11.11.1965
Neðri deild: 16. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

46. mál, bygging leiguhúsnæðis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það var margt skynsamlegt, sem hv. aðalflm. þessa frv. sagði um það, og ég get lýst ánægju minni yfir ýmsum hans orðum og yfirlýsingum, m.a. því, að hann skyldi fagna því samkomulagi, sem varð á milli verkalýðsfélaganna í sumar, Dagsbrúnar og ríkisstj., um þessi mál. Þetta er því athyglisverðara, að hv. þm. skuli nú fagna þessu samkomulagi, þar sem málgagn Sósfl. var mjög andvigt því, að slík mál skyldu dregin inn í samningana í sumar. En ég skil það svo, að hv. þm. hafi talað sem málsvari Alþb., sem hann og gerði, en ekki þess þrönga hóps, sem stendur að Þjóðviljanum og lagðist mjög eindregið á móti því, að þessum málum væri blandað saman við kaupdeilur.

Það er auðvitað rétt, að ef Alþ. afgreiddi sum mál, þyrfti ekki að blanda þeim saman við kaupdeilur. En hitt er einnig eðlilegt og hefur ætíð tíðkazt, að í sambandi við kaupdeilur væru tekin til athugunar ýmis aðkallandi vandamál. Slíkt var engin nýjung í sumar eða í fyrra. Og það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það er mjög náið samband á milli kaupgjaldsmálanna og húsaleigukostnaðar eða húsnæðiskostnaðar og því eðlilegt, að nokkuð sé lítið á hvort tveggja samtímis.

Ég taldi það mjög mikilsvert einmitt, að það skyldi takast samkomulag við verkalýðsfélögin — og það mátti skoða Dagsbrún í þessu tilfelli sem þeirra fulltrúa — um þá tilraun, sem ákveðið var í sumar að gera til þess að reyna að lækka byggingarkostnaðinn hér í bæ.

Ég er því sammála, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði í umr. hér á Alþ. á dögunum um allt annað mál, að það væri fullkomin ástæða til þess að rannsaka sérstaklega, í hverju liggur hinn mjög mikli byggingarkostnaður eða húsnæðiskostnaður, ekki sízt hér í Reykjavík. Það er vitað, að hann er að kunnugra manna sögn 20–30% hærri hér í bænum en a.m.k. víðs vegar úti um land, og menn hafa eytt tíma í athugun og rannsókn á minna vandamáli en þessu. Ég játa þó, að ég hef minni trú á því, að málið leysist fyrir opinbera rannsókn eða yfirheyrslur, heldur en með því, að margir aðilar leggist á eitt til þess að ryðja brautina fyrir því, að framkvæmdir verði í raun og veru gerðar með hagkvæmum hætti og kostnaðarverði.

Nú er það að vísu svo, að þó að ríkið ráðist í framkvæmdir í þessu efni með atbeina Reykjavíkurbæjar og borgi ekki annað en kostnaðarverð, eru því miður engan veginn neinar líkur, hvað þá vissa fyrir því, að það verði til þess að lækka byggingarkostnaðinn. Við vitum af margfaldri, sárri reynslu, að byggingar eru sízt ódýrari hjá ríkinu heldur en hjá einstaklingum, þvert á móti oft dýrari. Þess vegna er það eitt út af fyrir sig, að ríkið með aðstoð bæjarfélags ráðist i opinberar byggingar, engin lausn. En hins vegar, ef verkalýðsfélögin fást til fullkomins samstarfs við hina opinberu aðila, fulltrúa almannavaldsins, um að gera hér alvarlega tilraun til þess að ryðja úr vegi þeim orsökum, sem gera byggingarkostnað meiri hér í Reykjavík en annars staðar, er það svo merk tilraun, að það er sjálfsagt að gera hana. Ég þori ekki að fullyrða fyrir fram, hvort hún ber æskilegan árangur, en hér er svo mikið í húfi, að mér finnst sjálfsagt og fannst sjálfsagt að taka því tilboði, sem lá fyrir af hálfu verkalýðsfélaganna um samstarf í þessum efnum. Við skulum játa það fyrir fram, að til þess að þetta takist, er ekki einungis að berjast við einhverja svokallaða braskara eða okrara, heldur einnig við samtök þeirra manna, sem hafa starfað að húsbyggingum undanfarið og hafa með ærlegum hætti haft af því sitt uppihald. Menn verða að þora að horfast í augu við, að það er óeðlilegt, að þessir menn skuli hér í Reykjavík búa þannig um, að húsnæðiskostnaðurinn verði mun meiri í höfuðstaðnum en a.m.k. víðast hvar úti um land. Lausn á málinu fæst ekki með því að skamma einhverja óákveðna okrara, braskara og aðra slíka, sem menn velja ill nöfn, meðan þeir nefna enga ákveðna aðila, heldur þarf þarna að skera f gegnum alla framkvæmd í heild og hafa til þess kjark. Það verður ekki gert nema með svo víðtæku samstarfi sem efnt var til með þessari samningsgerð í vor. Ég vil lýsa eindregnum hug ríkisstj. til þess að standa að þeirri framkvæmd og treysti því, að verkalýðsfélögin láti ekki heldur á sínum atbeina standa. Hvort svo menn vilja samtímis efna til slíkrar rannsóknar, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. hér nefndi, er annað mál, sem einnig gæti komið til greina, en ég játa, að ég hef minni trú á því heldur en ef slík tilraun fæst gerð í samhug og af fullri alvöru, eins og um var samið í sumar.

En þarna eru auðvitað ýmis vandkvæði á, og það er hægara um þetta að tala heldur en að framkvæma. Og ég er engan veginn viss um, að það sé hagkvæmt, samtímis því sem sú tilraun verður gerð með þeim hætti, sem þá var um samið, þá verði einnig ráðizt í þvílíka framkvæmd, sem þetta frv. ætlast til að gerð verði af hálfu ríkisstj. Nú erum við hv. 3. þm. Reykv. fyllilega sammála um, að æskilegt sé, að ætíð sé eitthvað töluvert til af leiguhúsnæði. Ég hef lengi — áratugum saman — haldið því fram, að það tjáði ekki eitt, þótt það væri mjög æskilegt, að ýta undir, að sem allra flestir gætu orðið eigendur að eigin íbúðum, og í því hefur orðið stórkostleg umbót til hins betra einmitt á þessum síðustu áratugum, þá er það eitt ekki lausn þessa vanda. Það verða ætið svo og svo margir af mismunandi ástæðum, sem ekki hafa tök á því að eiga eigin íbúðir og í raun og veru er ekki hyggilegt að ætlast til þess að eigi eigin íbúðir. Hvernig menn vilja ráða fram úr þeim vanda, er til íhugunar. Ég tel sannast að segja mjög vafasamt, að æskilegasta leiðin til þess sé, að ríkið eigi þvílíkar íbúðir. Ég tel hitt miklu frekar koma til álita, að ýmsir sjóðir ættu slíkar íbúðir, eins og hv. 3. þm. Reykv. nefndi, að sveitarfélög ættu nokkuð af slíkum íbúðum og einstaklingum, sem til þess vilja verja sínu fé, sé gert mögulegt að eiga þvílík íbúðarhús til leigu.

Á sínum tíma átti ég nokkurn þátt í því og varð fyrir hörðum árásum og tilraunum til þess að gera mig tortryggilegan af því, að einstaklingi var gert mögulegt að byggja þvílík íbúðarhús hér í bænum á hagkvæman hátt og til þess að leigja út með skaplegum hætti. Ég er sannfærður um, að það er mjög miður farið, að fleiri hafa ekki fetað í þau fótspor, og ég get ekki skilið hv. 3. þm. Reykv. betur í því, sem hann sagði, heldur en hann teldi það mein og til hins lakara, að sú þjóðfélagsþróun hefur orðið nú hin síðustu ár, að menn verja yfirleitt ekki fé sínu til þess að byggja hús til að leigja út. Það er einn þátturinn í því, hversu íbúðarhúsnæðið nú er í mörgum tilfellum óhæfilega dýrt, að það er yfirleitt ekki stundað sem atvinnugrein eða sem eðlileg fjárfesting að verja fé í þessu skyni, heldur gera menn það meira af tilviljun vegna þess að þeir ráða yfir íbúðum um stundarsakir, lítilli íbúð í sambandi við stærri íbúð, sem þeir búa í sjálfir, eða stærri íbúð í sambandi við aðra íbúð minni, sem þeir búa í sjálfir, eða hvernig sem á stendur í hverju tilfelli. En það er einmitt mjög athyglisverð sú þjóðfélagsþróun, sem hv. 3. þm. Reykv. gat um, að nú leggja menn ekki fé sitt í húsbyggingar í þessu skyni.

Ég get ekki skilið þetta frv. á annan veg, þar sem talað er um neyðarástand, er skapazt hafi eða sé yfirvofandi, en þar sé viðurkennt, að þetta sé einmitt afleiðing þess, að einstaklingsframtakið hafi ekki fengið að njóta sín i þessum efnum sem skyldi. Og einmitt þess vegna hygg ég, að það sé varhugavert í þessu frv. að ætlast til þess, að ríkið eða þeir sjóðir, sem hér eru einnig ráðgerðir, leigi þessar íbúðir út mun lægra verði en hægt er að búast við að einstaklingar geri, eða fái lægri prósentu af sínum kostnaði. Ég hef sem sagt, eins og ég sagði áðan, ekki trú á því, að til frambúðar reynist það ódýrara fyrir ríkið að byggja heldur en fyrir einstaklinga. Það haggar ekki því, eins og ég sagði, að þá tilraun á að gera í þessu skyni, sem um var samið í vor. En öll almenn reynsla segir, að til langframa verði byggingar dýrari hjá ríkinu heldur en hjá einstaklingum. Þess vegna er miklu frekar íhugunarvert, með hverjum hætti er hægt að fá nógu ódýrt fjármagn til þess að lána út til þeirra aðila, hverjir sem þeir eru, hvort sem það eru sjóðir, sveitarfélög eða einstaklingar, sem vilja koma upp húsum til leigu til þess að bæta úr þeirri almannaþörf, sem hv. 3. þm. Reykv. hér réttilega gerði grein fyrir.

Hv. þm. benti einnig á, að það er erfitt að fá nægilega ódýrt og mikið fjármagn í þessu skyni til langs tíma, nema við verðbólguna verði ráðið. Þetta eru mál, sem eru náskyld hvort öðru. Hins vegar var það einnig mjög íhugunarvert og athyglisvert, sem hv. þm. sagði, að þegar hann ætti við stöðvun verðbólgunnar, væri það ekki alger stöðvun hennar, heldur að hún ætti að halda áfram að vissu marki. Hv. þm. hefur haft hreinskilni til þess að tala eitthvað svipað áður, og það er virðingarvert, að menn segi sem er, að það er almenn skoðun hér, að þó að allir tali um stöðvun verðbólgu, eru margir, sem telja verðbólgu að vissu marki ekki einugis æskilega, heldur sé hún nauðsynleg. Svo kemur að því, að hver og einn vill setja mörkin þar, sem hans eigin hagsmunir eða kredda segir til um. Ég er ósköp hræddur um, að það mark, sem hv. þm. setti, mundi þykja býsna hátt í ýmsum öðrum löndum, þó að ég samkv. reynslu okkar a.m.k. síðustu 2—3 áratugi verði að játa, að það væri mikil framför, ef við gætum þó fengið þann stöðugleika, sem í því marki felst. Það er vinningur, ef menn fást til að ræða um þessi mál með rökum, en ekki fullyrðingum eða sleggjudómum og ásökunum á alla bóga, eins og allt of mikið af þessum umr. fer í og mátt hefur heyra hér í þinginu undanfarna daga og vikur.

En þá skulum við líka játa, að þó að þetta sé vandamál, er þetta ekki neitt nýtt vandamál, hvernig eigi að sjá fyrir húsnæðisþörf manna, án þess að kostnaðurinn verði óhæfilegur miðað við tekjur manna. Ég tel, að þrátt fyrir alla þá galla, sem við teljum að á okkar málum hafi verið undanfarna áratugi, er það auðvitað víst, að miklu fleiri menn eiga nú hlutfallslega sitt eigið húsnæði heldur en þeir áttu áður. Það kom einnig fram í því, sem hv. þm. sagði. Og við, sem teljum það kost, megum þá ekki heldur telja, að það ástand, sem til þessa hefur leitt, sé einungis illt. Þarna er um verulega þjóðfélagsframför að ræða, og það er þá að reyna að gera sér grein fyrir, af hverju þetta hefur tekizt. Á æskudögum mínum og hv. 3. þm. Reykv. datt a.m.k. fáum menntamönnum í hug, að þeir gætu eignazt eigin íbúð á sínum fyrstu búskaparárum. Mönnum kom ekki til hugar annað en þeir yrðu að bíða áratug eða jafnvel áratugi, þangað til þeir kæmust inn í sitt eigið húsnæði, ef þeir áttu að lifa af þeim launum, sem þá voru mönnum ætluð, og höfðu ekki einhverjar alveg óvenjulegar tekjur. Nú er sá munur, að allur þorri manna ætlast til þess, ef ekki að geta komizt inn í eigin íbúð, strax og þeir ganga í hjónaband, þá á allra fyrstu búskaparárum. Þetta er ein af afleiðingum hinnar mjög auknu velsældar, hinna gerbreyttu efnahagskringumstæðna í landinu, sem orðið hafa á dögum þessarar kynslóðar.

En það er einnig fullkominn misskilningur, sem hv. þm. hélt fram, að nú þyrftu menn jafnvel með þessari okurleigu í verstu tilfellum að borga hlutfallslega meira af sínum tekjum í húsaleigu heldur en þeir þurftu t.d. á árunum 1932, — ég vil segja, fram undir stríð. Ég get vitnað til minnar eigin reynslu. Ég hygg, að það hafi verið nær helmingur af mínum embættislaunum, sem ég þurfti að greiða í húsaleigu fyrir mjög hóflega íbúð, fyrst þegar ég gifti mig. Og það var ekki neitt einstakt með mig þá. Tekjur manna voru þá yfirleitt, þ.á.m. embættislaun a.m.k. hjá embættismönnum svo þröng, að menn eiga mjög erfitt að gera sér grein fyrir, hvað mönnum var þá ætlað að komast af með. Þá var sá meginmunur hjá þeim, sem voru í föstum störfum, höfðu embætti og gátu margir aflað sér einhverra auknatekna með. Þó að þessar tölur væru allar lágar, þá fengu þeir þetta greitt. Hjá verkafólkinu kom þetta aftur á móti þannig út, að þó að þess árstekjur gætu verið 4—5 þús. kr. á ári, ef það hafði fulla vinnu allt árið, var það vinnulaust helminginn af árinu og hafði ekki tekjur þess vegna nema sem svaraði helmingi af því, sem tímakaupið gaf fyrir venjulegan fullan vinnutíma. Af þessu urðu menn með einhverjum hætti að borga hin föstu gjöld, m.a. húsaleigugjöld, til þess að geta lifað. Reynslan var líka sú, að ég man það, að Jón heitinn Þorláksson sagði: „Ef verkamaður á yfir svo og svo mörg börn,“ — ég skal ekki hafa þá tölu hér eftir nú, — „þá er sú almenna reynsla, að hann verður að koma og þiggja sveitarstyrk, annars getur hann ekki lifað.“ Þetta var það ástand, sem menn áttu við að búa áður, meðan menn höfðu ekki við þennan verðbólguvanda að etja, sem nú herjar okkur. Ég geri ekki lítið úr þeim vanda, og ég minni á það út af þeim ummælum, sem voru höfð hér í gær af hv. 11. þm. Reykv., að því er ég hygg, að við viðurkenndum ekki þann vanda, sem verðbólgan væri, og vildum dylja hann, að í útvarpsviðtali sem ég átti á dögunum við blaðamenn, var ég spurður um það, hver væri mesti vandi stjórnarinnar. Þá svaraði ég hiklaust og umhugsunarlaust, að það væri verðbólgan. Ég játa, að það er vandi, sem okkur hefur ekki tekizt að leysa.

Ég tók hér til máls vegna þess, að hv. 3. þm. Reykv. talaði um þetta mál með ólíkt skynsamlegri hætti og á þann veg, að umræðu er vert. heldur en það karp, sem sumir hafa haft í frammi hér síðustu dagana.