13.10.1965
Sameinað þing: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja hér nokkur orð í tilefni af þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf hér nú á þessum fundi. Afstaða okkar Alþb.— manna er óbreytt til ríkisstj. Við teljum, að þrátt fyrir nokkur mannaskipti í stjórninni, sé stefna hennar í öllum meginatriðum óbreytt frá því, sem verið hefur. Það teljum við m.a. koma glöggt í ljós með því nýja fjárlagafrv., sem stjórnin nú hefur lagt fyrir þingið. Samkv. því er stefnan áfram sú að viðhalda og auka óþarfa eyðslu á ýmsum sviðum, en halda niðri framlögum til aðkallandi verklegra framkvæmda. Samkv. því frv. er enn haldið áfram á braut nýrra álagna á almenning, sem óhjákvæmilega munu leiða til enn aukinnar dýrtíðar í landinu.

Það er ljóst, að ríkisstj. er enn sem fyrr sama dýrtíðarstjórnin, sem lætur vaða á súðum í verðlagsmálum þjóðarinnar. Stefna stjórnarinnar er enn stjórnleysi í verðlags- og fjárfestingarmálum og afstaðan er augljóslega óbreytt til launþegasamtakanna í landinu. Nýjar yfirlýsingar stjórnarinnar um góðar fyrirætlanir í ýmsum málum eins og t.d. húsnæðismálum, koma að litlu haldi, meðan stefna hennar gagnvart húsaleiguokri, húsasölubraski og okurháum vaxtakjörum af íbúðarlánum er óbreytt. Nýjar yfirlýsingar um góðan vilja ríkisstj. til þess að halda dýrtíðinni í skefjum eru til lítils gagns, meðan stefnan í framkvæmd er sú að hækka verðlag á flestum hlutum, nú t.d. á rafmagni og benzíni, og meðan verið er að leggja smátt og smátt niður allt verðlagseftirlit í landinu.

Það, sem annars vakti mesta athygli mína í sambandi víð hina nýju stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar, þá sem hæstv. forsrh. las hér upp að þessu sinni, var um allar ráðagerðir stjórnarinnar um áætlanagerð, um nýjan áætlunarbúskap. Nú var gert ráð fyrir því, að gerðar yrðu áætlanir um skólabyggingar í landinu, áætlun um þróun landbúnaðarins, áætlun um uppbyggingu í landshlutunum, stofna á sérstakt hagráð, sem spanna á yfir öll fjárhagsmálefni þjóðarinnar, og gera á sérstaka framkvæmdaáætlun yfir allt það, sem framkvæma á í landinu. Þetta kemur frá þeirri sömu ríkisstj., sem hefur gert það að aðalstefnumáli sínu að boða kenningu um hið frjálsa hagkerfi án afskipta ríkisvaldsins. Það á auðvitað eftir að koma í ljós, hvort ríkisstj. hefur áttað sig á því, að frelsi það, sem hún hefur innleitt á ýmsum sviðum, hefur verið það frelsi, sem hefur verið að auka á öngþveitið í landinu. Og hvort hún er nú að byrja að sjá að sér í þeim efnum og taka hér upp önnur vinnubrögð, reynslan á eftir að skera úr um það. Afstaða okkar Alþb: manna til stjórnarinnar er því hin sama og áður. Við erum í andstöðu við meginþætti stjórnarinnar, nýjar yfirlýsingar frá henni án breytinga á stefnunni í framkvæmd breyta þar engu um.