15.03.1966
Neðri deild: 55. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2297)

81. mál, loðdýrarækt

Fram. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Landbn. hv. d. hefur haft þetta mál til athugunar og varð ekki á eitt sátt um afgreiðslu þess, eins og fram kemur í nál. þeim, sem hér liggja fyrir. Meiri hl. n., 4 nm., leggur til, að það verði samþ. með smávægilegum breytingum.

N. ræddi þetta mál á nokkrum fundum. Eins og nál. bera með sér, kom fram eindregin ósk innan n. um það, að leitað yrði umsagnar náttúruverndarráðs og forstöðumanns náttúrugripasafnsins, og enda þótt umsagnir bærust frá báðum þessum aðilum seint á síðasta þingi og mætti segja, að það lægi þess vegna nokkurn veginn fyrir, vildum við nú verða við þessari beiðni, enda bárust umsagnir að nýju frá báðum þessum aðilum. Að vísu var hún þannig frá náttúruverndarráði, að það var vísað í þá umsögn, sem það gaf Alþ. 5. maí s.l. En í stuttu máli lögðu — og leggja — báðar þessar stofnanir á móti samþykkt frv.

Við sáum hins vegar ekki ástæðu til, þar sem þetta mál var hér ýtarlega rætt á síðasta þingi og leitað þá umsagnar fleiri aðíla, að vera á ný að fara fram á umsagnirnar, því að það voru ekki líkur fyrir, að afstaðan hefði breytzt. En við höfum í nál. okkar í meiri hl. vitnað í þessar umsagnir, sem voru frá þremur aðilum, þ.e. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, veiðistjóra og búnaðarþingi, og eins og við minnum á og af því, er kom fram í nál. meiri hl. á síðasta þingi, voru þessar umsagnir í raun og veru allar jákvæðar, en þó nokkuð misjafnlega jákvæðar. Þar komu fram nokkrar bendingar um æskilegar breytingar, sem n. tók þó ekki upp eða gerði ekki að sinum, enda mátti segja, að þær snertu alveg eins framkvæmd málsins og löggjöfina sjálfa.

Ég sé ekki ástæðu til að fara ýtarlega út í þetta mál núna. Þetta var rætt mjög mikið, að segja mátti, á s.l. vetri. Auk þess flutti hv. 1. flm., 2. þm. Norðurl. e., hér ýtarlega framsögu við 1. umr. málsins, þar sem hann rakti höfuðröksemdirnar. En ég vil þó aðeins minna á, að þá vitnaði hann m.a. í álit framkvstj. dönsku loðdýraræktarfélaganna, sem hafði verið hér á ferð s.l. sumar og var þá á leið til Grænlands þeirra erinda. Þessi framkvstj. lét þá í ljós undrun yfir því, að við skyldum ekki hafa hér minkaeldi, þar sem sér virtist, að skilyrði væru hér í bezta lagi. Það hefur sem sagt komið fram í öllum álitum, sem fram hafa komið frá reyndum mönnum í þessu efni í nágrannalöndum okkar, þar sem loðdýraræktin er stunduð, einmitt þetta samhljóða álit, að hér séu skilyrði eða virðist vera í bezta lagi til þessa atvinnurekstrar. Hv. frsm. vitnaði þá einnig í álit veiðistjóra, sem barst n. á síðasta vetri, sem einnig var mjög jákvætt.

Ég vil aðeins minna á það hér um leið, að hv. 2. þm. Austf. flutti hér alllanga ræðu við 1. umr. málsins. Ég skal ekki fara mikið út í það mál. Hann var þessu frv. mjög andstæður. Það vildi þannig til núna um helgina, að mér varð hugsað til þess, sem mér var í bernsku innprentað, að lesa gott orð um helgar. Ég kom hingað í Alþ., og mér varð það á að líta yfir ræðu hv. 2. þm. Austf., sem hann flutti hér við 1. umr. málsins. Ég vil aðeins minna þar á eitt atriði, sem kom fram hjá honum. Hann „krítiseraði“ allmjög, að það væri verið að leggja útflutningsgjald á þessa vöru, og honum fannst að vonum ekki gott samræmi í því, þar sem væri nú lítil trú á að margra áliti, að það væri hægt að gera ráð fyrir því, að þessi framleiðslugrein gæti borið útflutningsgjald. Nú má að vísu deila um þetta. En það er alveg rétt, að í byrjun verður þetta reynslutími fyrir þessa atvinnugrein, og það er einmitt ein af þeim brtt., sem við flytjum, meiri hl., við frv., að þetta ákvæði í l. um útflutningsgjaldið falli niður. Það felst ekki í því, að við séum að undirstrika vantrú á þessa atvinnugrein, en hitt má teljast fullkomlega óeðlilegt, á meðan við eru að reyna að prófa okkur áfram, hversu arðvænlegt þetta verður, að við séum að leggja á þessa framleiðslu útflutningsgjöld. Það segir hins vegar ekkert um, hvað síðar verður. En ég minni á þetta hér, af því að ég vænti, að með þessu hafi dregið nokkuð saman með okkur i meiri hl. og hv. 2. þm. Austf. í afstöðunni til þessa máls.

Ég vil enn fremur minna á í þessu sambandi, að fyrir nokkru flutti Bjarni Finnbogason ráðunautur í Dölum búnaðarþátt í útvarpið, þar sem hann var að lýsa ferðalagi, sem hann átti um Noreg s.l. sumar og haust. Og hann kom sérstaklega inn á það í þessu erindi, að minkaræktin væri þar mjög vaxandi atvinnugrein og í mörgum byggðarlögum virtist hún setja einna mestan svip á framleiðsluna. Það væru minkarnir, þau húsdýr, eins og hann orðaði það, sem mest hefði fjölgað í Noregi síðustu árin. Hann sagði frá því, að hann hefði séð þar stærsta búið, þar sem hefðu verið 12 þús. dýr og gert ráð fyrir, að þar kæmu 8 þús. til slátrunar. Meðalverðið á skinnunum hefði verið um 100 kr. norskar eða um 600 kr. íslenzkar, en það svarar þá til þess, að framleiðsluverðmæti þessa eina bús væri 4.8 millj. kr.

Ég hef talið rétt að láta þetta koma fram hér, af því að ég fylgdi þessu frv. ekki neitt úr hlaði við 1. umr. málsins.

En það er aðeins eitt í þeim aths., sem hv. minni hl. brýtur hér upp á við þetta mál, sem hann leggur á móti, sem ég ætla á þessu stigi að gera aðeins að umtalsefni. Þar er verið með bollaleggingar um það, að nú sé kominn áhugi fyrir því að flytja inn chinchillarottur frá Suður-Ameríku, og svo er spurt, hvort það sé ekki með þessu frv. verið að opna leið slíkum innflutningi. Nú vil ég aðeins benda á það, að eins og lög um loðdýrarækt eru nú, er ekki hindraður slíkur innflutningur. Það er eingöngu um að ræða, að minkaeldi sé bannað. Hins vegar með samþykkt þess frv., sem hér liggur fyrir núna, er með bráðabirgðaákvæðinu hindrað um næstu tvö ár, að það verði nokkur önnur loðdýr tekin hér til ræktunar heldur en einmitt minkurinn, þannig að það felst í þessu miklu frekar öryggi gegn því, að þessar chinchillarottur leggi leið sína inn í landið, — einmitt með því að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir.

En um þessar brtt., sem við í meiri hl. urðum sammála um, er það að segja, að við 6. gr. var bætt i fyrra við 2. umr. eða 3. umr. málsins í hv. d. ákvæði um það, að leyfi til minkaeldis yrði ekki veitt nema þar, sem villiminksins hefði orðið vart eða hann hefði náð öruggri fótfestu. Við töldum eðlilegra, að þetta ákvæði yrði sett sem bráðabirgðaákvæði, á meðan verið er að sjá, hversu gefst með þennan atvinnuveg og m.a. hvort þær hrakspár, sem mjög eru á lofti af hálfu andstæðinga málsins um það, að hér muni minkurinn streyma út úr búunum, hvort þær hrakspár eiga við rök að styðjast, og þess vegna má segja, að það sé fyllilega réttmætt til að byrja með, að þá sé leyfi þessara 5 búa m.a. bundið við það, að þau séu ekki veitt, þar sem villiminksins hefur ekki orðið vart áður.

Annars koma fram bollaleggingar, eins og hv. þm. geta séð, ef þeir lesa álit forstöðumanns náttúrufræðistofnunarinnar, um það, að það muni ýmislegt geta skeð, ef aliminkur fær á ný að blandast við villiminkinn, sem fyrir er í landinu. Ég skal engan dóm leggja á þessar bollaleggingar. En ég vil aðeins minna á, að það er staðreynd, að sú ræktun, sem nú hefur farið fram á aliminkum víða um lönd og t.d. á Norðurlöndum, hefur öll beinzt að því að bæta feldinn, auka verðmæti skinnanna. En jafnhliða hefur þetta í mörgum tilfellum kostað það, að ýmsir aðrir hæflleikar þessa dýrs, ef svo mætti segja, hafa mörg úrkynjazt, m.a. er t.d. eitt slíkt afbrigði, sem gefur einna verðmætust skinn í Noregi, næstum því sjónlaust. Margir, sem ég hef rætt við um þetta, hafa haldið því fram, að hættan í þessu, sem margir tala um, sé tiltölulega mjög lítil, vegna þess að við þessa einhæfu ræktunarstefnu til þess að auka gæði skinnanna hafi ýmsir aðrir eiginleikar þessa dýrs úrkynjazt svo mjög, sem því séu fyrst og fremst nauðsynlegir, ef það á að bjarga sér að eðlilegum hætti eins og rándýr gera. Á hinn bóginn er vitanlega skynsamlegast að spá sem minnstu um þetta. Það er reynslan ein, sem getur skorið úr þessu. Það er þess vegna, sem við höfum viljað fara gætilega í sakirnar, og við getum að öðru leyti, sem höfum trú á þessu máli, tekið undir það, að okkur vanti fullkomlega rök fyrir því, að þetta verði ótvirætt ábatasöm atvinnugrein hér, og þau rök fást ekki að fullu, fyrr en við förum að stunda þessa framleiðslu, en til þess verðum við líka að byrja.

Hitt er svo, sem virðist skipta mönnum með og á móti, ekki sízt er það trúin á, hvort það sé ábatasamt að stunda þessa framleiðslu og hvort við Íslendingar munum verða færir um að verða þar hlutgengir á við annarra þjóða menn. Ég hef trú á því, að svo verði.

Við leggjum enn fremur til, eins og ég hef áður sagt, í brtt. okkar í meiri hl., að niður falli 8. gr., sem er um útflutningsgjaldið, og að lokum, að það sé heimilt að veita leyfi fyrir einu af þessum 5 búum, sem gert er ráð fyrir að séu sett á stofn í byrjun, í Vestmannaeyjum, þrátt fyrir bráðabirgðaákvæðið, sem við leggjum til að standi, að það þurfi yfirleitt að vera skilyrði, að villiminks hafi orðið vart. En við tókum þessa till. upp m.a. vegna þess, að það var einmitt ein af bendingum dr. Finns Guðmundssonar, sem þrátt fyrir allt leggur á móti málinu. Taldi hann þó, að það kæmi til mála að setja upp eitt bú í Vestmannaeyjum. Og rökin fyrir því eru náttúrlega fyrst og fremst þau, að það er líklega hvergi meiri gnægð hentugra fæðuefna fyrir minkinn. Auk þess telur hann þau rök, að það má telja, að hann sé þar einangraður. En eins og kemur fram í nál. okkar, mælir það hins vegar á móti, að það er yfirleitt talið, að bezti feldurinn fáist, þar sem veðrátta er þurrviðrasöm, og það vita allir, að Vestmannaeyjar uppfylla ekki það skilyrði að sama skapi. Annað skilyrðið sem sagt, hvað fæðuna snertir, er þar mjög hagkvæmt, þetta skilyrði síður. En við töldum rétt, að það væri þó gefinn möguleiki á því, að þarna mætti setja á stofn eitt af þessum 5 búum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa lengri framsögu, en við leggjum sem sagt til hér 4 nm. i hv. landbn., að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem fram koma á þskj. 303.