21.10.1965
Efri deild: 5. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. að neinu marki. En það var aðeins eitt atriði í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., sem ég sá ástæðu til að fara örfáum orðum um.

Hann hélt því fram, að skattur þessi, ef á yrði lagður, mundi koma fram í hækkaðri húsaleigu og aukinni dýrtíð eins og hann orðaði það. Nú hlýtur það að skipta miklu máli fyrir afstöðu manna til þess, hvort þeir telja réttmætt að leggja bann skatt á, sem frv. gerir ráð fyrir, og afla fjár til þeirra skuldbindinga, sem hér er um að ræða, með þeim hætti eða á einhvern annan hátt, hvort þeir álita, að skattur þessi verði raunverulega borinn af leigjendunum, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. hélt fram, eða hvort hann verði greiddur af þeim, sem fasteignirnar eiga og skatturinn er lagður á.

Nú skal ég strax taka það fram, að að mínu áliti er ekki hægt að fullyrða neitt um þetta, sem almennt gildi hafi undir öllum kringumstæðum. Það verður komið undir þeim forsendum, sem gengið væri út frá að ríki á húsaleigumarkaðinum, og það, sem máli skiptir í því efni að mínu áliti, er þetta, hvort gengið er út frá því, að þeir, sem eiga og leigja húsnæði, líti á slíkt sem eins konar góðgerða- eða þjónustustarfsemi eða sem almenn viðskipti. Ef þessir aðilar líta á þetta sem góðgerða- og þjónustustarfsemi við leigjendurna, má ætla, að sú húsaleiga, sem þeir krefjist, miðist aðeins við kostnað við að eiga og reka húseignirnar. Og þar sem ekki mundi fara milli mála, að slíkur skattur yki þann kostnað, þá væri, miðað við þær forsendur, eðlilegt, að þessir aðilar hækkuðu þá húsaleiguna sem þeim skatti svaraði.

Miðað við þær forsendur væri því niðurstaða hv. 3. þm. Norðurl. v. réttmæt. En ég efast mjög um, að þessi skoðun sé réttmæt, og hallast miklu frekar að því, að á húsaleigumarkaðinum sé það þannig, að húseigendurnir leitist við að leigja húsnæðið með þeim kjörum, sem eru hagkvæmust fyrir þá, m.ö.o., að tekin sé sú húsaleiga, sem leigjendurnir á hverjum tíma geta greitt. Ef á þeirri forsendu er byggt, — og finnst mér, að það gefi auga leið, að hækkun á fasteignamati til eignarskatts getur auðvitað ekki aukið kaupgetu leigjendanna, — þá hlyti niðurstaðan að verða sú, að eigendur fasteigna hljóti að bera þennan skatt sjálfir, að hann veltist ekki yfir. Það er mitt mat, án þess að ég sé að segja, að ég sé sérstaklega kunnugur á húsaleigumarkaðinum. Ég skal játa það, að ég er það ekki. En ég lít svo á, að eðlilegra sé að byggja á þeirri forsendu, að sítrónan sé pressuð fyrir, eins og hægt sé, þannig að hægt sé að vera nokkurn veginn óhræddur um það, að þessi skattur, hvað sem liður réttmæti hans að öðru leyti, hljóti að verða borinn af húseigendunum og að það sé ekki hætta á því, að hann komi fram í hækkaðri húsaleigu eða aukinni dýrtíð.