26.10.1965
Neðri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

18. mál, umferðarlög

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 18 lagafrv. um breyt. á umferðarl. Frv. mitt er aðeins um breyt. á 1.—4, mgr. 81. gr. l., en hún er í þeim kafla l., sem hefur að geyma ákvæði um refsingar fyrir brot á umferðarl. Í 1. og 2. mgr. frvgr. eru tekin óbreytt ákvæði, sem nú eru í 4 fyrstu mgr. 81. gr. l. En nýmæli, sem frv. mitt flytur, eru í 3. og 4. mgr. 1. gr. þess. 3. mgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hefur stjórnandi vélknúins ökutækis gerzt brotlegur við 1. eða 2., sbr. 3. og 4. mgr. 25. gr., og skal hann þá sviptur ökuleyfi eða rétti til að öðlast það að fullu og öllu.“

En hvernig eru þá þessar málsgreinar í 25. gr. l., sem hér er vitnað til. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þær:

„Enginn má neyta áfengis við akstur vélknúins ökutækis.

Enginn má aka eða reyna að aka vélknúnu ökutæki, ef hann vegna áfengisneyzlu verður eigi talinn geta stjórnað því örugglega.

Ef vínandamagn í blóði manns er 0.50—1.20%. eða hann er undir áhrifum áfengis, þótt vínandamagn í blóði hans sé minna, telst hann ekki geta stjórnað ökutæki örugglega.

Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 1.20 % eða meira, telst hann óhæfur til að stjórna vélknúnu ökutæki.“

Þannig hljóða þessi ákvæði 25. gr.

Síðasta mgr. í frvgr. minni hefur að geyma ákvæði um það, að sú heimild, sem ráðh. hefur í l. til að veita manni, sem hefur verið sviptur ökuréttindum, ökuleyfi á ný eða rétt til að öðlast það, eftir að viss tími er liðinn frá ökuleyfissviptingunni, sú heimild skuli ekki gilda fyrir þá menn, sem hafa verið sviptir ökuleyfi vegna þess, að þeir hafa gerzt brotlegir við fyrirmæli þessara mgr. 25. gr. l., sem ég var að lesa.

Þannig er frv. mitt eingöngu um það að setja í lög fyrirmæli um, að þeir menn, sem neyta áfengis við akstur vélknúinna ökutækja, aka eða reyna að aka slíku tæki, þegar þeir eru undir áhrifum áfengis, skuli sviptir ökuleyfi að fullu. Í 81. gr. núgildandi umferðarl., þar sem ákveðin er refsing fyrir brot á áðurnefndum ákvæðum 25. gr. l., eru ölvaðir menn við akstur flokkaðir eftir því, hvort þeir eru meira fullir eða minna fullir. Og samkv. l. má sleppa ökuleyfissviptingunni, ef ölvunin fer ekki fram úr vissu marki. Slík sundurgreining er erfið og óheppileg, enda óþörf með öllu. Bezt mundi gefast að hafa hér hreinar línur, svipta þá menn ökuréttindum að fullu, sem fara með vélknúið ökutæki, þegar þeir eru undir áhrifum áfengis.

Umferðarslysin eru geigvænlega mörg og alvarleg. Af fréttum kemur fram, að mörg slysin stafa af ölvun ökumanns. Ég tel alveg víst, að þeim slysum mundi fækka, ef ákvæði þessa frv. verða í lög tekin. Menn munu yfirleitt telja sér mikils virði að hafa réttindi til bifreiðaaksturs, og færri en áður mundu leyfa sér að hreyfa ökutæki, þegar þeir hafa neytt áfengis, ef þeir ættu á hættu að missa ökuréttindi alla ævi fyrir þann verknað. Þegar núgildandi umferðarlög voru sett á þinginu 1957, bar ég fram brtt. um þetta efni. Hún var felld, en nú eru menn reynslunni ríkari.

Benda má á það, að þörf sé fleiri breytinga á umferðarl. En þó að svo sé, tel ég rétt að gera nú þegar þá lagabreytingu, sem frv. fjallar um. Verði sú breyting gerð, má telja vafalaust, eins og ég áður sagði, að umferðarslysunum muni fækka, og að því þarf að vinna.

Herra forseti. Mál þetta er ekki flókið eða margbrotið, og ég tel fullvíst, að hv. þm. sé vel ljóst efni frv., þótt ég hafi ekki um það fleiri orð. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.