19.10.1965
Neðri deild: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (2419)

14. mál, héraðsskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti.

Þetta frv. er í raun og veru ekki fyrst og fremst um byggingu nýrra skóla. Það er fyrst og fremst frv. eða till. um gerbreytingu á einni grundvallarreglu, sem gilt hefur um áratugaskeið varðandi samskipti ríkisvalds og sveitarfélaga um greiðslu kostnaðar við skólabyggingar. Hér er gert ráð fyrir því, að reistir séu 8 nýir skólar, sem hér eru kallaðir héraðsskólar, en hins vegar ákvæði um það, að ríkið eitt skuli greiða kostnað við byggingu þessara skóla. Frá upphafi hefur það verið meginregla varðandi greiðslu kostnaðar við skólabyggingar, sem ætlað er að sjá nemendum fyrir fræðsluskyldu, fyrir námsefni skv. fræðslulögum, að sveitarfélög og ríki skuli byggja slíka skóla sameiginlega og meira að segja að sveitarfélögin skuli hafa forgöngu um byggingu skólanna, en að ríkið skuli síðan greiða ákveðinn styrk, að vísu mismunandi, til skólabygginganna.

Það er ekki athyglisvert nýmæli í þessu frv., að reisa skuli nýja skóla, það ber þegar að gera skv. hinum almennu fræðslulögum, og það er verið að gera, reisa marga nýja skóla í þeim héruðum, sem tilgreind eru sem væntanleg skólasetur héraðsskóla í þessu frv. Margir skólar eru þar í byggingu samkvæmt hinni almennu skólalöggjöf fyrir forustu hlutaðeigandi sveitarfélaga og með lögboðnum tilstyrk ríkisins.

Aðalatriði þessa máls er því ekki ákvæði 2. gr., heldur þau ákvæði 4. gr., að ríkið skuli eitt greiða allan kostnað af byggingu þeirra skóla, sem þetta frv. fjallar um.

Um héraðsskólana, sem nú starfa, er það að segja, að í skólalöggjöfinni frá 1946—47 var svo kveðið á, að þessir skólar skyldu vera sameiginlegir skólar hlutaðeigandi sýslufélaga annars vegar og ríkisins hins vegar, þ.e. sýslufélögin annars vegar og ríkissjóður hins vegar áttu að greiða rekstrarkostnað þeirra héraðsskóla, sem störfuðu, þegar fræðslulöggjöfin 1946—47 var sett. En það leið ekki á löngu, áður en það kom í ljós, að þessi ákvæði fræðslulöggjafarinnar voru mjög hæpin. Þau virtust leggja meiri kostnaðarbyrðar á sýslufélögin en þau annaðhvort gátu staðið undir eða voru reiðubúin til þess að standa undir. Þess vegna fór svo fyrir nokkrum árum, að hvert sýslufélagið af öðru lýsti yfir, að það væri ekki fært um eða treysti sér ekki til að standa undir lögboðnum hluta sýslufélaganna af greiðslu kostnaðar við þessa héraðsskóla, og þess vegna fór svo eftir miklar umr. og eftir vandlegar bollaleggingar, að ríkisstj. var heimilað á hinu háa Alþingi að taka að sér rekstur þessara skóla að öllu leyti. Sú heimild hefur verið notuð í öllum tilfellum nema einu. Sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu hefur ekki enn þá óskað eftir því, að ríkið taki að sér rekstur héraðsskólans á Laugum. En allir hinir héraðsskólarnir hafa óskað eftir því, að ríkið tæki að sér rekstur héraðsskólanna, og hefur það því verið gert.

Ástæðan til þess, að þeir héraðsskólar, sem nú starfa, eru allir orðnir ríkisskólar, er því beinlínis sú og eingöngu sú, að hlutaðeigandi sýslufélög hafa ekki treyst sér til að standa undir greiðslu kostnaðar við rekstur skólanna, og þess vegna hefur ríkið tekið að sér að greiða þann kostnað í stað sýslufélaganna, eins og þeim hafði verið lögskipað að gera á árunum 1946—47.

Vitanlega var með þessari heimildarlöggjöf ekki til þess ætlazt, að hún breytti áratugagamalli grundvallarreglu varðandi greiðslu kostnaðar við skólabyggingar, sem mér vitanlega befur aldrei verið hreyft neinum andmælum við hér á Alþingi í áratugi, fyrr en þá að raddir heyrast um það nú á allra síðustu árum, að ríkið eitt eigi að byggja alla skóla, og er hér enn um nokkuð einstakar raddir að ræða.

Ég er þeirrar skoðunar, að það væri alröng stefna, það væri að stíga stórt spor aftur á bak, það sé hrein afturhaldsstefna í skólamálum, ef aðild sveitarfélaganna að skólabyggingum væri algerlega afnumin. Grundvallaratriðið í núgildandi skólakostnaðarlögum er, að hlutaðeigandi sveitarfélög skuli hafa forgöngu um skólabyggingarnar og ríkið styðji þær myndarlega. Þetta tel ég vera heppilega stefnu og rétta stefnu og mjög varhugavert að hverfa frá henni.

Hitt er svo annað mál, að ég tel, að ástæða sé til þess að endurskoða hlutdeild ríkissjóðs í kostnaði við byggingu skólamannvirkja. Ýmsar þær breytingar hafa átt sér stað í þjóðlífinu á undanförnum árum eða áratugum, að ég tel að slíkar breytingar geti vel komið til greina, og einmitt af þeim sökum skipaði menntmrn. á s.l. vetri n. til að endurskoða skólakostnaðarlögin frá árinu 1954. Þau eru þó ekki nema rúmlega 10 ára gömul, og að því er mig minnir, voru þau afgr. samhljóða hér á hinu háa Alþingi. Það var enginn ágreiningur hér á hinu háa Alþingi fyrir rúmum áratug um þær meginreglur, sem síðan hafa gilt um skiptingu kostnaðar við skólabyggingar milli sveitarfélaga annars vegar og ríkisins hins vegar. Samt sem áður hefur ríkisstj. talið ástæðu til að huga nánar að þessum ákvæðum, einkum og sér í lagi í því skyni að létta hluta sveitarfélaga í dreifbýli í greiðslu skólakostnaðarins, og er það mál alveg sérstaklega til athugunar. Þessi n. mun væntanlega ljúka störfum annaðhvort á þessu ári, — ég vona á þessu ári, — eða a.m.k. svo snemma á hinu næsta, að till. til breyt. á skólakostnaðarlögunum geti legið fyrir Alþingi því, sem nú situr. Ríkisstj. hefur eindreginn áhuga á því að geta lagt nýjar till. um þessi efni fyrir hið háa Alþingi, og mun ég gera ráðstafanir til, að n. hraði störfum sínum svo sem frekast er unnt.

Ég endurtek, að ég tel ekki, að eigi að hverfa frá þeirri stefnu, að sveitarfélögin séu aðili bæði að byggingu og rekstri allra þeirra skóla, sem láta í té fræðslu skv. fræðslulögum.

Þá minntist hv. ræðumaður nokkuð á það í ræðu sinni, að nemendum væri gert mishátt undir höfði eftir því, hvar þeir byggju á landinu. Á hann þá væntanlega við, að nemendum í dreifbýli annars vegar og þéttbýli hins vegar sé gert mishátt undir höfði hvað það snertir, að nemendur í dreifbýli eigi ekki kost á jafnmikilli skólagöngu og nemendur í þéttbýli eigi kost á. Þessi ummæli væri mjög auðvelt að misskilja á þann veg, að ríkisvaldið ætti einhverja sök á því eða ríkisvaldið bæri að einhverju leyti ábyrgð á því, að nemendur í dreifbýli ættu ekki kost á þeirri skólagöngu innan fræðsluskyldunnar, sem þeir óskuðu eftir. En eins og kunnugt er, þá er það á valdi sveitarstjórna, að hversu miklu leyti ákvæði almennra fræðslulaga um fræðsluskyldu frá 7—15 ára aldurs eru notuð. Í öllum kaupstöðum og víðast hvar í þéttbýli eru ákvæðin notuð með þeim hætti, að séð er fyrir kennslu frá 7—15 ára aldurs. Hins vegar hafa allmörg sveitarfélög í dreifbýlinu ekki treyst sér til þess að halda uppi fullkominni skólagöngu frá 7—15 ára aldurs, og á nokkrum stöðum lýkur skólaskyldu ýmist við 13 eða 14 ára aldur, en nær ekki til 15 ára aldurs. En hér er ekki að neinu leyti við ríkisvaldið að sakast, hvorki þá ríkisstj., sem nú situr, né nokkra aðra ríkisstj., sem á undan hefur farið, því að ég hef látið athuga það sérstaklega og finn engin dæmi þess í menntmrn., að nokkurs staðar hafi sveitarfélagi verið synjað um að framlengja skólaskyldu frá 13 upp í 14 eða upp í 15 ára aldur. Ég þekki ekkert dæmi um, að nokkur ríkisstj. hafi nokkurn tíma synjað sveitarfélagi um ósk á framlengingu skólaskyldu, þar sem henni lýkur við 13 eða 14 ára aldur. Þar sem skólaskyldan er því ekki nema til 13—14 ára aldurs, er það vegna þess, að hlutaðeigandi sveitarfélag hefur ekki óskað eftir því, að hún yrði til 14 eða til 15 ára aldurs.

Ég segi það einu sinni enn: Það hefur aldrei staðið á nokkurri ríkisstj. að greiða sinn hluta af þeim kostnaði, sem framkvæmd skólaskyldu til 15 ára aldurs mundi hafa í för með sér. Þvert á móti hefur verið um að ræða áhuga af hálfu fræðsluyfirvalda á því, að skólaskyldan sé sem víðast, helzt alls staðar, til 15 ára aldurs. Einmitt í því sambandi gerði ég alveg sérstakar ráðstafanir til þess á s.l. vori með aðstoð fræðslumálaskrifstofunnar og námsstjóranna, að það yrði kannað í öllum fræðsluhéruðum, þar sem fræðsluskyldu lyki 13—14 ára, hverjir möguleikar væru á því að lengja fræðsluskylduna allt til 15 ára aldurs. Það var rætt sérstaklega við forvígismenn allra þeirra fræðsluhéraða, þar sem fræðsluskyldan nær ekki til 15 ára aldurs, um möguleika á því að lengja hana nú þegar í haust. Þessar ráðstafanir í sumar báru árangur á mjög mörgum stöðum á þann hátt, að nú á næsta vetri verður fræðsluskylda á mjög mörgum stöðum lengri en hún áður var, þó að ekki hafi tekizt að koma öllum þessum breytingum, sem ríkisstj. hefur fullan áhuga á, til framkvæmda nú á þessu eina sumri.

Til viðbótar þessum upplýsingum get ég aðeins sagt það, að ríkisstj. hefur fyllsta áhuga á því, að fræðsluskylda komist alls staðar til framkvæmda til 15 ára aldurs, og eins og öllum forráðamönnum sveitarfélaganna hefur verið gerð grein fyrir, mun ekki standa á ríkinu að greiða sinn hluta af þeim kostnaðarauka, sem af því mundi leiða. Þetta þótti mér rétt og sjálfsagt að láta koma hér fram til að fyrirbyggja misskilning um þetta mikilvæga atriði.