02.11.1965
Neðri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég álít, að það sé vel farið, að talsverðar umr. verði um landbúnaðarmálin við l. umr. þessa máls, að menn reyni að glöggva sig sem mest á ýmsum mismunandi atriðum, sem þar koma til greina, og það ætti jafnframt að geta orðið gagnlegt til þess að hægt væri að finna sæmilega lausn á því máli, sem hér liggur fyrir. Alþ. hefur hingað til borið gæfu til þess að ná samkomulagi um skipan þessara mála, og það er æskilegt, að svo verði áfram, þó að nokkuð hafi borið út af leið að þessu sinni. En þrátt fyrir þá ágalla, sem á því skipulagi hafa verið, sem gilt hefur um þessi mál fram að þessu, hygg ég, að um það fyrirkomulag megi samt segja, að ekki sé líklegt, að annað fyrirkomulag reynist betur, og þess vegna ber að sjálfsögðu að stefna að því og að því ber að vinna hér á Alþ., að því skipulagi eða því fyrirkomulagi, sem verið hefur á þessu máli að undanförnu, verði haldið áfram í einhverju formi.

Það, sem gaf mér ástæðu til þess að segja hér nokkur orð, var ræða hæstv. viðskmrh., sem hann flutti hér í gær og fjallaði um útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörum og sitthvað fleira. Ég er alveg sammála hæstv. viðskmrh. um það, að útflutningsuppbæturnar eru að verða mjög alvarlegt vandamál og landbúnaðarmálin að mörgu leyti yfirleitt. Þess vegna er vel þess vert að gera sér greip fyrir því, hver sé ástæðan til þess, að þessi vandi hefur svo mjög farið vaxandi allra seinustu árin og er miklu meiri í dag en hann hefur nokkru sinni áður verið. Hverjar eru meginástæðurnar til þess, að svona er komið? Hæstv. ráðh. nefndi sérstaklega tvær ástæður, sem væru þess valdandi, að þessi vandi hefði farið vaxandi á undanförnum missirum. Þær ástæður, sem hann nefndi, voru í fyrra lagi þær, að framleiðslukostnaður hefði farið vaxandi og þar með hefði bilið aukizt, sem er á verðlagi landbúnaðarvara hér og verðlagi þeirra erlendis. Þessi ástæða er alveg rétt, og ég mun víkja nokkru nánar að henni síðar. Hin ástæðan, sem hann minntist á, var sú, að framleiðsla mjólkurafurða hefði aukizt meira á undanförnum árum en kjötafurðanna. Og það er rétt, að þetta er nokkur orsök í þeim vanda, sem hér hefur skapazt. Og það er rétt að athuga það nokkru nánar hér á eftir, hver er aðalástæðan til þess, að þessi vandi hefur aukizt.

Ég kem þá að fyrri ástæðunni, sem hæstv. ráðh. minntist á, sem er sú, að framleiðslukostnaður hefur aukizt í landinu á undanförnum árum og þess vegna hefðu útflutningsuppbæturnar farið mjög hækkandi. En hver er ástæðan til þess, að framleiðslukostnaðurinn hefur aukizt svona gífurlega á undanförnum árum? Ástæðan er sú, að ríkisstj. hefur haft miklu minna taumhald á efnahagsmálunum en nokkru sinni fyrr. Hún hefur svo að segja gefið bæði verðbólgunni og dýrtíðinni lausan tauminn tvö síðustu árin, eða síðan núv. forsrh. tók við stjórninni. Verðbólgan hefur aldrei aukizt eins gífurlega og á þessum tíma, vegna þess að það hefur ekkert verið reynt til þess af hálfu stjórnarvaldanna að hamla gegn henni, og það hefur að sjálfsögðu haft sín áhrif á framleiðslukostnaðinn í landinu. Ég ætla aðeins að nefna eitt dæmi, sem sýnir það, hve gífurlega framleiðslukostnaðurinn hefur aukizt tvö seinustu árin af völdum verðbólgunnar og stjórnleysi hæstv. ríkisstj. Ég ætla að taka vísitölu byggingarkostnaðarins sem dæmi.

Vísitala byggingarkostnaðarins var sett frá 1. okt. 1955. Þá var sett talan 100. Á fyrstu 8 árunum, sem þessi vísitala gilti, þ.e. frá 1. okt. 1955 og til 1. okt. 1963, hækkaði hún um 83 stig, eða til jafnaðar um 10 stig á ári. Þessi hækkun vísitölu byggingarkostnaðar gefur nokkra hugmynd um þróun framleiðslukostnaðarins í landinu á þessum tíma. En hver hefur svo þróunin orðið eða öfugþróunin í þessum efnum síðan 1. okt. 1963? Á þeim 2 árum, sem síðan eru liðin, hefur vísitala byggingarkostnaðarins hækkað hvorki meira né minna en um 65 stig, eða um 32 stig á ári. M.ö.o., byggingarkostnaðurinn hefur aukizt þrisvar sinnum meira á þessu tveggja ára tímabili en hann gerði á 8 ára tímabilinu á undan. Þetta er lítið dæmi um afleiðingu þess, að hæstv. ríkisstj. hefur gefið verðbólgunni og dýrtíðinni alveg lausan tauminn. Afleiðingin hlýtur að verða hjá landbúnaðinum eins og öðrum atvinnugreinum sú, að hann verður að fá hærri borgun fyrir sínar afurðir. Og þetta er meginástæðan til þess, að landbúnaðurinn hefur þurft að fá miklu meiri uppbætur á þær vörur, sem hafa verið fluttar úr landi, en áður þurfti. Framleiðslukostnaðurinn hefur aukizt gífurlega, en það stafar af því, að hæstv. ríkisstj. hefur á þessum tveimur árum gefið verðbólgunni miklu lausari taum en nokkru sinni fyrr. Það er þess vegna fyrst og fremst verk hæstv. ríkisstj., hve gífurlega útflutningsuppbæturnar á landbúnaðarvörum hafa aukizt á þessu tímabili. Það er afleiðing af þeirri stefnu eða því stefnuleysi, sem hún hefur fylgt í efnahagsmálunum. Ef það hefði tekizt á þessum tíma að halda verðlaginu nokkurn veginn stöðugu og hamla gegn verðbólgunni og dýrtíðinni, hefðu að sjálfsögðu þær útflutningsuppbætur, sem nú hefur þurft að greiða á landbúnaðarvörur, orðið miklu minni en þær þurfa að verða á þessu og næsta ári.

Það er þess vegna sök ríkisstj. fyrst og fremst eða þeirrar stefnu, sem fylgt hefur verið í efnahagsmálunum, hve gífurlega þessar uppbætur hafa aukizt af þessari ástæðu.

Ég kem þá að hinni ástæðunni, sem á verulegan þátt í aukningu útflutningsuppbótanna, eins og hæstv. ráðh. benti á, en það er að framleiðsla mjólkurvara hefur aukizt tiltölulega meira á undanförnum árum en kjötvaranna. Hver er meginástæðan til þess, að þessi öfugþróun hefur átt sér stað? Sú ástæða er einnig fólgin í stjórnarstefnunni. Um nokkurra ára skeið var það stefna stjórnarvaldanna að halda verðlaginu á kjötvörunum niðri, en láta bændur fyrst og fremst fá hækkun afurðaverðsins í hækkun mjólkurafurðanna. Þetta var gert vegna þess, að á þessum árum voru svo að segja eingöngu fluttar út kjötafurðir, og það þurfti að uppbæta þær úr ríkissjóði. Til þess að þessar uppbætur yrðu sem lægstar, var verðinu á kjötafurðunum haldið niðri, en verðið á mjólkurafurðunum látið hækka. Afleiðingin af þessu var að sjálfsögðu sú, að bændur drógu heldur úr sauðfjárræktinni, en juku nautgriparæktina. Það var Stéttarsamband bænda, sem hóf fyrst baráttu fyrir því að fá þessu breytt, og fyrir skelegga baráttu þess hefur sú breyting á orðið í fyrra og aftur nú í ár, að verð kjötvaranna hefur verið hækkað tiltölulega meira en mjólkurafurðanna. Og í framhaldi af þessu er líka að verða nú eins og hæstv. landbrh. hefur bent á, breyting í rétta átt í sveitum landsins. Sérstaklega hygg ég, að það sé áberandi á þessu hausti, að það hefur víða verið dregið úr nautgriparæktinni, en sauðfjárræktin aukin, þannig að það má búast við, að vegna þeirra breytinga, sem hér hafa fengizt fram fyrir atbeina Stéttarsambands bænda, þróist þetta í eðlilega átt og það þurfi ekki að óttast þetta atriði eins mikið og áður.

En eftir stendur þá eitt atriði, hvort tekst að stöðva hækkun framleiðslukostnaðarins í landinu, og það veltur að sjálfsögðu á því, hver stefna stjórnarvaldanna verður í þessum efnum. Ef haldið verður áfram í þeim efnum eins og gert hefur verið á tveimur undanförnum árum, og aðra ályktun má ekki draga af þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. las hér nýlega upp á hæstv. Alþ., verður afleiðingin að sjálfsögðu sú, að meðan einhverjar landbúnaðarvörur eru fluttar út, halda útflutningsuppbæturnar áfram að vaxa af völdum stjórnarstefnunnar í landinu. Eina leiðin til að lækna þessa meinsemd og koma í veg fyrir hana er vitanlega sú að taka upp nýja stjórnarstefnu, aðra og ábyrgari en þá, sem nú er fylgt, stefnu, sem miðar að því að vinna gegn verðbólgunni og dýrtíðinni, en ekki að gefa henni sem allra lausastan taum, eins og hefur verið stefna hæstv. ríkisstj. að undanförnu. Ég tek undir það með hæstv. viðskmrh., að hin mikla hækkun útflutningsuppbótanna á undanförnum árum, sérstaklega 2 seinustu árum, er mikið vandamál, en það er vandamál, sem röng stjórnarstefna hefur fyrst og fremst skapað, en bændurnir eiga ekki neinn þátt í. Bændurnir hafa einmitt hjálpað til þess að leiðrétta það, sem þeir hafa getað leiðrétt, að skapa jafnvægi á milli verðlags kjötvara og mjólkurvara og ríkisstj. og þeir aðilar, sem um þessi mál fjalla, hafa loksins látið þar undan, svo að þar stefnir nú heldur í rétta átt. En eftir stendur hitt, eins og ég áðan sagði, að ríkisstj. taki upp nýja stefnu í efnahagsmálunum, sem komi í veg fyrir það, að framleiðslukostnaðurinn hækki og útflutningsbæturnar af völdum þess.

Mér fannst rétt að láta þetta koma fram hér í tilefni af ræðu hæstv. viðskmrh., að sá vandi, sem hann talar um og kvartar undan, á fyrst og fremst rætur sínar í rangri stjórnarstefnu, en stafar ekki að neinu leyti af því, hvernig bændurnir hafa haldið á þessum málum.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta atriði öllu meira. En mér finnst rétt í tilefni af þeim umr., sem hér hafa farið fram um afstöðu A.S.Í. í sambandi við þessi mál, að segja nokkur orð, og vil ég þá fyrst láta koma fram, að það var ekki samstaða í stjórn A.S.Í. um þá afstöðu, sem tekin var. 3 fulltrúar, sem þar áttu sæti, greiddu atkv. gegn þeirri till. meiri hl., að A.S.Í. hætti að eiga aðild að 6 manna n. Ég hygg, að það hafi gilt um þá eins og marga aðra meðlimi A.S.Í. að þeim hafi komið þessi afstaða nokkuð á óvart. Þetta skipulag er búið að gilda í nokkuð mörg ár, eða nærri því í tvo áratugi, án þess að ég minnist þess, að því hafi nokkru sinni verið hreyft á Alþýðusambandsþingi eða í einstökum verkalýðsfélögum, að alþýðusamtökin ættu ekki að eiga aðild að þessari n. og ákvörðun afurðaverðsins. Það hefur þvert á móti komið fram á Alþýðusambandsþingum og í hinum ýmsu verkalýðssamtökum, að leggja bæri áherzlu á það, að verkalýðshreyfingin hefði sem bezta aðstöðu til þess að fylgjast með verðlagningunni í landinu og hafa áhrif á hana og að sjálfsögðu hvað snertir þessar vörur eins og aðrar. Þess vegna hygg ég, að mörgum innan A.S.Í. hljóti að finnast það, að með því að draga sig úr þessari verðlagsnefnd hafi meiri hl. A.S.Í.-stjórnarinnar markað allt aðra stefnu en þá, sem alþýðusamtökin hafa raunverulega fylgt á undanförnum árum og hefur verið fólgin í því að fá sem mesta þátttöku í verðlagningarmálunum.

Því hefur verið haldið fram af hálfu þeirra, sem túlka málstað meiri hl. Alþýðusambandsstjórnarinnar, að hún hefði ekki viljað semja sérstaklega við bændur um þetta mál og þessum tveimur aðilum væri teflt saman eins og andstæðingum, en ég held, að þessi röksemd sé ekki rétt, þegar nánar er að gætt. Það á að stefna að því, að það verði sem bezt samstarf og samstaða milli þessara aðila, en hún getur því aðeins náðst, að þessir aðilar komi saman til að leysa þau mál, sem eru erfiðust í þeirra sambúð, en það eru einmitt verðlagsmálin, því að ef það tekst ekki milli launþegasamtakanna og bændasamtakanna að jafna ágreininginn, sem kann að verða á því sviði, tekst ekki heldur að halda uppi samstarfi á öðrum sviðum. Það er fyrst og fremst þessi þröskuldur, sem þessir aðilar þurfa að komast yfir til þess að geta haldið uppi góðu samstarfi, og þess vegna eiga þeir að vinna saman í slíkri n. sem þessari, en ekki eiga það undir öðrum, hver framvindan verður í þeim málum. Frá því sjónarmiði, að koma megi á góðu samstarfi milli bændasamtakanna og verkalýðssamtakanna, tel ég, að þessi afstaða meiri hl. Alþýðusambandsstjórnarinnar sé röng. Ég vil líka vænta þess, að A.S.Í. og þá sérstaklega meiri hl. þess, meiri hl. A.S.Í.-stjórnarinnar, fari aftur inn á þá braut, sem verkalýðssamtökin hafa raunverulega alltaf markað, þ.e. að þessi samtök hafi aðstöðu til þess að hafa sem mest áhrif á verðlagninguna í landinu, en það sé ekki horfið að því ráði að draga sig þar í hlé.

Í sambandi við það, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði hér um dreifingarkostnað landbúnaðarafurða, er ekki nema sjálfsagt, að verkalýðssamtökin reyni að fylgjast með honum, en það tel ég hins vegar tæplega rétta stefnu af þeirra hálfu að ætla að gera dreifingarkostnað landbúnaðarvaranna að einhverju aðalatriði í verðlagsmálunum, en láta hitt frekar þá mæta afgangi, hvernig verðlagningu annarra vara, sem seldar eru í landinu, er háttað. Ég hygg, að þó að það kunni að vera þörf á að fylgjast með því, hvernig verðlagningu landbúnaðarvara er háttað og hvernig dreifingarkostnaðinum þar er háttað, sé þó enn þá ríkari ástæða fyrir verkalýðssamtökin að athuga betur, hvernig mörgum öðrum dreifingarkostnaði og sölukostnaði í landinu er háttað og það sé frekar hægt að finna einhverjar gullnámur þar en í sambandi við dreifingarkostnaðinn á landbúnaðarvörunum.

Í framhaldi af því, sem ég nú hef sagt, vil ég vænta þess, að þetta mál geti fengið þá meðferð í þinginu og utan þingsins, að aftur takist að koma á því samstarfi milli bænda og launþegastéttanna, sem verið hefur að undanförnu, þó að það hafi fallið niður nú í eitt ár. Ég er alveg sannfærður um það, að þrátt fyrir ýmsa ágalla, sem á því má finna, er það eigi að síður það heppilegasta skipulag, sem hægt er að hafa á þessum málum.