24.02.1966
Neðri deild: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2492 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

83. mál, sala jarðarinnar Kollaleiru

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta mál um sölu Kollaleiru í Reyðarfjarðarhreppi til athugunar og sendi það til umsagnar, eins og venja er, til landnámsstjóra og jarðeignadeildar ríkisins. Fékk hún um það umsagnir þeirra, sem báðar eru jákvæðar, og leggur hún þess vegna til, að frv. verði samþ., en þó með lítils háttar viðauka samkv. því, sem fram kemur í ábendingum frá jarðeignadeild ríkisins. En með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa umsögn jarðeignadeildar. Þar segir svo:

„Á undanförnum árum hafa mörg hrepps- og bæjarfélög fengið keypt það ríkisland, sem liggur innan takmarka viðkomandi sveitar- eða bæjarfélags. Hefur þetta þótt hagkvæmt af ýmsum ástæðum, m.a. vegna skipulagsins, enda hefur ríkissjóður ekki þurft á landinu að halda, og í annan stað áskilið sér rétt til að fá keyptar lóðir og lendur vegna opinberra bygginga og framkvæmda og þá á hlutfallslega sama verði og landið er selt á. Með hliðsjón af þessu sér jarðeignadeildin ekki ástæðu til annars en mæla með fyrrgreindu frv.

Vakin skal athygli á því, að þeir, sem hafa ábúðar- og lóðarleigusamninga á Kollaleiru, halda vitanlega sínum réttindum, þrátt fyrir sölu þessa.“

Umsögn landnámsstjóra hnígur mjög í sömu átt, og í niðurlagi hennar er einnig vikið að því sama og í niðurlagi umsagnar jarðeignadeildar, og ég vil enn fremur vekja athygli á hér við umr., að þó að þessi sala sé samþ. eða heimiluð, þá er gengið út frá því, að þeir, sem hafa nú lóðarleiguréttindi, ábúðar- og lóðarleiguréttindi, haldi þeim eftir sem áður. En landbn. leggur sem sagt til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem er á þskj. 252.