26.10.1965
Neðri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (2434)

18. mál, umferðarlög

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur flutt hér skýrslu um athuganir, sem fram hafa farið að undanförnu á umferðarmálunum. Hann gat um þá n., sem skipuð var fyrir 10 árum til að athuga þessi mál, svokölluð umferðarlaganefnd, og skýrði frá því, hvað hún hefði gert, og þar kom fram, að hún hefur margt gert og margt athugað, en ég varð ekki þess var, að nokkuð af því, sem hann þar nefndi, snerti ákvæði þessa frv., sem ég hef hér lagt fram, ekki neitt. Enn er fjöldi drukkinna ökumanna í umferð og dauðinn í fylgd með þeim, þrátt fyrir 10 ára starf umferðarlaganefndarinnar.

Hæstv. ráðh. nefndi einnig rannsóknarnefnd umferðarslysa frá 1963. Það þarf enga nefnd til að athuga slysin, sem drukknir ökumenn valda, og gera skýrslur um þau. Það er nóg fyrir okkur að lesa blöðin til að fá vitneskju um þau stórslys, er þeir valda. Þeir eru mjög margir, því miður, og það er brýn þörf, mjög brýn þörf að taka þá úr umferð, eftir því sem hægt er, hvað sem líður öðrum breytingum á umferðarlögunum. Og um þetta er frv. mitt og ekki um nein önnur atriði umferðarlaganna. En ég skal taka undir með hæstv. ráðh. um það, að víst getur verið ástæða til að gera ýmsar aðrar breytingar á þeim.

En í sambandi við þetta frv., sem ég hef flutt og snertir þennan eina lið og er þess vegna mjög einfalt og þarfnast ekki skýringa í löngu máli, er ástæða fyrir menn að spyrja um ýmislegt þessu viðkomandi, t.d. hverjum er gerður greiði með því að láta ölvaða ökumenn leika lausum hala hér eftir sem áður og valda banaslysum, meiðslum á fólki og gífurlegu efnahagslegu tjóni? Hvaða ástæða er til að fresta því að taka ákvörðun á þingi um mál sem þetta? Á að bíða eftir fleiri stórslysum af völdum drykkjumanna? Ég veit, að fjöldi manna lítur svo á, að áhrifaríkasta ráðið til að vinna gegn akstri drukkinna manna sé það, sem frv. þetta hefur að geyma. Þess vegna er rétt að reyna það ráð nú þegar.