05.04.1966
Neðri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki brjóta þingsköpin með því að tala of lengi. Satt að segja held ég, að hæstv. forsrh. sé eini maðurinn af þeim, sem voru hér í kvöld og heyrðu það, sem ég sagði, sem stendur í þeirri meiningu, að ég hafi verið leiður yfir því, að hann fór að minnast á tímabilið 1934–1938. Ég held, að hæstv. forsrh. sé eini maðurinn, sem ímyndar sér það, að ég hafi verið leiður yfir því. Það var alveg öðru nær. Ég álít, að sá þáttur hefði alls ekki mátt missa sig úr umr. og endurtek einu sinni enn þakklæti mitt til hæstv. forsrh. fyrir það að hafa dregið hann inn í umr. Ekkert hefur kastað jafnskýru ljósi á þetta mál og einmitt sá þáttur, sem fjallaði um það, hvernig hægt er að rífa sig út úr hinum stærsta vanda með myndarlegu framtaki landsmannanna sjálfra og stuðningi við það. Og ég verð að segja það, að ég er alls ekki óánægður með árangurinn af því, sem ég sagði, að því leyti sem hann kemur fram í ræðu hæstv, forsrh. — langt frá því. Ég finn, að hann hefur strax tekið talsvert mikið til greina af því, sem ég sagði hér í kvöld um þessi efni, og það hefur haft stórkostleg áhrif á hann. Í fyrri ræðu sinni í dag var hann bókstaflega útblásinn af vandlætingu yfir því, hversu lélega hefði verið haldið á málunum 1934–1937, en nú varði hann mestu máli sínu til þess að afsaka það. Það hafi verið alveg eðlilegt, að það yrði atvinnuleysi og vandkvæði hjá þjóðinni vegna þeirra áfalla, sem hún hafði orðið fyrir, og yfirvöld landsins, — og þar á meðal ég í þessu dæmi — hafi gert margt til viðreisnar. Og enginn megi skilja sig svo, að hann líti þannig á, að það hafi verið ríkisstj. þá að kenna, hversu erfiðlega gekk með atvinnu. Í þessum tón talaði hæstv. ráðh. núna. Ég verð að segja, að þetta er mikil framför og góður árangur af þeirri tiltölulega stuttu ræðu, sem ég flutti í kvöld um þessi efni.

Hann byrjaði á því í dag að tala um, að bezt væri fyrir mig, að talað væri sem minnst um þetta. Það var dálítið annar tónn núna. Þá sagði hann, að hagvöxturinn hefði verið aðeins 0,6% í kreppunni. Það voru náttúrlega ekki neitt merkileg tíðindi, þegar tekið er tillit til þess, að þá var verðfall á öllum útflutningsafurðum landsmanna og sumir markaðirnir lokuðust alveg.

Ég get sem sagt verið mjög ánægður með þann árangur, sem hefur orðið af þessu, og ég vona, að þetta eigi eftir að festa enn dýpri rætur í huga og hugsun hæstv. ráðh. Hann benti á það alveg réttilega, að þrátt fyrir þessar miklu framfarir, sem urðu, — og hann vefengdi ekkert af því, sem ég sagði í ræðunni, á einn eða annan máta, sem ekki var heldur von, því að það var ekki hægt, — hefði atvinnuleysið ekki verið úr sögunni. Og því miður er það rétt hjá hæstv. ráðh. þrátt fyrir þessa miklu framfarir, sem urðu á móti því, sem féll í rúst. En það ástand var, eins og hann réttilega tók fram áðan, hluti af því ástandi, sem heimurinn átti þá við að búa, og það var varla við því að búast, að við einir gætum rifið okkur upp úr því feni, sem allur heimurinn var kominn í sameiginlega. Ég heyri, að hæstv. ráðh. hefur öðlazt dýpri skilning á þessu nú, og verð ég að segja, að það er ekki til einskis að kenna svona mönnum. Ég hef lengi vitað, að hæstv. ráðh. var vel gefinn og góður námsmaður, en ég gerði mér tæpast vonir um svo glæsilegan árangur af þeirri viðleitni, sem ég reyndi að viðhafa hér í kvöld af veikum mætti.

Varðandi framkvæmdir einstakar eins og Sogsvirkjunina, þá er það ekki sanngjarnt hjá hæstv. ráðh. að gera lítið úr hlut ríkisstj. í því máli, því að það var beinlínis í málefnasamningi Alþfl. og Framsfl., stjórnarinnar, sem mynduð var 1934, að hrinda Sogsvirkjuninni í framkvæmd og það var gert. Jón Þorláksson vann drengilega að því máli með ríkisstj., og um það tókst fullkomin samvinna. Það var auðvitað ríkisábyrgð á Sogsláninu, — það kom fram einhver misskilningur áðan í því sambandi, sem leiðrétta ber, — það var auðvitað ríkisábyrgð á Sogslánunum. Það var leitað til Norðurlanda, eins og þá var réttilega tekið fram, vegna þeirrar tregðu, sem var á lánveitingum annars staðar frá. En sú tregða, sem var í Bretlandi, var ekki látin verða til þess, að framfarasóknin félli niður, heldur var brotizt í því að fá lán annars staðar. Það var vegna þess, að ríkisstj. ætlaði sér að reyna að komast út úr þessum vanda jákvæðu leiðina og án þess að láta útlendinga taka við. — Ég heyri, að hæstv. forseti er farinn að ræskja sig. Ég vona, að það sé ekki af óþolinmæði. Ég skal ekki vera lengi úr þessu.

Ég sagði áðan, að Sjálfstfl. hefði verið á móti því, að ríkið hefði forgöngu um frystingu í tilraunaskyni, og það upplýstist alveg hjá hæstv. ráðh. líka, að það var alveg rétt. Þeir höfðu verið á móti frv. um fiskimálanefnd. Það tíundaði hæstv. ráðh. samvizkusamlega, að þeir hefðu veríð á móti því, en sagði nú, að það hefði verið þeim vorkunnarmál, því að það hefði verið komið eitthvað ógætilega fram við þá. En mér finnst, að þeir hefðu átt að taka þetta málefnalega, hitt sé ekki nein afsökun. En hitt var það, að þeir voru á móti því að reka ríkisfrystihús, og það var það, sem ég hélt fram, — að þeir hefðu verið á móti ríkisforgöngunni, eins og hún var.

Varðandi landhelgismálið sagði hæstv. ráðh., að ég hefði farið rangt með. Ég fór alveg rétt með. Ég sagði það, sem rétt var, að 1958 hélt hæstv. ráðh. í blaði sínu því fram, að ríkisstj. hefði farið rangt að með því að færa landhelgina út eða ákveða að færa hana út, það væri ágreiningur innan ríkisstj. Hann var óþreytandi í að lýsa því fyrir Bretum, að landhelgin hefði verið færð út eftir sérstakri kröfu kommúnista og mátti skilja, að það væri í raun og veru eingöngu þeirra áhugamál og það hefði átt að halda áfram að semja en ekki færa út. Þetta var það, sem ég sagði og þetta er allt rétt. Og ég tek ekki neinum aðfinnslum með þökkum út af því.

Varðandi það, að lítið hafi verið byggt upp af iðnaði í kringum álverksmiðjur í Noregi, þá byggði ég það á því, að ég hef séð í norskum blöðum, að af 275 þús. tonnum, sem framleidd hafi verið 1965, hafi aðeins verið unnið úr 23 þús. tonnum í landinu, sem er lítill hluti af þessu, og er þar þó lengi búin að vera slík alúminiðja í gangi, þannig að ég held því miður, að það sé mjög ýkt, sem sagt er um möguleika á því að byggja annan iðnað þar út í frá. En hitt er annað mál, að Norðmenn hafa litið svo á, eftir því sem upplýst er, að 100 þús. tonna álverksmiðja dragi að sér vegna þjónustustarfsemi og alls annars, sem í kringum er, 10 þús. manna byggð.

Hæstv. ráðh. er nú að vísu — þótt honum hafi farið mikið fram, að mínu viti — ekki alveg hættur hártogunum, því að hann sagði, að ég skildi það ekki, að þó að fyrirtæki væru ekki undir íslenzkri lögsögu, þ.e. væru undir erlendri lögsögu, þá gætu þau verið undir íslenzkum lögum. Þetta kalla ég hártoganir, því að ég hafði satt að segja haldið, að dómaskipunin væri hluti af íslenzkum lögum og þess vegna er þetta hártogun. Þeir, sem eru undir erlendri lögsögu, eru ekki undir íslenzkum lögum.

Ég vil ekki, eins og ég sagði, brjóta þingsköpin né níðast á velvilja hæstv. forseta né þreyta þingheim. Aðalatriðið í þessu málefni er auðvitað, að eins og núna standa sakir vantar sízt verkefni, eins og margbúið er að taka fram, og hér eru alls staðar áætlanir um að gera íslenzkt atvinnulíf fjölbreyttara, áætlanir, sem ekki komast í framkvæmd vegna fólkseklu, vegna skorts á vinnuafli. Ekki vegna þess, að það vanti peninga, heldur vegna skorts á vinnuafli. Við þessar aðstæður eru auðvitað engin skynsamleg rök fyrir því að taka hér inn í landið með feiknalegum vandkvæðum erlent stórfyrirtæki.