05.04.1966
Efri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

155. mál, hreppamörk milli Hafnarhrepps og Nesjahrepps

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram af fjórum þm. Austurl. í Nd. En allir þm. kjördæmisins standa að þessu máli, og vil ég af þeim ástæðum segja um það örfá orð nú við 1. umr. í þessari hv. d.

Efni þessa frv. er það, að kveðið er á um það í l. gr. að breyta hreppamörkum milli Hafnarhrepps og Nesjahrepps í Austur-Skaftafellssýslu þannig, að ein eyja, ósland í Hornafirði, verði innan marka Hafnarhrepps, en eyja þessi hefur verið og er í Nesjahreppi. Hún fylgir jörðinni Horn og er í einkaeign allmargra aðila. En eyjan er tengd Hafnarkauptúni og er innan hafnarsvæðisins, og fyrirhugað er að koma upp nýjum hafnarmannvirkjum við eyjuna, þar sem hún liggur að sjálfri innsiglingunni að aðalhafnarsvæðinu. Þetta,mál hefur að sjálfsögðu verið til athugunar heima í héraði og hlutaðeigandi hreppsnefndir hafa átt um það viðræður sín á milli, og aðilar frá báðum hreppsnefndum voru á feni hér í Reykjavík fyrir nokkru, og þá var þetta mál rætt hjá Sambandi ísl. sveitarfél. undir leiðsögn formanns sambandsins, en þær viðræður leiddu ekki til samkomulags. Af þeim ástæðum er frv. þetta fram borið.

2. gr. frv. mælir svo fyrir, að verði ekki samkomulag milli hlutaðeigandi hreppsnefnda innan þriggja mánaða frá gildistöku þessara l., þá skuli bætur fyrir tekjumissi Nesjahrepps, sem leiðir af ákvæðum 1. gr., ákveðnar af gerðardómi skipuðum 3 mönnum, þar sem aðilar skipa hvor sinn mann í dóminn, en Hæstiréttur tilnefnir oddamann. Vanræki aðilar að tilnefna í dóminn, tilnefnir Hæstiréttur, þannig að dómur verði fullskipaður. Þessi ákvæði frv. eru sniðin eftir hliðstæðum l., sem gilda um aðra staði, og ætlazt er til þess af hálfu okkar þm. kjördæmisins, sem stöndum að þessu máli, að um þetta mál gildi að öllu leyti venjulegar reglur, sem farið hefur verið eftir, þegar svipað hefur staðið á annars staðar. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta frv. nema sérstakt tilefni gefist til, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og háttv. heilbr.- og félmn.