11.11.1965
Neðri deild: 16. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (2476)

46. mál, bygging leiguhúsnæðis

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég tel, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé mjög athyglisvert, því að þótt það sé hin æskilega stefna í þessum málum og sjálfsagt sé að vinna fyrst og fremst að því, að sem allra flestir geti átt sitt eigið húsnæði, eru alltaf einhverjir, sem ekki hafa aðstöðu til þess, og þá verður það ekki leyst með öðrum hætti en þeim, að þeir eigi kost á leiguhúsnæði fyrir hófsamlega leigu. Og ég tel vafasamt, að það verði á annan hátt betur leyst heldur en þann, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Að sjálfsögðu kemur það til athugunar í þeirri n., sem þetta mál fær til meðferðar, hvort aðrar leiðir geti einnig komið til greina í þessum efnum, en ég hygg, að allir hljóti að vera sammála um það, að þörf sé á að athuga þetta mál betur og sinna því meira en gert hefur verið að undanförnu. Og það finnst mér rétt að láta koma fram, að þó að á s.l. vori hafi náðst nokkurt samkomulag milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna um byggingu á vissum fjölda íbúða hér í bænum, er það mark, sem þar er sett, hvergi nærri fullnægjandi og þarf að vinna að enn meiri og betri lausn þeirra mála heldur en þar er gert, ef vel á að vera.

Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri, af því að hæstv. forsrh. talaði hér á undan mér, að láta f ljós ánægju mína yfir þeirri stefnubreytingu, sem hefur orðið hjá honum í þessu máli og í sambandi við þessa samninga við verkalýðsfélögin. Sú var tíðin, sem hæstv. ráðh. og hans flokksmenn fordæmdu það mjög ákveðið, að nokkuð væri talað við verkalýðssamtökin af hálfu stjórnarvaldanna, ekki aðeins um þessi mál, heldur launamálin almennt, og ríkisvaldið ætti að láta þessi mál með öllu afskiptalaus. Ég tel það mjög vel farið, að hæstv. ráðh. hefur nú hörfað frá þessari stefnu og tekið upp þá vinnuaðferð að ræða við launþegasamtökin. Og það mætti gjarnan vera á fleiri sviðum, sem slík samvinna væri viðhöfð. En óneitanlega hefði hitt þó verið skemmtilegra, að ríkisstj. hefði gert það, sem hún féllst á í samkomulagi við verkalýðsfélögin á s.l. vori varðandi húsnæðismálin. Ólíkt hefði það nú verið skemmtilegra, að hún hefði haft frumkvæði um þetta algerlega ótilneydd og það hefði ekki þurft að beita verkfallshótunum til þess að fá hana til að fallast á þetta. Að sjálfsögðu hefði það verið miklu skemmtilegra, þó að ekki beri hins vegar að vanþakka það, að hún féllst á þetta að lokum.

Mér virtist það koma fram hjá hæstv. ráðh., að hann væri nokkuð ánægður með það ástand, sem væri nú ríkjandi í húsnæðismálunum hér í bænum a.m.k. kom það mjög greinilega fram hjá honum, að hann taldi það alls ekki verra en það hefði verið á kreppuárunum fyrir stríðið. En ég verð nú að segja það í þessu sambandi, að ég álit, að það sé ekki takmark til að keppa að, ástandið, sem var á hinum erfiðustu fjárhagsárum, sem þessi þjóð hefur búið við, nú, þegar þjóðin býr við meira góðæri en nokkru sinni fyrr. Ég held, að við eigum að setja okkur það mark, og tel ég það alveg sjálfsagt nú, þegar velgengni er jafnmikil og raun ber vitni um, bæði hvað snertir aflabrögð og útflutningsverð, að við ættum að geta haft stórum skárra ástand, bæði á þessum sviðum og öðrum, heldur en þegar þjóðin bjó við hina mestu örðugleika í þessum efnum, þegar hún bjó við aflaleysi, þegar hún bjó við það, að verðlag stórféll á útflutningsvörunum og þegar margir af okkar beztu mörkuðum lokuðust. Ég tel það ekki neitt þakkarvert, að við eigum að stefna hærra en það að hafa ástand í húsnæðismálum og öðrum málum betra nú en var á þessum hinum mestu örðugleikatímum. Og þó að það hafi kannske verið svo einhvern tíma áður fyrr, að embættismenn hafi orðið að borga upp undir helminginn af sínum launum í búsaleigu, finnst mér síður en svo, að það sé ástand, sem nú eigi að vera til fyrirmyndar og við eigum að miða við. Að sjálfsögðu á að stefna að því, að húsaleiga og húsnæðiskostnaður geti orðið miklu lægri en þetta, stefna að því, að hann geti orðið sá sami og hann er í öðrum löndum, nágrannalöndum okkar, þar sem hann er í mörgum tilfellum ekki nema lítið brot af því, sem hann er hér nú.

Mér finnst líka rétt að minnast örlítið á eitt atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. Hann var að tala um það, sem sennilega er alveg rétt, að byggingarkostnaður sé miklu meiri hér í borg heldur en annars staðar á landinu. Hann nefndi í því sambandi þá tölu, að byggingarkostnaður væri kannske allt að því 20—30% hærri hér en víða annars staðar á landinu, og hann taldi, að það væri rétt að láta rannsaka, í hverju þetta lægi. Ég er honum sammála um það. En það er alveg víst, að ein meginástæðan til þess, hvað byggingarkostnaður er miklu hærri hér en annars staðar á landinu, er sú, að þenslan á vinnumarkaðinum er miklu meiri hér en á flestum öðrum stöðum á landinu, eftirspurnin eftir vinnuafli miklu meiri, yfirboðin þar af leiðandi miklu meiri, og þess vegna verður byggingarkostnaðurinn hærri en hann er víða annars staðar, og ástæðan til þess, að þannig er ástatt, er að sjálfsögðu sú, að af hálfu stjórnarvaldanna er ekki hirt um það að hafa nægilegt taumhald á fjárfestingunni. Ein helzta leiðin til þess, að byggingarkostnaður hér verði a.m.k. nokkru lægri en hann er nú, er að hafa betra taumhald á fjárfestingunni heldur en nú á sér stað, og þess vegna er hæstv. ríkisstj. að verulegu leyti völd að því, að byggingarkostnaður hér og víða annars staðar er hærri en hann þyrfti að vera, ef sæmileg stjórn væri höfð á þessum málum.

Þau atriði, sem ég hef nú nefnt, fannst mér rétt að láta koma hér fram, fyrst hæstv. ráðh. var á undan mér. En aðaltilgangur minn með því að koma hingað var að sjálfsögðu sá, að ég tel, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé athyglisvert og það eigi að athuga, hvernig hægt sé að leysa vandamál þeirra mörgu einstaklinga og heimila, sem ekki eru fær um það sjálf, a.m.k. eins og sakir standa, að eignast eigið húsnæði. Það verði að leita að þeim ráðum að tryggja þeim sem ódýrast leiguhúsnæði, og það frv., sem hér liggur fyrir, ræðir a.m.k. um eina leiðina að því marki. Ég vil þess vegna segja það að lokum, að ég vænti þess, að þetta mál fái vandlega athugun í þeirri n., sem það fer til, og árétta það einnig, að þó að nokkuð hafi áunnizt í sambandi við samninga verkalýðsfélaganna og ríkisstj. á s.l. vori í þessum efnum, er það hvergi nærri fullnægjandi, og því þarf að gera meira en þar er gert. Ég vil t.d. benda á það, að í þeim samningum er það húsnæði, sem þar um ræðir, eingöngu bundið við láglaunafólk f verkalýðsfélögunum. Það eru að sjálfsögðu margir láglaunamenn, sem ekki tilheyra neinu verkalýðsfélagi, og það þarf ekki síður að vinna að því, að þeir fái einhverja úrlausn, heldur en hinir, sem eru í verkalýðsfélögunum.