26.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (2359)

161. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt af öllum hv. þm. Framsfl. í þessari d. og fjallar um það að gera breytingu á vegal., nr. 71 frá 30. des. 1963, á þá leið, að gjald af innfluttum bifreiðum og bifhjólum, sem nemur allt að 135% af fob-verði hverrar bifreiðar eða bifhjóls, skuli renna í vegasjóð, en eins og kunnugt er, rennur þetta gjald nú, sem er innheimt, í ríkissjóð og er, að ég hygg, áætlað á fjárl. yfirstandandi árs að nema 124 millj. kr., en skv. frv. þessu á gjald þetta að renna í vegasjóð frá 1. jan. 1967 að telja eða frá næstu áramótum.

Þessu máli var vísað til samgmn., og n. aflaði sér umsagnar vegamálastjóra um frv., og er umsögn hans ýtarleg. Hún er prentuð sem fskj. með nál. minni hl. Í þessari umsögn vegamálastjóra kemur skýrt fram, að vegasjóður hefur mikla þörf fyrir nýja tekjustofna, og í rauninni, þó að n. hafi klofnað í þessu máli, erum við, sem skipum meiri hl. n., alveg sammála flm. þessa frv. og minni hl. um það, að þarna sé brýn nauðsyn á að bæta úr. Hins vegar er það svo, að vegáætlunin, sem er til 4 ára, skal endurskoðuð á næsta þingi fyrir þau 2 ár, sem eftir eru af tímabilinu, þ.e.a.s. fyrir árið 1967 og árið 1968. Við, sem meiri hl. skipum, lítum svo á, að nýjar tekjuöflunarleiðir verði að fylgja í kjölfar endurskoðaðrar áætlunar, því að það er ekki heppilegt að ákveða það fyrir fram, að tilteknir tekjustofnar skuli teknir, áður en vitað er endanlega um það, hve miklu fé skal verja til vegamála og í vegáætlun fyrir næstu ár. Þetta álítum við að verði að fylgjast að, því að auðvitað kann það svo að vera, þessi upphæð, sem þarna er tiltekin, sem verður 124 millj. fyrir yfirstandandi ár og mætti reikna með að yrði auðvitað alls ekki lægri upphæð fyrir næsta ár, sú upphæð kann að verða óþarflega há. Hún getur hugsanlega líka verið of lág. Þetta er hlutur, sem er of snemmt að segja um. En svo kemur auk þess annað til, að með þessu frv., eins og það liggur hér fyrir, er í raun og veru verið að svipta ríkissjóð þessum tekjum, sem vegasjóður á að hljóta, og þar sem allt útlit er nú fyrir, að ríkissjóði veiti ekki af sínum tekjustofnum, mundi þetta auðvitað leiða af sér nýjan vanda, þannig að það þyrfti þá að leita nýrra tekjuöflunarleiða fyrir ríkissjóð í stað þeirra tekna, sem hann yrði sviptur með þessum hætti.

Þá er einnig á það að líta, að 31. jan. s.l. skipaði hæstv. samgmrh. þriggja manna n. til þess að gera till. um fjáröflun til vegamála, en í skipunarbréfi n. segir m.a. svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af því, að ákveðið er að endurskoða gildandi vegáætlun á n. k. hausti og nauðsynlegt er að auka verulega tekjur vegasjóðs, hefur ríkisstj. ákveðið að skipa þriggja manna nefnd til þess að gera till. um, með hverjum hætti heppilegast er að afla aukins fjár til vegamála, svo að unnt verði að hraða nauðsynlegum vegaframkvæmdum og bæta viðhald veganna.“

Þarna hefur hæstv. samgmrh. að sjálfsögðu séð nauðsynina á því að auka fjárframlög til vegamála, og þar sem í bréfi þessarar n., sem á að hafa þetta sérstaka hlutverk með höndum, er tekið berum orðum fram, að hún skuli hafa skilað áliti til ráðuneytisins fyrir lok ágústmánaðar n.k., teljum við, sem að meiri hl. í samgmn. stöndum, að rétt sé að bíða eftir því, hvaða till. þessi n. hefur fram að færa. Það liggur sem sagt alveg fyrir, að ríkisstj. er þessi vandi ljós og veit, að það þarf að leysa hann.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í ýtarlegri umr. um þetta. Það er í grg. með þessu frv. tekið fram, að Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hafi látið reikna út, að á árunum 1960—1964 hafi tekjurnar af umferðinni numið 2046 millj. kr., þar af runnið til viðhalds og byggingar vega 750 millj. kr. eða 37%, en til annarra þarfa ríkissjóðs 1295 millj. kr. eða 63%. Ég vil aðeins taka fram í sambandi við þessar tölur, sem þarna eru settar, að það er nokkuð óljóst hugtak, hygg ég. hvað séu tekjur af umferðinni, og ég man ekki betur en þegar Félag ísl. bifreiðaeigenda birti þessa grg. á sínum tíma, hafi einmitt vegamálastjóri og samgmrn. birt grg. í blöðunum, þar sem þessum útreikningum var mótmælt og talið, að þarna væru tekjur af umferðinni ofreiknaðar, enda kemur ekki fram í þessari tilvitnun í grg. með frv., hvað er lagt til grundvallar, hvernig það er skilgreint, hvað séu tekjur af umferðinni, því að ég hygg, að um ýmsa þætti megi deila, hvort það sé eðlilegt að kalla það tekjur af umferð eða ekki.

Eins og ég hef áður tekið fram, er meiri hl. samgmn. ljóst, að það þarf að afla meiri tekna í vegasjóð. Það hafa verið framkvæmd stórvirki í vegamálum okkar á síðustu árum, og því þarf að halda áfram, en n. telur hins vegar ekki tímabært að ákveða nú á þessu stigi nýja tekjustofna til vegasjóðs með þeim hætti að svipta ríkissjóð tekjustofni, heldur verði að bíða eftir þeirri n., sem hefur verið falið þetta hlutverk og á að skila sínum till. tímanlega, og þess vegna leggur meiri hl. samgmn. til að svo vöxnu máli, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj.