14.10.1965
Neðri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

12. mál, iðnfræðsla

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vona, að ég megi skilja þessi ummæli hæstv. ráðh. á þann veg, að ef það frv., sem hér liggur fyrir, verður samþ., verði tekin upp ný fjárveiting í fjárl. til þessara framkvæmda, og ég vildi gjarnan fá svar hjá hæstv. ráðh. við því, hvort það er ekki rétt skilið. Ef þetta frv. verður samþ. núna á þessu þingi, þá verði tekin upp ný fjárveiting til þess að koma upp þeim verkstæðisskólum, sem iðnfræðsluráð leggur mesta áherzlu á að komið verði upp á næstu árum. En ég vildi enn fremur spyrja hæstv. ráðh. að því, ef hann hefur raunverulega fullkominn áhuga á því, að þessi lög verði ekki pappírslög, hvort hann sjái nokkuð athugavert við það, að það verði beinlínis tekið upp í frv. sjálft ákvæði um, að farið skuli eftir þeirri fimm ára áætlun, sem sú nefnd, sem hefur undirbúið þetta frv., gerir ráð fyrir í sínum till., og hvort hann telur einmitt ekki mikilvægt, að slíkt ákvæði verði sett inn í frv., sem sagt að það verði tryggt með ákvæði í sjálfum lögunum, að á næstu fimm árum verði komið upp verkstæðisskólum við iðnskólana í Reykjavík og á Akureyri.