30.04.1966
Efri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

100. mál, Háskóli Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af þeim ummælum hæstv. fjmrh., að brtt. okkar þremenninganna á þskj. 630 fái ekki staðizt, vegna þess að á henni sé formgalli. Ég á nú að vísu örðugt með að deila við hinn lögfróða mann um þetta, en mér sýnist þó, að till. geti örugglega staðizt. Það sé í rauninni ekki um annað að ræða í henni en að það séu lagafyrirmæli um, að ríkisstj., menntmrh. eða menntmrn., skuli sjá um annað tveggja, að þetta embætti verði stofnað ellegar þá að heimildarákvæðin verði hagnýtt á þann veg, að fjárveiting, sem svarar einum prófessorslaunum, meðan embættið er óveitt, verði tekin upp á fjárlög, rn. hefði þá þetta ákvæði til bráðabirgða á bak við sig, og þá sæi ég ekki annað en hæstv. fjmrh. yrði að gera svo vel, hann kæmist ekki upp með neitt múður, þar sem menntmrh. hefði þessa lagagrein að baki sér, hann yrði að taka upp einar 240 þús. kr. á næstu fjárlög og gera svo vel að reiða það fé af hendi. En ef mönnum hins vegar sýnist nú svo, að það sé vegna formgalla, að ekki sé hægt að samþ. þetta bráðabirgðaákvæði, þá er auðvitað hægurinn hjá að breyta þarna lítils háttar orðalagi. Mér skilst, að það væri þá helzt þannig, að menntmrn. heimilaðist að fengnum till. heimspekideildar háskólans að verja o.s.frv., þannig að vegna þessa atriðis, spurningarinnar um form, sýnist mér, að það þurfi ekki að stranda á því, að menn geti fylgt þessari till.