28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

72. mál, hægri handar umferð

Frsm. minnti hl. (Óskar E. Levy):

Herra forseti. Þetta þurfa nú ekki að verða nema örfá orð eða örstutt athugasemd.

Hv. 2. landsk. þm., frsm. meiri hl. allshn., vildi halda því fram, að ég hefði farið með skakkar tölur í áætlun í ræðu minni áðan.

Það skal vissulega tekið fram, að áætlanir eru alltaf áætlanir og um áætlanir er alltaf hægt að deila. En ég held, að það sé nokkuð öruggt, að áætlun sú, sem birt er í grg. með því frv., sem hér er til umr., getur engan veginn staðizt. Hv. frsm. tók upp réttilega úr nál. eða athugasemdum með frv., að kostnaðurinn væri áætlaður 50 millj. þetta er mjög réttilega fram tekið hjá hv. frsm. En þegar að er gáð, er bara því leynt í aðaláætluninni, hvað kostar að skipta um ljósabúnað tækjanna, þ.e. bifreiðanna, og mig minnir endilega, að þess sé einhvers staðar getið í grg., að það muni vera ca. 14 millj. kr., svo að þarna skakkar allverulegri upphæð. Ég hringdi að gamni mínu á bifreiðaverkstæði hér í borginni núna áðan og spurðist fyrir um, hvað það mundi kosta, hvað meðalkostnaður mundi verða við að skipta um ljósin, og mér var tjáð, að það mundi að líkindum fara upp í 548 kr. á bifreið, miðað við, að allt væri í topplagi með bifreiðarnar, en mig minnir, og ég held að það sé nokkuð öruggt, að ég fari rétt með það, að það er getið um það í grg., að þessi kostnaður muni verða eitthvað um 350 kr. á bifreið. Það var raunar búið að segja mér það áður, að þessi áætlun væri algerlega fjarri lagi, og þannig er það með þann málflutning, sem hér hefur verið hafður í frammi, að mér finnst hann tæplega hafa verið traustvekjandi. En ég vil taka það fram, að það er ekki málflutningur hv. frsm., það er grg. með frv., sem ég á við. Það er þannig á málum haldið, að ég verð að segja, að mér finnst það tæplega vera traustvekjandi.

Ég vil taka það skýrt fram, að það er síður en svo, að ég hafi viljað fara hér með rangar tölur, en það ætti öllum að vera ljóst, að þessi áætlun, sem þarna er birt, fær engan veginn staðizt.

Svo er eitt enn. Það er talað um það og á það lögð áherzla, ef frv. verður að l., að hafa mjög ýtarlega og góða upplýsingaþjónustu í gangi til þess að forðast slys eftir því sem auðið verður.

Ég hef ekki komið auga á, að það sé gert nokkurs staðar ráð fyrir kostnaði við þetta í áætlun umferðarlaganefndar. Og þetta hlýtur að verða allveruleg upphæð, en hvað hún verður mikil, er ekki á mínu færi að segja um. En ég er anzi hræddur um það, að þegar allt kemur til alls, verði ef til vill mín áætlun heldur nær lagi en áætlun sú, sem birt er í grg. frv.

Annars verð ég að segja það, að þetta er alls ekki aðalatriðið. Höfuðatriði málsins er það frá mínum sjónarhóli séð, að það er ekki þörf á þessari framkvæmd. Það er ekki þörf á því að gera þetta, og einmitt beinlínis vegna þess hef ég mótað þessa afstöðu mína til málsins. Sérstaða okkar Íslendinga í þessu máli er svo geysilega mikil, að ég hef enga trú á því, að það verði nokkur þörf fyrir okkur að gera þetta um næstu mjög langa framtíð og ég held helzt bara aldrei. Ég held það.

Því er haldið dálítið á loft af meðhaldsmönnum þessa máls, að það muni verða mjög dýrt að gera þetta seinna. Þetta ér vissulega rétt, að það mun verða miklu dýrara. En það er bara svona með alla hluti. Við getum ekki framkvæmt alla hluti í dag, sem við þurfum að gera. Við þurfum margt að byggja á næstu áratugum og öldum, og það verður vissulega miklu dýrara en það mundi verða í dag, — byggja og rækta og margt og margt að gera, — allt verður þetta miklu dýrara. Þess vegna eigum við einmitt að gera hina nauðsynlegustu hluti fyrir okkar fjármagn, en ekki það, sem við getum svo ákaflega vel losnað við að gera, og allra sízt það, sem mjög orkar tvímælis um, hvort við eigum að gera eða ekki.

Svo er annað atriði, sem er kannske annað höfuðatriði málsins, og það er það, að ég er alveg sannfærður um, að með því að skipta um í hægri handar akstur förum við inn á verri regluna, — ég er alveg hárviss um það. Ég skal taka það fram aftur, að ég er enginn sérfræðingur í þessum málum, en þetta er einmitt það, sem hinn lífsreyndi lögregluþjónn var að benda okkur á. Maðurinn, sem er búinn að vera í þessu starfi um 20 ára bil, hann bendir okkur á, að þetta muni verða miklu verra fyrir okkur, og það er höfuðatriði málsins.

Ég vil að lokum taka það fram, að sú áætlun, sem ég nefndi á mínu þskj., styðst ekki algerlega við mína hugaróra, en ég held, að það sé mjög hæpið að segja, að hún geti ekki staðizt, a.m.k. lágmarkstalan, því miður.