01.04.1966
Neðri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2276)

98. mál, áfengislög

Ragnar Jónsson:

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem áfengi bjórinn skýtur upp kollinum hér á hv. Alþ. En fram til þessa hefur þessi virðulega stofnun borið gæfu til þess að kveða hann niður. Árið 1960 flutti hv. 1. flm. þessa frumvarps frv. til l. á Alþ. þess efnis, að leyfð skyldi bruggun og sala áfengs bjórs I landinu allt að 3 1/2% að styrkleika. Þetta frv. eignaðist í það sinn fáa formælendur, kom aðeins til einnar umr. og sofnaði í n. Þessi hv. þm. er enn 1. flm. að því frv., sem hér er til umr., og hefur fengið tvo aðra í lið með sér, enda vilja þeir nú, að bjórinn verði 4 1/2 % að styrkleika. Þá er og gert ráð fyrir því í þessu frv., að öl það, sem selt kynni að verða innanlands, lúti sömu lögum um meðferð og sölu og annað áfengi. Þessi ákvæði voru ekki í frv. frá 1960, en gert ráð fyrir því, að sett yrði um það ákvæði í reglugerð.

Ég er á móti þessu frv. og ég óttast afleiðingar þess, ef það skyldi verða að lögum. Mér hefur aldrei skilizt, hvað fyrir mönnum vakir með flutningi slíkra frv., og þau rök, sem fram hafa komið, eru að mínum dómi ákaflega hæpin og haldlítil. Það er hins vegar fjarri mér að ætla það, að hv. flm. gangi nokkuð misjafnt til. Þeir líta sínum augum á þetta mál, en eins og alkunnugt er, er þetta mjög viðkvæmt og skoðanir manna ákaflega skiptar.

Í grg. frv. er talað um, að það þurfi að koma samræmi á áfengislöggjöfina í landinu. Ósamræmið er fólgið í því að dómi flm., að ríkið selur og annast dreifingu á sterkum drykkjum, en sala áfengs öls er bönnuð.

Sívaxandi áfengisneyzla þjóðarinnar er áhyggjuefni allra hugsandi manna og kvenna. Þetta er einnig vaxandi vandamál með flestum eða öllum vestrænum þjóðum og ekki sízt með frændþjóðum okkar á Norðurlöndum. Það, sem mestum ugg veldur, er hin ört vaxandi drykkja unglinga og kvenna. Fyrir 20 árum var tala drykkjusjúkra kvenna í Danmörku 1 á móti hverjum 25 karlmönnum, en núna nálgast það, að 10. hver drykkjusjúklingur þar sé kona. Vaxandi fjárráð unglinga á síðari árum samfara miklu frelsi og auknum frístundum er m.a. orsök þess, að drykkjuskapur þeirra vex geigvænlega ár frá ári í nágrannalöndum okkar. Þetta fyrirbæri þekkjum við líka vel hér heima. Það má í því sambandi minna á Þjórsárdalsævintýri, Þórsmerkurævintýri og Hreðavatnsævintýri o.s.frv., o.s.frv. Nú segja formælendur áfenga ölsins, að það muni allt verða skaplegra og skikkanlegra, ef unglingarnir geti fengið að kaupa meðalsterkt öl í staðinn fyrir að hella í sig rótsterku brennivíni, sem þeir kaupa auk þess með uppsprengdu verði yfirleitt á svörtum markaði. En ef menn vilja leita eftir reynslu annarra þjóða í þessum efnum. er hún allt önnur og ekki glæsileg né uppörvandi. (BP: Hvers vegna leyfa allar þjóðir bjór?) Meðal öldrykkjuþjóðanna er drykkjuskapur ungmenna sízt minni en hjá okkur, og ástandið fer þar síversnandi. Við vitum, að glæpir ungs fólks hafa margfaldazt frá stríðslokum og alls konar afbrotum fjölgar ár frá ári. Unglingarnir fara jafnvel um í stórhópum, valda viljandi umferðartruflunum, meiðingum á fólki og eyðileggingu á verðmætum. Ég veit, að það er alkunna, að þetta hefur hvað eftir annað gerzt í bjórlöndum eins og Svíþjóð og Englandi, og í fyrrasumar var ég staddur úti í Osló. Þá kom það fyrir á laugardagskvöldi, að mörg hundruð unglingar, meira og minna drukknir af bjór, efndu til svo mikils uppþots í miðborginni, að götulögreglan réð ekki við neitt og varð að fá ríðandi lögreglu til þess að skakka leikinn. Þetta hafði ekki komið fyrir þar áður. Sem betur fer er ástandið ekki svona slæmt hjá okkur, en það er þó ærið íhugunarefni. Ég skyldi glaður greiða atkv. með þessu frv., ef ég ætti það víst, að áfengur bjór gæti orðið íslenzkum æskulýð til góðs og forðað honum frá því að drekka frá sér heilsu sina, vit og fjármuni. En eins og ég gat um áðan, er reynsla annarra þjóða ekki á þann veg, að hún gefi góðar vonir, heldur þvert á móti.

Ef frv. þetta verður að lögum, skal áfengt öl, sem selt er innanlands, lúta sömu lögum um meðferð og annað áfengi. Eftir því hefur hv. flm. ekki þótt ráðlegt, að sala þess yrði leyfð eins og sala mjólkur eða gosdrykkja. Nú eru á öllu landinu 7 áfengissölur, 3 hér í Reykjavík, 1 á Akureyri, 1 á Ísafirði, 1 á Seyðisfirði og 1 á Siglufirði. Trauðla getur mönnum dottið í hug sú fjarstæða, að svo fáir útsölustaðir mundu nægja fyrir ölið. Ég er sannfærður um það, að hver kaupstaður og margir minni bæir að auki mundu krefjast þess að fá sinn útsölustað. Öll veitingahús í Reykjavík og allt í kringum landið mundu einnig krefjast þess innan mjög skamms tíma að fá að hafa sterka ölið á boðstólum, og um leið erum við búnir að fá ölkrárnar, þessa skemmtilegu staði, sem eru á hverju götuhorni í bæjum og borgum erlendis, og þann menningarauka, sem þeim stöðum fylgir. Bjórþamb á vinnustöðum er viða mikið vandamál erlendis. Hefur sums staðar orðið að grípa til svo róttækra ráðstafana að loka menn inni í verksmiðjum og á vinnustöðvum og hleypa þeim ekki út, fyrr en vinnu er lokið, vegna þess, hversu þeir sækja í bjórkrárnar. Áfenga ölið mundi án efa fljótlega smeygja sér inn á vinnustaðina hér sem annars staðar og stuðla að minnkandi afköstum og aukinni slysahættu. Öryggisleysið í umferðinni er nógu mikið hjá okkur eins og er, þótt ekki verði á það bætt, en ég er hræddur um, að menn mundu ekki gá eins að sér eftir að hafa drukkið 1—2 ölglös. Það mundi sjálfsagt henda fleiri menn að setjast undir bilstýri eftir það heldur en þó að hafa drukkið eitthvað, sem sterkara er.

Skoðun mín er sú, að verði bruggun og sala áfengs öls leyfð hér á landi, komi það fram sem viðbótaráfengisneyzla hjá mörgum, en verði ekki til þess að draga úr neyzlu sterkra drykkja. Ölþamb verður hér daglegur vani fjölmargra, eins og alls staðar, þar sem bjórsala er, og þungur skattur á mörgum fjölskyldum, ekkert siður þeim efnaminni en þeim, sem betri hafa ástæðurnar.

Samkv. skýrslum Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins drukku Íslendingar árið 1965 rúmlega 2 alkóhóllítra á mann á ári. Nú er það vitanlegt, að áfengisneyzlan er allmiklu meiri en þetta. Alltaf er einhverju smyglað. Það kemur með leyfi tollyfirvalda nokkurt magn með skipum og flugvélum, og ferðamenn, sem koma frá útlöndum, fá að hafa með sér lítinn skammt. Aftur á móti kemur svo það, sem erlendir ferðamenn drekka hér. En til samanburðar drekka Danir nú orðið 5 alkóhóllítra á mann á ári. Þetta eru um það bil 13 flöskur af brennivíni á hvert einasta mannsbarn, ungbarnið í vöggunni og gamalmennið í kör þar með talið. Þetta þætti okkur mikil drykkja hér, en Danir hafa líka orðið metið yfir öll Norðurlöndin og komnir upp fyrir Svía, sem lengi voru drýgstir. En allt að 75% af þessari áfengisneyzlu er bjór. Ýmsir málsmetandi menn í Danmörku hafa tekið sér penna í hönd og ritað um þessi mál, og þeir eru mjög uggandi yfir þessari þróun. Svíar drekka kringum 4.25 l. á mann og Norðmenn 2.65 og Finnar 2.21. Áfengisneyzla allra þessara þjóða hefur farið sívaxandi frá stríðslokum, og í Danmörku er talið, að árlega komi 25 þús. manns til meðhöndlunar á sjúkrahúsum vegna drykkjusýki.

Það er enginn, sem mælir því gegn, að áfengisvandamálið er eitt af mestu vandamálum þjóðarinnar. Og það vandamál verður ekki leyst með því að veita áfengum bjór yfir þjóðina. Það verður ekki heldur leyst með aðflutningsbanni. Ég er þess fullviss, að sterkt almenningsálit og stöðug og mikil uppfræðsla barna og unglinga í skólum landsins um skaðsemi áfengis er það eina, sem getur komið að verulegu haldi. Í 31. gr. áfengislaga frá 1954 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í öllum skólum, er opinbers styrks njóta, skal fara fram fræðsla um áhrif áfengisnautnar. Sérstaklega skal leggja áherzlu á að upplýsa, hvaða áhrif ofnautn áfengis hefur á líkama mannsins, vinnuþrek, siðferðisþroska hans og sálarlíf, á heimili manna, umgengnisvenjur og almenna siðfágun, á fjárhag einstaklinga og þjóðarinnar, á öryggi í vandasömu starfi og atvinnu manna almennt. Enn fremur skal veita fræðslu um það, hver sé öruggasta leiðin til að forðast ofnautn áfengis. Fræðslumálastjórninni skal skylt að sjá svo um, að skólarnir eigi þess jafnan kost að fá hentugar kennslubækur og kennslukvikmyndir til fræðslu um áhrif áfengisnautnar, eftir því sem við á á hverju skólastigi.“

Ég vildi spyrja, hvernig þessum lögum hafi verið framfylgt. Mér er ekki kunnugt um, að það sé til ein einasta kennslubók um þetta, sem sé notuð í skólum landsins, og ég hygg, að fræðsla um þessi mál sé ákaflega lítil. Mér er nær að halda, að sú fræðsla, sem kveðið er á um í þessari lagagrein að börn og unglingar í skólum landsins skuli fá, væri, ef henni væri framfylgt, hollari fyrir unglinga heldur en það, þó að hv. Alþ. færi að samþykkja frv. það, sem hér liggur fyrir. Og ég held, að það hljóti að verða krafa foreldra, sem börn eiga í skólum, að umræddri lagagrein verði betur framfylgt í framtíðinni en hingað til.

Ég vil endurtaka það, að ég er á móti frv., og vil leggja til, að hv. Alþ. sjái sóma sinn í að fella það nú, eins og það hefur fellt svipað frv., sem áður hafa komið hér fram.