15.12.1965
Sameinað þing: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2700 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

Aluminíumverksmiðja

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þeirri skýrslu, sem hæstv. iðnmrh. hefur nú flutt, taka fram eftirfarandi:

Framsfl. hefur jafnan fylgt fram þeirri meginstefnu, að atvinnurekstur í landinu sé rekinn af landsmönnum sjálfum. Þó hefur flokkurinn talið og telur enn, að komið geti til mála að gera undantekningu frá þessu með sérstökum samningi og löggjöf hverju sinni, ef til þess þætti eðlilegt að grípa til að leysa veigamikil verkefni í þjóðarþágu, sem að öðrum kosti væri ekki mögulegt að koma í framkvæmd á viðunandi hátt. Í þessa stefnu hafa flokksþing framsóknarmanna ályktað um langt árabil.

Fyrir rúmu ári síðan var þingflokki framsóknarmanna skýrt frá samningaumleitunum, sem fram höfðu farið um það, að Swiss Aluminium byggði hér og ræki alúminíumverksmiðju. Lagði flokkurinn áherzlu á, að málið yrði gaumgæfilega rannsakað, áður en ákvörðun yrði tekin og settí fram nokkur höfuðatriði, sem mundu móta afstöðu hans til málsins. Þau voru sett fram í samþykktum þingflokksins, í samþykktum aðalfundar miðstjórnarinnar 1965 og í þingmannanefndinni. Í fyrsta lagi lagði flokkurinn áherzlu á, að ekki væru tiltök að hans dómi að hefja framkvæmdir af þessu tagi á tímum óðaverðbólgu og ofþenslu og slíkar framkvæmdir yrðu að vera liður í traustri framkvæmd, heildarstefnu í efnahags- og fjárfestingarmálum. Í öðru lagi var lögð áherzla á, að slíkri verksmiðju yrði valinn staður með það fyrir augum, að starfsemi hennar stuðlaði að jafnvægi í byggð landsins. Og í þriðja lagi var mótuð sú stefna, að slíkt fyrirtæki mætti ekki njóta hlunninda umfram íslenzka atvinnuvegi, yrði að lúta íslenzkum l. og greiða hagkvæmt raforkuverð.

Samningsgerðin við svissneska fyrirtækið er nú komin á það stig og þm. er málið allt svo vel kunnugt, eins og hæstv. iðnmrh. lagði áherzlu á, að mögulegt er að taka afstöðu til málsins og tímabært að gera það nú, áður en lengra er haldið.

Er nú ástæða til að taka þetta fram: Það liggur óvefengjanlega fyrir, að hægt er að virkja myndarlega við Búrfell í Þjórsá, án þess að alúminíumver komi til. Slík virkjun mundi gefa hagkvæmt raforkuverð og verða upphaf og undirstaða frekari stórvirkjana síðar, eftir því sem ástæða þætti til. Hún er framkvæmd, sem þjóðinni er mjög vel viðráðanleg og sízt meira átak en Sogsvirkjanirnar voru á sinni tíð, þegar á allt er litið. En það hefur ætíð verið þýðingarmikið grundvallaratriði í þessu máli, hvort myndarleg og hagkvæm lausn á raforkumálum landsins væri komin undir byggingu alúminíumvers. Nú er sýnt, að svo er ekki.

Það hefur engar undirtektir fengið að staðsetja alúminíumverið þannig, að það gæti stuðlað að jafnvægi í byggð landsins, en haldið fast við þá staðsetningu, sem hlyti að auka byggðavandamálið frá því, sem nú er, og er það þó þegar eitt alvarlegasta vandamál þjóðarinnar. Ólíkt hagstæðara hefði verið, að stóriðja hefði getað hjálpað til að leysa þennan vanda í stað þess að auka hann, en hann verður ekki leystur með því einu að stofna sjóð til að veita nokkurt fé til framkvæmda úti um land, enda verða fjárveitingar úr slíkum sjóði vafalaust langt undir því lágmarki, sem þær hefðu þurft að vera, þó að engin stóriðja hefði komið til greina til að togast á við.

Meðal höfuðeinkenna efnahagslífsins um þessar mundir eru óðaverðbólga, dýrtíðarflóð, ofþensla og vinnuaflsskortur. Er það vaxandi vandamál í landinu að sinna atvinnurekstri Íslendinga sjálfra og aukningu þess atvinnurekstrar í mörgum greinum og koma í framkvæmd nauðsynlegustu þjónustuframkvæmdum, svo sem skólum, sjúkrahúsum, samgönguframkvæmdum, svo að dæmi séu aðeins nefnd.

Enginn vottur er stefnubreytingar til að ráða fram úr þessum vanda, enda er það óhugsandi nema með því að taka upp nýja stefnu í efnahagsmálum, atvinnu- og fjárfestingarmálum.

Í þeim gögnum um þetta málefni, sem fram komu í fyrravetur og í vor, hefur því verið haldið fram, að vinnuaflsvandamálið væri leysanlegt, en engin frambærileg rök færð fyrir því og engin tilraun gerð til að sýna fram á, hvernig hægt væri að mæta á næstunni þörfum framleiðslunnar og nauðsynlegustu framkvæmdanna fyrir vinnuafl, þar með töldum t.d. lífsnauðsynlegustu nýjum framkvæmdum til jafnvægis í byggð landsins, sem yrðu að vera vinnuaflsfrekar. Það hefur þó í öllum umr. og grg. um málið verið á því byggt og ráð fyrir því gert, að þeir, sem ynnu við þessar framkvæmdir og rekstur, yrðu Íslendingar að undanskildum fáum sérfræðingum. En nú er farið að ráðgera fullum fetum innflutning erlends verkafólks til byggingar verksmiðjunnar og einnig til reksturs, ef svo ber undir og gert ráð fyrir að veita hinu erlenda fyrirtæki rétt til slíks innflutnings.

Þessar ráðagerðir færa málið á nýtt stig og með þeim er tekin upp ný stefna, sem ekki hefur einu sinni verið rædd í sambandi við málið, en ef inn á þessa braut verður farið, er það upphaf þess, að innfluttu erlendu einkafjármagni fylgi einnig erlent verkafólk og er erfitt að sjá, hvar ætti að fóta sig, ef inn á þá braut er lagt.

Með innflutningi erlends verkafólks til þess að byggja upp stóriðju erlendra aðila í landinu, yrði skapað nýtt vandamál, stórfelldara og fjölþættara en svo, að afleiðingarnar verði séðar fyrir í fljótu bragði og mundi það bætast við ærinn vanda hliðstæðrar tegundar, sem fyrir er.

Einstök atriði samninganna mun ég ræða síðar, ef eða þegar þeir koma til beinnar meðferðar á Alþ., en nú vil ég þó leggja áherzlu á, að ætlunin er að semja um fast rafmagnsverð til 25 ára frá raforkuveri, sem ekki á að verða fullgert fyrr en eftir 7 ár og enginn veit því hvað muni kosta. Það er því augljóst, að ómögulegt er að segja fyrir um það, hver fjárhagsútkoma verður af þeim viðskiptum.

Ég hef nú rakið nokkur af þeim atriðum, sem að dómi Framsfl. hafa verið og eru veigamikil eða veigamest í þessu máli. En niðurstaðan er sú, að Framsfl. getur ekki samþykkt þessa samninga um byggingu alúminíumvers á Íslandi og raforkusölu til þess og mun beita sér gegn þeim. Þetta telur flokkurinn rétt og tímabært, að komi fram nú.