reynslan leiðir í ljós, að slíkt sé hagkvæmt.

Enn þá mikilvægara en þessi fækkun og stækkun iðnskólanna er þó það nýmæli frv., að aukið verður nýjum þætti við iðnfræðslukerfið með stofnun og starfrækslu verknámsskóla iðnaðarins, en heimilað er að starfrækja verknámsskóla við hvern hinna 8 kjördæmaskóla, eftir því sem hagkvæmt þykir að fenginni reynslu og fé. Verknámsskólum iðnaðarins er ætlað tvíþætt hlutverk. Annars vegar að vera forskóli fyrir þá unglinga, sem hyggja á nám í löggiltum iðngreinum, og hins vegar að vera vettvangur starfsþjálfunar fyrir unglinga, sem hyggja á störf í öðrum greinum iðnaðar, þar sem ekki er þörf fullkominnar iðnmenntunar. Slíkt skólaform hefur þróazt um áratugi í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og þykir hafa ótvíræða kosti fram yfir önnur kerfi. Ætla verður, að raunin verði hin sama hér á landi. Auk þess sem verknámsskólinn gerir kleift að taka upp kerfisbundið verknám í upphafi námstíma, opnar hann leiðir til þess að veita starfsþjálfun þeim, sem hyggja á vélstjóranám og tækninám. Gert er ráð fyrir, að nám í verknámsskólunum leiði til styttingar námstíma á vinnustað samkv. námssamningi. Þá er heimilað að starfrækja framhaldsdeildir við verknámsskólana og enn fremur að ákveða megi, að nám fari þar fram að öllu leyti, þegar um er að tefla grein, sem erfitt er að koma við námi í á vinnustað.

Þá er gert ráð fyrir því, að starfræktur verði meistaraskóli, fyrst í stað við iðnskólann í Reykjavík, en síðar við aðra iðnskóla, þ.e.a.s. kjördæmaskólana. Gert er ráð fyrir, að það verði inntökuskilyrði í meistaraskóla, að viðkomandi hafi lokið sveinsprófi.

Þá gerir frv. enn fremur ráð fyrir því, að iðnfræðslukerfið taki ekki einvörðungu til náms í löggiltum iðngreinum, heldur einnig til starfsþjálfunar vegna annarra greina iðnaðarins. Frv. gerir ráð fyrir, að öll iðnfræðsla lúti yfirstjórn menntmrh. og menntmrn.

Gert er ráð fyrir í frv., að komið verði upp samræmdri yfirstjórn á framkvæmd iðnfræðslunnar, iðnfræðsluskrifstofu, sem iðnfræðslustjóri veitir forstöðu. Gert er ráð fyrir að fjölga í iðnfræðsluráði úr 5 í 7 og að Félag ísl. iðnrekenda og Samband iðnskóla fái þar fulltrúa. Innan hverrar iðngreinar á að koma á fót fræðslunefnd, sem geri till. um námsefni, bæði að því er varðar verklegt og bóklegt nám. Stjórn hvers iðnskóla á að vera í höndum 5 manna skólanefndar, og á hlutaðeigandi bæjarstjórn eða sýslunefnd, borgarstjórn í Reykjavík, að kjósa 4 skólanefndarmenn, en ráðh. skipi hinn fimmta, sem jafnframt skal vera formaður.

Þessi eru aðalnýmæli frv. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að stór framfaraspor yrðu stigin í menntunarmálum íslenzkra iðnstétta og þá um leið að því er snertir verkkunnáttu og tæknimenntun Íslendinga með samþykkt þessa frv. Þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir á iðnfræðslunni, eru svo gagngerar, að þær hljóta að kosta mikið fé. M.a. af þeim ástæðum er nauðsynlegt, að þessar breytingar komi til framkvæmda í áföngum. En einnig er nauðsynlegt, að reynsla fáist smám saman, og er þegar af þeirri ástæðu einnig skynsamlegt, að þessar breytingar séu framkvæmdar í áföngum. Iðnfræðslunefndin gerði á síðasta vetri áætlun um stofnkostnað verknámsskóla í málm- og tréiðnaðargreinum við iðnskólann í Reykjavík, en á s.l. ári voru hafnar framkvæmdir við 2. áfanga iðnskólabyggingarinnar á Skólavörðuholti, og hefur verið gert ráð fyrir því að nota þá byggingu sem vinnustofu vegna verklegra námskeiða við iðnskólann. Ef þetta frv. verður að l., mundi þessu húsnæði verða breytt í verknámsskóla í málm- og trésmíðagreinum. Iðnfræðslunefndin áætlaði kostnað við að ljúka þessum byggingarframkvæmdum 19.3 millj. kr. á s.l. vetri, kostnað við nauðsynlegar vélar, verkfæri og tæki og kostnað við aðbúnað þriggja skólaverkstæða fyrir málmiðnað 5 millj kr. og kostnað 4 skólaverkstæða fyrir tréiðnað 3 millj. kr. Heildarkostnaðinn áætlaði iðnfræðslunefnd þannig 27.3 millj. kr.

Ég vona, að þetta frv. fái góðar undirtektir hér á hinu háa Alþ. Við lifum á tímum, þar sem tæknimenntun og verkkunnátta eru æ nauðsynlegri og skila sívaxandi arði í þjóðarbúið í formi aukinnar framleiðni. Ég er sannfærður um, að þær veigamiklu endurbætur, sem þetta frv. gerir ráð fyrir á iðnfræðslunni, mundu stuðla mjög að aukinni velmegun á Íslandi, þegar fram líða stundir.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.