14.02.1966
Neðri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

98. mál, áfengislög

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Þótt framsöguræða hv. 1. flm. ölfrv. væri í heild ekki sérlega merkileg og síður en svo sannfærandi, voru þó ýmsir kaflar hennar á sína vísu athyglisverðir. Í fyrstu lotu hellti ræðumaður sér yfir þá, sem hann kallaði ölandstæðinga, taldi þá öfgafulla og jafnvel óheiðarlega í málflutningi, t.d. að þeir hefðu að engu margítrekaða yfirlýsingu ölmanna, að þeim gengi það eitt til með áfengt öl að draga úr ofneyzlu áfengis og siðbæta drykkjusiðina, og skyldi þessu marki náð með áfengu öli, án þess þó að skerða í nokkru áfengistekjur ríkissjóðs, sem ræðumaður taldi, að ekki mundi af veita, að haldið yrði til haga.

Frsm. taldi það víðs fjarri, að vín væri almennt hættulegt í eðli sínu, og afleiðingar ofnautnar þess stöfuðu meira af ýmsum göllum, sálrænum og/eða líkamlegum, sem með manninum leyndust. Þar væri meir hundurinn grafinn heldur en bein hætta af neyzlu áfengis. Flutti hv. frsm. alllangan og lærðan fyrirlestur hér um og studdist við læknisfræðilegan, sálfræðilegan og heilsufræðilegan fróðleik, sem hann hafði heyjað að sér og hagrætt. Mátti skilja það á málflutningi hv. ræðumanns, að óþarft væri slíkt fjas, sem flutt væri um áfengisbölið, sem hann þó ekki mótmælti, að væri að nokkru leyti til staðar. Hv. ræðumanni varð tíðrætt um margs konar plágur, sem yfir gengju og stöfuðu af sjálfskaparvítum manna. Nefndi hann þar sérstaklega til ofát og offitu, sem eftir ýmsum leiðum dræpi árlega miklu meiri fjölda en áfengið. Áttu afleiðingar ofáts að vera orsök þess og þess vegna ekki hægt og réttlátt að kenna a.m.k. áfenginu um dánardægur þeirra manna, sem létust af offitu. En sumum fannst, að það væri ekki ástæða til að drepa hættunni af áfenginu á dreif með því að tilgreina, að aðrar plágur en áfengið herjuðu mannfólkið.

Hv. ræðumaður fór alllangt út í þær hættur, sem steðjuðu að mönnum eftir ýmsum leiðum og hann vildi telja, að nær væri jafnvel að snúa geiri sínum að heldur en til ofneyzlu áfengis. Hann minntist ekki á það, að sumir telja í sambandi við þá óneitanlegu hættu, sem stafar af offitu og hefur drepið margan mann eftir ýmsum leiðum, að þamb áfengs öls væri ekki síður hættulegt á þessu sviði heldur en ýmis önnur „matvæli“. Hv, ræðumaður gaf nokkrar leiðbeiningar um það, sem varast bæri í því efni, og þar á meðal, að menn skyldu varast ýmsar landbúnaðarafurðir til þess að halda sig frá bættu offitunnar. Sem sagt, ræðumaður var mjög fjölræðinn um ýmsa þessa þætti og fór þar af leiðandi nokkuð fram hjá þeirri hættu, sem hann bar þó ekki á móti að væri í sambandi við ofneyzlu áfengis. Ræðumaður var svo fjölræðinn um þetta, að mér varð hugsað, sem ekki var nú neitt ljótt, til sálmaskáldsins, sem kvað á sínum tíma: „Ég geng í hættu hvar ég fer“

Þá gaf hv. frsm. allmerkilegar upplýsingar um smygl ýmissa víntegunda og sérstaklega um óleyfilegan innflutning áfengs öls. Og verð ég að segja, að mér þótti talsvert til um og nokkuð i varið þær fróðlegu upplýsingar, sem ræðumaður gaf á þessu sviði, og var ekki alveg laus við bæði gleði og aðdáun yfir því, að hv. ræðumaður skyldi, eftir að hann hafði svo mjög kannað ýmsa leynistigi og refilstigu á vegum smygls, hafa sloppið þar óskaddaður á sál og líkama, sem ég veit að hann hefur gert.

Ég vil nú víkja nokkrum orðum að frv. sjálfu. Það mun hafa verið árið 1960, að núv. hv. 7. þm. Reykv. lagði af stað einn á bát og vildi færa þjóðinni áfengt öl bruggað hérlendis og söluhæft yfir hvert íslenzkt búðarborð. Kvaðst hv. þm. hafa á bak við sig vænan hóp, ekki sízt hér í höfuðstaðnum, sem eins og honum rynni mjög til rifja það ófremdarástand og það alþekkta volæði, sem þjóðin byggi við í áfengismálunum. Kvað hann þennan vanda því raunalegri sem lausnin væri nærtækari, vandinn ekki annar en að leggja til bruggun og neyzlu áfengs öls. Þessa till. um bruggun og sölu áfengs öls hér höfðu röskir þm. áður borið fram á Alþ., en höfðu hlotið minni árangur en erfiði og því lagt algerlega árar í bát. Þá voru ýmsir þeirrar trúar, að þessi óværð, áfengt íslenzkt öl, væri fyrir langa framtíð úr sögunni. En sú von brást. Og eins og áður er sagt, tók þessi hv. þm. málið upp á sína sterku arma.

Eins og kunnugt er, tók Alþ. máli þingmannsins fálega og vísaði því til n, til yfirsöngs og greftrunar og skyldi þar með málið liggja kyrrt um langan tíma og engan angra. Sú hefur þó ekki orðið raunin á, því að enn er þetta ölmál á ferðinni. Áður fengin reynsla mun hafa sannað hv. 7. þm. Reykv., að meira líðs var vant, og skyldu minnst þrír þm. ryðja þessu máli leið gegnum Alþ. Hv. þm. lagði því ekki einn á bát af stað í þetta sinn og valdi sér til fylgilags tvo menn röska og margvísa, annan norðlenzkan og hinn af Vestfjörðum. Veganestið er og var hið sama og áður og markið, sem að er stefnt, bið sama, þ.e. siðabót í neyzlu áfengis, sem hv. flm. telja að náist við neyzlu áfengs öls. Í grg. frv. er byrjað á að fræða á því, að hinir svokölluðu sterku drykkir innihaldi minnst 21% af vínanda. Síðan komi hin léttu vín, sem séu með vínandastyrkleika þar fyrir neðan og muni ná niður að ca. 10% áfengismagni. En þá kemur eyða í, og virðist flm. mjög hættulegt að láta þá eyðu vera ófyllta. Skal koma til áfengt öl, sem nær svo að segja niður að hinum óáfengu drykkjum. Hv. flm. virðast ekki leiða hugann að hinum ískyggilega þjóðarvanda, t.d. hve miklir beinir fjármunir fara í súginn árlega vegna áfengiskaupa og það sífellt í vaxandi mæli. Herma skýrslur, að s.l. ár hafi þjóðin eytt í áfengiskaup nálægt 400 millj. kr., og sumir geta sér til, að ef reiknað er með því mikla vínsmygli, sem talið er að eigi sér stað, muni fjármunaeyðsla þjóðarinnar hafa nálgazt allt að 20 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu, og eru þá með talin ungbörnin í vöggunni og karl og kona í körinni. Hv. flm. virðast því síður snortnir af því, hvað hin ógurlega neyzla áfengis hefur kallað yfir þjóðina á fleiri sviðum en þeim, sem hægt er að mæla í krónum. Samt virðist hv. flm. eitthvað vera að í þessu efni, sem laga þarf. Og ráðið, sem þeir hafa fundið upp og bera fram, er meira áfengi. Það á að drýgja mjöðinn enn með áfengu öli. Það á að brugga 4 1/2 % áfengt öl handa Íslendingum, en sterkara handa varnarliðinu og öðrum útlendingum og til útflutnings fyrst og fremst. En þegar á að fara að búa til fleiri áfengar öltegundir í landinu, mætti svo fara, að skenkjari færi einhvern tíma flöskuvillt og við Íslendingar einhverjir nytum góðs af þeim hinum sterkari miði, t.d. á borð við það, sem nú er kallað Egill sterki. Ölmennirnir tína svo fram ýmis rök málstað sinum til framdráttar og segja m.a.: Að áfengt öl í viðbót við þær víntegundir, sem nú eru á boðstólum, muni bæta drykkjusiðina, jafnvel draga úr drykkjuskapnum, og brúa betur en áður það bil, sem nú er á milli áfengra og óáfengra drykkja. Að áfenga ölið muni afsanna það menningarleysisorð, sem við nú liggjum undir hjá útlendum þjóðum að þeirra dómi, að við ástundum ekki þá sjálfsögðu kurteisi og tillitssemi að hafa á boðstólum með öðrum vinum áfengt öl. Má skilja það svo, að ölmennirnir telji slíka framkomu alvarlegt mál í sambandi við baráttu okkar að laða til okkar erlenda ferðamenn. Að heimskulegt sé að standa á móti bruggun áfengs öls, þar sem við eigum frá náttúrunnar hendi heimsins bezta vatn og getum því örugglega framleitt heimsins bezta öl og þannig lagt undir okkur heiminn á því sviði og öðlazt aukna möguleika til fjár og frama. Enn fremur, að framleiðsla áfengs öls muni tryggja tekjur ríkissjóðs af sölu áfengra drykkja.

Það má segja, að þessi sýndarrök með áfenga ölinu séu svo augljóslega haldlaus, að varla taki því að taka þau til athugunar, þótt ég vilji hér með gera það lítils háttar.

Hvað viðkemur því, að áfengt öl muni draga úr smygli, má benda hv. flm. á, sem þeir hljóta raunar að vita og vera kunnugt, að vínsmygl er alþjóðlegt vandamál, sem þær þjóðir, sem framleiða áfengt öl, hafa við að stríða engu síður en aðrar. Það er því tilgangslaust fyrir ölmennina að halda því fram, að áfenga ölið sé þeirrar náttúru að fyrirbyggja eða draga úr smygli. Það eru þá einnig hreinar kerlingabækur, að áfenga ölið bæti hina svokölluðu drykkjumenningu og dragi úr ofnautn áfengra drykkja. Það má vera, að hin illræmdu drykkjulæti og hvimleiðu drykkjusiðir séu meira áberandi meðal okkar en hjá sumum öðrum þjóðum, sem stunda meira en við þær drykkjuvenjur að neyta hinna léttu vína og ölsins. Hitt má þó vera, sem sumir telja, að skapgerð okkar Íslendinga eigi ekki svo lítinn þátt í hinum oft og tíðum hvimleiðu drykkjusiðum og við þess vegna munum seint taka upp betri hætti í þeim efnum, enda talið, að við ættum hægt um vik að breyta hér til, ef menn hefðu hug á því og hirtu um eða teldu slíkt til bóta.

En er þetta mál svo einfalt, að til öruggra bóta megi teljast að neyta meir léttu drykkjanna? Hvað segir reynsla t.d. Frakka og annarra suðrænna þjóða og einnig þeirra, sem búa við ölmenninguna svokölluðu? Hvar hafa komið í ljós tiltölulega flestir eða fleiri krónískir drykkjusjúklingar? Það er alkunna, að sídrykkja áfengs öls og léttari vína á ekki síður þátt í að gera menn að slíkum sjúklingum en neyzla sterkra drykkja. Það er vitað, að Frakkar hafa þungar áhyggjur af vaxandi tölu áfengissjúklinga sinna og auknum dauðsföllum af völdum áfengisneyzlu. Mest er talið, að á þessu beri í iðnaðarhéruðum Frakklands meðal verkamanna. Talið er, að þessi plága fari vaxandi með aukinni drykkju áfengs öls. En í þeim héruðum, þar sem fyrri venjur haldast meir, að neyta aðeins þrúguvíns í svipuðum mæli og fyrr var venja, sé áfengismálið lítið breytt frá því, sem áður hafi verið. Sagt er, að á s.l. ári hafi dauðsföll af völdum áfengissýki numið meir en 20 þús. manna í Frakklandi, og þrátt fyrir mannfjölda Frakklands telja menn það, að ekki megi við svo búið sitja og því verði hið opinbera að hlutast til um viðeigandi aðgerðir, sérstaklega að reyna að draga úr neyzlu áfengs öls. Þessi mikla og merkilega þjóð, Frakkarnir, virðist því skilja vandann, fyrr en skellur í tönnunum, og vilja ekki berja höfðinu við steininn, alveg gagnstætt hinum íslenzku ölmönnum, sem halda því blákalt fram, að neyzla margra annarra þjóða sýni, að ölið sé laust við að vera hættulegt og hálfgerður Kínalífselixír eða allra meina bót. Það mætti þó segja, að reynsla ýmissa þjóða sýndi, að ölmennirnir vildu óafvitandi í þessu efni fara með okkur úr öskunni í eldinn.

Að við berum einhvern menningarleysisstimpil í augum annarra þjóða og sýnum óviðunandi tillitsleysi og skort á kurteisi að bjóða ferðamönnum aðeins létt og sterk vín, en ekki áfengt öl, og stöndum með því móti æskilegum erlendum ferðamannastraumi, slík röksemd er fjarri lagi og óraunhæf.

Að heimskulegt sé að standa á móti bruggun áfengs öls, þar sem við höfum yfirburði um ölgerð fram yfir aðrar þjóðir vegna vatnsgæða. Það er öllum vitanlegt, að flestar aðrar þjóðir hafa yfir bjarglegu vatni að ráða til ölgerðar, og það hefur sannazt, að það eru ekki vatnsgæðin, sem hafa ráðið úrslitum um gæði þeirra öltegunda, sem mesta alþjóðahylli hafa hlotið og flestar þjóðir kjósa sér. Kemur þar vitanlega fram og til greina fyrst og fremst kunnátta í ölgerð, sem t.d. Þjóðverjar og Danir eru taldir hafa manna mest tileinkað sér í margra alda gömlum öliðnaði sínum, svo og einnig hafa ráðið úrslitum þeir peningar, sem þessar þjóðir hafa varið í auglýsingastarfsemi til framdráttar sínu öli. Það er því fjarri öllu lagi að reyna að telja mönnum trú um, að það þurfi ekki annað og meira til en hið góða íslenzka vatn, til þess að við getum með góðum árangri ruðzt inn á hinn alþjóðlega ölmarkað.

Að síðustu kemur svo rúsínan í pylsuendanum hjá ölmönnunum: Áfengt öl á að tryggja betur en ella viðvarandi tekjur ríkissjóðs af sölu áfengra drykkja. Hér er vikið að alvarlegu atriði varðandi hið opinbera og áfengið, sem ég skal ekki fjölyrða um hér. Aðeins vil ég segja það, að það er raunaleg staðreynd, hversu ríkissjóður virðist háður áfengistekjum, e.t.v. jafnháður og drykkjumaðurinn er háður vínföngunum, sem á boðstólum eru. Flestir munu nú verða að viðurkenna, að almenningur með sinni þekkingu, vilja og getu, eins og ölmennirnir orða það, muni ekki sætta sig við áfengisbann. Hitt munu fáir harma, þótt ríkistekjurnar af sölu áfengis minnkuðu eitthvað frá því, sem nú er, ef slíkt táknaði raunverulega minnkandi neyzlu áfengis.

Ölmennirnir þykjast furða sig á þeirri fjarstæðu, að nokkur skuli vera á móti áfengu öli, en láta hins vegar fljóta hin sterku vín. Því furðulegra, segja þeir, þar sem öldrykkjan sé eðlilega hættuminnst. Hér er vikið að atriði, sem margir telja fjarri lagi í sambandi víð málflutning ölmannanna, enda hafa þeir síður en svo handbær rök fyrir. Margir benda á, að einmitt áfenga ölið sé stórum hættulegra en annað áfengi, m.a. sökum þess, að það sé tiltölulega ódýrt og laði því þá meira að drykkjunni, sem lítil fjárráð hafa, svo sem verkamenn, og einnig sökum þess, að slíkir starfsmenn teljast á venjulegum mælikvarða fullfærir til vinnu sinnar, þótt þeir hafi drukkið jafnvel nokkra léttáfenga bjóra. En samt er af fróðum mönnum talið, að með slíkri neyzlu missi maðurinn nokkuð af vinnuhæfni, aðgát og starfsöryggi í meðferð vinnuvéla á vinnustað og því hættara við slysum. Á það er líka bent, að sífelld öldrykkja verði fljótt að vana, sem geti orðið heilsuspillandi peningaþjófur. Reynsla er talin fengin fyrir því, að almenningsálitið hamli ekki á móti neyzlu áfengs öls á vinnustað. Dagleg notkun virðist hafa skapað það viðhorf að telja áfengt öl til nauðsynlegrar daglegrar fæðu, sem engum þýðir að banna, þótt ekki mundi leyfast að hafa opinberlega undir höndum sterka drykki til sams konar nota.

Hvað segja menn svo um ýmsar aðrar vinnandi stéttir en verkamenn, t.d. skrifstofu- og verzlunarfólk? Allir vita, að þetta fólk neytir nú daglega innihalds úr þúsundum af kókakólaflöskum, svo að dæmi séu nefnd. Það þarf ekki að spyrja, að léttáfenga ölið muni leysa óáfengu drykkina hér af hólmi og verða strax viðurkenndur nauðsynlegur, hressandi svaladrykkur til afnota fyrir þessa fjölmennu starfshópa á vinnustað. Má hverjum manni vera augljóst, að slík drykkja áfengs öls mun hvorki auka né bæta vinnuhæfni né starfsgetu hlutaðeigandi. Það þarf því ekki að fara í neinar grafgötur með, að á þennan hátt mun stór hópur sérstaklega yngra fólks, sem hefur ekki áður lagt það í vana sinn að neyta áfengis, komast á bragðið með drykkju léttáfengs öls, og þá getur orðið greið gatan til frekari neyzlu sterkari áfengra drykkja.

Það eru margir, sem óttast, að frá áfenga ölinu stafi enn fremur mikil hætta á hendur unglingum og jafnvel stálpuðum börnum, sem sagt, geti orðið mjög hættulegt æsku landsins. Það er vitað, að áfengisneyzlan dreifist ískyggilega ört út meðal æskufólks, jafnt af báðum kynjum. Af þessu hafa margir hugsandi menn þungar áhyggjur og standa ráðalausir gegn þessari öfugþróun. Margir óttast því, að áfengt öl muni hér auka áfengisneyzlu og hjálpa af stað eldra og yngra fólki, sem hefur ekki lagt slíka neyzlu í vana sinn áður. Það virðast a.m.k. engin rök vera fyrir hendi, sem geti útilokað þennan ótta, og jafnvel ölmennirnir virðast ekki vera lausir við hann, — eða hvers vegna þykjast þeir nú vilja sætta sig við, að áfengt öl verði aðeins selt undir hendi Áfengisverzlunar ríkisins, og þar með sennilega á það svo að heita, að það verði ekki söluhæft nema í gegnum slíkar áfengisútsöluhúðir, og getur þó enginn fullyrt um, hvað hægt er að setja um þá hluti í reglugerð, ef vilji er fyrir hendi?

Áhugamenn um áfengt öl virðast vita, hvaða vinnubrögð eru sigurvænleg fyrir framgang þeirra málstaðar. Þeir fara nú fram á léttasta áfengt öl, en munu fljótt hugsa sér að færa sig upp á skaftið. Þessi vinnubrögð eru vafalaust auðlærð af reynslu sögunnar. Vínmenn hömuðust á sinum tíma gegn áfengisbanninu og heimtuðu, að þeirra dómi, jafnsaklausan drykk og léttu vínin. Ýmsar stoðir, sumar utanaðkomandi, runnu undir það, að þetta var heimilað. En Adam var ekki lengi í þeirri Paradís. Sumir töldu fljótlega, að þrúguvínin væru leiðigjörn, og enn fremur, að þeir sögðu sig engan tíma hafa til að drekka sig fulla af slíkum veigum. Þá kom krafan um leyfi fyrir sterkum drykkjum, og menn sögðu, að hér í væri ekkert samræmi, að banna slíkt áfengi, fyrst hin léttari vín væru heimil og á boðstólum, og niðurstaðan varð sú, að þessari kröfu var sinnt.

Nú er komið að því, að menn heimta áfengt öl og telja sig færa fyrir slíku fullgild rök, fara af stað með kröfu um leyfi fyrir léttustu öltegundina, því að þeir telja sig vita, að ef ölið er leyft á annað borð, muni verða stutt í það áfengara og létt að fá rýmri hömlur í sambandi við neyzlu þess, ef þörf kann að krefja.

Herra forseti. Ég legg til, að þetta mál verði fellt við þessa 1. umr., en ef þess er ekki kostur, afgreiði sú n., sem fær málið til meðferðar, það aftur inn í þingið, leiði málið þannig til höggs. Mætti það verða til þess, að flm. vektu það siður upp aftur á þeim grundvelli og með þeirri afsökun, sem þeir nú bera fyrir sig, að þar sem málið hafi aldrei komið úr n. við síðustu meðferð þess hér á hv. Alþ., hafi alþm. aldrei gefizt kostur á við 2. umr. að lýsa skoðun sinni né taka afstöðu til þess. Það virðist ástæðulaust, að hv. þdm. liggi lengur undir ámæli ölmannanna í þessu efni.