04.04.1966
Neðri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. talaði um það í sinni ræðu, að við þyrftum að keppast um að komast í þá aðstöðu, — það hefði verið keppt um það, sem við erum að komast, með því frv., sem hér liggur fyrir. Ég verð að segja, að því miður hefur verið nokkuð rétt í þessu. Það hefur verið keppzt um af einstökum aðilum, einmitt þeim, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft sem ráðunauta, að koma okkur í þá aðstöðu aftur eins og við einu sinni vorum, að það væru fyrst og fremst erlendir aðilar, sem nytu góðs af okkar auðlindum. Það hefur verið unnið að þessu um nokkurn tíma. Og þeir menn, sem að því hafa unnið, virðast nú hafa borið sigur úr býtum. Þess vegna er brotið blað í sögu Íslands hvað efnahagslega sjálfstæðisbaráttu þess snertir með þeim samningi, sem nú á að knýja í gegn.

Það er bezt, að við gerum okkur fyrst og fremst ljóst, hver eru aðalatriði þessa máls, áður en ég fer ýtarlega í smærri atriði í sambandi við það, þau þeirra, sem ekki hafa verið rakin eins mikið af formönnum stjórnarandstöðuflokkanna og gert hefur verið.

Hver er munurinn efnahagslega séð, — ég meina ekki pólitískt, heldur efnahagslega, — á arðrændri nýlendu og sjálfstæðu ríki? Hver er munurinn? Munurinn er sá, að miðað við t.d. auðvaldsskipulagið hjá okkur þá rennur arðurinn af vinnu þeirra vinnandi stétta, þar með verkalýðsins fyrst og fremst, til borgarastéttar í landinu sjálfu, ef landið er efnahagslega sjálfstætt. En svo fremi sem landið er efnahagsleg nýlenda, þá rennur arðurinn af vinnu verkalýðsins og vinnandi stéttanna út úr landinu. Þennan höfuðmun skulum við gera okkur ljósan, því að út af þessu höfum við verið að berjast undanfarnar aldir, og lærdómurinn af þeirri baráttu má ekki gleymast hjá okkur. Það er almennt litið svo á, þegar átt er víð sæmilega tæknilega háttstandandi þjóðfélag, að af því verðmæti, sem verkamaður skapar, sé a.m.k. álíka mikið það, sem fer til þess, sem á framleiðslutækin, eins og það, sem verkamaðurinn fær sjálfur í kaup, verkamaðurinn fái af þeim verðmætisauka, sem hann skapar, í laun aðeins heiminginn af því. Sú virðist vera reynslan, t.d. þar sem skýrslur eru beztar til um þetta, í Bandaríkjunum.

Hér áður fyrr var það svo hjá okkur, fyrr á öldum, þegar danskir einokunarkaupmenn réðu

hér, að arðurinn af vinnu Íslendinga fór út úr landinu og hallirnar, sem byggðar voru í Kaupmannahöfn og annars staðar, voru byggðar fyrir arð m.a. af því, sem Íslendingar skópu. Þegar Englendingar og Þjóðverjar drottnuðu yfir gullkistunni við Faxaflóa, þá gilti það sama lögmál. Og það er á móti þessu, sem við höfum verið að berjast öldum saman, og það er til þess að hrinda þessari kúgun, sem við börðumst fyrir að fá stjórnmálalegt sjálfstæði. Stjórnmálalegt eða pólitískt sjálfsforræði einnar þjóðar er ekki fyrst og fremst aðeins takmark í sjálfu sér, svo dýrmætt sem það er, heldur líka aðferð til þess að hafa valdið yfir sínum eigin auðlindum og láta arðinn af þeim renna til landsbúa sjálfra. Svo fremi sem þeirri stefnu hefði ekki verið haldið uppi að tryggja Íslendingum sjálfum ekki aðeins vinnuna við auðlindirnar hér, heldur líka arðinn af þeirri vinnu, þá hefði engin íslenzk borgarastétt verið til. Svo framarlega sem við hefðum frá upphafi stefnt að því, að þeir togarar og þeir bátar, sem væru gerðir hér út, væru eign útlendinga, eins og var um tíma, t.d. í Hafnarfirði, Hellyers, þá væri íslenzk útgerðarmannastétt ekki til. Sama gildir um íslenzka verzlunarstétt, ef það hefðu átt að vera Marks & Spencer og aðrir slíkir, sem hefðu komið upp stórum verzlunarhúsum hér í Reykjavík og Thomsensmagasín hefði fengið að þróast áfram sem danskt fyrirtæki. Svo framarlega sem Íslandsbanki hefði fengið að eflast hér áfram, þá hefðu það verið útlendir auðmenn, útlend borgarastétt, sem hlaut arðinn af vinnu íslenzks verkalýðs, en ekki íslenzk borgarastétt. Þetta þurfum við að gera okkur ljóst, því að líka frá sjónarmiði verkalýðsins er það höfuðatriði, að meðan kapitalístískt skipulag ríkir hér, þá sé það sjálf íslenzka auðmannastéttin, sem eigi fyrirtækin og arðurinn haldist hér innanlands, sá hluti, sem verkalýðurinn nær ekki til sín með kauphækkunum, en fari ekki út úr landinu í eigu erlendra auðmannastétta. Þess vegna hef ég sagt það áður hér í þessum stól. þegar rætt var um m.a. inngöngu í Efnahagsbandalagið, að þrátt fyrir slæman rekstur okkar hraðfrystihúsa, þrátt fyrir allt, sem má finna að okkar íslenzku kapítalistum í því sambandi, þá viljum við þó heldur hafa þá með öllum þeirra bágborna rekstri heldur en að fá Unilever eða Findus til þess að reisa þær verksmiðjur, sem þeir voru og eru reiðubúnir til að reisa í Sandgerði og annars staðar, þegar þeir fá sams konar lög og þau, sem verið er að gefa svissneska alúminíumhringnum núna, sem vafalaust verður ekki langt að biða.

Þarna er því spurningin um það, hvort við viljum halda íslenzku, efnahagslegu sjálfstæði og þar með, á meðan við höfum kapítalistískt skipulag, íslenzkri borgarastétt eða hvort við viljum láta það verða útlenda aðila, sem raka til sín arðinum af vinnu íslenzks verkalýðs og af íslenzkum auðlindum. Og það er hart, að það skuli vera svo nú, að sá maður, sem virðist vera sérstakur forgöngumaður í þessum efnum og virðist alveg sérstaklega hafa ráðlagt hæstv. ríkisstj. og ég er hræddur um, að hún hafi treyst nokkuð mikið á, skuli vera einn aðalforstjóri Seðlabankans, þess banka, sem maður hefði þó átt að ganga út frá, að ætti frekast af öllum að vinna að því að halda atvinnulífinu á Íslandi íslenzku. Og það er hart, ef svo á að fara að verða nú, að nú skuli það vera eitt aðalhlutverk Seðlabankans og ríkisstj. að eiga að takmarka þær framkvæmdir, sem eigi að vinna í íslenzku atvinnulífi á næstunni, til þess að allt fari ekki úr skorðum við það, að útlenda auðmannastéttin fær þau sérréttindi, sem hún fær með þessum samningi.

Ég vil sérstaklega minna íslenzka atvinnurekendur á það, — þeim er máske stundum gott að hugsa dálítið fram í tímann og trúa ekki bara því, sem pólitískir erindrekar þeirra segja stundum, — ég vil minna íslenzka atvinnurekendur á það, að íslenzkir höfðingjar á Sturlungaöld, þegar þeir sömdu við Noregskonung og þóttust tryggja sér þar með aukið vald fyrir höfðingjastéttina á Íslandi gagnvart alþýðu manna, varð sú reynsla þeirra, að þeir höfðu keypt sér herra, sem síðar átti eftir að traðka þá sjálfa niður. Íslenzk alþýða lifði af, íslenzk höfðingjastétt dó út, og íslenzk atvinnurekendastétt er ekki búin að bíta úr nálinni með það, hvað það kostar að kaupa sér nú erlendan herra hér inn í landið, margfalt sterkari og voldugri ekki aðeins heldur en einn einstakur atvinnurekandi á Íslandi, heldur sterkari en þeir svo að segja allir til samans. Ef íslenzk atvinnurekendastétt hefði einhverja fyrirhyggju í þessum efnum, mundi hún fara að hugsa dálitið, hverjar afleiðingarnar verða af þessu. Við skulum athuga stærð þessa fyrirtækis, sem hér er um að ræða, og hver við getum gizkað á, að sé þess gróði, til þess að við gerum okkur nokkra hugmynd um, hvaða aðili það er, sem við erum nú að bjóða annars vegar til þess að arðræna íslenzkar auðlindir og hins vegar til þess að skáka, ef ekki að drottna yfir íslenzkum atvinnurekendum í framtíðinni.

Fjárfesting Swiss Aluminium mun eiga að vera í þeirri verksmiðju, sem hér er fyrirhuguð, um 2500 millj. kr. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. og hennar sérfræðingar hafa gert sér verulega far um að reyna að athuga, hver sé gróði slíkra fyrirtækja. Ég leyfi mér að vona, að einhverjar hugmyndir liggi fyrir um slíkt, til þess að menn geri sér nokkurn veginn ljóst, hvaða aðila þeir eru að eiga við. Mér skilst, að fjármagn Swiss Aluminium muni í fyrirtækjum þess vera í kringum 15 þús. millj. ísl. kr., þessum fyrirtækjum, sem það á, og þess hlutafé til samans eitthvað svipað. Ég geng út frá, að þegar búið væri að fullgera alúminíumverksmiðju hér á Íslandi, mundi framleiðsla þess á alúminíum í heiminum vera komin upp í kringum 360 þús. tonn. Við skulum taka samanburð af því fyrirtæki, sem hv. 5. þm. Vesturl. minntist hér á áðan, það er Reynolds, sem hann sagði réttilega frá, — að vísu var það ekki vinstri stjórnin, en hins vegar Steingrímur Hermannsson, sem verið hefur einn af aðalsérfræðingum ríkisstj. í þessu sambandi, ég held, að mér sé óhætt að segja, að bæði Steingrímur Hermannsson og Vilhjálmur Þór hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að komast í samband við þá, — Reynolds og Kaiser eru, eins og kunnugt er, þeir alúminíumhringir, sem eftir stríðið koma upp í Bandaríkjunum, eftir að Rooseveltsstjórnin á stríðstímunum braut niður þá einokun alúminíumhringsins Alcoa, sem var svo fjandsamleg stríðsundirbúningi Bandaríkjanna, að það var ekki þolað af hálfu bandarískrar stjórnar. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur kynnt sér í amerískum skýrslum, en maður gæti búizt við því, að hennar sérfræðingar hefðu gert það, og ég vona, að það verði þá upplýst hér, hver gróði þessara hringa hefur verið nú á síðustu árum. En ég skal upplýsa frá árinu 1961, — þær tölur hef ég, — hvað gróði bæði Reynolds og Kaisers var á því ári. Þá var þeirra fjárfesting öll, þeirra fjármagn, Reynolds 814 millj. Bandaríkjadollara og hjá Kaiser 654 millj. Bandaríkjadollara, og þá var gróði Reynolds, eftir að skattar höfðu verið greiddir og eftir að vextir höfðu verið greiddir, 80 millj. Bandaríkjadollara. Ef við göngum út frá því, að á því ári var framleiðslan hjá Reynolds 446 þús. smál. af alúminíum, og ef við göngum út frá því, að hér hefði verið með svipaðri aðstöðu starfandi sú alúminíumverksmiðja, sem núna er rætt um, mundi það þýða, að þessi svissneski hringur hefði í gróða af 60 þús. tonna verksmiðju hér átt að hafa um 10.7 millj. dollara eða um 460 millj. ísl. kr. í gróða á einu ári. Ég ætlast til þess, að hæstv. ríkisstj. hafi athugað þessa hluti, hún hafi athugað, hvaða gróða sjálfir auðhringarnir í Bandaríkjunum í alúminíum telja fram, bæði Alcoa, Kaiser og Reynolds, hvað þar sé gengið út frá, að þeir hafi grætt á hverju tonni af alúminíum, sem þeir hafi framleitt, og hún hafi þess vegna nýrri upplýsingar en ég hef um þeirra gróða. En þessi gróði þeirra samsvarar því, að alúminíumverksmiðja með samsvarandi aðstöðu og hefði verið 1961 að frádregnum sköttum og vöxtum hefði haft 460 millj. kr. gróða á þessari verksmiðju hér á Íslandi.

Ég býst við, að mörgum muni þykja þetta allháar upphæðir, mörgum muni ógna jafnvel, kannske ekki sízt þeim, sem hafa haldið, að það þyrfti að lokka slíka auðhringa með sérstökum fríðindum til þess að gera annað eins fyrir okkur og hagnýta fyrir okkur rafmagnið. Nú er það vitanlegt, að höfuðframleiðsluatriðið í sambandi við aluminíumframleiðslu er rafmagnið. Það er ekki báxit, sem er aðalatriðið þarna, það er minnstur vandinn að fá það. En aftur á móti rafmagnið, sem er talið almennt um 30% af framleiðslukostnaðinum, það er það, sem barizt er um, og þessir voldugu auðhringar hafa notað sina aðstöðu í veröldinni til þess að reyna að láta lönd eins og Ísland og Noreg, Ghana og Guineu og önnur slík, sem hafa átt allmikið af fossum, láta þau keppa um þetta. Þau hafa reynt að etja þessum löndum hverju upp á móti öðru. Þau hafa reynt að hagnýta sér það að láta þau bjóða hvert niður fyrir annað, til þess að þeirra gróði og aðstaða öll gæti orðið sem allra öruggust. Og þessum svissneska hring hefur tekizt með aðstoð þessara sérfræðinga að etja íslenzkum stjórnarvöldum út í það að bjóða þannig, að þau byðu niður fyrir alla aðra og tryggðu betur gróða þessa auðhrings en nokkrir aðrir aðilar hafa verið reiðubúnir til að gera.

Ég leyfi mér ekki að ætla það, að þeir sérfræðingar, sem ríkisstj. hefur haft, hafi ekki gert neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut til þess að afla sér hugmynda um, hvaða gróði sé á framleiðslu á alúminíum. Þeir vita allir, að þetta er einokaðasta vörutegund í allri veröldinni, og ég hef við ekkert nema gamlar amerískar skýrslur að styðjast. Ég sé af þessu frv., sem hér liggur fyrir, að það muni vera ein verksmiðja í Tennessee, sem þessi hringur á, líka 60 þús. tonna verksmiðja, ef ég man rétt, og ég býst við, að það liggi fyrir hjá ríkisstj., hvaða skatta þeir greiða þar og hvaða gróða þeir ganga út frá að hafa þar. Ég geng út frá, að sérfræðingarnir, sem hafa rannsakað þessi mál, hafi ekki aðeins verið að ganga með grasið í skónum, eins og gert hefur verið nú í 10 ár, eftir alúminíumhringnum um að vera nú svo góður og blessaður að koma hingað til Íslands. Ég geng út frá, að þeir hljóti að hafa rannsakað um leið að einhverju leyti, hver sé afstaða Íslendinga, hvaða hagsmuni Íslendingar geti haft af þessu, og reynt þess vegna að skilja, hvaða hagsmuni auðhringurinn bjóst við að geta haft af því að koma hingað. Ég mun þess vegna, á meðan ekki er annað upplýst í þessu, ganga út frá því, að árlegur gróði af 60 þús. tonna alúminíumverksmiðju suður í Straumsvík sé upp undir 460 millj. ísl. kr. á ári, þegar búið er að borga skatta og vexti, miðað við það verðlag á alúminíum, sem er 1961, og miðað við, að rekstur þessa hrings sé álíka góður og t.d. hjá Reynolds Metal Company, sem ég efast ekki um, að hann sé, þannig að hér er um það að ræða, að það er stórkostlegt stórfyrirtæki á ferðinni, sem skapar á grundvelli hagnýtingar íslenzkra auðlinda og íslenzks vinnuafls stórkostleg auðæfi fyrir sig.

Ég vil minna á í því sambandi, hvaða gildi fossarnir hafa fyrir alúminíumhringana. Það er vitað, að það gamla Aluminium Company of America, Alcoa, sem var áður allsráðandi í þessu, setur upp eitt aðalfyrirtæki sitt, sem síðan hefur sambönd úti um allan heim, í Kanada, m.a. vegna þess, að þau gera samkomulag við einn aðaleiganda fossanna í Kanada, sem er síðan tekinn inn í alúminíumhringinn, Duke Prizepower Company heitir það, einmitt vegna þess að þetta fyrirtæki átti vald yfir svo miklum fossum í Kanada, að það gat tryggt sér að ganga inn í þennan volduga hring og er nú einn höfuðþátttakandi hans í krafti þessa fossafls. Þessir auðmenn í Kanada tryggja sér sem sé, vegna þess að þeir hafa aðstöðu til fossaflsins, það að vera stóraðilar í alúminíumframleiðslunni, vegna þess að mönnum var ljóst, að alúminíumhringurinn var upp á þá kominn, þurfti að fara til þeirra og biðja þá um að hjálpa sér til að fá aðgang að fossum, og það notaði þessi auðmannasamsteypa í Kanada til þess að komast inn í sjálfan þennan hring. Ég nefni þetta aðeins til þess að sýna fram á, að það er fyrst og fremst alúminíumhringurinn, sem er háður fossaflinu, og hvernig það er hann, sem verður að leita eftir því að fá að komast að fossaflinu til þess að geta þannig skapað sér gróða. Ef sérfræðingarnir hér á Íslandi, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft í sinni þjónustu, hafa ekki vitað þetta og hafa ekki gert sér þetta ljóst, eru þeir fákunnandi á þessu sviði og þá skilja þeir ekki það, sem hver einasti verzlunarmaður, hver einasti atvinnurekandi, hver einasti auðmaður mundi hafa skilið, þegar hann hefur yfir að ráða aðgangi að fossafli, eins og við höfum hér á Íslandi.

Svo er því slengt hér framan í okkur í þessum grg., sem hér liggja fyrir, að það séu gjaldeyristekjur, sem samsvara 5—7 þús. kr. á mann á ári. Hvert renna þær gjaldeyristekjur, sem þarna er verið að tala um? Ætli það væri ekki nær að reikna út, hvaða gjaldeyristekjur það eru, sem hringurinn hefur af þessari framleiðslu? Hvernig stendur á, að menn dirfast að leggja fyrir Alþ. frv. án þess að gera minnstu tilraun til þess að reikna þetta út? Hvernig stendur á, að sérfræðingar ríkisstj. leyfa sér það að leggja fyrir Alþ. frv., þar sem þeir aðeins skýra aðra hlið á málinu? Hvernig stendur á því, að við fáum ekki líka að vita, hvað þessir sérfræðingar álita, að hringurinn græði á þessu? Er það meining þessara sérfræðinga að reyna að leyna Íslendinga því, hvaða gróði þetta sé fyrir erlenda aðila? Er það feimnismál? Ég álit, að svona eigi sérfræðingar ekki að starfa. Sérfræðingar, sem starfa, hvort sem það er fyrir Alþ. eða ríkisstj., eiga að athuga allar hliðar eins máls, og þeim ber skylda til að leggja allar hliðar fyrir okkur, til þess eru þeir sérfræðingar. Við eigum að geta gengið að þessum upplýsingum, og síðan eigum við að geta vegið og metið, og sérstaklega álit ég óforsvaranlegt af sérfræðingum að gera slíkt gagnvart einni ríkisstj. Það er ekki hægt fyrir ríkisstj., fyrir hæstv. ráðh. sjálfa að eiga að setja sig inn í hvert einasta atriði í svona málum. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að menn, sem eru önnum kafnir, ekki sízt eins og þeir stjórnmálamenn eru, sem hér skipa ráðherrasess, í öllum mögulegum málum, þeir geti sett sig inn í hvert einasta smáatriði, stórt og smátt svo að segja, í svona sambandi. Það er sérfræðinganna að gera það, og ef sérfræðingar láta undir höfuð leggjast að skýra allar hliðar málsins fyrir ríkisstj., eru þeir að bregðast skyldu sinni. Þess vegna álít ég það óverjandi, ef álitsgerðir og grg., sem frá sérfræðingum koma, eru aðeins áróður, þar sem aðeins er tekið fram, hvað það sé, sem er kostur við þetta, en ekki fyrst og fremst tekið fram, hvað það er, sem eru gallarnir, og það sé reynt að lýsa þessu þannig eins og Ísland sé einvörðungu þiggjandi, sem þurfi að biðja um, sem þurfi að keppast um að koma sínu rafmagni út, en Swiss Aluminium sé góðgerðamaðurinn, sem geri það fyrir okkur að koma hingað. Það er illa farið, ef þannig hefur verið unnið að, og það vona ég, að verði upplýst hjá okkur.

Ég þykist ekki sízt vita, að sérfræðingarnir hefðu átt að gera sér góða grein fyrir þessum málum, þar sem þeir binda það meira að segja í íslenzka löggjöf, að það skuli vera ameríski alúminíumhringurinn, sem ákveður á vissan máta skatta á Íslandi, þar sem það er ákveðið með þessu frv., að skattarnir skuli fara eftir því, hvernig verðskráningin er á alúminíum hjá alúminíumhringnum þar í Kanada. Mig minnir, að það sé tekið fram einmitt í lagagr. sjálfri, að það fari eftir tilkynningu frá Aluminium Company Ltd. í Montreal og því, sem þar sé tilkynnt um, hvernig alúminíum sé skráð, hvaða breytingar verða á þeim sköttum, sem þessi hringur á að greiða á Íslandi. Ég held, að það sé í 26. gr., það skuli vera eftir því, sem auglýst er vikulega í „Metal Bulletin“ í London, á grundvelli tilkynninga á hverjum tíma frá Aluminíum Ltd., Montreal. Kanada. sem útflutningsverð fyrir Evrópumarkað. Ég geng út frá, að það sé ekki verið að setja slík ákvæði inn í íslenzk lög, án þess að þeir sérfræðingar, sem að því standa, hafi um leið kynnt sér, hvaða aðilar þetta eru og hvernig þeirra aðstaða sé og hvernig þeirra skattgreiðsla sé og hvernig þeirra gróði sé.

M.ö.o.: það, sem við stöndum frammi fyrir, er, að erlent fyrirtæki á að fá sérréttindi fram yfir alla íslenzka borgara, á að heyra að vissu leyti undir annað dómsvald en allir íslenzkir borgarar, á að njóta réttinda, sem enginn Íslendingur annars fær að njóta, og þetta fyrirtæki eigi að vera langsamlega voldugasta fyrirtæki, sem upp hafi verið sett á Íslandi, með 2500 millj. kr. fjárfestingu og þá líklega svipuðum höfuðstól og að öllum líkindum með upp undir 400—500 millj. kr. gróða á ári. Það er almennt gizkað á, að gróði amerískra alúminíumhringa sé á milli 26 og 34% miðað við þeirra fjárfestingu, svo að það fer ekki fjarri því að vera svipað því, sem ég var að reikna út hérna áðan. M.ö.o.: við eigum að fá sérréttindastétt hér inn í landið, fámenna útsenda sérréttindastétt, eins konar alúminíumbaróna, sem eiga að njóta hér réttinda, sem engir Íslendingar hafa. Þetta fyrirtæki hét áður, ef ég man rétt, Aluminíum Industri Aktiengesellschaft, og það breytti um þetta þýzka nafn sitt, ég held í fyrra eða svo, fyrra eða hittiðfyrra. Fyrst þegar það var að leita hófanna hjá okkur og eins þegar það samdi við Noreg, hafði það þetta þýzka nafn sitt. En hins vegar sé ég, að það heldur samt áfram að tryggja sér, að það skuli meira að segja í smáatriðum, eins og hvað hafnarbyggingarnar snertir, lagt til grundvallar það, sem þýzkir byggingarsérfræðingar álita. Á bls. 130 í frv., 4. gr. um höfnina, er tekið fram, að það skuli átt þar við þau ákvæði, sem Deutsche Industri markar, eða þýzka iðnaðarstaðla þar. M.ö.o.: það er alls staðar verið að smeygja þarna inn í smáu sem stóru þeim ákvæðum, sem þessir menn hafa komið sér upp erlendis, og alls staðar eiga þessi erlendu ákvæði að vera rétthærri þeim íslenzku. M.ö.o.: við eigum aftur að fara að fá hér það ástand, að þarna suður í Straumsvík rísi nú upp erlendir fjármáladrottnar, sem eigi að fá að gera þar út sína verksmiðju og fá þar sérréttindi til þess að arðræna okkur Íslendinga.

Við þekktum þetta áður fyrr, meðan okkar land átti við hvað erfiðasta aðstöðu að búa. Það er máske engin tilviljun, að það skuli einmitt vera Straumsvík, sem verður fyrir því að verða fyrsta nýlendusvæðið fyrir þá auðhringa, sem nú munu ryðjast inn á Íslandi. Það er enn þá heiti þar í Straumsvíkinni, Þýzku búðir, frá því að Þjóðverjar gerðu hér út á 15. eða 16. öld, og auðurinn, sem þá var í Faxaflóa, var notaður fyrir útlendinga og Íslendingum þrælað þar út. Og það var líka þarna í Straumi sem sá bóndi á Kirkjubóli, sem hafði stuðlað að því, að Íslendingar gátu hefnt Jóns Arasonar með drápi Kristjáns skrifara, — það var þar í Straumi, sem hann var hálshöggvinn vorið 1551, og það var þarna rétt hjá, árið 1699, á Kálfatjarnarþingi, sem var þingið fyrir Hraunin líka, sem Hólmfastur Guðmundsson var flengdur 1699, og á sama þingi var lýst yfir trausti á Knud Storm, Hafnarfjarðarkaupmanninn, sem stóð að hýðingunni á þessum fátæka bónda, þannig að þær eru nokkuð ríkar sögulegu minjarnar þarna í kringum Straum. Máske eigum við eftir að fá að lifa það, þegar verkamenn rísa upp þarna suður frá gegn þessu fyrirtæki, að einhver meiri hl. í bæjarstjórn Hafnarfjarðar eigi að samþykkja einhverja traustsyfirlýsingu og þakklætisyfirlýsingu til þessa alúminíumhrings, eftir að hann hefur notið allra þeirra sérréttinda og útsvarsfrelsis og margs annars, sem hann á að njóta þarna á komandi tímum.

Við skulum gá að okkur, þegar við ætlum að fara að koma upp nýlendu fyrir voldugan erlendan auðhring þarna suður frá. Það brennur enn þá í blóði Íslendinga minningin frá þeim tímum, þegar þeir voru nýlenda, og þær minningar munu rísa upp, þegar við eigum aftur að fara að kynnast því hér á Íslandi, að aðrir menn og útlendir og ríkari en við öðlast sérréttindi, sem engir Íslendingar eiga að fá að njóta, og eigum að vera bundnir undir slík sérréttindi í 45 ár, ef þeir menn, sem hjá þessum hring starfa og kunna að lenda í margs konar deilum við hann, eiga ekki einu sinni að geta náð rétti sínum hér innanlands, heldur eigi nú enn einu sinni að fara að skjóta málum Íslendinga til útlendinga og dæma þar. Jóni Hreggviðssyni þótti það illt, og til lítils hafa menn þá háð alla þá sjálfstæðisbaráttu, sem við höfum háð, ef það á enn einu sinni að skapa þá aðstöðu fyrir útlenda drottna, að þeir hafi slík sérréttindi hérna heima.

Ég verð að segja, að það er sérstaklega hart, að Sjálfstfl. skuli ganga fram fyrir skjöldu í því að berjast fyrir þessu. Sjálfstfl. hefur verið flokkur íslenzkrar borgarastéttar, og hann hefur beitt sér fyrir því, að íslenzk borgarastétt gæti sjálf orðið rík og efnahagslega sjálfstæð stétt. Við höfum átt í höggi við þann flokk, verkalýðshreyfingin á Íslandi, um það, hvernig auðurinn hér ætti að skiptast, en við höfum venjulega verið sammála um það, að í landinu skyldi hann haldast, og þegar sá maður, sem var fyrstur formaður Sjálfstfl., Jón Þorláksson, átti um það að velja 1923, hvort íslenzkir fossar, sem þá voru í eigu útlendinga, yrðu hagnýttir í þágu útlendinga og auðurinn og arðránið, sem með þeim skapaðist, rynni til útlendra manna, var Jón Þorláksson nógu framsýnn til þess að segja: Við skulum heldur láta vera að hagnýta þessa fossa en að láta útlendinga ráða yfir þeim. Ég vil minna á það, sem hann segir hér í Nd. 3. maí 1923, með leyfi hæstv. forseta:

„En nú vill hv. meiri hl. (þ.e. meiri hl. n., sem hann skipar) fara þessa leið og gefa útlendingunum allan þann framtíðargróða, sem vér gætum haft af notkun fallvatnanna. Ég er ekki fyrir að nota stór orð, en ég get þó ekki látið hjá líða að flytja þessari hv. d. þá orðsendingu frá fyrrv. forseta Ed., fyrrv. meðnm. mínum, Guðmundi Björnssyni landlækni, eftir beinum tilmælum hans, að hann geti ekki skoðað þetta öðruvísi en föðurlandssvik.“

Þetta voru orð Jóns Þorlákssonar 1923, þegar íslenzk borgarastétt var enn nægilega þjóðleg til þess að álita, að betra væri að bíða með notkun fallvatna heldur en það væru útlendir auðhringar, sem næðu þessum fallvötnum á sitt vald. Sjálfstfl. hefur háð þá baráttu fram til þessa og átt þar samleið og þótzt með öðrum íslenzkum flokkum berjast fyrir því, að við Íslendingar reyndum sjálfir, oft af litlum efnum, að koma upp okkar eigin fyrirtækjum, hvort sem þau væru í eigu íslenzkra atvinnurekenda, ríkisins, bæjanna eða hverra svo sem væri, en fyrst og fremst, að Íslendingar ættu þau sjálfir. 2/3 hluta þessarar aldar hefur þessi barátta verið háð af öllum þeim flokkum, sem á þeim tíma hafa starfað hér á Íslandi. Við höfum barizt fyrir því um leið að fá hæstarétt inn í landið, hafa hann ekki lengur í Danmörku. Það var barizt fyrir því fyrr á öldum, að við þyrftum ekki að lúta dönskum eða norskum lögum, heldur íslenzkum lögum, og það er hart. ef við eigum núna að lifa það, að menn fari að berjast fyrir því, að nú skuli erlendir auðhringar fyrst og fremst fá að hagnýta okkar fossa og koma hér upp aðstöðu til þess að skapa hér stórkostlegan auð og verða voldugir og heimaríkir hér á Íslandi, og um leið skulum við ganga inn á það, að í afgerandi málum skuli það verða erlendir dómstólar, sem geta dæmt um þau mál, sem geta verið ákaflega mikilvæg fyrir Íslendinga. Ég veit, að það hefur verið rekinn mikill áróður innan Sjálfstfl. fyrir því, hver heill það væri fyrir þjóðina að fá útlent fjármagn, og ég þykist þekkja það vel til innan raða Sjálfstfl., að það muni vera mjög skiptar skoðanir, bæði hafa verið og séu mjög skiptar skoðanir um slíkt. Ég varð var við það, þegar baráttan var háð fyrir inngöngunni í Efnahagsbandalagið, að ýmsir af forustumönnum Sjálfstfl., sem jafnvel álitu þetta koma vel til mála frá efnahagslegu sjónarmiði, áttuðu sig á því, þegar þeir fóru að athuga málið nánar frá lagalegu sjónarmiði, að þetta var hættulegt. Við skulum gera okkur ljóst, að þegar við erum að taka upp samninga við slíkan erlendan auðhring eins og hér er um að ræða, erum við Íslendingar að fara inn á alveg nýtt svið, þar sem við erum kannske allir meira eða minna börn, þar sem við erum allir að prófa okkur áfram, þar sem við þurfum þess vegna allir að reyna að verða sammála um, hvað við þurfum að varast og hvaða reynslu við mundum að líkindum af þessu hafa. Við höfum verið sammála um það t.d., að það væru ekki Englendingar eða enskir dómstólar, sem ættu að dæma landhelgisbrjótana hérna, og höfum við samt borið fulla virðingu fyrir ensku réttarfari, en við höfum viljað dæma þá sjálfir. Og það er ekki ástæða til þess, þó að það sé stærri aðili heldur en enskur togarakapteinn, sem í hlut á, að við förum að gera undanþágu vegna þess, að maðurinn sé ríkari. Því frekar væri þó, að við ættum að reyna að halda dómsvaldinu á honum innanlands. Áður var um það að ræða að selja útlendingum fossana hér heima, og það var gert í svo ríkum mæli, að útlendingar voru búnir að eignast alla fossana á Íslandi, sem virkjanlegir voru, nema Sogið, 1919, þegar Alþ. lét koma til sinna kasta og eyðilagði þennan eignarrétt útlendinga á fossunum með sínum ákvæðum.

Ég þykist fyrir mitt leyti hafa haft jafnmikinn áhuga á stóriðju á Íslandi og hver annar og hafa reynt á síðustu 20 árum að hugsa um, á hvern máta við Íslendingar gætum helzt komið upp íslenzkri stóriðju hér, ekki aðeins í fiskiðnaði, heldur líka í öðru. En ég hef einskorðað þá stóriðju við það, að slík stóriðja yrði að vera íslenzk, fyrir Íslendinga eina. Hér hafa verið settar stóriðjunefndir á laggirnar. Mér lízt ekki á þær skýrslur, sem við fáum frá þeim stóriðjunefndum. Ég vil spyrja: Hvaða áliti hafa þær stóriðjunefndir skilað um, hvaða hráefni Íslendingum væru heppilegust til hagnýtingar hér, svo fremi sem okkur þætti, að fiskiðnaðurinn ætti ekki lengur neina möguleika? Við vitum, að fiskiðnaðurinn á nú gífurlega ótæmda möguleika. Við getum margfaldað verðmæti okkar þjóðarframleiðslu með því að auka hann. En við skulum bara segja, að við vildum hugsa það langt inn í framtíðina, að við vildum fara að flytja inn einhver erlend hráefni til að vinna úr. Stóriðjunefnd hefði þá átt að rannsaka, hvaða hráefni það eru, sem koma til greina, því að það eru áreiðanlega mörg hráefni. Og ég vil leyfa mér að spyrja, ætla ekki að fara nánar út í það núna: Hefur hæstv. iðnmrh. fengið skýrslu frá stóriðjunefnd um slíka möguleika, t.d. hvað snertir það hráefni, sem nú virðist vera að slá öll önnur út, svo að maður noti slæmt orð, olíuna? Við vitum, að úr olíunni er núna unnið með hinni svokölluðu petrolkemi, þ.e. efnagreiningarfræði, sem byggist á olíunni, hráefni eins og nælon, plast og öll slik, hráefni, sem í æ ríkari mæli koma í staðinn fyrir bæði stál, sement og allt annað slíkt. Ég vil spyrja, áður en farið er að henda sér í fangið á einum erlendum auðhring: Hefur það verið rannsakað af slíkri stóriðjunefnd, hvaða möguleikar væru til slíks innflutnings á hráefnum öðrum en t.d. alúminíum? Ég er hræddur um, að svo hafi ekki verið. Mín reynsla, sem við höfðum einmitt í atvinnumálanefnd ríkisins, var sú, að það væri svo mikill áhugi hjá vissum mönnum, vissum voldugum aðilum að hlaupa út um allan heim til þess að biðja alúminíumhringa um að koma hingað, að það hafi ekki annað frekar verið athugað. Enda kemur það nokkurn veginn heim við það, sem sá forstjóri hringsins segir, sem hér var, að honum hafi ekki boðizt betri kjör annars staðar, það hafi verið hlaupið þannig á eftir honum.

Ég er hræddur um þess vegna, að stóriðjunefnd hafi staðið illa í stöðunni hvað þetta snertir, og ef ég fer þar með rangt mál, vona ég, að hæstv. viðskmrh. upplýsi það.

Þá er rétt að athuga þann hluta í þessu, sem víð Íslendingar erum að fjárfesta sjálfir fyrir Swiss Aluminium. Við erum að fjárfesta þann hluta af Búrfellsvirkjuninni, sem fer í að framleiða raforku handa Swiss Aluminium. Ég veit ekki nákvæmlega, hvað maður má gizka á, að það sé mikill hluti, en alltaf gizka ég á, að það séu 1200—1500 millj. kr., sem sá hluti af Búrfellsvirkjuninni hljóti að kosta, sem eingöngu er gerður fyrir Swiss Aluminium. Er það nú sú skynsamlegasta fjárfesting, sem við gætum veitt 1200—1500 millj. ísl. kr. fyrir? Ég vil bara spyrja. Í fyrsta lagi, hvað snertir sjálfa fiskiðjuna og annað slíkt, þá þurfum við ekki nema örfáar millj. til þess að koma upp fyrirtækjum, sem margfalda verðmæti fiskframleiðslunnar, ég tala ekki um bátana okkar og fiskiskipin. Við vitum, að þær milljónir, sem við setjum í þau, gefa oft álíka mikinn gjaldeyri á hverju ári og slík fyrirtæki kostuðu. Ég minnist á flugvélarnar. Ég spyr, hvort það séu máske einhverjir erfiðleikar á fjármagni til flugvélakaupa á Íslandi núna. Við vitum, að flugfélögin, eins þýðingarmikil og þau eru fyrir okkur, gefa okkur líka mikinn gjaldeyri. Ég spyr: Ef við setjum 1200—1500 millj. kr. í fjárfestingu handa alúminíumhringnum svissneska, erum við þá ekki að taka peninga frá íslenzkum atvinnurekendum, sem þurfa nauðsynlega á þessu fé að halda? Og mér þætti vænt um, að það sýndi sig ekki, að stöðvun kæmi í einhver af slíkum atvinnurekstrarfyrirtækjum, vegna þess að fjármagn skorti.

Þá er enn fremur í sambandi við þetta frv. allt gengið út frá, að ríkissjóður skuli hér ábyrgjast. Hann á að ábyrgjast allt hvað snertir Landsvirkjunina, hann á að ábyrgjast allt hvað snertir Hafnarfjörð. Nú á ríkissjóður allt í einu að ganga í ábyrgð fyrir því, að Landsvirkjunin standi sig hvað rafmagnið snertir. Nú er það ekki lengur nóg, að Landsvirkjunin með sínum eignum, ef í skaðabótamál væri farið, stæði fyrir slíku, heldur sýnist mér í þessum lögum vera gert mjög mikið ráð fyrir, að alls konar truflanir og slíkt, sem þarna gætu orðið, gætu lent f fyrsta lagi á Landsvirkjun og í öðru lagi á ríkissjóði, á sama tíma sem það hefur sýnt sig, að íslenzkir atvinnurekendur hafa aldrei fengið neina slíka ábyrgð fyrir neinu tjóni, sem af neinum rafmagnsvandræðum kynni að stafa, og hafa þó vafalaust margar vélarnar eyðilagzt fyrir lága spennu og annað slíkt og íslenzkir atvinnurekendur aldrei fengið neina bót frá ríkinu fyrir það. Á hér álit í einu ríkissjóður að fara að ganga í ótakmarkaða ábyrgð, eftir að búið er að lesa yfir okkur þing eftir þing af hæstv. fjmrh. um það, hve ófært það sé, að íslenzkur ríkissjóður sé í ábyrgð fyrir allt mögulegt? Ég vil um leið leyfa mér að spyrja, af því að ég fékk það ekki alveg hreint út úr yfirlestrinum á þessu frv., um það fé, sem hafnargerðin, sem þarna á að reisa, kostar: Lánar hringurinn allt það fé fyrir fram? Ég sé, að hann á að borga þá hafnargerð eða það, sem hún kostar, smátt og smátt, en lánar hann allt þetta fé fyrir fram, eða hvernig á að útvega það fé, sem í þetta þarf, án þess að það komi nokkurs staðar annars staðar niður? Ég trúi ekki öðru en það sé fyrir því séð, því að náttúrlega er Hafnarfjarðarbæ ofvaxið að gera þessa hluti. En mér þætti vænt um að fá nánari skýringu á því.

Þá vil ég enn fremur leyfa mér að spyrja hæstv. iðnmrh. Ég skil svo, að í þessum samningi sé gert ráð fyrir, að það megi undir sérstökum kringumstæðum, sem kallað er „force majeure“, fella niður greiðslu á raforkuverði, og þegar talið er upp allt það, sem þarna eru óviðráðanleg öfl eða „force majeure“, er m.a. talað um verkföll, þá er talað um allsherjarverkföll, þá er talað um staðbundin verkföll og þá er talað um sérstakar — orðalagið: sérstakar vinnudeilur, og eftir því sem mér skilst, lagt mjög ríkt á, að ríkisstj. sé þarna í mikilli ábyrgð og henni beri að sjá til þess, að einskis sé látið ófreistað til þess að koma þarna á fullri vinnu aftur og annað slíkt. Ég vil spyrja: Er það svo, ef verkföll eru gerð þarna og við segjum, að þau verkföll gætu staðið mánuðum saman, hefur þá hringurinn á einhvern hátt leyfi til þess að fella niður greiðslur af raforkuverði á meðan eða er hann alveg bundinn við að greiða raforkuverð, þó að verksmiðjan gangi ekki mánuðum eða árum saman? Ég vil spyrja að þessu vegna þess, að því var lýst yfir hérna, að þótt verksmiðjan væri lokuð, yrði greitt áfram rafmagnið. Er þetta undir öllum kringumstæðum? Eða er þetta bara undir vissum kringumstæðum? Ég spyr að þessu vegna þess, að ég vil fá að vita, hvort óbeint getur falizt í þessum lögum, að íslenzkri ríkisstj. beri skylda eða hún sé af efnahagslegum ástæðum kannske neydd til þess, ef verkföll eru gerð í svona verksmiðjum, að banna þau verkföll, vegna þess að það álitist innan hennar valdsviðs að geta komið í veg fyrir verkföll með því að banna þau með lögum. Við þekkjum þess dæmi, að það hafi verið bönnuð verkföll á undanförnum árum við einstök fyrirtæki, og ég óska eftir því að fá skýringu á því ótvírætt, hvort slíkt er hugsanlegt samkv. þessum lögum. Það er í 42. gr., 2. og 3. mgr. þar, það sem nefnt er 4202 og 4203, eru að vísu ákaflega flókin ákvæði í þessum efnum. Ég hef ekki lesið það á enskunni, ég veit ekki, hvort það yrði kannske rétthærra mál, þegar ætti að fara að dæma um þetta af erlendum dómstólum, en hafa vil ég a.m.k. skýringu hæstv. ráðh. á þessum atriðum, áður en þau yrðu rædd nánar. Þessi ákvæði eru svo flókin og svo margbrotin og svo margar undanþágur þarna í, að það skal alveg sérstaklega skarpa lögfræðinga til þess að reikna það út, hvað þarna er. En hitt veit ég, að sá skilningur, sem hæstv. iðnmrh. leggur í þetta, hefur gildi fyrir Alþ. seinna meir, ef við eigum slíkt eftir eða þeir, sem hér koma til með að eiga sæti seinna meir, þegar við værum allir farnir, í þeim deilum, sem þeir kæmu til með að eiga í við þetta fyrirtæki, sem nú á að fá þessi sérréttindi hér til 45 ára.

Þá vildi ég aðeins út frá því, sem hæstv. iðnmrh. minntist á, þegar hann talaði um skattana, minna á það, að þau sérréttindi, sem hringurinn áskilur sér í sambandi við skattgreiðslurnar og hvernig þá skuli reikna út, það sem rætt er um m.a. sérstaklega á bls. 100, þau eru mjög viðtæk. Ég vil benda á, að þeir menn, sem kunnugastir eru alúminíumframleiðslu í heiminum og hafa rætt sérstaklega og skrifað um, hve gífurleg fjárfesting það er, sem fram fer núna, bæði í Ghana og Guineu, eins og hv. 5. þm. Vesturl. kom inn á, hafa gengið út frá því, að nokkur hætta kynni að vera á því, að verðfall yrði á alúminíum út af þessari gífurlegu fjárfestingu á árinu 1967, ekki sízt vegna þess, að Bandaríkjastjórn liggur, eins og kunnugt er, með alúminíumbirgðir, sem samsvara heimsframleiðslunni í tvö ár, þannig að hvenær sem eitthvað lítur friðsamlegar út í heiminum og Bandaríkjastjórn kynni að álita rétt að setja að einhverju leyti þær birgðir á heimsmarkaðinn, væri búizt við verðfalli á þessu. Og ég vil aðeins leggja áherzlu á það, því að við verðum að skoða allar hliðar á þessu máli, að þessi hringur — svissneski hringur — virðist tryggja sig mjög skarplega gegn öllu slíku verðfalli og setja sína skatta svo að segja niður í ekki neitt eða niður í mjög lágt, svo framarlega sem þannig færi.

Ég vil enn fremur, vegna þess að þarna er líka rætt um það á bls. 100, að ríkisstj. muni draga úr framkvæmdum, svo framarlega sem það sýni sig að verða nauðsynlegt til þess að tryggja vinnuafl fyrir þennan hring og þær aðgerðir, sem í sambandi við hann standa, m.ö.o. að það á að svipta landsmenn þeirri þjónustu, sem skólabyggingar, sjúkrahúsbyggingar og aðrar slíkar eru, og hefur þó ekki annar ráðh. lýst því öllu betur en hæstv. iðnmrh., þegar hann sem heilbrmrh. talar yfir okkur um þörfina á aukningu spítalanna, en sem sagt úr allri þessari þjónustu ætti að draga, til þess að við gætum leyft þessum erlenda auðhring að komast hér að. Svo er okkur sagt, að þessi Búrfellsvirkjun væri í raun og veru ókleif fyrir okkur, nema við féllumst á að láta þennan útlenda hring fá þessi fríðindi. Er þetta rétt? Gátum við ekki sjálfir virkjað Búrfell? Við skulum segja, að við hefðum viljað virkja það svona stórt og við hefðum kannske gert það þá í tveim áföngum. Við skulum segja, að það hefði kostað svona 1700—2000 millj. kr., eins og gengið er út fra. Er það ekki barnaleikur fyrir okkur að útvega fé til þess að virkja þetta núna? Í fyrsta lagi, við eigum sjálfir gjaldeyrissjóð upp á 200U millj. kr., það, sem við eigum til, samsvarar þessum peningum, nú þegar í sjóði. Í öðru lagi, við fjárfestum árlega milli 5 og 6 þús. millj. kr., m.ö.o. á 10 árum t.d. fjárfestum við milli 50 og 60 þús. millj. kr. Er ekki virkjun upp á 1700 millj. alveg barnaleikur fyrir þjóð, sem fjárfestir slíkt, svo framarlega sem hún hefur einhverja stjórnsemi í fjárfestingu? Nokkrir heildsalar, sem vafalaust eru á hausnum, fjárfesta hér í 16 verzlunarhúsum inn við Suðurlandsbraut 500 millj. kr., þeir leika sér að þessu, nokkrir ríkir auðmenn hérna í Reykjavík, að koma upp hér nokkrum húsum, sem mundu samsvara þriðjungnum af því, sem við þyrftum til að koma upp á einu ári Búrfellsvirkjun. Við erum með þjóðartekjur, sem eru 17 þús. millj. kr. á ári, og þá ætti þetta að virkja Búrfell að vera einhver erfiðleiki fyrir okkur. Hv. 1. þm. Austf. minntist á það hérna í sinni ræðu, að þegar Sogsvirkjunin hefði verið framkvæmd, hefði það ekki verið nema það, sem samsvaraði hálfum fjárl. þá, ætli fjárl. hafi ekki þá verið í kringum 20 millj. kr. Nú eru fjárl. í kringum 4000 millj., held ég, eitthvað um það. Það eru ekki einu sinni hálf fjárlög, þó að við tækjum Búrfell, eins og það er núna.

Þetta er barnaleikur miðað við það, sem við höfum verið að gera á undanförnum áratugum, að gera þetta sjálfir. Og þó efast ég ekkert um, að það er ekkert auðveldara en að fá lán til 10—20 ára til þess að virkja Búrfell og það með betri kjörum en Alþjóðabankinn lætur okkur fá. Ég vil þess vegna segja: Við vorum á engan hátt nauðbeygðir til þess að fara að biðja þennan hring um að koma hérna til okkar og njóta okkar auðlinda með okkur og fá þau sérréttindi, sem hann á að fá hér.

Ég ætla ekki hér að fara að ræða sérstaklega það, sem snertir Búrfellsvirkjunina. Það hafa aðrir gert það rækilega á undan mér, og ég ætla ekki að fara út í það. En ég ætla að segja það, að ég sakna þess hins vegar, að í plaggi, sem lagt er hér fyrir okkur, — en það kemur vonandi, þegar málið kemur aftur frá fjhn., að það skuli ekki vera tekið með í álit frá landsvirkjunarstjórn líka álit þeirra aðila, sem mest hafa gagnrýnt þetta tæknilega séð, eins og Sigurðar Thoroddsens verkfræðings. Fyrir Alþ. eiga að liggja öll álit í þessum efnum.

Þá er komið að því, að það eigi nú ekki að vera erfitt fyrir okkur að undirskrifa þann samning, sem nú er lagður fyrir og felst líka í þessum lögum, en er lagður fyrir sérstaklega, um gerðardóma í þessum efnum, þessi CID-samningur eða hvað hann er kallaður. Alþjóðabankinn er að beita sér fyrir, að þessi samningur sé gerður. Hvert er inntak þessa samnings? Inntak þessa samnings er það annars vegar að tryggja, að ákveðin ríki, sem flytja út fjármagn, séu þarna aðilar og hins vegar ríki, sem fjármagn er flutt inn hjá. Þau ríki sem flytja út fjármagn, eru fyrst og fremst ýmis auðvaldsríki Evrópu, og tilgangurinn með þessum samningi er að tryggja aðstöðu þeirra og þess auðmagns, sem þau flytja út, hjá þeim löndum, sem þeim þykir að einhverju leyti varhugavert að treysta á réttarfarið hjá. Þegar farið er fram á við okkur Íslendinga að undirskrifa þennan samning eða fallast á þau rök, sem fela í sér skuldbindingu um að hlíta gerðum þessa samnings, hvort sem við staðfestum hann eða ekki, þá er farið fram á við okkur að vera í þeirri aðstöðu, sem gömlu nýlenduríkin eru í. Það er ekki farið fram á við okkur að vera í þeirri aðstöðu, sem Noregur, Danmörk, England eða Bandaríkin eru í, sem flytja út fjármagn. Það er verið að fara fram á við okkur að setja okkur í þá aðstöðu, sem þau ríki eru í, Ghana, Guinea eða önnur slík, sem flytja inn fjármagn og auðvaldsríkjunum í Evrópu þykir valt að treysta. Við erum settir á bekk með þessum nýlenduríkjum, og ég óska eftir því og vonast til þess, að í n., ef ekki fyrr, verði það upplýst, hver af slíkum ríkjum það eru, sem þegar hafa undirskrifað og samþykkt þennan gerðardómssamning.

Þá vil ég enn fremur benda á, að það er talað um að gera þennan samning til 45 ára, m.ö.o. er veríð að svipta komandi kynslóð rétti til þess að ráða einhverju um þetta. Það er verið að binda komandi kynslóðum byrðar. Við, sem hér sitjum á þingi nú, a.m.k. þeir, sem nú hafa setið lengst af okkur, fara nú brátt að hverfa, höfum setið hér 25—30 ár ýmsir. Eftir 25—30 ár munu vafalaust mjög fáir af þeim, sem nú sitja hér í dag, enn þá sitja á þingi. En þá verða enn þá eftir 20 ár, sem landsbúar eiga að búa við þau lög, sem skammta skal í dag. Þess vegna, þegar menn ætla að binda komandi kynslóðum þá bagga, sem með þessu eru bundnir, ber mönnum skylda til þess að athuga vel sinn gang, ef menn ætlast ekki til þess, að komandi kynslóðir gripi til annarra aðferða til þess að hrinda þeim viðjum, sem þær eru bundnar í.

Þá skulum við koma að því, sem hér hefur verið sérstaklega mikið gert úr, bæði af hv. 5. þm. Vesturl. og hæstv. iðnmrh., og það er, hve dýrmætt það sé fyrir okkur að laða til okkar erlent fjármagn, og hæstv. iðnmrh. hafði þau orð um, að Norðmenn hefðu misst af þessari virkjun, sem sé þegar auðhringurinn var að láta öll þessi fossalönd keppa, hefðum við orðið svo duglegir í að undirbjóða, að Norðmenn hefðu misst af þessari virkjun. Og hv. 5. þm. Vesturl. komst einmitt að orði um það, að við hefðum orðið að keppast um að komast í þessa aðstöðu. Nú skulum við athuga, hvað þetta erlenda fjármagn, sem við nú ætlum að fá hér inn, þýðir fyrir okkur.

Við erum allir sammála um það, og við höfum allir staðið að því, allir flokkar á Íslandi, að veita inn erlendu fjármagni hér sem lánsfé, og við höfum ekki verið neitt sérstaklega hræddir við það. Við höfum haft alla gát, en við höfum ekki verið sérstaklega hræddir. En hér er sem sé um alveg nýtt að ræða, að veita erlendu fjármagni beint inn í efnahagslif á Íslandi. Hver verða nú áhrif þessa erlenda auðhrings, þegar hann er kominn hér inn? Þessi erlendi auðhringur á hér auðmagn, eftir að hann er búinn að koma þessu fyrirtæki upp, upp á 2500 millj. kr. Hann hefur gróða árlega af þessu auðmagni, sem við skulum segja, að sé í kringum 400 millj. kr. á hverju ári. Það þýðir m.ö.o., að þessi auðhringur hefur alveg sérstaklega mikilla hagsmuna að gæta á Íslandi, í fyrsta lagi til að tryggja sína eign og hennar afnot og í öðru lagi til að tryggja sinn gróða og það, að hann haldist við. Hvað er nú fjármagn allra íslenzkra atvinnurekenda, allrar þeirrar íslenzku borgarastéttar, sem Sjálfstfl. alveg sérstaklega hefur beitt sér fyrir og barizt fyrir, að ekki yrði sett á hausinn með óhóflegum kröfum af hálfu verkalýðshreyfingarinnar? Ég þori ekki að segja nákvæmlega, hvað það er í dag. Ég veit, að fyrir nokkrum árum var fjármagnið í öllum iðnaði og sjávarútvegi Íslands um 6000 millj. kr., og ég þykist vita, að af því fjármagni þá hafi mjög stór hluti verið lán frá hálfu ríkisbankanna. Ég skal ekki neitt fullyrða um, hvað öll íslenzk atvinnurekendastétt í iðnaði og sjávarútvegi á í því efni. Ég býst við, að það þýddi ekkert að líta í skattaskýrslurnar. Ég býst við, að við fengjum lítið að vita úr þeim. Máske á hún um 2500 millj. kr. í skuldlausum eignum, máske á hún 3000 millj. kr. í skuldlausum eignum, máske á hún meira. Ég vona, að við fáum upplýst í þessum umr., hvað hún á. En ef eitt fyrirtæki kemur inn í landið, sem á sjálft 2500 millj. kr. í einni verksmiðju hér eða álíka mikið máske og öll íslenzk borgarastétt til samans, er þá ekki orðin nein breyting á efnahagslífinu á Íslandi? Er ekki orðin gerbreyting á því? Við Íslendingar höfum haft þá sérstöðu, og þar kom okkar bitra reynsla sem raunveruleg nýlenduþjóð í gegnum aldirnar til skjalanna, að við höfum verið allra Vestur-Evrópuþjóða andvígastir því að veita erlendu fjármagni inn í okkar atvinnulíf. Við höfum viljað eiga okkar atvinnulíf sjálfir. Og þess vegna er það svo, að eftir 1945, eftir síðasta stríð, hefur svo að segja ekkert erlent fjármagn verið í fyrirtækjum á Íslandi. Það var ofurlitið á milli stríðanna. Og þetta er einn höfuðgrundvöllurinn undir því, hve Íslendingar hafa staðið vel á verði um sitt sjálfstæði, að okkar efnahagslega sjálfstæði í okkar atvinnulífi hefur verið tryggt. Nú kemur þarna aðili, sem er jafnríkur og jafnvel flestallir íslenzkir atvinnurekendur til saman. Og það fyrsta, sem auðvitað gerist, er það, að atvinnurekendastéttin á Íslandi er þannig gerbreytt, íslenzk atvinnurekendastétt hefur á ýmsan hátt verið — við skulum segja frekar veik, t.d. í sinni afstöðu gagnvart verkalýðnum. Hún hefur ekki verið sérstaklega sterk. Verkalýðurinn hefur verið mjög sameinaður og í þeirri stéttabaráttu, sem hér hefur verið háð, hafa verkalýðssamtökin verið sterk. Eftir að þessi erlendi atvinnurekandi er kominn hér inn, er ástandið gerbreytt. Íslenzkir atvinnurekendur hafa allir verið meira eða minna háðir íslenzkum ríkisbönkum og íslenzkri ríkisstj. Þessi erlendi aðili, sem kemur hér inn, er í engu háður íslenzkum ríkisbönkum og raunverulega þaðan af síður íslenzkri ríkisstj. M.ö.o.: aðstaða atvinnurekendastéttarinnar á Íslandi er gerbreytt með þessum samningi. Atvinnurekendastéttin á Íslandi, — ég segi ekki íslenzk atvinnurekendastétt, heldur atvinnurekendastéttin á Íslandi er orðin margfalt sterkari í sinni afstöðu, fyrst og fremst vegna þess að hún er orðin margfalt ríkari heldur en hún var. Við þá atvinnurekendastétt, sem með þessu yrði upp risin á Íslandi, er miklu erfiðara að ráða fyrir íslenzka ríkisstj. og fyrir íslenzka banka, vegna þess að íslenzkt ríkisvald hefur ekki sömu áhrif á þessa nýju atvinnurekendastétt, sem hér rís upp, eins og hún hefur á þá gömlu. Við höfum orðið varir við það, að hjá Alþfl. hefur komið upp nokkur ótti í sambandi við þetta. Formælandi Alþfl. hér áðan, hv. 5. þm. Vesturl., lét þau orð falla, að Alþfl. vildi tryggja það, að þetta yrði ekki til þess að gera íslenzka atvinnurekendur eða atvinnurekendurna á Íslandi miklu sterkari og voldugri og harðvítugri gagnvart verkalýð heldur en áður hefði verið. Og hann þóttist geta komið í veg fyrir slíkt. Hann lýsti því yfir, að Alþfl. mundi krefjast yfirlýsingar frá þessum hring, frá þessum volduga auðhring um, að hann yrði ekki í íslenzkum atvinnurekendasamtökum. Ég veit, að það var búið að ræða um það við svissneska auðhringinn, þegar þm.-nefndin kom til fundar við hann í Sviss, að hann yrði í þessum atvinnurekendasamtökum, og þeir fóru ekkert dult með það, forstjórar Swiss Aluminium, að fram á það hefði verið farið við þá. Það vantaði ekki áhugann náttúrlega hjá ýmsum íslenzkum atvinnurekendum og þeirra pólitísku erindrekum að reyna að fá þennan hring inn í þeirra samtök. Hins vegar býst ég við, að það sé tiltölulega útlátalaust fyrir þennan hring að gefa yfirlýsingu um, að hann muni ekki fara í þessi samtök. Þessi hringur hefur næga möguleika samt að skipta sér af íslenzku atvinnulífi og íslenzku stjórnmálalífi, þótt hann gefi eitthvert slíkt bréf. Hins vegar mun á þetta reyna. Vafalaust verður flutt brtt. við það lagafrv., sem hér liggur fyrir, um, að þessum hring sé algerlega bannað á nokkurn máta að hafa nokkur afskipti af nokkrum íslenzkum innanlandsmálum og öll þau réttindi, sem ætti að veita honum í þessu, væru niður fallin, hvenær sem slíkt sannast á hann, og það mun þá sýna sig, hvort þeir menn, sem vilja banna hringnum slik afskipti, eru reiðubúnir til þess að samþykkja slíkt. En upp úr einni lítilli yfirlýsingu frá forstjórunum legg ég lítið.

Það, sem er höfuðatriðið í sambandi við tilkomu þessa erlenda hrings, eru áhrif hans á íslenzk stjórnmál. Þessi auðhringur verður á næstu áratugum sterkasti aðilinn í íslenzkum stjórnmálum. Hvort sem þeir forstjórar, sem fyrir honum eru, hafa eða hafa ekki hugsað sér það, kemur hann til með að verða það, m.a. vegna þess, að það verða ákveðnir íslenzkir aðilar, — og þar með á ég við einstaklinga, ég á ekki við Sjálfstfl, í heild, síður en svo, — en það verða ákveðnir íslenzkir aðilar, sem koma til með að vinna að því öllum árum að fá þennan hring beint og óbeint til að skipta sér af íslenzkum stjórnmálum, og við munum strax sjá það, þegar stjórn ÍSALs verður skipuð og þau sambönd, sem nú þegar eru farin að koma fram í þessu sambandi, hverjir það séu, sem hugsa til sérstaklega að reka hans erindi hér. Við hindrum ekki náttúrulögmálin í því að hafa sína rás. Og það er eins og náttúrulögmál, að þegar auðmagn einu sinni er komið upp, leitar það til áhrifa á stjórnmál. Það voru ekki fyrr komnir upp hér nokkrir stórkaupmenn, íslenzkir og danskir, heldur en þeir ákváðu að skapa sér hér í Reykjavík dagblað og ákváðu að koma sér hér upp flokki. Og þeir kúguðu, eins og kunnugt er orðið, eigendur Morgunblaðsins til þess að selja sér Morgunblaðið árið 1919 með því að hóta þeim að koma annars upp hér dagblaði, þar sem þeir settu allar sínar auglýsingar, og dræpu þannig Morgunblaðið. Það er gefið, að um leið og auðmagn er til komið og lætur til sín taka, fer það að beita sínum áhrifum í stjórnmálum. Það eru engir hlutir eðlilegri heldur en auðfélag, sem á 2500 millj. kr. undir því, hvernig stjórnmálin þróast á Íslandi, að slíkt auðfélag vilji hafa áhrif á, hvernig stjórnmál þróast á Íslandi. Og það er ekkert eðlilegra en auðhringur, sem græðir 400 millj. kr. á ári á Íslandi, vilji geta haft hönd í bagga um það, hvort farið sé að skera af honum hans gróða eða ekki. Það er jafneðlilegt og stéttabaráttan skapast, að voldugt auðfélag reyni að skapa sér áhrif á stjórnmál. Og ég vil bara spyrja menn: Haldið þið, að það séu einhver vandræði fyrir Swiss Aluminium eða ÍSAL að ná hér áhrifum yfir blöðum? Haldið þíð, að það sé nokkur vandi fyrir hring, sem græðir 400 millj. kr. á ári, að stjórna hér og eignast blöð, sem tapa svona 2—3 millj. kr. á ári? Haldið þið, að það sé nokkur vandi fyrir svona hring að verða voldugasta stjórnmálaaflið á bak við tjöldin með þeim mönnum, sem hann teflir fram fyrir sig? Nei. (Forseti: Ég bið hv. 3. þm. Reykv. afsökunar, en áformað hafði verið að fresta fundinum til kl. 17.30. Ég vil spyrja hann, hvort hann treysti sér til að ljúka ræðu sinni á örfáum minútum eða hvort hann kjósi að fresta henni.) Ég vil heldur fresta. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég held, að það væri nú rétt að láta hæstv. iðnmrh. vita af því, að við værum að halda áfram fundi. (Gripið fram í: Hann er á leiðinni.) Jæja, þá er allt í lagi.

Ég var þar kominn í minni ræðu, þar sem ég ræddi um þau hugsanlegu áhrif, sem þetta mikill auðhringur mundi hafa í sambandi við vinnudeilur hér á Íslandi og í sambandi við stjórnmál, og ég hafði beint þeirri spurningu til hæstv. iðnmrh., hvernig það mundi vera, svo framarlega sem verkföll yrðu gerð hjá hringnum, hvort það mundi þýða fyrir ríkisstj., að hringurinn hætti að greiða raforkuverðið og ríkisstj. stæði þá þannig uppi, að hún yrði að halda áfram greiðslum til Alþjóðabankans á raforkuverðinu fyrir hringinn. Þetta er alveg nauðsynlegt, að sé alveg ótvírætt upplýst. Svo fremi sem það væri svo, að hringurinn gæti hætt greiðslum fyrir raforkuna, ef verkföll væru í verksmiðjunni, þýðir það í fyrsta lagi, að auðhringur þessi hefur mjög mikil efnahagsleg tök á ríkisstj., sem hann getur notað til þess að knýja hana til þess að reyna að leysa slíkar vinnudeilur með lagaboði. Þetta mundi þýða, að ríkisstj. væri komin í þá klemmu, að hún yrði að standa skil á mjög miklum greiðslum vestur til Alþjóðabankans án þess að fá nokkuð í staðinn frá hringnum. Með þessu móti skapar hringurinn sér mjög sterk tök fjárhagslega á ríkisstj. og gæti knúið hana sem sé út í leiðinlegar aðgerðir gagnvart verkalýðnum. Enn fremur skilst mér, að með þessu móti geti hringurinn alltaf skapað sér átyllu til að stöðva verksmiðjuna, ef honum lízt illa á markaðshorfur eða slíkt, án þess að þurfa að ganga inn á nokkrar þær skuldbindingar, sem hæstv. ríkisstj. var að hæla sér af að hafa tryggt. Við skulum segja, að það sé verkfall hjá verksmiðjunni og hringurinn neitar að semja við verkamenn og hann gerir það til þess að láta verksmiðjuna stöðvast án þess að þurfa sjálfur að borga raforkuverðið. Þá getur hann haldið verksmiðjunni stöðvaðri eins lengi og hann vill með verkfali að yfirvarpi án þess að standa við sínar skuldbindingar gagnvart ríkisstj. Mér sýnist, að bæði á því sviði og ótal öðrum geti hringurinn þannig skapað sér alls konar útgöngudyr í sambandi við þessa samninga, sem hér liggja fyrir. Enn fremur vil ég benda á, af því að það er mál. sem við höfum svo litið haft að segja af á Íslandi: Hringurinn gerir kröfur til þess að fá að flytja inn erlent verkafólk, svo fremi sem verkfall er nú hjá hringnum og íslenzkir verkamenn hafa ekki viljað semja. Hvernig er þá, ef þessi erlendi hringur flytur inn erlent verkafólk, sem hann ræður fyrir lægri kjör, íslenzkt atvinnurekendasamband, segjum við, og hann semur á ýmsan hátt við þetta verkafólk? Er honum sköpuð með þessu móti aðstaða til þess að geta notað erlent verkafólk sem verkfallsbrjóta? Það er fyrirbrigði, sem við höfum ekkert haft af að segja vegna okkar vinnulöggjafarlaga í þrjá áratugi. En ég er ákaflega hræddur um, að það væri hægt að opna þann möguleika fyrir þennan hring með þessu móti. Þannig er það, að þegar við förum að athuga þessa hluti raunhæft, komum við til með að sjá, að það sé margt í því, sem hefði þurft að athuga miklu betur og eru mjög hættulegar útgöngudyr fyrir þennan hring með öllu því valdi, sem hann hefur.

Hv. 5. þm. Vesturl. talaði hér um það, að Íslendingar ættu að fara að eins og aðrar þjóðir að hleypa fjármagni beint inn í landið, en ekki bara sem lánsfé. Þar kemur fram hjá honum það, sem er orðið því miður ákaflega titt hjá okkur, að það er talað um þessi mál án þess að gera sér að nokkru leyti ljósa sérstöðu okkar Íslendinga. Okkar smæð sem þjóðar er þannig, að það, sem getur verið hættulaust fyrir ríki eins og Noreg, sem ekki er neitt stórt ríki, getur verið stórhættulegt fyrir okkur. Norðmenn hafa hleypt inn þó nokkru erlendu auðmagni og meira að segja gert sérstakar ráðstafanir til þess að reyna að fá það inn í landið, og á vissum sviðum hjá þeim er þetta erlenda auðmagn þó nokkuð mikill hluti af vissum atvinnugreinum. En hvað er þetta auðmagn sem heild hjá Norðmönnum? Þetta auðmagn sem heild er ekki meira en milli 5 og 10% af því fjármagni, sem er í Noregi, og það þótt maður taki bara norskan iðnað, sjávarútveg og samgöngur. Hvað yrði aftur á móti þetta útlenda fjármagn hér á Íslandi? Það yrði strax með þessari verkmiðju, eins og hún er, 60 þús. tonna verksmiðju, um þriðjungurinn af því fjármagni, sem er í iðnaði og sjávarútvegi á Íslandi. Og ef þessi verksmiðja yrði stækkuð, — við munum eftir því, að hringurinn minntist á þann möguleika strax í upphafi, að hann hefði kannske áhuga á að stækka hann í 120 þús. tonn, – væri helmingurinn af öllu fjármagni á Íslandi, ég tala nú ekki um, ef maður reiknaði með fjármagni í einkaeign, orðinn í höndum útlendinga. M.ö.o.: það eru slíkar stökkbreytingar, sem verða á íslenzku efnahagslífi, þegar við hleypum inn erlendu auðmagni í svona stórum stíl, miðað við okkar fjármagn, sem fyrir er, að það umhverfir alveg íslenzku efnahagslífi. Það, sem hefur lítil eða engin pólitísk áhrif í Noregi, mundi þess vegna hafa alveg stórkostleg áhrif á Íslandi.

Þá sagði hv. 5. þm. Vesturl. líka, að að sjálfsögðu verður að lita á samninga við útlenda aðila sem samninga við erlent ríki. Ég skil ekki, hvernig nokkrum þm. dettur slíkt í hug, að leyfa sér að tala um það, að það sé sjálfsagt að líta á samninga við erlenda aðila eins og samninga við erlent ríki. Ættum við að líta á samninga t.d. við skulum segja við Samband brezkra togaraeigenda, ættum við að líta á samninga við þá eins og það væru samningar við erlent ríki? Hvað er eiginlega verið að fara með þessu? Eins og einhver og einhver auðmaður einhvers staðar úti í heimi eða auðfélag eigi að hafa sama rétt gagnvart Íslandi, lýðveldinu Íslandi, eins og þau ríki, sem við semjum við. Ég skil ekki, hvernig nokkrum þm. dettur þetta í hug. Náttúrlega eru samningar við einstaka aðila erlendis allt annar hlutur. Íslenzkir aðilar geta gert einhverja samninga við aðila erlendis, og það meira að segja er opið í okkar hlutafélagalögum, að útlent fjármagn getur komið hér inn. Það eru aðeins viss ákvæði, sem skuldbinda þá til þess, að það skuli vera í minni hluta í hlutafélögunum. Þetta er eins og hver önnur vitleysa, náttúrlega nær ekki nokkurri átt, að við eigum að gera útlendum auðmönnum það hátt undir höfði, að við skoðum þá eins og erlent ríki. Fyrr má nú vera dýrkun á auðvaldi heldur en það. Hér er um tvennt algerlega ólíkt að ræða. Þegar íslenzka ríkið gerir samning við erlent ríki, verða tveir a.m.k. lagalega séð jafnréttháir aðilar að eigast við. Hins vegar ef gerður er samningur við einhvern útlendan aðila, eins og einhvern auðmann eða auðfélag eða svoleiðis, er það allt annað. Svona hugtakarugling á maður ekki að heyra hér á Alþingi.

Þá segir hv. 5. þm. Vesturl.: Eigum við að nota erlent fjármagn? Jú, menn séu sammála um að nota það sem lán, en eigum við að nota erlent fjármagn beint? Hann segir, að Alþfl. sé á móti því að gera þetta að almennri reglu, og hann leggur áherzlu á, að það skuli vera farið þarna að með gát. Já, ég mundi hafa óskað eftir því, að Alþfl. hefði sýnt slíka gát nú undireins, og ég er hræddur um, að hann hafi gleymt þeirri gát, þegar hann fellst á þennan samning. Alþfl. segist vera á móti því að gera þetta að almennri reglu, en þegar asni klyfjaður gulli er einu sinni kominn inn um borgarhliðin, gildir annar mórall í borgríkinu eftir það. Þegar þessi svissneski auðhringur einu sinni er kominn hingað inn, þegar hann með sinn 400 millj. kr. gróða á ári er byrjaður að skipta sér af íslenzkum stjórnmálum, er aðstaðan orðin allt önnur. Það er komið hér vald, verulega mikið vald inn í íslenzk stjórnmál, og þótt Alþfl. hafi möguleika í dag til þess að stöðva þetta mál, er enginn kominn til þess að segja, að hann verði neitt spurður að því, ef það verður ekki búið að breyta hans skoðun, þegar næsti hringur vill koma hingað inn. Við erum að opna upp á gátt með þessu móti, að hleypa svona voldugum auðhring hérna inn, sem strax getur haft svo og svo mikil áhrif í okkar stjórnmálum. Þess vegna skortir Alþfl. í dag einmitt þá gát, sem hv. 5. þm. Vesturl. var að tala um. Menn hefðu ekki verið neitt hræddir um það, skulum við segja, þó að einhverjir útlendingar hefðu kannske byggt hérna hótel eða eitthvað þess háttar, menn hefðu ekki búizt við, að þeir hóteleigendur færu að stjórna landinu. Þeir væru jafnokar íslenzkra auðmanna, og ég get vel skilið, að Alþfl. segði: Við hefðum ekkert á móti slíku. — En þegar um svona stór atriði er að ræða, gleymir hann þeirri gát, sem hann átti að hafa.

Svo tekur hv. 5. þm. Vesturl. þann samanburð, að Ísland hafi sett upp fyrirtæki í Bandaríkjum. Heldur nú hv. 5. þm. Vesturl., að Bandaríkjunum stafi stór hætta af því fyrirtæki, sem við höfum sett upp í Bandaríkjunum? Hélt hann, að þó að Sambandið og SH hefðu sett upp tvær litlar verksmiðjur þarna á einhverjum stað, að Morgan og Rockefeller og allir þessir færu að skelfast okkur eitthvað þess vegna? Nei, við skulum ekki vera að jafna þessu neitt saman. Það má vel vera, að hann hafi haft rétt fyrir sér hins vegar með hina samlíkinguna, það, að við höfum verið að reyna að nota þarna fátæka negra á atvinnulausum svæðum Bandaríkjanna til þess að fá ódýrt vinnuafl, þ.e. Sambandið og SH, og ég býst við, að þar eigi einmitt við það, sem Swiss Aluminium er að gera hér á Íslandi. Hann er að nota sér lágt kaup, sem hér er, ódýrt rafmagn, sem hann fær undir framleiðslukostnaði, og fyrirhyggjulítil yfirvöld, sem vita ekki, hvað þau eru að gera, þegar þau hleypa þessum hring inn. Að því leyti á kannske við að einhverju leyti samlíking hv. 5. þm. Vesturl. um, að við höfum verið að nota okkur slæma aðstöðu annarra manna, þegar við reistum þessar verksmiðjur þar vestra.

Þá sagði hv. 5. þm. Vesturl., að erlendir auðhringir hefðu verið síður en svo nokkuð æstir í að komast hingað. Hann fór að reyna að bendla vinstri stjórnina við það, að hún hefði eitthvað verið að reyna að leitast eftir að fá alúminíumhring hingað. Það er algerlega rangt, vinstri stjórnin hafði aldrei neitt með slíkt að gera. Það voru einstakir áhugamenn, alveg eins og nú, sem hins vegar voru mikið að leita eftir því að komast í samband við þessa hringi, og mér er fullkunnugt um það, því að það bar oft á góma í þeirri n., sem ég átti sæti í, atvinnumálanefnd ríkisins, þannig að það var vitanlegt, að alveg eins og nú í sambandi við svissneska alúminíumhringinn, þá voru þá menn, sem voru að leita að því, bæði við Reynolds Company og ýmsa aðra, að reyna að fá þá til þess að koma hingað.

Svo notaði hv. 5. þm. Vesturl. það sem rök, að allir þessir hringir, sem hefðu eitthvað verið að athuga þetta hérna, hefðu horfið frá. Það er alveg rétt hjá honum. Það mun engum þessara hringa hafa dottið í hug, að það kæmi nokkurn tíma til mála, að Íslendingar gengju inn á skilmála eins og þá, sem hérna eru lagðir fyrir, til að koma hingað inn. Ég býst við, þegar einn ákveðinn hringur var að athuga þannig með Þjórsá, þegar Reynolds Company var e.t.v. að grennslast eftir þessu á tímum vinstri stjórnarinnar gegnum þann mann, sem ég hef nefnt áður, þá voru þau lög hér í landi viðvíkjandi sköttum og öðru slíku, að ég býst við, að þeim hafi þótt það mjög óárennilegt, og ég býst við, að þeir hafi gengið út frá, að þá væru slík stjórnvöld hér, að þeim dytti ekki í hug að fara að bjóða erlendum auðhringum kjör, sem aðeins nýlendur eða hálfnýlendur bjóða erlendum auðhringum.

Þess vegna er það eðlilegt, að það hafa allir, sem hafa farið að athuga þetta, horfið frá. Það hefur engum dottið í hug, að það væri hægt að ná svona samningum eins og þeim, sem hérna er boðið upp á. Ég býst við, að hann hafi getað fengið Reynolds og Alcoa og hvern sem var til að koma hingað, ef hann hefði farið að koma með svona samninga, eins og hérna er gengið út frá. Ég býst ekki við, að neinum slíkum auðhring hafi nokkurn tíma dottið í hug, að þetta kæmi til mála, að íslenzkir dómstólar ættu ekkert að fjalla um þessi mál, kæmi til mála, að Íslendingar seldu sitt dómsvald út úr landinu og létu einn auðhring ákveða það með sér, hvernig ætti að dæma í málum Íslendinga. Það hefur engum auðhring getað dottið þetta í hug fyrr, þótt einhverjir áhugamenn hafi verið að grennslast eftir, hvort hann vildi koma hingað. Þeim hefur áreiðanlega þótt það óaðgengilegt og svo óaðgengileg sú sjálfstæðiskennd, sem þeir urðu varir við á Íslandi, að þeim hefur ekki dottið slíkt í hug.

Svo minnist hv. 5. þm. Vesturl. á það, hvað þetta sé indæll hringur, hann ætli að taka ábyrgð á þessu svokallaða íslenzka félagi, ÍSAL, upp á 200 millj. kr., það eigi að vera óskaplega dýrmætt fyrir okkur. Hugsið þið ykkur það félag, sem heitir ÍSAL, og það félag á verksmiðju, sem kostar 2500 millj. kr., suður í Straumsvík, og þessi útlendi hringur er svo góður, að hann ætlar að taka ábyrgð á því, að þetta íslenzka hlutafélag, sem á verksmiðju upp á 2500 millj. kr., geri nú ekki neitt af sér! Ætli við þyrftum mikla ábyrgð? Ætli við hefðum ekki aðgang að verksmiðju þarna suður frá, sem þeir ættu? (Dómsmrh.: Þetta er misskilningur.) Hvað er misskilningur í því? (Dómsmrh.: Meðan á framkvæmdum stendur, tekur hann fulla ábyrgð á öllum skuldbindingum samkv. samningi.) Já, en hv. 5. þm. Vesturl. skýrði þetta sem eitt af þeim hlutum, sem væru það góðir við þennan samning, eftir að hann væri kominn á, að þessi ábyrgð væri lekin. Þá er það misskilningur hjá hv. 5. þm. Vesturl. líka, a.m.k. hefur hann ekki komið því rétt út úr sér, ef hann veit betur en ég. (Forsrh.: Hefur ÍSAL komizt rétt inn í hv. þm.?) Ja, jú, en hæstv. forsrh. reynir þá að koma því rétt inn í mig, ef ég hef ekki haft það rétt fram að þessu, og ég vona þá líka, að það komist rétt inn í hæstv. forsrh., það sem ég er að segja.

Þá segir hv. 5. þm. Vesturl., að Norðmenn hafi nú aldeilis ekki orðið varir við, að það hafi verið seilzt þar til pólitískra áhrifa. Nei, það er alveg rétt. Það hefur aldrei verið seilzt til slíkra áhrifa eins og að reyna að komast undan norsku dómsvaldi eða neitt slíkt af þessum hringum, það hefur engum dottið það í hug þar. En hitt aftur á móti, svo lítil áhrif sem erlent auðvald hefur í Noregi, hefur það nú samt komið fyrir, bara í einni lítilli verksmiðju, að það hefur valdið stjórnarskiptum í Noregi. Ég býst við, að þeir stjórnmálamenn, sem eitthvað þekkja til sögu Noregs, kannist við Lilleborgmálið, smjörlíkisherzluverksmiðjuna, sem Unilever-hringurinn átti í Noregi, sem olli stjórnarbreytingu 1931. Hann kemur nefnilega viðar við, Unilever, víðar en hæstv. ráðh. gera sér ljóst. En ef þeir sem sé fletta upp í norskri sögu, geta þeir séð, að meira að segja ríkisstj. hefur fallið á svona máli, og hæstv. ríkisstj. má þess vegna mjög alvarlega vara sig, þegar hún talar djarft í svona málum.

þá talaði hv. 5. þm. Vesturl. líka um það, að þeir ætluðu að útvega þarna yfirlýsingu frá ÍSAL um, að þeir yrðu ekki í atvinnurekendasambandinu. Ég er hræddur um, að Alþfl. þurfi nú að ganga eitthvað tryggilegar frá því heldur en fá eitt lítið bréf frá þeirri góðu stofnun. Ef Alþfl. ætlar að tryggja sig á einhvern hátt, er engin önnur trygging til en sú, — það eru þrjár greinar í þessu frv. til l., — að á eftir 2. gr. sé bætt inn i, að svo fremi sem þetta hlutafélag sýni sig í því að hafa afskipti af íslenzkum vinnudeilum, og ég mundi nú setja þarna inn í: íslenzkum stjórnmálum, skuli þessi samningur þess vera niður fallinn. Það er ekkert annað, sem dugir í þessu, og það mun vafalaust verða reynt á það, hvort Alþfl. stendur með því að ætla sér að koma í veg fyrir, að þessi auðhringur, sem hann nú stendur að því að bjóða að koma inn í landið, geti haft nokkur áhrif í vinnudeilum eða í stjórnmálum hér.

Þá verð ég að segja, að mér finnst nú skörin færast upp í bekkinn, þegar hv. 5. þm. Vesturl. fer að tala um, að það sé verið að gera stóra hluti fyrir dreifbýlið í sambandi við þetta. Ég vil taka fram, að það er verið að gera mikla bölvun fyrir þéttbýlið. Það er verið að undirbúa það að spúa hér eiturlofti yfir þau 100 þús. manna, sem búa hér á milli Kollafjarðar og Keflavíkur. Það er alveg vitað mál, að þetta óloft nær jafnt hér til Reykjavíkur eins og suður á bóginn. En hvað snertir svo aftur á móti dreifbýlið, skulum við bara hugsa okkur, að það eru nú þegar erfiðleikar miklir úti um allt land, en hvernig koma þeir til með að aukast á næstunni? Það er verið að lækka tollana og sleppa ýmiss konar vernd, sem menn hafa haft út um þær dreifðu byggðir landsins til þess að framleiða hina og þessa hluti. Ég skal bara taka sem dæmi eldhúsinnréttingarnar og annað slíkt, sem verið er að hleypa hérna inn núna, menn hafa jafnvel norður á landi verið að framleiða þetta og selja hingað suður, sömuleiðis húsgögn og allt mögulegt. Núna er verið að gera tvennt í senn: gera illmögulegt fyrir þessa menn, sem unnið hafa við slíkt, að halda því áfram, vegna þess að það á að flytja þetta inn frá útlöndum, og í öðru lagi svo að segja ýta á eftir þeim hingað suður með því að margfalda eftirspurnina eftir vinnuaflinu hér. Það er sem sé vitað mál, að það er ekki hægt að gera verri hlut fyrir dreifbýlið á Íslandi heldur en þetta. Þetta er jafnbölvað þannig fyrir þéttbýlið og dreifbýlið, enda eðlilegt, þar sem það er yfirleitt illt fyrir allt Ísland.

Þá kom hv. 5. þm. Vesturl. inn á það síðast, að við hefðum komið hér upp stórrekstri eins og sementsverksmiðjunni og öðru slíku. Jú, ég vildi minna hv. 5. þm. Vesturl. á það, hvernig var, þegar sementsverksmiðjan var sett á laggirnar. Það er e.t.v. nokkuð sláandi dæmi um þróunina og sjálfstæðiskenndina í íslenzkum efnahagsmálum. Þegar sementsverksmiðjan var undirbúin, gerði Marshallsjóðurinn þá kröfu, Alþjóðabankinn, að sementsverksmiðjan væri einkafyrirtæki. Þá sat stjórn Sjálfstfl. og Framsfl. að völdum á Íslandi, og þessi stjórn var á móti því, að sementsverksmiðjan yrði einkafyrirtæki. Hún stóð fast á því, að þetta yrði ríkisfyrirtæki, og var það samt ekki neitt „prinsip“ þessara tveggja flokka. En í þessu tilfelli stóð hún fast á því, að það væri íslenzka ríkið, sem ætti þetta, og Ameríkumenn urðu að láta sig, Alþjóðabankinn varð að láta sig, og sementsverksmiðjan varð ríkisfyrirtæki. Þetta var fyrir rúmum 10 árum, 10–12 líklega. Nú í dag er svo komið, að nú eru það Sjálfstfl. og Alþfl., sem leggja til að koma hér upp þessari stórverksmiðju algerlega með útlendu kapítali. Nú á að vera erlent auðfélag, sem á að eiga þessa verksmiðju. Áður fyrr stóðu meira að segja þessir tveir flokkar á móti því, að það yrði íslenzkt einkafyrirtæki, af því að þeir heimtuðu, að það yrði ríkisfyrirtæki. Þeim þótti það á ýmsan hátt öruggara. Núna er svona komið, að þessir tveir flokkar, sem nú sitja að völdum, gera kröfu til þess, að hér sé fallizt á að koma upp svona stórfelldu erlendu auðfyrirtæki.

Ég hef orðið var við það, þegar um þessi mál er rætt, að hv. þm., jafnt ráðh. sem öðrum, hættir við að hugsa ekki fram í tímann, þegar svona ákvarðanir eru teknar. Hv. 5. þm. Vesturl. sagði: Alþfl. mundi sjá um, að það yrði farið að með gát. — En Alþfl. verður máske ekki spurður, þegar næsta stóra skrefið verður stigið, ef hann verður með í að stíga þetta. Hæstv. iðnmrh. sagði líka í umr., sem fram fóru einu sinni um þetta, að ef við fengjum slæma reynslu af þessum hlut, af þessari gerð, mundum við bara stöðvast þar, og þar mælti hann af sínum góða huga. Ég skil hann alveg. Hann hugsar sem svo: Við erum að leggja út í hlut, sem vitum ekki til fulls um, hvaða afleiðingar hefur, og ef þetta á móti okkar vonum yrði verra en við höfum gert ráð fyrir, þá stöðvumst við þar, þá gerum við ekki slíkt aftur. En aðstaðan er bara sú, bæði hvað snertir Alþfl. og hvað snertir einstaka hæstv. ráðh., að þeir verða e.t.v. ekki spurðir, þegar að þessu kemur. Þeir sæju það kannske eftir á, að þetta hefði verið rangt, þeir væru búnir að fá ofjarl hér inn í landið, sem þeir réðu ekki við, en þá er það bara of seint. Þá eru risnir upp hér menn, sem við könnumst við hljóðin í nú þegar og áróðurinn í, að það sé bara um að gera að hleypa sem allra flestum inn, og þá getum við vel staðið frammi fyrir þeirri aðstöðu, að núv. hæstv. iðnmrh. standi þá við hlið þeirra, sem berjast á móti slíku nýju erlendu fjármagni, en fái ekki við það ráðið, af því að erlent fjármagn sé orðið svo sterkt í landinu fyrir, hafi svo sterkum blöðum yfir að ráða, geti skapað sér svo sterk ítök í íslenzkum stjórnmálaflokkum, að það verði þá ekki við það ráðið, að það verði haldið áfram. Þá er það máske orðið of seint. Sporið, sem stigið er núna, er svo stórt, og þetta er það, sem ég vildi biðja hv. þm. og ráðh., bæði Sjálfstfl. og Alþfl., að athuga alvarlega, áður en þeir gera þetta. Þeir vita það allir, að þeir eru að leggja inn á brautir, sem þeim eru ókunnar og við höfum ekki gengið á áður, og þegar við stígum svona stórt spor, getur okkur orðið svo hált á því, að við rennum áfram, getum ekki stöðvað okkur. „Hæg er leið“ o.s.frv., sagði Bólu-Hjálmar. Þess vegna er þessi spurning um áhrif erlends auðmagns í íslenzku þjóðlífi svo miklu, miklu stærra mál en þessir hv. þm. og ráðh. vilja vera láta.

Þá komum við að því spursmáli, hvort þetta spor, ef það verður stigið nú, þýðir það óhjákvæmilega að ryðja braut fyrir frekari erlendum stóriðnaði. Ég vil í því sambandi beina einni spurningu til hæstv. iðnmrh. Mér hefur skilizt á þessum samningum, að svo fremi sem Ísland seinna meir skyldi ganga í Efnahagsbandalagið, mundu falla niður vissir tollar, sem Swiss Aluminium nú yrði að greiða af alúminíum, sem færi til efnahagsbandalagslandanna, og við það mundu skattarnir eða gjöldin, sem það greiddi hérna heima, hækka. Það hefur komizt þannig, hvort sem það er nú öfugt eða rétt, inn í höfuðið á mér, að þetta þýddi, að það væru vissir hagsmunir bundnir við það fyrir Ísland hvað snertir það, sem við fengjum fyrir frá þessum hring við það að ganga inn í Efnahagsbandalagið, m.ö.o.: ef það yrði nú á næstu áratugum aftur brýnt vandamál, hvort við ættum að ganga inn í Efnahagsbandalagið, yrði eitt af því, sem hægt væri að nota í áróðrinum fyrir því að ganga inn í Efnahagsbandalagið, að við hefðum þá meira upp úr alúminíumbræðslunni við Straumsvík og m.a. að hringurinn hefði sérstakra hagsmuna að gæta í því, að Ísland gengi inn í Efnahagsbandalagið. Ef þetta er rétt hjá mér, mundi það þýða, að með því að hleypa hringnum hér inn, værum við að hleypa inn langsamlega sterkasta áróðursaðila, sem nokkurn tíma hefur til Íslands komið, sterkari jafnvel en Keflavíkursjónvarpið, til þess að geta haft áhrif á, hvort t.d. Ísland gengi inn í Efnahagsbandalagið eða ekki. Mér þætti vænt um að fá að vita, hverju þetta mundi muna. Þegar svona væri komið, geng ég út frá því, ef svona hringur væri kominn hér inn, að þáttur og áhrif þeirra manna, sem berjast fyrir erlendu auðmagni inn til Íslands, væru orðin miklum mun sterkari. Ég efast ekki um, að þeir hefðu aðstöðu þá til þess að tryggja sér heil blöð, jafnvel skapa sér heila flokka og annað slíkt, og maður hefur heyrt það á ýmsum slíkra manna, að það vantar ekki hugann til þess. Og við skulum þá bara taka, að við stæðum frammi fyrir því, sem sumir mega ekki heyra nefnt, að t.d. fyrirtæki eins og Findus hefði áhuga á því að setja upp hraðfrystihús á Íslandi, og við skulum gera okkur ljóst, undir hvaða kringumstæðum það yrði. Ef Findus setur hér upp hraðfrystihús, og Findus er að hálfu leyti til svissneskt fyrirtæki, eins og hæstv. ráðh. munu vita, mun hann tvímælalaust borga hærra verð fyrir fiskinn en Íslendingar gera nú, og ég efast ekki um, að hann væri líka til í að borga hærra fyrir íslenzkt vinnuafl. Og mér er spurn: Ef menn fá það á höndina, að hér sé félag, sem vilji gjarnan fá aðstöðu hér á Íslandi, sem vilji bæði borga hærra fiskverð og hærra kaup heldur en okkar litlu hraðfrystihúsaeigendur gera nú, hvað halda menn, að mótspyrnan yrði lengi á móti því að hleypa því inn, ef þessu verður hleypt inn nú? Ég er hræddur um, að hún yrði ekki lengi. Ætli það yrðu ekki einhverjir, sem segðu: Það eru allir farnir að finna hér fyrir erlendri samkeppni, húsgagnaframleiðendur, hvað þá aðrir, skyldu þá ekki hraðfrystihúsaeigendur vera fullgóðir til að þola erlenda samkeppni líka? Ég efast ekki um, að Findus eða slíkir færu fram á önnur eins sérréttindi og þau, sem Swiss Aluminium fer fram á núna, og ætli það yrði þá ekki notað líka af einhverjum? Nei, það er gefið mál, að ef farið er inn á þessa nýlendustefnu núna, verður henni haldið áfram. Suðurnes og Snæfellsnes koma til með að fá sína einokunarkaupmenn aftur, bæði í Sandgerði og Rifi. Þar var búið að áætla, á meðan mest var rætt um Efnahagsbandalagið, á báðum stöðunum um hraðfrystihús og hafnir, sem þar skyldi komið upp. Ég vil þess vegna taka það fram, að það er of seint að nema staðar, eftir að búið væri að gera þennan samning, þá verða fleiri, sem koma þarna á eftir.

Þá hefur verið minnzt á það, hv. 5. þm. Vesturl. kom inn á það og hæstv. iðnmrh„ held ég, líka, hvort það hafi verið rétt að selja Áburðarverksmiðjunni raforkuná eins ódýrt og henni hafi verið seld hún, og hv. 5. þm. Vesturl. minntist á það í því sambandi, að þeir hefðu ekki sama rétt og íslenzkir atvinnurekendur, þeir fengju ekki rafmagnið eins ódýrt og Áburðarverksmiðjan. Íslenzkir atvinnurekendur hafa aldrei fengið rafmagn eins ódýrt og Áburðarverksmiðjan, þannig að þetta er röng samlíking hjá hv. 5. þm. Vesturl.

En svo er eitt spursmálið: Var rétt að selja Áburðarverksmiðjunni raforkuna svona ódýrt eins og gert var? Hæstv. iðnmrh. setti þessa spurningu fram. Ég svaraði þeirri spurningu, þegar samningurinn var gerður. Ég álít það ekki rétt. Ég greiddi atkv. á móti þeim samningi. En hæstv. ráðh. er kannske ekki kunnugt um, hvernig sá samningur var gerður. Ég var þá í stjórn Sogsvirkjunarinnar, þannig að ég gat þar greitt atkv. á móti honum. Þessi samningur var þannig gerður, að 1953, ef ég man rétt, gerði Alþjóðabankinn það skilyrði fyrir því láni, sem Sogsvirkjunin átti að taka til byggingar Írafossstöðvarinnar, að Sogsvirkjunin gengi inn á það að selja í 15 ár Áburðarverksmiðjunni rafmagnið á því verði, sem tilgreint er í þeim samningi. Þetta var nauðungarsamningur. Það var beinlínis fyrirskipun frá Bandaríkjunum, frá Alþjóðabankanum, að gera þennan samning svona. Hann notaði sér sitt vald sem lánardrottinn til þess að beygja meiri hl. Sogsvirkjunarstjórnarinnar til þess að gera þennan samning svona, og þessum samningi hefur nú verið sagt upp og hann rennur út 1968, og Áburðarverksmiðjan hefur engan samning sem stendur um áburðarverð eftir 1968, og ég veit ekki, hvað er fyrirhugað viðvíkjandi áburðarverði þá. Og samt höfðu þeir, sem þá gengu inn á að beygja sig fyrir Alþjóðabankanum og semja við Áburðarverksmiðjuna á þessu verði, þá afsökun, sem þeir hafa ekki, sem selja rafmagnið núna undir kostnaðarverði, að þetta var afgangsrafmagn. Þetta var rafmagn, sem þeir gátu lokað fyrir, á meðan topparnir voru hæstir, um miðdaginn og á öðrum tímum, og við gátum dregið úr þessu, eftir því sem Sogsvirkjunarstjórninni þóknaðist, þannig að það var hægt að færa fram ýmis rök fyrir því að gera þennan samning, sem ekki er hægt að færa fram fyrir að gera þennan samning, sem hér er um að ræða.

Ég vil þess vegna, áður en ég lýk máli mínu, taka það enn einu sinni fram, — það eru svo ólíkir aðilar, sem eigast við, þegar þessi svissneski auðhringur er annars vegar og Íslendingar hins vegar, — að það á ekkert skylt við neina samlíkingu á neinu útlendu auðmagni, hvorki í Bandaríkjunum, Bretlandi, Noregi né neins staðar annars staðar, Danmörku eða annars staðar, það á ekkert skylt við það. Allur okkar þjóðarauður er talinn 41 milljarður. Eign þessa svissneska hrings er ekki undir 14 milljörðum. Ég er áður búinn að ræða um þá eign, sem hann kemur til með að eiga hér, og þann gróða, sem hann hefur hér að varðveita, þannig að allt, sem við höfum haft af útlendu auðvaldi hérna áður, bæði í sambandi við Íslandsbanka, fossana, meðan þeir voru flestir í útlendri eign, togaraítökin hér og slíkt, ekkert af þessu er neitt svipað því, sem núna vofir yfir.

Eitt er augljóst og það er, að það eina, sem Íslendingar geta haft upp úr þessum hring, einu hagsmunirnir, sem við höfum að gæta, er það kaup, sem hér er hægt að knýja fram. Og það er vafalaust áskorun til verkalýðshreyfingarinnar frá þjóðinni og hennar hagsmunum að knýja fram það kaup eins hátt og hægt er og slá þar ekki af, og það er vert fyrir íslenzka atvinnurekendur að gera sér ljóst, að það er eina ráðið til þess að láta þjóðina sem heild geta haft eitthvað upp úr þessum hring. Hitt skyldi mig ekki furða, þó að það liði ekki á löngu, eftir að þessi hringuf væri kominn hér inn, að krafan um þjóðnýtingu á honum yrði allsterk og það mundi þykja eina ráðið til þess að tryggja efnahagslegt sjálfstæði okkar þjóðar, að þessi hringur yrði þjóðnýttur, hans eign hér, og það hefði þó íslenzka þjóðin alltaf á sínu valdi. En hart væri að fara að grípa til allrar þeirrar baráttu, sem í sambandi við það mundi verða.

Ég hef nú hér fyrst og fremst gert að umræðuefni þær pólitísku afleiðingar, sem ég álit, að þessi samningur mundi hafa. Ég hef ekki farið hér inn á rafmagnsverðið og það sé undir kostnaðarverði. Það er búið að færa slík rök að því, að ég þarf ekki að bæta þar við. Ég hef ekki farið inn á þau eituráhrif, sem starfræksla þessarar verksmiðju mun hafa. Við vitum, að alls staðar annars staðar en hér á Íslandi er þetta sett í einhverja afkima. Ég geri ekki að sérstöku umræðuefni frekar en ég hef gert það réttarfarslega hneyksli, sem í því felst að setja dómsvaldið meira eða minna út úr landinu í sambandi við þetta, það er líka búið að gera það að umtalsefni. Og ég ræði ekki heldur dreifbýlisvandamálið í sambandi við þetta, það hefur líka verið gert svo ýtarlega af þeim mönnum frá stjórnarandstöðunni, sem hér hafa þegar talað. Ég verð að segja að síðustu, að ég álít, að það að ætla að binda Alþ. fram yfir árið 2000 með löggjöf, sem gerð er í dag um þetta mál, er ekki hægt. Það er atriði, sem þeir menn, sem hér koma til með að taka við af okkur, sem nú lifum, koma ekki til með að sætta sig við. Sambandslagasamningurinn var gerður til 25 ára, þegar hann var gerður. Atlantshafsbandalagssamningurinn var gerður til 20 ára, þegar hann var gerður. Við höfum einu sinni orðið fyrir þeirri ósvífni, að það hefur verið farið fram á að gera við okkur lengri samning en þennan. Það var þegar Bandaríkin ætluðu að ná þrem svæðum á Íslandi undir sina stjórn algerlega, undir sín yfirráð í 99 ár. Nú á að binda okkur til 45 ára. Þetta er ekki hægt. Það er ekki hægt að binda þjóðina þannig. Það mun verða, eins og þegar hefur verið lýst yfir, krafizt þess, að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram í sambandi við þessi lög, og það er hart, ef því er neitað, svo mjög sem okkar stjórnarskrá gerir ráð fyrir, að slíkum aðferðum skuli beita, og það var eitt stærsta sporið í lýðræðisátt, sem við stigum, þegar við stofnuðum lýðveldið. En eitt mega þeir hv. þm. og hæstv. ráðh. muna, sem ætla sér að knýja þetta fram nú sem lög í gegnum Alþingi, að stjórnarskráin er lögum æðri, og fyrir utan það, hvernig þetta stangast á við stjórnarskrána, eins og hún er í dag, er hægt með stjórnarskrárbreytingu að gera þennan samning og þessi lög að engu. Það er ekki hægt að binda þjóðina með lögum frá Alþingi til 45 ára. Þjóðin getur hvenær sem er samþ. stjórnarskrá, sem þurrkar svona sérréttindi út, sem fyrirskipar jafnrétti á milli mannanna, sem byggja þetta land og reka atvinnurekstur í þessu landi, og fyrirskipar alveg ótvírætt, að dómsvald skuli tilheyra íslenzkum dómstólum og engum öðrum, þó að það eigi að vera hægt að skilja stjórnarskrána þannig núna, að hún eigi að fyrirbyggja slíkt. Hæstv. ráðh. geta máske bundið þingflokka á Alþingi í dag til þess að reyna að knýja fram með nokkurra atkvæða mun lög eins og þessi, en þeir geta ekki bundið þjóðina. Þjóðin getur hvenær sem er breytt því, sem verið er að gera hérna núna, og vona ég, að hæstv. ráðh. átti sig á því og athugi sinn gang, áður en lengra er haldið um þetta mál, því að enn þá er hægt að stöðva það.