30.04.1966
Efri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Enda þótt hér hafi verið fluttar allmargar ræður um þennan samning, sem hér er til umr., og fram séu komin öll þau rök með og móti þessu máli hér á hv. Alþingi, vil ég samt sem áður með örfáum orðum lýsa minni afstöðu, án þess þó að tefja verulega fyrir þingstörfum að þessu sinni.

Hér er til umr. samningur, sem felur í sér lagagildi samnings milli ríkisstj. Íslands annars vegar og Swiss Aluminum hins vegar um álbræðslu við Straumsvík. Ef vel væri að staðið, gæti þetta mál — og vel væri, ef það væri vel undirbúið, — þá gæti það í höndum þjóðhollra Íslendinga orðið landi og lýð til framdráttar í uppbyggingu landsins og stutt almenning í því að bæta aðstöðu sína, ef vel væri að því unnið á allan hátt. En eins og fram hefur komið greinilega í þessum umr., þá er ekki því til að dreifa í þessu máli. Hér er um stórfelldan nýjan, erlendan atvinnurekanda að ræða í landinu, þar sem er álbræðslan í Straumsvík, og með allri þeirri uppbyggingu samfara þeirri stóriðju, ekki bara nú næstu árin og í framtíðinni, þá verður hér stærri atvinnurekandi erlendur en við höfum hér til haft nokkuð af að segja og þekkjum nokkuð inn á. Þar af leiðir, að höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar, landbúnaður, sjávarútvegur og iðnaður, munu eiga erfitt með að keppa um vinnuafi og fjármagn. Eftirspurn eftir bæði faglærðum og ófaglærðum mönnum undanfarandi ár hefur verið mikil, en sú keppni, sem kann að skapast nú, hún mun mörgum reynast erfið, þannig að þessir atvinnuvegir og sú uppbygging, sem átt hefur sér stað í landinu á undanförnum árum, hún hlýtur að ýmsu leyti að eiga í vök að verjast nú í framtíðinni, þar sem hún má sín minna í þessari samkeppni en ella hefði verið.

Virkjun Þjórsár hjá Búrfelli er nauðsynjamál, sem var ekki meira stórvirki en það, að við gætum sjálfir Íslendingar án erlendrar stóriðju leyst það mál í áföngum, án þess að það út af fyrir sig raskaði nokkuð byggðajafnvægi í landinu. Framkvæmdir þessar ásamt stórframkvæmdum, sem þegar eru hafnar í Hvalfirði, kunna að raska verulega byggðajafnvægi landsins frá því sem nú er. Þessi sogkraftur, sem hér myndast í Reykjavík og nágrenni, hann sogar fólk, án þess það kannske vilji, til sín, þannig að landsbyggðin á vissulega í vök að verjast.

Hér var flutt mál um daginn um atvinnujöfnunarsjóð, sem á að vera mótvægi í þessum efnum og á að vera til þess að veita fjármagni út á landsbyggðina, og ég efast ekki um, að í ýmsum tilfellum kann það nokkuð að hjálpa, en getur þó fráleitt í öllum tilvikum stöðvað þann flótta frá dreifbýlinu, því að þar mun meira þurfa til að koma. Þar þarf einlægan vilja og skipulagða þjóðmálastefnu, ef vel á að fara í framtíðinni.

Það er sýnilegt, að samningur þessi, sem hér er til umr., hann verður samþ., og þá á ég ekki aðra ósk landi og lýð til farsældar en þá, að íslenzka þjóðin megi framvegis velja sér þá menn eina til forustu í landsmálum, sem fyrst og fremst trúa á auðæfi landsins og miða gjörðir sínar við það að efla íslenzkan iðnað, fullnýta auðæfi hafsins og síðast en ekki sízt efla landbúnaðinn og græða landið og stuðla að jafnrétti í menntun og velmegun þjóðarinnar í hvívetna.

Takist þjóðinni að velja sér slíka forustu, sem sameinar krafta sína um heill og hag landsmanna almennt, en hugsar ekki um hag auðhyggjumanna fyrst og fremst eins og hæstv. núv. ríkisstj. hefur gert, vona ég, að betur til takist í framtíðinni með framkvæmd þessa samnings en nú horfir, og það er eina von okkar Íslendinga nú á þessari stundu, að þar sem þjóðin fær ekki að segja sitt álit á þessum samningi með þjóðaratkvæðagreiðslu, að hún standi sameinuð um það að skaffa öðrum framsýnni og betri mönnum forustu þjóðmálanna í framtiðinni og þar með meðferð þessara mála svo að betur til takist heldur en við má búast hjá þeirri stjórn, sem nú situr að völdum.

Í þeirri von og þeirri trú óska ég, að þjóðin skilji sitt hlutverk, þegar til kosninga kemur, og velji sér forustu í landsmálum með það fyrir augum, að hún hafi sitt að segja, þótt henni hafi ekki verið gefið tækifæri til að segja sitt álit á þessu máli með sérstakri atkvgr., þá skilji hún sitt hlutverk í næstu kosningum og veiti þar með núv. þingmeirihluta þá ráðningu, sem honum væri fyrir beztu, það er, að hann kæmi aldrei nálægt stjórnarstörfum framvegis.