28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

127. mál, umferðarlög

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og hv. þd. minnist, samþ. allshn. einróma að mæla með frv., eins og það kom frá Ed. Við 2. umr. málsins kom fram brtt. frá hv. 1. þm. Reykn. þess efnis, að leyfilegt væri fyrir dómsmrh. að heimila allt að 90 km ökuhraða á klst. á einstökum vegum, hraðbrautum, og binda þá heimild við ákveðna árstíma.

Allshn. d. tók þetta mál til meðferðar og sendi það þegar til umsagnar umferðarlaganefndar og

svo hljóðandi umsögn barst frá umferðarlagan. til allshn. í gær, með leyfi forseta:

Allshn. Nd. Alþ. hefur með bréfi, dags. 23. þ. m., sent umferðarlagan. til umsagnar brtt. frá Matthíasi Á. Mathiesen við frv. til l. um breyt. á umferðarl. á þskj. 557.

Á fundi sínum í gær tók umferðarlagan. erindi þetta til athugunar. Voru nm. sammála um að mæla með því, að umferðarl. verði breytt á þann veg, að 4. málsgr. 50. gr. laganna orðist þannig:

Dómsmrh. getur sett nánari reglur um ökuhraða, þ. á m. ákveðið lægri hámarkshraða almennt en að framan greinir eða á einstökum vegum. Dómsmrh. getur ákveðið hærri hámarkshraða en að framan greinir, allt að 90 km á klst., á einstökum vegum (hraðbrautum) og bundið þá heimild við ákveðna árstíma. Í kaupstöðum og kauptúnum má setja slíkar reglur í lögreglusamþykktum.“

Nm. Eru sammála því, að rétt sé að heimila hækkun á hámarkshraða á hraðbrautum, sem fullgerðar hafa verið og byggðar eru fyrir meiri hraða en heimilaður er í umferðarl. N. getur fyrir sitt leyti fallizt á, að umrædd heimild verði miðuð við 90 km hámarkshraða á klst. N. tekur þó fram, að hún telur, að ekki beri að nota þessa heimild að fullu, fyrr en fengin hefur verið nokkur reynsla af hækkun hámarkshraðans. Mundi n. því leggja til, að til að byrja með ákveði ráðh. ekki hærri hámarkshraða en 80 km á klst. N. telur rétt, að umrædd heimild til hækkunar hámarkshraða verði sett í 4. málsgr. 50. gr. umferðarl., og er það gert með tilliti til þess, að jafnframt verði unnt að hækka hámarkshraða almenningsbifreiða fyrir 10 farþega og fleiri og vörubifreiða, sem eru 3.5 smál. eða meira að heildarþyngd, en skv. 3. málsgr. 50. gr. umferðarl. gildir lægri hámarkshraði fyrir þær bifreiðar. Telur n., að af öryggisástæðum sé ekki heppilegt að auka til muna bil milli leyfðs umferðarhraða þessara bifreiða og annarra bifreiða, enda mundi það leiða til mjög aukins framúraksturs, sem dregur úr umferðaröryggi. N. telur, að ráðh. væri heimilt að binda hækkun hámarkshraða við ákveðna árstíma, þótt eigi væri það beinlínis tekið fram í lögunum. N. mælir þó með því, að orðalag flm. haldist óbreytt hvað þetta snertir. Er með því gefin bending um, að heimildin verði ekki notuð nema á þeim árstíma, þegar umferðarskilyrði eru hagkvæm.

Eins og n. leggur til, að 4. málsgr. 50. gr. verði orðuð, er einnig veitt heimild til hækkunar á hámarkshraða á hraðbrautum í þéttbýli, en skv. 1. málsgr. 50. gr. er hámarkshraði þar 45 km á klst. Telur n. þessa heimild æskilega til samræmis við ráðagerðir í sambandi við aðalskipulag Reykjavíkur og nágrennis.“

Undir þetta bréf skrifar formaður umferðarlagan., Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri, en í n. eiga sæti auk hans Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri, Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari og Theódór Lindal, og auk þeirra Ólafur Walter Stefánsson.

Þegar allshn. d. fékk þessa umsögn frá umferðarlagan., var málið enn tekið fyrir, og n.

varð sammála um það að gera till. um, að þessi till. umferðarlaganefndar yrði samþ., þó með þeirri breytingu, að ráðh. setti slíkar nánari reglur um ökuhraða að till. umferðarlagan. Því er sú brtt. frá allshn., sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 596, komin fram. Jafnframt vil ég geta þess, að hv. 1. þm. Reykn. hefur tjáð n., að hann sé fyrir sitt leyti ánægður með þessa lausn og dragi brtt. sína á þskj. 557 til baka, en allshn. er sammála um að mæla með brtt. á þskj. 596.