13.10.1965
Sameinað þing: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég bjóst nú ekki við neinni traustsyfirlýsingu frá hv. stjórnarandstæðingum og get þess vegna ekki sagt, að ég hafi orðið fyrir neinum vonbrigðum af þeirra ræðum. Miklu heldur verð ég að lýsa aðdáun minni á búhyggindum hv. 1. þm. Austf., því að hann fer auðsjáanlega að eins og gamlir prestar, sem safna ræðum og hafa í pokahorninu eina fyrir hvern helgidag ársins. Hv. ræðumaður hefur dregið úr pússi sínu fyrirvaralaust langa skrifaða ræðu og flutt. Að vísu er nú efnið nokkuð svipað æ ofan í æ, hvert sem tilefnið er hverju sinni. Við erum nokkuð farnir að kannast við þennan lestur. Ég verð að segja, að í honum gætti nokkurs tvískinnungs vegna þess að annars vegar var látið svo, sem stjórnin væri nú að einhverju leyti að breyta um stefnu, hverfa frá því, sem áður hefði verið yfirlýst, en hins vegar var sagt það, sem satt er, að meginstefnan er enn sú sama. Ég vil til fróðleiks, það tekur mjög skamman tíma, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þá stefnuyfirlýsingu, sem fyrirrennari minn,hæstv. forsrh.. Ólafur Thors, las upp hér í Alþ. hinn 20. nóv. 1959. Hún hljóðaði svo:

„Að undanförnu hafa sérfræðingar unnið að ýtarlegri rannsókn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Skjótlega eftir að þeirri rannsókn er lokið, mun ríkisstj. leggja fyrir Alþ. till. um lögfestingu þeirra úrræða, er hún telur þörf á. Athuganir hafa þó þegar leitt í ljós, að þjóðin hefur um langt skeið lifað um efni fram, að hættulega mikill halli hefur verið á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd, tekin hafa verið lán erlendis til að greiða þennan halla og að erlend lán til stutts tíma eru orðin hærri en heilbrigt verður talið. Munu till. ríkisstj. miðast við að ráðast að þessum kjarna vandamálanna, þar eð það er meginstefna ríkisstj. að vinna að því, að efnahagslíf þjóðarinnar komist á traustan og heilbrigðan grundvöll, þannig að skilyrði skapist fyrir sem örastri framleiðsluaukningu, allir hafi áfram stöðuga atvinnu og lífskjör þjóðarinnar geti í framtiðinni enn farið batnandi. Í því sambandi leggur ríkisstj. áherzlu á, að kapphlaup hefjist ekki á nýjan leik milli verðlags og kaupgjalds og að þannig sé haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar, að ekki leiði til verðbólgu.

Til þess að tryggja, að þær heildarráðstafanir, sem gera þarf, verði sem réttlátastar gagnvart öllum almenningi, hefur ríkisstj. ákveðið:

1) að hækka verulega bætur almannatrygginga, einkum fjölskyldubætur, ellilífeyri og örorkulífeyri.

2) að afla aukins lánsfjár til íbúðabygginga almennings.

3) að koma lánasjóðum atvinnuveganna á traustan grundvöll.

4) að endurskoða skattakerfið með það fyrir augum fyrst og fremst að afnema tekjuskatt á almennar launatekjur.

Varðandi verðlag landbúnaðarafurða mun reynt að fá aðila til að semja sín á milli um málið. Ella verður skipuð nefnd sérfræðinga og óhlutdrægra manna, er ráði fram úr því.

Ríkisstj. mun taka upp samningu þjóðhagsáætlana, er verði leiðarvísir stjórnarvalda og banka um markvissa stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, beita sér fyrir áframhaldandi uppbyggingu atvinnuveganna um land allt og undirbúa nýjar framkvæmdir til hagnýtingar á náttúruauðlindum landsins.

Þá þykir ríkisstj. rétt að taka fram, að stefna hennar í landhelgismálinu er óbreytt, eins og hún kemur fram í samþykkt Alþ. hinn 5. maí 1959“.

Þessi var orðrétt yfirlýsing hæstv. forsrh., Ólafs Thors, hinn 20. nóv. 1959, og ég hygg, að engum geti blandazt hugur um, að þegar tekið er tillit til þeirra atvika, sem breytzt hafa í tímans straumi, er rétt með farið það, sem ég sagði áðan, að meginstefnan enn er hin sama og þá var lýst. Sem sé sú, að efnahagslíf þjóðarinnar komist á traustan og heilbrigðan grundvöll, þannig að skilyrði skapist fyrir sem örastri framleiðsluaukningu, allir hafi áfram stöðuga atvinnu og lífskjör þjóðarinnar geti í framtíðinni enn farið batnandi. Þetta er enn meginstefna stjórnarinnar og ég verð að mótmæla því sem algerlega röngu, sem hv. l. þm. Austf. sagði, að við þessa meginstefnu stjórnarinnar hafi ekki verið staðið, henni hafi ekki verið framfylgt og að öðru vísi hafi til tekizt heldur en menn þá lýstu, að þeir vildu stefna að.

Ég skal ekki fara að rifja upp, hvernig ástatt var, þegar ríkisstj. tók við, en þá voru engir gjaldeyrissjóðir fyrir hendi; þvertá móti skuld á gjaldeyrisreikningnum. Nú eru í gjaldeyrissjóðum 1800–1900 millj. kr. Þá voru miklar skuldir til skamms tíma. Það eru að vísu skuldir til skamms tíma enn, en einungis brot af því, sem gjaldeyrissjóðirnir nú eru, og skuldir til langs tíma hafa ekki aukizt í heild á þessu tímabili. Og vita þó allir, hversu stórkostlega hefur aukizt ýmiss konar eign landsmanna á þessum árum, þegar litið er til ekki einungis margháttaðrar uppbyggingar innanlands, heldur til skipaflota, flugflota, fiskiskipa og ótalmargs annars, sem öllum er kunnugt um.

Þá hefur það einnig tekizt að viðhalda góðri og öruggri vinnu í landinu. Það er að vísu rétt, að á nokkrum stöðum horfir þetta verr en skyldi, og ríkisstj. er fús til og hefur uppi viðleitni til þess að reyna að bæta úr því. En þar eru að verki þau náttúruöfl, sem eru óviðráðanleg, eins og aflaskortur.

Nú veit ég það að vísu og við skulum ekki vera að eyða orðum í deilu um það, að hinar miklu tekjur, sem landsmenn hafa aflað á þessum tíma, eru auðvitað ávöxtur hins mikla afla og góðæris, sem þetta land hefur notið á þessum árum. Mér kemur ekki til hugar að neita því. En það er jafn augljóst, að fullyrðingarnar um, að sigið hafi á ógæfu hlið, og að ríkisstj. hafi mistekizt það, sem hún ætlaði sér, að bæta aðstöðu út á við, tryggja atvinnu inn á við, að þetta hafi mistekizt, þær fullyrðingar fá ekki með neinu móti staðizt. Og eins er það, að framleiðsluaukning og tekjuaukning á landsmenn hefur aldrei orðið hraðari, vöxtur þessa hefur aldrei orðið meiri heldur en einmitt á þessum síðustu árum. Mig minnir, að á árunum 1956–58 hafi sú tala, sem kemur til greina, verið á mann eitthvað kringum 31/2%. Nú á þessu síðasta tímabili hefur hún, að því er tölur ná til, verið yfir 6% á mann. Og það er eins öruggt, að í heild hefur hlutdeild verkafólks í landinu, launþega, launtaka, hvernig við viljum orða það, í heild hefur hún haldizt af þjóðartekjum, vaxið nokkurn veginn í réttu hlutfalli við þjóðartekjurnar í heild, svo að ekki hefur verið á almenning hallað á þessum árum. Fullyrðingar um slíkt fá ekki með neinu móti staðizt.

Þá er það einnig algjörlega rangt, þegar því er haldið fram, að núv. ríkisstj. sé harðari í skattheimtu heldur en hér hafi áður tíðkazt. Hv. þm. ætti að bera saman hlutfali af skattheimtu til allra opinberra aðila nú, miðað við það, sem áður fyrri var, t.d. á þeim árum, þegar hann sjálfur var í ríkisstj. Um þetta er hægt að fá yfirlit. Ég skora á hv. þm. áður en hann kemur næst með fullyrðingar sem þessa að afla sér þess yfirlits og lesa það hér upp. Alveg með sama hætti er það rangt, sem oft er gefið í skyn, að skattar séu hér á landi hærri heldur en með öðrum þjóðum tíðkist. Sannleikurinn er sá, að skattar eru hér að hundraðshluta þjóðartekna mun minni heldur en víða er og lægstir að hundraðshluta þess, sem ég hef yfirleitt séð skýrslur um. Við vitum það, að í okkar þjóðfélagi geta, vegna mismunandi afla og tekna, orðið meiri sveiflur í þessu öllu heldur en víða annarsstaðar, en í heild er þetta rétt mynd, sem ég hef gefið, og skattahlutfallið er sízt óhagstæðara fyrir allan almenning nú heldur en áður hefur verið.

Hv. þm. virtist vilja gera gabb að því, að því er skilja varð, að því hefði verið heitið, að almennar launatekjur skyldu losna við tekjuskatta. Ég fullyrði, að svo sé í raun og veru. Ég fullyrði, að almennar launatekjur séu ákaflega lítið skattaðar með beinum tekjuskatti til ríkisins, þannig að sá skattur sé algerlega smáræði. Og ég minni einnig á það, sem frá var skýrt nú í fréttum fyrir 1–2 dögum, að sú skattalöggjöf, sem samþ. var á síðasta þingi, hafi leitt til þess, að vísitalan af þeim sökum lækki um 2.4%. Það er ekki reikningur, sem ríkisstj. á neinn þátt í, heldur eru það hlutlausir aðilar, fulltrúar verkalýðs og vinnuveitenda ásamt oddamanni, sem hafa komið sér saman um þann útreikning. Mér er meira að segja sagt, að ef fylgt hefði verið sömu reglu og áður var fylgt um þennan skattaútreikning og áhrif hans á vísitölu, hefði vísitalan af þessum sökum lækkað nú um allt að 6 stig, en menn hafi komið sér saman um þennan nýja útrekning, til þess að með engu móti væri hægt að segja, að þarna væri á launþegana hallað.

Við vitum, að það er auðvitað rétt, að ákaflega margt er ógert í okkar landi. Slíkt verður ætíð í mannlegu samfélagi og ekki sízt hjá lítilli þjóð, sem hefur þurft á skömmum tíma að breyta svo mjög um lífshætti eins og íslendingar hafa þurft að gera. En ég fullyrði, að nú hin síðari ár hafi verið hlutfallslega jafnmikið og oft meira lagt fram til allra þeirra nytjamála, sem hv. þm. talaði hér áðan um, heldur en áður hefur verið gert. Um þetta á í rauninni ekki að þurfa að vera með neinar ágizkanir. Um þetta á að vera hægt að fá viðhlítandi tölur til þess að byggja á, svo að menn þurfi ekki að standa hér og þræta um jafn augljósar staðreyndir.

Það er auðvitað hægt að segja eins og hv. þm.: Hver vill segja, að það hafi verið stefnt að því ástandi, sem nú er hér í landi? Auðvitað er það svo, að öll vildum við að ástandið væri betra en það er. Svo er ætíð meðal frjálshuga manna og þeirra, sem yfirleitt sjá fram á veg. Þeir gagnrýna margt það, sem er, margt tekst ætíð í mannlegri viðleitni verr en skyldi, bæði hjá þessari ríkisstj. eins og öllum öðrum. Hitt þori ég að fullyrða og við vitum það öll, að margt hefur tekizt vonum betur, og einmitt um meginstefnu þessarar ríkisstj. hefur tekizt að ná þeim meginstefnumiðum, sem mörkuð voru 1959, og almenningur hefur aldrei átt við betri kjör að búa í þessu landi heldur en einmitt nú.

Hv. þm. segir: Það hlýtur að fara illa, vegna þess að það er margbúið að prófa og ekki sízt í þjóðfélagi eins og okkar, að einhliða auðhyggjustefna eða kapítalismi á ekki við. Hver deilir um þetta? Kemur nokkrum lifandi manni til hugar, að auðhyggjustefna eða kapítalismi, eins og hann var boðaður á 19. öld, eigi við á Íslandi eða sé framkvæmdur hér nú eða yfirleitt nokkurs staðar á byggðu bóli? Við vitum, að þjóðirnar hafa allar verið og eru stöðugt að læra af reynslunni, að margt af því, sem var fordæmt af öðrum aðilanum fyrir nokkrum árum, hefur hann nú sannfærzt um, eins og hann hefur einnig sannfært hinn um, að margt af því, sem hann hélt fram, var rétt. Auðvitað er sú frjálshyggjustefna, sem hér hefur ráðið frá því 1959, hvorki beinn kapítalismi né hreinn sósíalismi. Í verulegum atriðum er það sama stjórnarstefna eins og fylgt hefur verið og fylgt er á Norðurlöndum, á Stóra-Bretlandi, um vestanverða Evrópu. Þetta vita allir hv. þm. Í einstökum atriðum er hægt að sýna frávik í einstökum löndum. Alltaf breytist eitthvað eftir því, sem stjórnarskipti verða og lögð er misjöfn áherzla á tiltekin atriði. En í stórum dráttum er þessi stjórnarstefna, sem við fylgjum, hin sama sem í hinum löndunum er nú fylgt, ég vil segja nokkurn veginn án tillits til þess, hvaða flokkar þar fara með völd. Hver hefur orðið meginbreyting í Bretlandi við það, að Verkalýðsflokkurinn tók þar við af Íhaldsflokknum? Hver býst við meginbreytingu í Noregi, þó að samsteypustjórn borgaraflokkanna taki þar við af Verkamannaflokknum? Eins og ég segi, það er lögð misjöfn áherzla á ólík atriði, en í stórum dráttum eru stefnumiðin hin sömu. Menn hafa yfirgefið trúna á lögþvingun, sem sósíaldemókratar áður fyrr fylgdu, eins og menn hafa yfirgefið trúna á skefjalausan kapítalisma. Og það kom einnig hér fram, að hv. 5. þm. Austf. taldi, að okkar tal um áætlunarbúskap samræmdist alls ekki því frjálsræði, sem við að öðru leyti boðuðum. Það er rétt, það samræmdist ekki gamaldags kapítalisma. En það samræmist þeim stjórnarháttum. sem nú eru yfirleitt viðhafðir í lýðræðisríkjum, jafnvel í Bandaríkjunum, sem eru þó enn trúrri í fylgd sinni við kapítalismann en engum mundi koma til hugar að segja, að hann væri þar alls ráðandi lengur. Marg, konar afskipti ríkisins, sbr. ráðagerð Johnsons forseta um baráttu við fátæktina, um læknishjálp og ótalmargt annað, eru ávöxtur þessarar sömu stjórnmálastefnu. sem ég var hér að reyna að gera grein fyrir. Um þessi efni þurfum við þess vegna alls ekki að deila.

Flest af því góða, sem hv. 1. þm. Austf. sagði á skorta, hafði ég nú talið upp í minni yfirlýsingu, en hv. þm. hafði ekki haft þá upptalningu í huga, þegar hann valdi þessa ræðu úr sínu nytsama ræðusafni, og er það út af fyrir sig skiljanlegt. Þar að auki mundi hann nú vart trúa, að við vildum hrinda því áleiðis, eins og hann sagði, þótt við hefðum talið það upp. Hann um sína vantrú. Við vitnum til okkar verka og munum vitna til okkar verka, þegar þau verða lögð undir dóm kjósenda, og við skelfumst sízt þann dóm.