23.11.1965
Neðri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2330)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Ingi R. Helgason:

Herra forseti. Jón Skaftason, 4. þm. Reykn., hefur á þskj. 70 flutt frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Breyt., sem hv. þm. leggur til, er ekki mikil að vöxtum, en þeim mun meiri að efni til og inntaki. Með henni er reynt að móta almenna reglu um setningu starfsmanns í embætti og reisa skorður við því, að setningin vari of langan tíma, þar sem hún sé í eðli sínu bráðabirgðaráðstöfun.

Í framsöguræðu sinni var hv. þm. ekki myrkur i máli varðandi tilefni þessa tillöguflutnings, þ.e. meðferðina á Birni Sveinbjörnssyni, sem nú hefur verið settur út úr embætti bæjarfógeta í Hafnarfirði og sýslumannsembætti í Gullbringu og Kjósarsýslu. Ég vil lýsa því yfir í upphafi máls míns, að ég er í langflestu alveg sammála hv. flm., bæði að því er tekur til tilefnisins og svo efnislega, þar eð ég tel, að þessi regla, ef samþykkt yrði, mundi stuðla að lýðræðislegri stjórnarathöfnum en þeim, sem við höfum horft upp á lengi, og draga úr valdníðslu á sviði stjórnarfarsréttar.

Embættisveitingar eru einhverjar hinar mikilvægustu stjórnarathafnir. Undir embættismönnum og öðrum opinberum starfsmönnum er það jafnan að miklu leyti komið, hversu til tekst um lagaframkvæmd og stjórnarathafnir allar. Sérhverju ríki er það hin mesta nauðsyn, að hinir hæfustu menn, sem völ er á hverju sinni, veljist til opinberra starfa. Á hinn bóginn er það ævaforn reynsla, að sjaldan er meiri hætta á misbeitingu valds og hlutdrægni en einmitt við stöðuveitingar. Nú á tímum er hið raunverulega veitingarvald oftast nær í höndum pólitískra ráðherra, sem freistast oft til að misnota það til framdráttar flokksmönnum sínum. Viða um lönd er með ýmsum hætti reynt að hamla gegn rangsleitni við stöðuveitingar, eftir því sem kostur er. En í sumar stjórnarskrár hafa verið tekin ákvæði, sem að þessu miða. Hjá sumum þjóðum hafa verið lögfestar almennar reglur um aðferðir við veitingu embætta og annarra opinberra starfa, er eiga að stuðla að því, að réttsýni og hlutlægs mats sé gætt. Þær aðferðir eru mismunandi, en þó almennt í því fólgnar, að opinbera stöðu skal auglýsa lausa til umsóknar, að leifa skal álits eða umsagnar einhverrar stofnunar eða umsagnaraðila um umsækjendur, að umsækjendur gangi undir samkeppnis- eða hæfnispróf, að stöðuveitingu eða till. um hana má kæra til æðra stjórnvalds og lögmæti veitingar má bera undir dómstóla o.s.frv. Nokkur vörn gegn misbeitingu getur verið að slíkum lagareglum, en einhlítar eru þær auðvitað ekki. Oftast er öflugt og vakandi almenningsálit samfara heilbrigðum siðferðisþroska í opinberu lífi bezta og rannar eina vörnin.

Hér á landi eru þessar reglur, sem ég hef tæpt á, til í einstaka tilfellum, en almennar geta þær ekki talizt né fastmótaðar. Hér hefur þó smám saman skapazt venjuregla í þá átt að meta starfsaldur mikils, bæði í sambandi við launakjör og ráðningar. Er þessi regla eðlileg, þar eð hún byggist á þeim sjónarmiðum, að við ástundun tiltekins starfs öðlist embættismaðurinn eða starfsmaðurinn reynslu, þjálfun og öryggi í réttu hlutfalli við starfsaldur sinn til gagns og hagræðis fyrir embættisreksturinn. Þessi regla er einnig í samræmi við réttarmeðvitund almennings. Hún þýðir í rauninni það, að séu tveir menn taldir almennt hæfir til að sinna einhverju starfi eða embætti, þá skuli sá þeirra takast það á hendur, sem lengri starfsreynslu hefur. Það skuli hann einnig gera af réttlætisástæðum, sem eru augljósar og ég þarf ekki að gera að umtalsefni.

Við búum nú við tiltölulega ný lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, eða frá 1954. Þar er mikilvægri reglu slegið fastri, sem reisir skorður við misbeitingu veitingarvaldsins, að auglýsa skal allar opinberar stöður. Sú regla byggist á sjónarmiðum um, að allir séu jafnir fyrir lögunum. Þessi lög hafa að geyma ákvæði um skipun í stöður, hvernig og hvenær það skuli gert, og um réttarstöðu hins skipaða. Hins vegar eru í lögunum litlar leiðbeiningar til stöðuveitingarvaldsins, utan þess sem aðeins er tæpt á starfsaldursreglunni í 14. gr. En það er eitt merkilegt við þessi lög, og á það vildi ég benda vegna tilefnisins að tillöguflutningi hv. þm. Jóns Skaftasonar, en það er það, að lögin gera ekki ráð fyrir setningu í embætti með öðrum hætti en þeim, að embættið sjálft sé laust, hafi verið auglýst til umsóknar, en enginn skipaður. Ákvæði 5. gr. l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru svo hljóðandi:

„Nú hefur staða verið auglýst, en eigi þykir rétt að skipa nokkurn umsækjanda í hana, og má þá setja þann umsækjanda, er næst þykir standa til þess að fá skipun. Veita má slíkum manni stöðu án auglýsingar að nýju, eftir að hann hefur gegnt henni óaðfinnanlega í eitt ár eða lengur, enda á hann þá rétt á að fá úr því skorið, hvort hann eigi að fá veitingu.“

Samkv. þessu eina ákvæði l. um setningu í embætti er setning í embætti bundin við hóp umsækjenda, hún er bráðabirgðaráðstöfun, sem getur veitt hinum setta aukinn siðferðilegan og lagalegan rétt til embættisins, sem sést m.a. af því, að það má skipa hann án auglýsingar, eins og það er þýðingarmikið, ef hann hefur rækt embættið óaðfinnanlega í eitt ár. Yfirlýsing hæstv. dómsmrh. hér áðan um, að setning í embætti veiti þeim, er settur hefur verið, engin aukin lagaréttindi eða siðferðilegt tilkall til skipunar umfram annað, er því hrein fjarstæða í því falli, að hinn setti hafi rækt embættið óaðfinnanlega í eitt ár. Hins vegar er staðan í máli því, sem er tilefni þessa tillöguflutnings, alls ekki slík, að það heyri undir 5. gr. l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þegar Björn Sveinbjörnsson var settur í embættið fyrir tæpum 10 árum, hafði embættið ekki losnað, það var ekki auglýst, og Björn var ekki valinn úr hópi umsækjenda. Um slíka setningu í embætti eru engin ákvæði í lögum. Slík ráðstöfun embættisins á ekki stoð í lagaákvæðum. Það mætti því hafa þá lögskýringu uppi, að fyrst setningin i embættið fellur ekki undir 5. gr. l., sé hún löglaus með öllu. Lögin gera sem sagt ekki ráð fyrir því, að hálf eða heil tylft embættismanna þjóðarinnar geti tekið frá handa sér hin æðstu embætti og haldið þeim án þess að sinna þeim í ár eða áratugi. En sú er staðreyndin í dag, og þessi þróun hefur verið í gangi undanfarin ár. Guðmundur Í. Guðmundsson, fyrrv. bæjarfógeti í Hafnarfirði, hélt embætti sínu í tæp 10 ár án þess að rækja það. Hæstv. menntmrh. er enn skipaður prófessor við Háskóla Íslands og nýtur réttarverndar sem slíkur. Að maður tali nú ekki um bankastjórana, þeir eru nú að vísu eftir öðrum lögum, hér báðum megin við mig, Emil Jónsson, Jóhann Hafstein og Magnús Jónsson. Þessi almenna þróun undanfarið, hvernig menn hafa getað tekið frá handa sér embætti, er raunar undirrót þeirra deilna og mótmæla út af embættisveitingunni í Hafnarfirði, sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Það hefur verið vitnað hér í höfund Reykjavíkurbréfs. Hann ræðir þessi mál í gær, og með því að sá rithöfundur, að því er sagt er, er ekki ómerkari maður en sjálfur hæstv. forsrh., er rétt að lesa hér eina setningu úr bréfi hans í gær, með leyfi hæstv. forseta, — höfundur Reykjavíkurbréfa segir:

Umr. nú hafa einmitt sýnt, að varhugaverðast við undanfarna venju er einmitt það, að menn geti endalaust geymt stöðu handa sjálfum sér.“

Það er sannarlega gott, ef augu manna opnast fyrir þessari meinsemd, og sérstakt ánægjuefni, ef hæstv. forsrh. og höfundur Reykjavíkurbréfa er einn og sami maðurinn, því að segja má, að þessi óheillaþróun hafi raunverulega gerzt undir handarjaðri þess manns, sem nú situr í stóli forsrh.

Ég sagði áðan, að hafa mætti uppi þá lögskýringu, að setning í embætti, sem ekki er laust, sé löglaus, þar sem hún á ekki stoð í beinu lagaákvæði. En á hitt er þó rétt að benda, að slík setning í embætti er hvergi bönnuð í lögum, og með þeim rökum mætti halda því fram, að setning í embætti, sem ekki hefur losnað, væri lögmæt. Fyrir getur komið, að hinn skipaði forfallist um stundarsakir vegna veikinda, orlofs eða annarra hluta og því orðið nauðsynlegt að setja mann í embættið í skyndingu og til bráðabirgða, eins og nokkur venja hefur skapazt. En það hygg ég, að ekki verði um deilt, að slík setning í embætti sé raunar enn meiri bráðabirgðaaðgerð en setningin samkv. 5. gr. og gæti alls ekki staðið í mörg ár.

Og þá er ég kominn að einu þýðingarmesta atriði þessa máls, miðað við frv. hv. þm. Jóns Skaftasonar. Hvað dómara snertir, tel ég það algerlega útilokað og raunar í bága við grundvallarreglur íslenzkra laga að hafa dómara settan árum saman. Stjórnskipun okkar byggist á þrískiptingu ríkisvaldsins, og eiga dómendur að vera óháðir framkvæmdarvaldinu, og ég þarf ekki að rökræða það nánar, þó að ég komi að því að vísu svolítið síðar. Dómari, sem er aðeins settur, en fær ekki skipun, er háður veitingarvaldinu á þann hátt, að ekki samrýmist anda stjórnarskrárinnar og okkar stjórnskipan. Ég tel, að það hafi verið löglaust með öllu að láta Björn Sveinbjörnsson rækja dómarastörf í tæp 10 ár án skipunar í embættið og án þeirrar réttarverndar, sem dómari á að njóta eftir íslenzkum lögum.

Ef till. sú, sem hv. þm. Jón Skaftason flytur, yrði samþykkt, fengist lögtekin sú almenna regla, að setning í embætti væri bráðabirgðaráðstöfun, sem aldrei stæði lengur en í 4 ár, hvort sem embættið væri laust eða hinn skipaði forfallaður um stundarsakir. Þetta álit ég vera spor í rétta átt. Hér mundi vera um að ræða þarfa lagabreytingu, og ættu alþm. að geta sameinazt um hana. Ég mun þó við þinglega meðferð á málinu koma þeirri brtt. á framfæri, t.d. við hv. n., sem fær málið til meðferðar, að tímamörkin yrðu enn þá styttri varðandi dómara og þar væri meira horft til þeirrar venju, sem er á Norðurlöndum og öðrum nágrannalöndum okkar, allt niður í 1—2 ár.

Það er rétt, að ég fari nokkrum orðum um sjálft tilefni þessa tillöguflutnings, veitingu bæjarfógetaembættis í Hafnarfirði og sýslumannsembættis í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þessi embættisveiting er í mínum augum hneyksli og það reginhneyksli. Og ég er þeirrar skoðunar, að fái þessi veiting að standa, höfum við alveg gefizt upp við vörzlu siðgæðisins í opinberu lífi. Það er að vísu svo, að þetta er ekki í fyrsta skipti, sem embættisveiting veldur mönnum hneykslun hér á landi, og það höfum við heyrt núna rétt í upphafi þessara umr. mörg dæmi um og eigum eftir að heyra og ásakanir á báða bóga, sérstaklega frá báðum stóru flokkunum. En það breytir ekki þeirri staðreynd fyrir mér, að hér hefur skömmin risið einna hæst, eftir því sem ég þekki til. Myndin er þessi: Einu umfangsmesta dómaraembætti landsins er haldið fráteknu í heilan áratug handa pólitískum riddara. Þessi pólitíski riddari vill ekki sjá embættið, en sleppti ekki tilkalli til þess, fyrr en hann hafði hagnazt mjög fjárhagslega á því, svo sem mönnum er í fersku minni. Þegar loksins þessi pólitíski riddari sleppir tilkalli til embættisins og sami maðurinn, ópólitískur og hæfur dómari, hefur gegnt því sem settur dómari í 9 1/2 ár við óhæf skilyrði, þegar sem sagt embættið loksins losnar til skipunar, er hinum ópólitíska, hæfa dómara stjakað burt — og af hverju? Af því að nýr pólitískur riddari er kominn til sögunnar, sem skal fá embættið, hvað sem öðru líður.

Þetta er myndin, sem blasir við almenningi í sambandi við embættisveitinguna í Hafnarfirði. Þetta er hneykslið. Um embættið sóttu þrír menn: Jóhann Gunnar Ólafsson bæjarfógeti á Ísafirði, hann hefur 25 ára óslitinn embættisferil að baki, þar af 23 ár sem bæjarfógeti á Ísafirði, og hefur gegnt því embætti með prýði. Björn Sveinbjörnsson settur bæjarfógeti í Hafnarfirði, hann á 20 ára embættisferil að baki, þar af 9 1/2 ár sem bæjarfógeti í Hafnarfirði og sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu, og hefur gegnt því embætti með prýði. Einar Ingimundarson bæjarfógeti á Siglufirði, hann hefur 21 árs embættisferil að baki og þar af 13 ár sem bæjarfógeti á Siglufirði og hefur gegnt því embætti með prýði. Allir þessir umsækjendur eru hæfir og fullnægja allir lögmætum skilyrðum til að fá skipun í hið umsótta embætti. Jóhann Gunnar er elztur og hefur lengstan starfsaldur. Björn Sveinbjörnsson hefur mesta staðarþekkingu og kunnugleika í lögsagnarumdæminu og hefur í 10 ár þurft að sinna meiri dómarastörfum og umboðsstörfum en hinir umsækjendurnir til samans. Báðir þessir umsækjendur, Jóhann Gunnar og Björn, hafa helgað alla krafta sína embættunum og ekki tekið þátt í pólitík. Einar Ingimundarson hefur haft á hendi minnsta embættið, en gengur Jóhanni næst um langan starfsaldur. En jafnframt dómaraembætti sínu hefur Einar verið þm. fyrir Sjálfstfl. til margra ára.

Hæstv. dómsrh. hefur valið Einar Ingimundarson úr hópi þessara þriggja manna og veitt honum embættið. Þegar ég leyfi mér að álasa hæstv. dómsmrh. fyrir þessa veitingu, vil ég taka það skýrt fram, að ég er á engan hátt að veitast að Einari Ingimundarsyni persónulega. Í framhaldi af því, sem ég hef áður sagt, er það þrennt, sem ég tei ámælisvert við þessa embættisveitingu. Í fyrsta lagi er hér valinn sá umsækjandi, sem er umsvifamikill pólitíkus og þm., en ég hefði talið, að allra sízt ætti að skipa stjórnmálamenn í dómaraembætti. Það er allt gott um Einar sem þm. og hans stjórnmálaferil, en mín skoðun er sú, að dómarar á Íslandi eigi ekki að vera stjórnmálamenn. Ég tel það fara í bága við grundvallarreglur laga og stjórnskipun okkar. Dómsvaldið á að vera sjálfstæður þáttur ríkisvaldsins og sérstaklega óháður framkvæmdavaldinu. Handhafar framkvæmdavaldsins hafa sótzt mjög eftir því hérlendis að gera dómendur sér háða, og er það háskaleg stefna fyrir allt réttaröryggi í landinu. Það er reynt að troða stjórnmálamönnum inn í öll dómaraembætti, sem losna, og það er reynt að fá alla dómara í framboð fyrir stjórnmálaflokkana í landinu. Með þvílíkri þróun er stefnt að því marki að gera dómendur háða framkvæmdavaldinu og leggja á þá fjötra flokksræðis og flokksofríkis. Það er þessi þróun, sem þarf að stöðva. Svo er það hin hlið málsins, sem inn snýr, ég þekki hana af reynslu. Það er fullkomin óhæfa að setja sýslumann í þau spor að þurfa að elta uppi mann og þurfa að dæma hann fyrir lagayfirtroðslur, á sama tíma sem sýslumaðurinn er að falast eftir atkv. hans og kjörfylgi til þings.

Íslenzkir dómendur eru vel menntaðir og hæfir menn, en þeir eru ekki nógu frjálsir og óháðir í embættum sínum í dag og verða það ekki, fyrr en skorið er alveg milli þeirra og framkvæmdavaldsins. Samkv. stjórnarskrá okkar eiga dómendur að vera óháðir í störfum sínum. Stjórnarskráin sjálf og lög mæla svo fyrir um, að dómara má ekki víkja úr embætti nema með dómi og að umboðsstarfalausir dómarar hafa ekki kjörgengi til Alþ. Umboðsstarfalausir dómarar eru nú aðeins taldir hæstaréttardómararnir. Þessa reglu stjórnarskrárinnar þarf að útvíkka þannig, að hún taki til allra þeirra, sem geta kveðið upp dóma á Íslandi, eða fá að öðrum kosti umboðsstörfin í hendur öðrum embættismönnum, svo að hinir eiginlegu dómarar verði allir umboðsstarfalausir. Þetta er rökstuðningur minn fyrir því, að ekki á að velja stjórnmálamann í dómarasæti, allra sízt í dómaraembættið í Hafnarfirði, þar sem reynslan af síðasta pólitíkus í því embætti hrópar í himininn.

Það er greinilegt af embættisveitingunni, að hér hefur hæstv. ráðh, látið stjórnast af flokkspólitískum sjónarmiðum og hagsmunum og valið flokksbróður sinn, virkan stjórnmálamann í það dómaraembætti. Þetta er alvarlegasti annmarki þessarar stjórnarathafnar og getur valdið ólögmæti hennar. Mig langar að vitna hér í orð Ólafs Jóhannessonar prófessors um það atriði. Hann segir í einni sinna bóka:

„Í fljótu bragði gæti virzt, að það skipti ekki máli um gildi stjórnarathafnar, hverjar ástæður eða hvatir kunna að liggja til hennar, ef hún er gerð af hæfu og þar til bæru stjórnvaldi með réttum hætti og í réttu formi og efni hennar er eigi sérstaklega andstætt lögum. En þessi ályktun er eigi alls kostar rétt. Sérhvert stjórnvald hefur ákveðinn og afmarkaðan verkahring, svo sem gerð hefur verið grein fyrir. Stjórnvaldið á að miða athafnir sínar við þann verkahring, og er því auðvitað fyrst og fremst óheimilt að taka sér vald til athafna, er heyra undir annað stjórnvald. Geri það slíkt, er um valdþurrð að tefla. En því ber jafnframt að beita valdi sínu í réttu augnamiði, þ.e.a.s. með þá opinberu hagsmuni eina fyrir augum, sem því ber um að sýsla. Stjórnvaldið á ekki að miða athafnir sínar við óskyld og annarleg sjónarmið. Fyrst og fremst er auðvitað varhugavert, að stjórnvald hafi í huga ólögmæt markmið, stefni með stjórnarathöfn að einhverju ólögmætu takmarki, enda þótt það felist ekki beint í henni. Slík ólögmæt sjónarmið geta verið mjög margvísleg, svo sem t.d. ef stjórnvald lætur stjórnast af persónulegri vináttu eða óvild, einkahagsmunum, flokkslegum sjónarmiðum, stéttarhagsmunum, fjárhagsmunum annarra einstaklinga eða jafnvel hins opinbera, ef slík hagsmunagæzla er ekki í verkahring þessa stjórnvalds.“

Þetta eru ummæli hv. þm. Ólafs Jóhannessonar prófessors um það, sem við köllum valdníðslu.

Nú er það svo, að hæstiréttur hefur einu sinni ógilt stjórnarathöfn fyrir þessar sakir á Íslandi, þó að það hafi ekki verið embættisveiting, heldur ógilti rétta stjórnarathöfn bæjarstjórnar Reykjavíkur á sínum tíma.

Í öðru lagi sniðgengur hæstv. ráðh. venjuregluna um þýðingu starfsaldurs við embættisveitingar. Mér er ljóst og ég hef sagt það áður, að sú regla er ekki einhlít, en starfsaldurinn er þó ein öruggasta viðmiðunin, þegar velja skal úr hópi manna, sem allir teljast hæfir. Ég tel, að sérstök rök þurfi að liggja frammi fyrir því að víkja frá starfsaldursreglunni og að það hafi ekki verið gert hér. Jóhann Gunnar Ólafsson var næstur embættinu hvað starfsaldur snerti, en hæstv. ráðh. sagði hér áðan og hefur látið hafa það eftir sér á prenti, að hann viki frá starfsaldursreglunni af því, að honum fyndist Jóhann Gunnar of fullorðinn. Nú er Jóhann Gunnar 62 ára og við hestaheilsu. Allir muna, að Lárus Jóhannesson var 62 ára, þegar hann var skipaður dómari í hæstarétti. Þetta eru engin rök, heldur yfirklór, þegar mikilvægri reglu er hafnað. Ef hæstv. ráðh. hefði valið Jóhann Gunnar, hefði hann forðað sér frá pólitísku hneyksli og aukið gildi starfsaldursreglunnar, sem er til góðs, þótt hún sé ekki einhlít.

Annars hefði hæstv. dómsmrh. sannarlega mátt hressa upp á upptalninguna hér áðan um embættisveitingar með því að minnast á það, þegar hann fleygði starfsaldursreglunni út í yztu myrkur í sumar með því að ganga fram hjá Óskari B. Bjarnasyni, er gegnt hafði störfum í atvinnudeild háskólans í 25 ár, 20 ár sem fastráðinn og 4 ár sem settur forstöðumaður, og ráða til forstöðumennskunnar Pétur Sigurjónsson frá Álafossi, sem aldrei hafði stigið fæti sínum inn í þessa rannsóknarstofnun eða fengizt við rannsóknarstörf hérlendis. Ég tel það alvarlegan annmarka á þessari stöðuveitingu, að hæstv. ráðh. víkur gersamlega frá starfsaldursreglunni.

Og í þriðja og síðasta lagi tel ég þessa embættisveitingu ámælisverða vegna meðferðarinnar á Birni Sveinbjörnssyni. Sú meðferð er algert einsdæmi. Með þessari veitingu er Björn flæmdur úr embættinu eftir að hafa þjónað því með ágætum í 20 ár, þar af helming tímans sem forstöðumaður þess með fullt umboð, rétt eins og störf hans væru einskis metin. Setning Björns í embættið í upphafi og seta hans er óvenjuleg, bæði fyrir það, hversu löng hún er orðin, og eins vegna hins að mínu viti, að hún hangir í því að vera lögmæt. Ég tel, að hin langa seta Björns í embættinu hafi fært honum talsverðan siðferðilegan rétt til þess. Setjum svo, að Guðmundur Í. Guðmundsson hefði ekki sagt starfinu lausu, þótt hann hyrfi í utanríkisþjónustuna, eða t.d. Guðmundur hefði bara haldið áfram að vera utanrrh. og heil 10 ár hefðu bætzt við. Vilja menn í því falli halda fram, að eftir 20 ár sem settur bæjarfógeti í fullu umboði hefði Björn Sveinbjörnsson ekkert siðferðilegt tilkall átt til embættisins, ef Guðmundi hefði þá þóknazt að gefa það laust? Það held ég ekki.

Í nágrannalöndum okkar má dómari aðeins vera settur í 1 eða 2 ár. Ég tel, að dómsmrh. hefði á sínum tíma átt að grípa hér í taumana, þar sem um dómsembætti var að ræða, og láta Guðmund Í. Guðmundsson annaðhvort rækja embættið eða segja því lausu miklu fyrr. En með því að dómsmrh. lætur það vera einungis háð duttlungum Guðmundar Í. Guðmundssonar, hvernig fari um starfrækslu þessa mikla embættis, og lætur Björn rækja embættið allan tímann, sýnist mér það aðgerðaleysi skuldbinda ríkið gagnvart Birni. Þessi meðferð á Birni, að hann af dómsmrh. er látinn vaka yfir embætti pólítísks riddara í heilan áratug og honum er síðan sparkað, til þess að annar pólitískur riddari komist að, það er þessi meðferð, sem sætir andúð almennings og reiði. Mótmælaaldan fyrst og fremst vegna þessarar meðferðar er risin gegn þessari embættisveitingu og er raunar enn að rísa. Það er táknrænt, hvað hreppstjórar segja í mótmælaskjali sínu til hæstv. ráðh. Þeir segja, að það sé ósæmilegt að visa svo góðum dreng og ágætum embættismanni burt úr starfl eftir svo langan og mistakalausan embættisferil. Það er þetta, sem mönnum gremst, og það er þetta, sem er undirrót þeirra mótmæla, sem uppi eru. Af sömu rótum hafa allir starfsmenn embættisins nema einn sagt upp starfi sínu í mótmælaskyni. Hreppstjórar flestir hafa sagt sig úr lögum við sýslumannsembættið. Sveitarstjórnir lögsagnarumdæmisins eru að byrja að senda mótmæli sín, og heill stjórnmálaflokkur berst um á hæl og hnakka og samþykkir mótmæli á borð við hreppstjórana. Ég þarf ekki að kynna fyrir hv. þdm. ritstjórnargreinar Alþýðublaðsins og mótmælaályktanir Alþfl., en ef hæstv. utanrrh., formann fulltrúaráðs Alþfl. í Hafnarfirði, vantar meðflm. hér á till. hans frá fulltrúaráðinu, býð ég mig sjálfan fram.

Ég sagði áðan, að vakandi almenningsálit væri eflaust bezta vörnin gegn misbeitingu embættisveitingavaldsins. Nú hefur almenningsálitið fellt sinn dóm í þessu máli. Ég vildi mega vænta þess, að hæstv. dómsmrh. beygi sig fyrir þessu almenningsáliti og breyti þessari stjórnarathöfn sinni, svo að Alþ. þurfi ekki að láta málið frekar til sín taka en samþykkja brtt. Jóns Skaftasonar við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.