14.10.1965
Neðri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

12. mál, iðnfræðsla

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er staðreynd, sem ég hygg, að enginn mæli á móti, að á undanförnum árum hefur ríkt allt of mikil kyrrstaða í íslenzkum skólamálum. Hefur kveðið svo rammt að þessu, að ungir sjálfstæðismenn, sem ekki verða taldir sérstaklega framfarasinnaðir, hafa séð ástæðu til þess að kveðja saman sérstaka ráðstefnu til þess að taka þessi mál til athugunar, og samþ. grg., sem er að mörgu leyti réttmæt, en felur hins vegar í sér mjög þungan áfellisdóm um kennslumálastjórnina á undanförnum árum.

Það er hins vegar svo með kyrrstöðuna í skólamálunum, eins og margt annað, að engin regla er til án undantekninga. Og það skal viðurkennt, að þótt allt of mikil kyrrstaða hafi ríkt í þessum málum á undanförnum árum, hafa eigi að síður sumir hlutir verið vel gerðir á þessu sviði. Ég nefni þar m.a. tækniskólann, sem hæstv. menntmrh. minntist á hér áðan. Og ég vil í áframhaldi af því nefna það frv., sem hér liggur nú fyrir til umr. og ég álít á margan hátt mjög mikilsvert mál og virðist vera að ýmsu leyti mjög vel undirbúið, eins og það er lagt hér fram á Alþ. n., sem um það hefur fjallað, virðist hafa leyst mikla vinnu af hendi og leitað til ýmissa aðila og frv. verið borið undir ýmsa aðila, eftir að það kom frá n., en þó sakna ég þess, eða ég hef ekki getað komið auga á það í nál., og ég heyrði það ekki heldur hjá hæstv. menntmrh., eftir að frv. var afgreitt frá n., að það hafi verið borið undir Iðnnemasamband Íslands, sem að sjálfsögðu er stór aðili að þessu máli, og þess vegna vil ég benda þeirri n., sem fjallar um þetta mál, á það, að umsagnar þessara samtaka verði aflað, áður en n. gengur endanlega frá því.

Meginbreytingin, sem felst í þessu frv. eða meginumbótin, ef svo mætti segja, tel ég, að felist í stofnun hinna svonefndu verknáms- eða verkstæðisskóla, sem lagt er til að verði komið upp við iðnskólana. Ég held, að þar sé um mjög merkilega framkvæmd að ræða og mjög aðkallandi framkvæmd, sem ætti að geta gert það að verkum, að við fengjum betur menntaða iðnaðarmenn en áður, og auk þess gætu slíkir verknámsskólar verið líklegir til þess, að fleiri ungir menn fengju áhuga á að stunda þessar starfsgreinar. En því miður, þó að þar sé um talsverða aukningu að ræða, virðist hún a.m.k. í sumum greinum hvergi nærri vera nóg til að fullnægja þeirri eftirspurn, sem er eftir þeirri vinnu, sem þessar stéttir, iðnstéttirnar, leysa af hendi, og ég tel. að það sé þess vegna mjög mikilsvert, að þeim ákvæðum frv., sem fjalla um verkstæðisskólana eða verknámsskólana, verði hraðað sem mest, og mun ég koma nánar að því síðar.

Önnur atriði frv. eða nýmæli kunna að orka meira tvímælis og þurfa nánari athugunar við, elns og t.d. það, að ekki skuli starfa nema einn iðnskóli í hverju kjördæmi. Ég hygg, að þetta verði nokkuð vandasamt og erfitt í framkvæmd, vil t.d. benda á það í þessu sambandi, að í Reykjaneskjördæmi starfa tveir allstórir iðnskólar, annar í Hafnarfirði og hinn í Keflavík, og ef fylgt yrði stranglega ákvæðum þessa frv. um, að ekki mætti vera nema einn iðnskóli í hverju kjördæmi, sýnist mér, að annar hvor af þessum skólum yrði að víkja. En það tel ég mjög vafasamt, að væri heppilegt. Samkv. því, sem grg. frv. upplýsir, eru t.d. í iðnskólanum í Hafnarfirði 115 nemendur, en yfir 70 í Keflavik. Ég held, að þessir skólar séu báðir það stórir og nái yfir það stór umdæmi, að það sé mjög vafasamt að leggja annan þeirra niður. Alveg sama held ég, að gegni um iðnskólana í Suðurlandskjördæmi. Þar eru starfandi tveir allstórir iðnskólar, á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Hvor um sig hefur um 80 nemendur. Mér þykir ekki líklegt, að það sé heppilegt að steypa þessum skólum saman, leggja annan hvorn þeirra niður, heldur sé eðlilegt, að þeir haldi áfram. Ég vil þess vegna vísa því til þeirrar n., sem fær þetta mál til athugunar, að hún athugi, hvort það er heppilegt að fastbinda það, að ekki skuli vera nema einn iðnfræðsluskóli í kjördæmi.

Þá er annað atriði frv., sem ég tel að einnig þurfi athugunar við, en það er ákvæðið um stofnun embættis iðnfræðslustjóra. Það má vel vera, ég skal ekki fullyrða neitt um það á þessu stigi, að hér sé um svo stórt verkefni að ræða, að það sé nauðsynlegt að setja upp nýtt embætti í sambandi við það. En ég vil hins vegar benda á það i þessu sambandi, að ég tel mjög nauðsynlegt, að Alþ. íhugi vel í hvert sinn, þegar verið er að stofna til nýrra embætta, að það sé vel athugað, hvort þörf sé fyrir það, því að reynslan hefur orðið sú, að þegar slík embætti hafa verið stofnuð eða stofnanir settar á fót, hafa þær verið fljótar að hlaða utan á sig, og hér hafa verið reistar upp dýrar stofnanir, áður en menn hafa gert sér grein fyrir þeirri þróun, sem þar hefur átt sér stað, og þannig hefur kostnaðurinn í ríkisrekstrinum oft og tíðum aukizt úr hófi fram. Ég hygg, að stefnan hjá okkur eigi miklu frekar að vera sú, að reyna að færa þetta saman og gera kerfið einfaldara, heldur en stofna til nýrra og nýrra stofnana og gera kerfið flóknara og dýrara í framkvæmd með þeim hætti. En eigi að síður vil ég ekki að lítt athuguðu máli fullyrða um það, hvort réttmætt sé að stofna til þessa embættis eða ekki, en ég tel nauðsynlegt, að sú n., sem fær málið til athugunar, íhugi það mjög vel, áður en hún slær því föstu, að þessi embættisstofnun sé nauðsynleg.

Ég vil þá koma að því, sem er raunar aðalástæðan til þess, að ég kvaddi mér hér hljóðs, en það hygg ég, að þurfi ekki að segja hv. þm., að það er oft og tíðum ekki aðalatriðið að samþykkja lög og lagaákvæði, hitt er oft og tíðum mikilsverðara, að það sé unnið að því að koma þessum lögum eða lagaákvæðum í framkvæmd, þ.e.a.s. að hér verði ekki um dauðan lagabókstaf að ræða. Og það tel ég, að mestu skipti í sambandi við mál eins og þetta, jafnmikilvægt mál og þetta, að það verði ekki dauður lagabókstafur, heldur verði kappsamlega unnið að því að koma því í framkvæmd. En í frv. virðist mér, að vanti öll ákvæði um það, að hæfilega ör verði framkvæmd þeirra umbóta, sem í frv. felast. Sú n., sem hefur undirbúið málið, hefur gert áætlun um framkvæmdir næstu 5 árin. Samkv. þeirri áætlun telur n. nauðsynlegt, að komið verði upp verkstæðisskólum við iðnskólann í Reykjavík og iðnskólann á Akureyri fyrir árið 1970. Og n. hefur gert kostnaðaráætlanir um það, hvað framkvæmdir muni kosta. Og m.a. hefur hún gert sérstaka kostnaðaráætlun um það, hvað það muni kosta að koma upp verkstæðisskóla við iðnskólann í Reykjavík, og í áætlun sinni gerir hún ráð fyrir því, að þessari framkvæmd verði komið upp á árunum 1966 og 1967. Eins og kom fram í ræðu hæstv. menntmrh., gerir nefndin ráð fyrir því, að þessi framkvæmd muni kosta 27.2 millj. kr., og þar af telur hún nauðsynlegt, að handbært fé á þessu ári verði 14.6 millj. kr., en skv. ákvæðum frv. ætti ríkissjóður að standa undir helmingnum af þessum kostnaði eða 7.3 millj. kr. En hvernig er nú háttað þeim fjárveitingum, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir til þessara framkvæmda, þ.e.a.s. þessara framkvæmda, sem framlagið til þyrfti að vera 3.7 millj. kr., ef fara ætti eftir tillögum eða áætlunum nefndarinnar, til þess að ríkið legði hér það af mörkum, sem til þess þyrfti, að verknámsskóla við iðnskólann í Reykjavík yrði komið upp á tilsettum tíma? Ef við lítum í fjárlagafrv. það, sem nú liggur fyrir Alþingi, er ekki gert ráð fyrir, að til iðnskóla í Reykjavík verði varið nema 1.8 millj. kr. eða tæplega fjórða hluta þeirrar upphæðar, sem nefndin telur nauðsynlegt að verði varið á þessu ári, til þess að hennar áætlun verði fylgt. Þrátt fyrir það, þó að hér sé svo mjög skorið við nögl, að framlagið sé áætlað 4 sinnum lægra en nefndin telur nauðsynlegt eða iðnfræðsluráð telur nauðsynlegt, þá kannske mætti segja, að þetta væri einhver bót í máli, ef hér væri um nýja fjárveitingu eða aukna fjárveitingu að ræða til iðnskólans í Reykjavík. En því er hins vegar siður en svo að heilsa, því að í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir fjárveitingu til iðnskólans í Reykjavík, sem nemur 3.2 millj. kr., en sú fjárveiting er lækkuð í fjárlagafrv. þessa árs niður í 1.8 millj. kr., eða það er hvorki meira né minna en um 44% lækkun hér að ræða. Mér virðist fara ákaflega illa á því, að þegar verið er að leggja fram og samþykkja lagafrv. eins og þetta, þar sem þarf stórfelldlega auknar fjárveitingar til að koma því áleiðis, þá skuli á sama tíma vera stórlækkuð þau framlög, sem varið er til þeirra framkvæmda, frá því, sem verið hefur, til að framkvæma það, sem þetta frv. fjallar um. Í staðinn fyrir það, að sú fjárvelting, sem var ákveðin í ár, hefði þurft meira en að tvöfaldast, hefur hún verið lækkuð um 44% og er þess vegna fjarri því, að hér sé nm framför að ræða, heldur verður hér augljóslega um afturför að ræða, jafnvel þó að þetta frv. verði samþykkt.

Það kemur einnig fram í þessari áætlun nefndarinnar til þess að ná þeim áfanga, sem hún telur nauðsynlegt, að koma upp verkstæðisskóla við iðnskólann í Reykjavík og verkstæðisskóla við iðnskólann á Akureyri fyrir árið 1970, að þessar framkvæmdir muni kosta 88 millj. kr. og af því þyrfti ríkið að greiða 44 millj., eða framlag ríkisins á ári þyrfti skv. því að vera í kringum 9 millj. kr. En í fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir Alþingi, er ekki gert ráð fyrir að verði veittar nema 2.5 millj. til þessara framkvæmda, eða m.ö.o. að ef fylgt yrði þeirri fjárveitingu framvegis, mundi þessu marki að koma upp verkstæðisskólum í Reykjavík og á Akureyri fyrir 1970 ekki verða lokið fyrr en 1983. Mér sýnist þess vegna, að það þurfi að veita miklu meiri fjárveitingu til þessara framkvæmda en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., ef það frv., sem hér er fjallað um, á ekki að verða að hreinum pappírsákvæðum, þótt það verði gert að lögum.

Hér er einmitt komið að því, sem er einna alvarlegast í verkum hæstv. ríkisstj., að þótt hún fái samþykkt ýmis umbótalög, auglýsi sig á þann hátt, er iðulega á sama tíma dregið úr framkvæmdum, og reyndin verður sú, að það er frekar stigið spor aftur á bak heldur en áfram. Ég tel þess vegna, að það sé höfuðnauðsyn, að inn í þetta frv. verði sett ákvæði, sem tryggi alveg ákveðna framkvæmd þessara mála á næstu árum, en það verði ekki látið vera neitt óákveðið og undir hendingu komið, hvað verði áætlað á fjárlögum í hvert skipti til þessara framkvæmda.

Það er áreiðanlega svo mikilvægt að koma þessum umbótum á iðnfræðslunni áfram, að það verður að tryggja það nú strax í upphafi, að nauðsynlegar framkvæmdir verði gerðar strax, og ég álít, að til þess að tryggja það eigi beinlínis að taka upp áætlun nefndarinnar í frv. þess efnis, að það verði tryggt, að fyrir árið 1970 verði búið að koma upp verkstæðisskólunum við iðnskólana í Reykjavík og á Akureyri. Að öðrum kosti eigum við það á hættu, að þetta mál, sem er vissulega mikið umbótamál, þessi lög, sem við samþykkjum um þetta efni, verði hrein pappírslög, komi ekki að þeim notum, sem við raunverulega ætlumst til við samþykkt þeirra. Hér þarf sem sagt að gæta þess, að það verði ekki um þessa löggjöf eins og svo marga aðra löggjöf, sem sett hefur verið á undanförnum árum, að hún verði hrein pappírslöggjöf, vegna þess að í framkvæmd er því ekki fylgt eftir, sem heitið er í lögunum.