01.11.1965
Neðri deild: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2070 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég fór að kveðja mér hljóðs hér að þessu sinni, var fyrst og fremst sú, að hv. 2. þm. Sunnl. (ÁÞ) var í fundahöldum norður í landi nú þessa s.l. helgi og mun ekki vera kominn til bæjarins og gat því ekki tekið þátt í umr. hér í dag, sem hann hefði gert að öðrum kosti. Þetta vildi ég láta koma hér fram.

Í framhaldi af þessu vil ég víkja nokkuð að þeim umr., sem hér hafa farið fram, og málinu í heild, og vil ég þá byrja á því að snúa mér að ræðu hv. viðskmrh., sem talaði hér áðan. Um þá ræðu vil ég segja það, að mér fannst hæstv. ráðh. ræða þessi mál með betri skilningi en hann hefur áður gert hér á hv. Alþ., og er ég fús til að viðurkenna það, þegar hann heldur þannig á málum, eins og ég er líka fús til að gagnrýna hann og hæstv. ráðh. aðra, þegar miður tekst.

Ég vil taka undir með hæstv. ráðh., að það er ekki sama, hvernig landbúnaður er rekinn í landinu, og ég efast um, að það sé nokkur maður til í þessu landi, sem álítur, að það sé sama. Það er mjög fjarri því, að mönnum sé það ekki ljóst, að það skiptir verulegu máli, hvernig landbúnaður er rekinn, eins og annar atvinnuvegur í þessu landi. Hins vegar er það svo, að landbúnaður er, eins og aðrir atvinnuvegir, háður þeirri stefnu, sem er ríkjandi í málefnum þjóðarinnar á hverjum tíma.

Hæstv. ráðh. vék að því í ræðu sinni hér áðan, að fjármagnsmyndun landbúnaðarins hefði aukizt verulega, vegna þess að verðlagið hefði hækkað. Þetta er alveg rétt. En ástæðan fyrir því, að verðlagið hefur hækkað á landbúnaðarvöru, er fyrst og fremst sú dýrtíðarstefna, sem er ráðandi hér í landinu og hæstv. ríkisstj. leggur blessun sína yfir. Við vitum, að það er sama, hvað við framkvæmum í þessu landi í dag, framkvæmdin, sem við gerum í dag, er dýrari en hún var í gær, og framkvæmdin á morgun er dýrari en framkvæmdin í dag. Þetta er vegna þess, hvað dýrtíðin vex dag frá degi, og stefna hæstv. ríkisstj. í þessum málum ræður um þennan þátt málsins. Þá er líka það að segja, að síðustu ár hafa verið óvenjulega mikil góðæri í þessu landi, og það hefur gert það að verkum, að framleiðsluaukning í landbúnaði hefur orðið meiri en miðað við meðalárferði í þessu íandi, því að það er kunnugt, ekki sízt í mjólkurframleiðslunni, hvað tíðarfarið hefur þar mikil áhrif. Þá er það einnig vitað, að fólki hefur fækkað ár frá ári við framleiðslustörfin í landbúnaði. Þessu hafa bændurnir svarað með aukinni ræktun og aukinni vélvæðingu. Það hefur orðið til þess, að framleiðsluaukningin hefur, þrátt fyrir fólksfækkunina, orðið veruleg. Það er því þessi framleiðsluaukning, sem hefur nú um tíma skapað okkur vandamál í sambandi við mjólkurframleiðsluna, eins og oft á sér stað hjá atvinnuvegum landsmanna. 1960 var fellt gengi íslenzkrar krónu vegna útflutningsframleiðslu. Þá voru það erfiðleikar, sem ekki voru yfirstíganlegir að dómi hæstv. ríkisstj., sem þá réði, nema með því að breyta gengi krónunnar. Og þetta var aftur gert 1961, og sömu rök voru fyrir málinu. Það var talið eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. yrði að taka á þessu, og bæði árin 1964 og 1965 hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir hér á hæstv. Alþ. vegna sjávarútvegsframleiðslunnar. Þannig er þetta, eins og vill verða, að hæstv. ríkisstj. verður að taka á vandamálum atvinnuveganna, hvort sem það er landbúnaður, sjávarútvegur eða iðnaður. Nú er það aukning á framleiðslu á landbúnaðarvörum, sérstaklega mjólkurvörunum, sem er vandamál í bili, og það er verkefni hæstv. ríkisstj. að fást við það.

Út af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði um þróunina í sambandi við mjólkurframleiðslu og kjötframleiðslu, vil ég taka það fram, að Stéttarsambandi bænda hefur verið það ljóst, að þessi þróun stefndi ekki í rétta átt. Þess vegna hefur það á síðustu árum gert till. um það að breyta verðlaginu þannig að hækka kjötið meira en mjólkurafurðirnar. Og ég tel mig muna það rétt, að síðast þegar landbúnaðarvöruverðlagið fór í gerðardóm, hafi bændur eða fulltrúar þeirra í verðlagsnefnd ekki fengið hækkað kjötverðið eins mikið og þeir fóru fram á á kostnað mjólkurinnar. Hins vegar var það gert í fyrra, og nú var farið eftir till. þeirra um skiptingu milli mjólkur og kjöts.

Mér er kunnugt um það, að veruleg breyting hefur orðið í sambandi við kjötframleiðslu og mjólkurframleiðslu í því héraði, þar sem ég bezt þekki til. Þar hafa kúabú og það jafnvel stór kúabú jafnvel lagzt niður eða kúm verið mjög verulega fækkað, en fénu aftur fjölgað. Þetta tel ég að sé vegna þeirrar stefnu, sem Stéttarsamband bænda hefur fylgt, og bezt að bændurnir geri sér grein fyrir, að þannig muni þetta verða, og sú þróun, sem orðin var, sé ekki æskileg. Þess vegna held ég, að það sé á misskilningi byggt hjá hæstv. ráðh., að mjólkurframleiðslan fari vaxandi. Hún fór vaxandi, en það er stefnubreyting hjá bændunum til að breyta þessu í þá átt, að sauðfénu fjölgi á kostnað nautgriparæktarinnar. Og enn fremur var líka samkv. till. Stéttarsambandsins hækkað verulega nautgripakjöt, til að draga úr hækkun mjólkurinnar, sem var einnig í þá sömu stefnu og ég hef hér sýnt fram á.

Það leiðir af sjálfu sér, að sú breyting, að fólkinu hefur fækkað í sveitunum og því hefur verið mætt með aukinni vélvæðingu og aukinni ræktun, hefur gert það að verkum, að bændurnir hafa orðið að leggja mikið í fjárfestingu, og fjárfestingin hefur verið eitt af undirstöðuatriðum þeirra til þess að færa landbúnaðinn í nútíma form og koma honum inn í þá tækniöld, sem við lifum á. Það er mín skoðun, að einmitt með því að styðja bændur betur í uppbyggingu í stofnkostnaðarframkvæmdum, t.d. með lengri lánum og lægri vöxtum, getum við á þann hátt dregið úr verði á landbúnaðarvöru, því að ef þarf að afskrifa framkvæmdina á 15–20 árum, þarf hærra verðlag en ef þarf að gera það á 25–40 ára tímabili, svo að nokkuð sé nefnt. Ég hef áður lýst því yfir hér á hv. Alþ., að ég telji, að inn á þessa braut verði að fara, og þó að hæstv. landbrh. telji það hlægilegt, er ekkert við það að athuga. Hann byrjaði sinn ráðherradóm á því að stytta lánstímann og hækka vextina. Slíkur var skilningur hans á þessum málum, þegar hann settist í ráðherrastólinn. En hitt er von landbúnaðarins, bæði landbúnaðarins og neytenda í landinu, að sá skilningur komi, að menn átti sig á því, að ódýrari lán til stofnkostnaðar, lengri lán til stofnkostnaðar, skapa lægra verðlag.

Út af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér í sambandi við verðlagsmálin og kjör bænda og annarra stétta í þjóðfélaginu, sem hann taldi sig vera fylgjandi að væru hliðstæð, þá vil ég taka undir það með honum, að ég hef verið og er fylgjandi því, að neytendur og framleiðendur semji um verðlagið. Það hefur alltaf verið minn skilningur á þessum málum, að eftir því sem samvinnan væri meiri um þetta, eftir því sem þeir kynntust betur hvorir öðrum, gengi þeim betur að vinna saman, og það væru hagsmunir beggja, að þeir semdu um þessi mál. Hinu hélt hæstv. viðskmrh. fram, að það væri ekki eðlilegt, þegar vel gengi á síldveiðum, vinnutími væri styttur og ákvæðisvinna væri upp tekin, að þá ættu bændur að njóta hagnaðar af því sjálfkrafa, eins og verið hefði með þeirri reglu, sem upp var tekin með viðmiðuninni, sem er úrtak úr framtölum eða tekjum vissra stétta. Þar er því til að svara, að aftur í móti kemur frá hendi bændanna það, að eftir því sem framleiðslan eykst, eftir því á verðlagið að vera lægra. Þess vegna er það, að þeir eiga að njóta vinnutímastyttingar, aukinnar veiði í síldveiði, vegna þess að neytendurnir njóta aftur, þegar framleiðslan eykst frá þeirra hendi. Það er þetta, sem er mótvægið á móti þeim réttindum, sem þeir hafa af því að njóta betri kjara, ef vel gengur hjá öðrum stéttum. Hér finnst mér vera fullkomið samhengi á milli í sambandi við það, að þeir hafi hliðstæð kjör og aðrar stéttir. Og það er jafneðlilegt, að þeir njóti hagnaðar af auknum tekjum viðmiðunarstéttarinnar, eins og neytendurnir af aukinni framleiðslu hjá þeim. — Þá mun ég nú ekki eyða lengri tíma í að ræða um ræðu hæstv. viðskmrh.

Út af ræðu hæstv. landbrh. vil ég nú segja það, að hún var lík þeim, sem áður hafa verið fluttar hér af hendi hæstv. ráðh. Ef framsóknarmenn hafa aðra skoðun á málunum en hæstv. ráðh., eru þeir að æsa gegn honum til óþurftarverka og annað því um líkt. Þetta eru rök hæstv. ráðh., þegar hann talar við samþm. sina. Við erum svo vanir að hlusta á þessi rök frá hæstv. ráðh., að ég held okkur liði ekki vel, ef hann breytti um þau, því að þá værum við þeirrar skoðunar, að það væri eitthvað að hæstv. ráðh., ef hann færi að beita réttum rökum og fella niður svona talshátt. En það, sem ég vildi segja við hæstv. ráðh., er það, að það eru tvö meginatriði í brbl. Í fyrsta lagi er það það, að með þeim eru bændur sviptir samningsréttinum um sitt kaup og sín kjör. Það hefur verið stefnan frá því að Stéttarsamband bænda fékk að hafa áhrif á þessi mál, eftir að Búnaðarráðið sáluga var niður lagt, að bændurnir í landinu ættu að hafa áhrif um sitt kaup og sín kjör, eins og aðrar stéttir. Og það hefur verið stefnan hér í okkar þjóðfélagi á síðari árum að auka þessi áhrif, en ekki hið gagnstæða. Þess vegna var opinberum starfsmönnum fenginn samningsréttur að sínum launakjörum nú fyrir nokkrum árum, eins og öðrum starfsmönnum eða þegnum þessa þjóðfélags, vegna þess að það var talið eðlilegt, að þeir sem aðrir hefðu þar nokkuð um að segja. En með brbl. er þetta, sem er meginatriðið í starfsemi Stéttarsambands bænda og var meginatriðið í framleiðsluráðslögunum, því fellt í burtu. Bændurnir eiga ekki samkv. þeim að hafa áhrif á sín kjör við verðlagninguna að þessu sinni. Hitt skiptir ekki máli í þessu sambandi, hvort þeim embættismönnum, sem unnu verkið, hafi tekizt að komast nokkuð á þá braut, sem Stéttarsambandið lagði. Hitt er þó augljóst, og það kom fram hér í ræðu hæstv. viðskmrh., að það, sem vantar til þess, að bændurnir nái svipuðum kjörum og aðrir, er vinnutímastyttingin, sem varð með kjarasamningunum í vor. Hitt, sem er meginatriði í löggjöfum og skiptir verulegu máli, er það, sem hæstv. viðskmrh. vék hér að áðan um viðmiðunarstéttirnar og úrtakið, það er fellt niður og því vildi hæstv. ráðh. halda fram, að með því móti hefði hann verið að hugsa sér að snúa á neytendurna í landinu. Nú má hann túlka þetta eftir vild, það skiptir ekki máli. Hitt er aðalatriðið, að hér var um að ræða það atriðið, sem hefur tryggt bændastéttinni betur en önnur að miða sín kjör við aðrar stéttir í þjóðfélaginu, og þess vegna, ef það er tekið í burtu, þá fer eins og fór í haust, að t.d. vinnutímastyttingin féll algerlega niður. Þess vegna er hér um tvö meginatriði að ræða í framleiðsluráðslögunum, og það er gleðilegt út af fyrir sig, að þau gilda ekki nema í þetta eina skipti, því ef stefna þeirra ríkti áfram við verðlagninguna í landbúnaðarmálum, væri búið að kippa grunninum undan starfsemi Stéttarsambands bænda og þar með félagslegu stéttarstarfi bændanna í landinu. Nú er það ekki mín trú, þó að ég hafi nú takmarkaða trú á hæstv. landbrh., að hann vilji leggja þessi félagssamtök að velli. En ég vil þá segja það að lokum, að hann þarf þá betur að vanda til sinna verka í sambandi við félagsréttindi bændastéttarinnar en hann gerir með þessum brbl., næst þegar hann fer af stað í svipaða átt.