23.11.1965
Neðri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (2337)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er ekki svo oft, sem hæstv. forsrh. lætur falla lofsyrði um okkur framsóknarmenn hér í þessari hv. d., að þá sjaldan hann gerir það, er að sjálfsögðu rétt að láta ekki hjá líða að þakka fyrir það. Forsrh. komst þannig að orði um okkar afstöðu í þessu máli, að framsóknarmenn væru batnandi menn, og ég er honum alveg sammála um það. En það sýnir jafnframt, hver er hin raunverulega afstaða hæstv. ráðh. í þessu máli, þó að hann flíki því ekki opinberlega, að hann telur réttu afstöðuna í þessu máli þá, sem við framsóknarmenn fylgjum, og þess vegna eigi það við um okkar afstöðu, að við séum batnandi menn. Og ég tek alveg undir orð hæstv. ráðh. hvað þetta snertir. En það er hins vegar ekki nóg, að við framsóknarmenn séum batnandi, og það er ekki heldur nóg, að Alþb.-menn séu batnandi, ef aðrir og kannske þeir, sem enn þá meiri völdin hafa, þróast á annan veg, og því miður verð ég nú að segja það, hvað þetta mál snertir, að þá hefur þróunin hjá hv. stjórnarflokkum verið í aðra átt, — forsrh. má orða það þannig, ef hann telur það vel viðeigandi, en ég vil nú samt ekki taka svo djúpt í árinni um þeirra afstöðu, að þeir séu beinlínis komnir á hinn staðinn.

En það, sem hefur gerzt í sambandi við það mál, sem mest hefur verið hér til umr., er einmitt það, að engin embættisveiting fyrr og síðar, a.m.k. um mjög langt skeið, hefur vakið eins mikla ólgu og veiting bæjarfógetaembættisins í Hafnarfirði nú fyrir nokkru, og það er ekki hægt að segja, að þar séu stjórnarandstæðingar einir að verki eða stjórnarandstaðan hafi blásið það upp, hvernig almenningur hefur tekið þessu máli. Sú mikla mótspyrna, sem þessi embættisveiting hefur sætt, stafar einfaldlega af því, að almenningi finnst, að hér hafi verið framið meira réttarbrot í sambandi við embættisveitingu en áður hafi átt sér stað. Og við það verða hæstv. ráðh. að sætta sig, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Undir niðri finna þeir líka, að þeirra málstaður er slæmur, og þess vegna er það, sem það gloppast upp úr forsrh. einmitt í sambandi við þetta mál, að stjórnarandstæðingar séu batnandi menn.

Það var líka mjög athyglisvert í sambandi við þá ræðu, sem forsrh. flutti hér áðan, að það mátti segja, að hún væri samfelldur flótti frá aðalmálinu. Ráðh. bauðst til þess að ræða yfirleitt um allar aðrar embættisveitingar en þá, sem hér er sérstaklega til umr. Hann fór að tala um embættisveitingar Hermanns Jónassonar, hann fór að tala um eigin embættisveitingar, bauðst til, að hver einasta þeirra yrði rædd nákvæmlega ofan í kjölinn og þar fram eftir götunum, sem sagt ráðh. var eiginlega fús til að ræða um allt annað en þá embættisveitingu, sem hér hefur mest borið á góma, og ég lái honum það ekki, þó að afstaða hans hafi verið þessi. Ráðh. fór mörgum orðum um embættisveitingar Hermanns Jónassonar, taldi, að þær hefðu verið ólöglegar eða næstum því ólöglegar sumar hverjar, embættið hefði ekki verið auglýst, þegar hann var dómsmrh., og þar fram eftir götunum.

Þessu er nú fyrst að svara, að á þeim tíma var ekki lagaskylda að auglýsa embætti, og ég hélt, að hæstv. ráðh. væri það vel að sér í lögum, að hann hefði átt að vita þetta, og það gilti bæði þá og fyrr um ýmis embætti í ýmsum tilfellum, að stöður voru ekki auglýstar. Það var fyrst löngu eftir að Hermann Jónasson varð dómsmrh., sem það var lögtekið að auglýsa embætti. Annars legg ég ekki mjög mikið upp úr auglýsingum á embættum, þegar vitað er um, að það er búið að ákveða fyrir fram, hver stöðuna á að hljóta, og auglýsingin er þess vegna ekkert annað en formsatriði, eins og t.d. hefur átt sér stað í sambandi við þá embættisveitingu, sem hér er mest rætt um, því að það var orðið á vitorði allra, áður en staðan var auglýst, hver ætlun ríkisstj. væri í því sambandi og hvaða manni væri ætlað að hljóta þetta starf. Auglýsingin í sambandi við þetta embætti var þess vegna ekki annað en hreint formsatriði.

En um embættisveitingar Hermanns Jónassonar ætla ég aðeins að segja það, að ég er alveg óhræddur, ef tími væri til, að fara í samanburð á embættisveitingum hans og embættisveitingum hæstv. fyrrv. dómsmrh., núv. forsrh. Ég er alveg sannfærður um það, að ef borin yrðu saman störf þeirra embættismanna, sem Hermann Jónasson hefur skipað í stöður, og störf þeirra embættismanna, sem Bjarni Benediktsson hefur skipað í dómsmálastöður, mundu þeir menn, sem Hermann Jónasson hefur skipað í þessar stöður, fullkomlega þola samanburð og vel það, án þess að ég ætli nokkuð sérstaklega að fara að gera upp á milli manna. En á það vil ég benda, að hæstv. forsrh. hefur orðið til þess að innleiða alveg nýja reglu í sambandi við veitingu sýslumannsembætta Hann hefur orðið til þess að innleiða þá reglu, að til viðbótar því, að menn fullnægðu því hvað menntun snertir og annað þess háttar að geta gegnt embættinu, yrðu þeir að hafa réttan átrúnað í stjórnmálum — og meira en réttan átrúnað í stjórnmálum, þeir yrðu einnig að vera viljugir til þess og færir til þess að vera í framboði fyrir Sjálfstfl. í þingkosningum. Það má rekja það sýslu úr sýslu, hvernig hæstv. forsrh. hefur valið menn í sýslumannsembætti með það fyrst og fremst fyrir augum, að þeir væru færir um að vera í framboði fyrir Sjálfstfl. í þingkosningum, og það má segja, að þetta hafi verið meginreglan, sem hafi verið fylgt í sambandi við sýslumannsveitingar þær, sem fram hafa farið í tíð Bjarna Benediktssonar, meðan hann var dómsmrh.

Ég get aðeins nefnt nokkur dæmi þessu til sönnunar. Ég get nefnt dæmi um það, að það var settur sýslumaður í Húnavatnssýslu með tilliti til þess fyrst og fremst, að hann gæti verið þar í framboði fyrir Sjálfstfl.. Ég get nefnt einmitt þann mann, sem nokkuð ber á góma hér í þessum umr., hv. 4. þm. Norðurl. v. Hann var á sínum tíma valinn til að vera bæjarfógeti á Siglufirði ekki sízt með það fyrir augum, að hann gæti orðið frambjóðandi þar fyrir Sjálfstfl. síðar meir. Ég nefni t.d., hvernig ráðstafað var sýslumannsembættinu í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu fyrir ekki löngu. Því var ráðstafað með það fyrir augum, að sá maður, sem hlyti það, gæti orðið frambjóðandi fyrir Sjálfstfl. þar í kjördæminu. Það vita allir um sýslumannsembættisveitingu, sem nýlega fór fram á Snæfellsnesi. Hún er ákveðin með það fyrir augum, að sá maður, sem þá stöðu fær, verði eftirmaður Sigurðar Ágústssonar sem þm. kjördæmisins. Og þannig má rekja þetta kjördæmi úr kjördæmi. Á sínum tíma var skipaður maður í sýslumannsembættið í Múlasýslu með það fyrir augum, að hann væri þar í framboði, sem líka varð. Ég þarf ekki að nefna fleiri dæmi en þetta. Þau nægja alveg til að sýna, að hæstv. fyrrv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, ekki aðeins innleiddi þá reglu, að hinn nýi sýslumaður væri af réttu sauðahúsi, heldur yrði hann jafnframt frambjóðandi og þm. fyrir Sjálfstfl., forustumaður fyrir hann í viðkomandi kjördæmi. Og ég verð að segja, að það er erfitt að hugsa sér öllu meiri misbeitingu á veitingarvaldinu en þetta, því að það á að gera þá kröfu til þess manns, sem tekur að sér jafnvandasamt og yfirgripsmikið starf og sýslumannsembætti er, að hann helgi sig því starfl fyrst og fremst, en sé ekki með hálfan hugann eða oft og tíðum allan hugann við hina pólitísku baráttu. Þess vegna held ég líka, að hæstv. forsrh. ætti ekki að bjóða samanburð á sinum embættisveitingum og embættisveitingum annarra, því að hann hefur í sambandi við veitingu á embættum sýslumanna einmitt þá mestu pólitísku misnotkun, sem dæmi eru um á landi hér, og áreiðanlega þó að mjög viða sé leitað annars staðar. Um embættisveitingar Hermanns Jónassonar læt ég nægja að segja það, að þær þola fyllilega samanburð við embættisveitingar hæstv. forsrh. og miklu meira en það. Ég nefni það t.d. sem dæmi, að Hermann Jónasson á sínum tíma fékk það verkefni að útnefna menn í hæstarétt. Ég veit ekki betur en þær útnefningar hafi reynzt mjög vel og þeir menn, sem af honum voru nefndir til að vera hæstaréttardómarar, hafi þótt alveg sérstaklega færir til að gegna sínum störfum. Hins vegar man ég ekki betur en hæstv. forsrh. tækist ekki betur um slíka embættisveitingu en það, að viðkomandi maður yrði að láta af störfum mjög fljótlega, m.a. vegna þess, að hann var ekki aðeins að hugsa um að setja hæfan mann í stöðuna, –ég er ekki að draga neitt úr hæfileikum þess manns, sem um er að ræða, — heldur var hann að verðlauna mann fyrir langa pólitíska þjónustu fyrir Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Ég ætla að geyma að svara framígripum hæstv. forsrh. þangað til síðar, enda gæti það kannske orðið til þess, að hann sleppti sér enn þá meira. Ég vil ekki eiga það á hættu.

En ég kem þá að öðru atriði, sem hæstv. forsrh. gerði sér alltíðrætt um, og það var þegar hann kom að því að verja hina svonefndu geymslureglu, sem mér skildist að hann teldi ekki óeðlilega, þ.e., að ef ráðh. hefði gegnt opinberu starfi, mætti halda því opnu fyrir hann svo og svo lengi. Það var annars einkennilegt að heyra, hver afstaða ráðh. er til þessa máls. Ég gat ekki betur skilið dómsmrh. heldur en þannig, að hann væri því meðmæltur að takmarka þessa geymslureglu, eins og gert er í því frv., sem hér er til umr. Aftur á móti virtist mér, að utanrrh. talaði gegn því, að slíkar hömlur yrðu settar. En það var mjög erfitt að finna, hver afstaða forsrh. var í raun og veru til þessa máls eða til frv. En það, sem kom fram hjá honum um þetta efni, var þó að mjög verulegu leyti vörn fyrir geymsluregluna. Hann fór að rekja það frá fyrstu tíð, hvernig þetta hefði verið í framkvæmd, og vildi halda því fram, að þeirri reglu hefði langoftast verið fylgt, að stöðu væri haldið opinni, sem ráðh. hefði gegnt, meðan hann gegndi ráðherrastörfum. En um öll þessi dæmi, sem hæstv. ráðh. nefndi, gildir það undantekningarlaust, að þar er um miklu styttri geymslutíma að ræða en mest hefur verið rætt í sambandi við þetta frv. og þann geymslutíma, sem tíðkast nú orðið. Yfirleitt hefur það ekki verið í nema 1—2 ár, sem embætti hafa verið geymd með þessum hætti, og oft og tíðum hefur, held ég líka, engin slík geymsla átt sér stað. Sem sagt, geymslutíminn hefur verið það stuttur, að hann hefði vel rúmazt innan þess tímatakmarks, sem er í því frv., sem hér liggur fyrir.

Hæstv. ráðh. taldi sig að vísu geta nefnt eina undantekningu eða þá, að Hermann Jónasson hefði haldið embætti opnu fyrir sig í 5 ár, þegar bann var forsrh., og mér skilst, að það hafi átt að vera lögreglustjórastaðan í Reykjavík. Þessu er því að svara, að þegar Hermann Jónasson varð forsrh. 1934, tók Gústaf Jónasson við lögreglustjóraembættinu og gegndi því í tvö ár eða þangað til, hygg ég, að hann varð skrifstofustjóri í stjórnarráðinu. Þegar hann lét af því starfi, var Jónatan Hallvarðsson, sem var fulltrúi við embættið, settur lögreglustjóri. Nokkru síðar, eða eftir kosningarnar 1937, var ákveðið að skipta þessu embætti, og fór sú skipting fram, eins og hæstv. ráðh. sagði, í árslok 1939 eða í ársbyrjun 1940. Ég bygg, að lögin um skiptingu embættisins hafi verið samþ. 1939. Og þegar þau lög eru komin til framkvæmda, er Jónatan Hallvarðsson skipaður sem sakadómari og sérstakur maður skipaður til þess að vera lögreglustjóri, og engin geymsla á þessum störfum átti sér stað eftir það. En hafi í sambandi við þetta nokkurt fordæmi skapazt, er það það, að sá maður, sem er búinn að vera settur alllengi í embætti, vegna þess að ráðh. hefur haldið því opnu, eigi að hljóta starfið. Það var það fordæmi, sem þarna skapaðist, þegar Jónatan Hallvarðsson var skipaður í embætti sakadómara eftir að vera búinn að gegna því embætti eða verulegum hluta þess embættis um þriggja ára skeið. Það var talið af þáv. dómsmrh. og þá hafði enginn við það að athuga, að það væri sjálfsagt, að maður, sem þannig væri búinn um langan tíma að gegna embættinu, þótt settur væri, ætti að hljóta skipun: Þá var að sjálfsögðu, alveg eins og nú, um marga eldri menn að ræða, sem voru búnir að vera miklu lengur í þjónustu ríkisins heldur en Jónatan Hallvarðsson. En skipun hans í þetta embætti sætti samt engum mótmælum, vegna þess að það var talin eðlileg afleiðing af því, að hann var búinn að vera settur þetta lengi í embættið, að hann ætti að hljóta það. (Gripið fram í.) Ég skal ekki segja um það, en ég hygg, að hæstv. ráðh. ætti líka að minnast þess, að á þeim tíma var það ekki lagaskylda að auglýsa embætti. Þau lög voru sett líklegast einum 14 árum síðar.

En það hefur hér gerzt í sambandi við þessa geymslureglu, að nú tíðkast það ekki orðið, að ráðh. fái að halda embættum í 1—2 ár, eins og áður átti sér stað, eða í 3 ár, heldur er þetta komið upp í 10 ár, 6—7—8 ár. Og það er að sjálfsögðu allt annað en það, þó að embætti sé haldið opnu í 1—2—3 ár í mesta lagi, enda mundi það vera mögulegt samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, þó að samþykkt yrði, að embætti ætti að halda opnu í 1—2—3 ár. Og það er ekki óeðlilegt, — ég læt það koma fram sem mína skoðun, — að þegar ráðh. lætur af opinberu starfi, þá sé því haldið lausu einhvern tíma til að gefa honum kost á að hverfa í það aftur. En sá tími á ekki að vera lengri og jafnvel ekki eins langur og markaður er í þessu frv., í hæsta lagi 2—3 ár. Þegar farið er að geyma embættið lengri tíma en það, er margs konar hætta á ferðum, eins og hefur sérstaklega sýnt sig í sambandi við það mál, sem hér hefur mest verið rætt. Og það er eitt af því, sem hæstv. forsrh. núv. ber mjög mikla ábyrgð á, ég vil segja mesta ábyrgð á, að þessi langa geymsluregla hefur skapazt. Hann hefur lengst sem forsrh. þolað það, að þessi geymsluregla fengi að viðgangast í sambandi við bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði og einnig í sambandi við önnur ráðherraembætti, einkum þó í sambandi við þau embætti, sem ráðh. Alþfl. hafa áður gegnt. Sem dómsmrh. hefði hann ekki átt að þola það, að bæjarfógetaembættinu í Hafnarfirði yrði haldið opnu jafnlengi og raun ber vitni um, af því að þetta er sérstaklega varhugavert í sambandi við dómaraembætti, og að sjálfsögðu hvíldi sú skylda ekki síður á honum, eftir að hann var orðinn forsrh. Það kann að vera, að hæstv. forsrh. hafi álitið, að þetta væri eitthvert viðkvæmt mál hjá ráðh. Alþfl. En það er nú svona, að þó að þurfi að hliðra fyrir Alþfl. í sambandi við embætti, má það ekki ganga of langt og ekki verða til þess, að óheilbrigðar embættisvenjur skapist, eina og hér hefur átt sér stað.

Ég verð nú að segja, að ég get ekki annað en brosað að þeirri röksemd hjá ráðh. tveimur, að geymslutíminn þyrfti að vera langur með tilliti til ráðh., vegna þess að það væri oft erfitt að fá hæfa menn í þær stöður. Ég verð nú til huggunar þessum hæstv. ráðh. að segja það, að hvað sjálfa þá snertir þurfa þeir ekki að hafa neinar sérstakar áhyggjur í þessu sambandi, því að ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða það, að þó að svo færi nú, að þeir forfölluðust af einhverjum ástæðum, mundu innan þeirra flokka, svo að ég nefni aðeins þá, finnast alveg jafnhæfir menn til að gegna ráðherraembættunum og þeir, sem nú gegna þeim, svo að af þeim ástæðum sé engin nauðsyn á því að skapa þennan langa geymslutíma, sem hefur átt sér stað í sambandi við embættið, sem ráðh. hafa geymt að undanförnu. Guðmundur Í. Guðmundsson, Gylfi Þ. Gíslason, Emil Jónsson hefðu vel getað farið úr ráðherraembættunum og tekið sin gömlu embætti vegna þess, að það hefðu innan Alþfl., þótt ekki sé stór flokkur, fundizt alveg jafnhæfir menn til þess að taka við ráðherraembættunum, og þess vegna var engin nauðsyn á því að vera að mynda þessa óheilbrigðu geymslutímareglu. Ég held þess vegna, að það sé ákaflega erfitt að finna heilbrigð rök til þess að rökstyðja það, að það eigi að halda embætti opnu allt að áratug, vegna þess að einhver ráðh. vilji gjarnan fara í það aftur, eftir að hann hefur látið af sínu embætti. Svo langt má þessi tillitssemi við ráðh. ekki ganga.

Ég ætla þá að minnast nokkrum orðum á þá embættisveitingu, sem sérstaklega hefur verið gerð að umtalsefni hér og er meginorsök þess, að það frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið flutt. Að vísu er búið að ræða það mál svo mikið áður, að ég þarf ekki að eyða löngum tíma til að lýsa skoðun minni í því sambandi. Ég skal játa það, að þegar um veitingu slíkra embætta sem bæjarfógetaembættisins í Hafnarfirði og sýslumannsembættisins í Gullbringu- og Kjósarsýslu er að ræða, er veitingarvaldinu talsverður vandi á höndum, því að það skiptir miklu máli, að í jafnstórt embætti veljist sem hæfastur maður. En það, sem veitingarvaldið verður fyrst og fremst að hafa hugfast í sambandi við slíkar stöðuveitingar og þessar, er að gera sér grein fyrir hæfni umsækjenda, og þá kemur það fyrst og fremst til greina að athuga, hver sé reynsla þeirra, þekking og hæfileikar. Það befur réttilega verið sagt, að allir þeir menn, sem um þetta embætti hafa sótt, séu góðir hæfileikamenn, og það á líka við um þá, að þeir hafa þá þekkingu til að bera, sem þessi staða krefst. En ég hygg, að það leiki ekki á tveimur tungum hjá nokkrum þeim, sem athuga þetta mál hlutdrægnislaust, að einn maðurinn af þeim, sem um þetta starf sóttu, hafði langsamlega mesta reynslu í sambandi við þetta embætti. Hann var búinn að gegna þessu embætti í 9 ár, og það var miklu stærra og umfangsmeira embætti en hinir umsækjendurnir höfðu gegnt, og þar af leiðandi hafði hann öðlazt langsamlega mesta reynslu í sambandi við þessi störf. Þessu til viðbótar — og það er ekki síður mikilvægt — hafði hann langsamlega mesta staðarþekkingu. Ég held þess vegna, að það fari ekki á milli mála, hvað alla þá eiginleika snertir, sem maður í þessu starfi þarf að hafa: reynslu, þekkingu og mannkosti, að þá hafi Björn Sveinbjörnsson verið fremstur af umsækjendunum, án þess að lítið sé gert úr hinum. Og samkv. öllum heilbrigðum reglum átti hann að hljóta þetta starf. Þessu til viðbótar hafði embættisvaldið sérstakar skyldur við Björn Sveinbjörnsson, vegna þess að hann var vegna sérstakra ástæðna, sem öllum er kunnugt, raunverulega í þágu stjórnarinnar búinn að gegna þessu embætti án þess þó að njóta fullra réttinda í sambandi við það. Þetta til viðbótar hæflleikum hans og mestri reynslu skar úr um það, að hann átti að fá þetta embætti. Ef fram hjá honum var gengið, er ótvírætt, að sá maður, sem næst honum kom, var sýslumaðurinn á Ísafirði, vegna þess að hann hafði lengri embættisaldur og meiri reynslu en þriðji umsækjandinn. Sá maðurinn, sem tvímælalaust kom sízt til greina í sambandi við þessa embættisveitingu, án þess að ég vilji gera litið úr hæfileikum hans, var Einar Ingimundarson, sem lá í því, að þó að hann sé hæfileikamaður, þó að hann sé lögfræðingur, hafði hann langminnsta reynslu af þessum mönnum, hann hafði gegnt minnsta embættinu og hann hafði verið langdvölum frá embættinu og var þar af leiðandi búinn að hljóta langsamlega minnsta embættisreynslu af þessum þremur mönnum. Þar af leiðandi er augljóst mál, að hann var sá þessara þriggja umsækjenda, sem kom sízt til greina, og reiði almennings í sambandi við þetta mál stafar einmitt af því, að mönnum finnst það augljóst, að hér hafi hæfasti og sjálfsagðasti umsækjandinn verið sniðgenginn með algerlega röngum hætti, og því til viðbótar hafi hann verið búinn að vinna þannig í þágu ríkisstj., að henni bar sérstök skylda til þess að láta hann ekki verða útundan.

Ég held, að hæstv. ráðh. geri sér líka fullkomlega ljóst, hvert glapræði þeir hafa hér framið, og þess vegna er vörn þeirra, sem fram hefur komið hér í þessum umr., eins veik og verða má. Ég verð að segja það, að ég hef ekki heyrt öllu veikari röksemd en þá, þegar hæstv. dómsmrh. fór að tala hér til tilfinninganna og lýsa kunningsskap sínum við Einar Ingimundarson og sagði, að hann mætti ekki gjalda þess, að þeir væru kunningjar. Það er alveg rétt. Ég tek alveg undir það, að hann mátti ekkí láta hann gjalda þess, að þeir voru kunningjar og samherjar í stjórnmálum. En hann mátti ekki heldur láta hann njóta þess. Hann varð að dæma rétt. (Dómsmrh.: Ég sagði aldrei kunningsskapur, það segir ræðumaður í Tímanum.) Eða vinsemd, ég held, að það skipti ekki miklu máli, hvaða orðalag er notað í þessu máli, því að það segir nokkurn veginn það sama, enda má líka vel bera saman það, sem ég nú sagði, og það, sem stendur í þingtíðindunum, það sem hæstv. ráðh. sagði um þetta mál, og ég hygg, að það komi þá í ljós, að það sé ekki mikill munur á því, sem hann sagði, og þeim ummælum, sem ég eignaði honum hér áðan, að efnislega sé það nokkurn veginn það sama.

Ég verð þá að lokum að koma að því atriði, sem ég tel vera langsamlega stærst í þessu máli og veigamest í sambandi við þetta mál hvað framtíðina snertir. Það hefur réttilega verið talað um það í sambandi við þetta mál. að það hafi verið að skapast meinsemd í sambandi við veitingu dómaraembætta á undanförnum árum, meinsemd, sem sé fólgin í því, að menn hafi, þegar þessar stöður hafa verið veittar, fyrst og fremst verið valdir eftir pólitískum litarhætti — og ekki aðeins eftir pólitískum litarhætti, heldur einnig með tilliti til þess, að þeir gætu tekið mjög virkan þátt í hinni pólitísku baráttu. Það er alveg rétt, sem hefur komið fram hjá ýmsum þeirra, sem hafa skrifað um þessi mál að undanförnu, og einmitt þeim mönnum, sem minnst hafa verið við stjórnmálabaráttuna riðnir, að það er meinsemd, þegar sú hefð hefur skapazt, að dómaraembætti í landinu sé fyrst og fremst veitt út frá þessu sjónarmiði, út frá því sjónarmiði, að þeir séu ekki aðeins flokksmenn, heldur baráttumenn í stjórnmálum. Þetta er fyrirkomulag, sem þarf að uppræta, og þetta mál á ekki aðeins að verða til þess, að þeir, sem hér hafa afbrot framið, hljóti réttmæta gagnrýni, heldur að það verði farið að hugsa til þess að taka upp þá skipan í sambandi við veitingu slíkra embætta, að það verði ekki fyrst og fremst litið á pólitískar skoðanir umsækjendanna og þeim veittar stöður eftir því. En það skal ég viðurkenna með hæstv. forsrh., að hann er ekki fyrstur manna, sem hefur innleitt þessa reglu, þó að henni hafi aldrei verið framfylgt eins einhliða og í stjórnartíð hans, og þess vegna eiga allir hér nokkra sök eða a.m.k. langflestir og þess vegna á líka að vera auðveldara að leysa þetta mál, vegna þess að það má finna einhverja sök í þessum efnum hjá öllum, þó að þær séu mismunandi miklar, eins og ég hef rakið hér á undan. Það, sem ég álít að þetta mál eigi að leiða til, er það, að það verði tekið til endurskoðunar, hvernig eigi að veita dómaraembætti í landinu, að það eigi að leita eftir því fyrirkomulagi, að það sé ekki pólitískt vald, sem ræður því, hvaða menn gegna þessum þýðingarmiklu störfum.

Ég skal játa, að ég er ekki við því búinn nú að gefa svar við því, hvaða skipan á að taka þarna upp eða á að koma í staðinn fyrir veitingarvald pólitísks ráðh., en það er mér ljóst eins og fjöldamörgum öðrum, sem um þetta mál hafa látið til sin heyra að undanförnu, að það þarf að koma einhver önnur og ný skipan á í sambandi við þetta mál. Og það er t.d. athugandi, að sú þjóð, sem hefur gengið lengst í því að aðskilja löggjafarvald og framkvæmdavald, Bandaríkjaþjóðin, hefur einnig sett sérstakar reglur til að koma í veg fyrir það, að vald til þess að veita dómaraembætti sé eingöngu í höndum framkvæmdaaðilans. Þess vegna verður forsetinn að bera allar slíkar meiri háttar embættisveitingar undir öldungadeildina og engin embættisveiting fær fulla staðfestingu, nema öldungadeildin samþykki hana. Ég er ekki að segja þetta vegna þess, að ég telji, að þetta fyrirkomulag eigi að taka upp hér á landi. En eigi að síður er ég þó viss um, að það væri til bóta að taka upp eitthvert slíkt fyrirkomulag eins og þetta. Það mundi verða til þess að skapa hinu pólitíska veitingarvaldi aukið vald. Og það hefur nýlega sýnt sig í Bandaríkjunum í sambandi við ákveðna embættisveitingu, að það er ekki þýðingarlítið, að annar aðili en framkvæmdavaldið hafi nokkuð um það að segja, hvernig dómaraembætti eru veitt. Það hefur orðið til þess, að forsetinn og helztu stuðningsmenn hans féllu frá því að veita dómaraembætti ákveðnum manni, sem var búinn að fá veitingu fyrir embættinu, en hlaut hins vegar svo mikla mótspyrnu í þinginu, að forsetinn og fylgismenn hans töldu ekki rétt að knýja málið fram þar, þó að þeir hefðu til þess nægan þingmeirihl. Það hefði vissulega verið ánægjulegt, ef hæstv. ríkisstj. hefði sýnt sama þroska í þessu máli, í Hafnarfjarðarmálinu, og forseti Bandaríkjanna og hans fylgismenn hafa sýnt í sambandi við veitingu dómaraembættisins í Boston. Og það vil ég láta verða mín síðustu orð hér að segja það, að þó að nokkuð langt sé nú liðið á þá baráttu, sem hefur risið út af þessu máli, og þó að það sé kannske orðið hæstv. ríkisstj. meira metnaðarmál en ella að halda málinu til streitu, á hún og sá maður, sem embættið hefur hlotið, enn þann leik á hendi að fara sömu leiðina og Bandaríkjaforseti og hans menn fóru í þessu máli. Og ég er alveg sannfærður um það, að hlutur viðkomandi aðila mundi ekki vaxa af öðru meir en því, að þeir létu þannig skynsemina ráða, en ekki ofurkappið.