09.11.1965
Neðri deild: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að biðja hæstv. forseta afsökunar á því, að ég greip fram í áðan, en ég gat ekki orða bundizt, því að hæstv. ráðh. fór með svo miklar blekkingar. Ég er hér með þessa hagstofuskýrslu, sem við höfum báðir verið að vitna til, og samkv. henni var meðalvísitala ársins 1963 272.5 stig, en ársins 1964 325.6 stig. (Menntmrh.: Ég sagðist vera að bera saman 1. jan. til ársloka, tók það skýrt fram.) 1. jan., þetta eru meðalvísitölur áranna, sem hér eru, meðalvísitölur áranna, reiknaðar út af Hagstofunni, 1963 272.5, en árið 1964 325.6, og þetta er sem næst 19.5% hækkun á vísitölunni 1964 frá árinu áður, og það er mesta meðaltalshækkun, sem orðið hefur á henni síðan 1951.