01.04.1966
Efri deild: 59. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

172. mál, sala eyðijarðarinnar Örlygsstaða í Helgafellssveit

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt eftir beiðni Guðmundar Gíslasonar bónda að Kársstöðum í Helgafellssveit. Og eins og frv. ber með sér, er það þess efnis, að heimila ríkinu að selja jörðina Örlygsstaði í Helgafellssveit, en Örlygsstaðir er næsta jörð við Kársstaði. Frv. fylgja meðmæli frá hreppsnefnd Helgafellssveitar, þar sem hún mælir með því, að Guðmundur fái keypta Örlygsstaði, og sömuleiðis hefur héraðsráðunautur, Leifur Jóhannesson, gefið yfirlýsingu um, að það væri æskilegt, að Guðmundur fengi Örlygsstaði keypta.

Þannig háttar til á Kársstöðum, að fyrir allmörgum árum síðan var gerð girðing á vegum sauðfjárveikivarna á milli Narfeyrar og Kársstaða, og töpuðu Kársstaðir þá þó nokkru landi við þá girðingu, og það er ekki séð fyrir endann á því enn þá, hvenær Kársstaðir kunna að endurheimta sitt land, sem varð utan þeirrar girðingar, þegar henni var komið á. En Örlygsstaðir hafa verið í eyði í 29 ár, og þar eru engin mannvirki og ég held ekkert tún, sem í það minnsta er afgirt nú, og jörðin er aðeins 1000 kr. að fasteignamati, svo að hér er ekki um geysimikil verðmæti að ræða, en eigi að síður mundi það bæta verulega aðstöðu þeirra bænda eða þess bónda, sem er á Kársstöðum, ef hann fengi trygg afnot af jörðinni Örlygsstöðum, og sýnist mér allt mæla með því, að ábúandinn fái þessa jörð keypta.

Ég vil mælast til þess, að þetta mál fari til landbn., og þá hefur n. það að sjálfsögðu í hendi sér, hvort hún leitar skriflegrar umsagnar frá jarðeignadeild ríkisins og landnámi ríkisins eða hefur samband við þá aðila á annan hátt, en ég tel, að það verði að gera, til þess að það sé vitað mál, að ekki verði nein vandkvæði á þessum kaupum, þegar þar að kemur.

Ég vil svo leggja til, að þetta mál verði að þessari umr. lokinni tekið fyrir til 2. umr. og sent til landbn.