31.03.1966
Neðri deild: 62. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2510 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

155. mál, hreppamörk milli Hafnarhrepps og Nesjahrepps

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. heilbr.- og félmn. varðandi þetta mál með fyrirvara, þótt raunar megi segja, að sá fyrirvari sé almenns eðlis fremur en að hann eigi við þetta sérstaka mál. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að það beri að vinna að því að sameina sveitarfélög, þar sem skilyrði eru fyrir hendi til þess. Mér skilst, að þarna fyrir austan, á Hornafirði og í Nesjahreppi, séu slík skilyrði fyrir hendi, en ósamkomulag heimamanna til hindrunar, og þá um leið, að ósamkomulag sé um þetta sérstaka mál.

Ég álít, að það sé ekki nægilegt að láta við það sitja, sem nú gildir í sveitarstjórnarlögum, að þar séu eingöngu heimildir fyrir sveitarstjórnirnar til að vinna að sameiningu sveitarfélaganna. Það sýnir sig í reynd, að sveitarfélögin nota ekki þessa heimild eins og vert væri. Þarf þá að koma til frumkvæði annars staðar frá, en þá á ég ekki við frumkvæði í deilum eins og þeirri, sem hér er fjallað um, heldur út af sameiningunni sem slíkri. Meðan það ástand varir, að sveitarfélög, sem eðli sínu samkvæmt ættu að renna saman, eru aðgreind, þá geta alltaf risið upp einstök deilumál eins og það, sem við erum nú að ræða, og í slíkum deilumálum er að sjálfsögðu mjög erfitt fyrir Alþ. að taka afstöðu, því að við vitum ekki, hvenær við kunnum að halla á annan hvorn aðilann í þeirri úrlausn, sem við ákveðum í hvert skipti. Þess vegna er minn fyrirvari við þetta nál. aðallega um það, að ég tel ekki, að það hafi verið nægilega reynt af hálfu réttra stjórnvalda að koma á sættum í deilunni. Að vísu hefur Samband ísl. sveitarfélaga haft málið með höndum og reynt að koma á samkomulagi, en það ekki tekizt. Það má vel vera, að þótt félmrn. hefði reynt sættir, þá hefði það ekki náð betri árangri, en í sem skemmstu máli sagt álít ég, að þegar svona deilur rísa upp, þá eigi að óbreyttum I. að reyna frekari sáttaumleitanir, áður en Alþ. tekur sér í hendur úrskurðarvaldið.