07.12.1965
Neðri deild: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (2520)

78. mál, heildarskipulag miðbæjarins í Reykjavík

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég býst við, að innihald þessa frv. sé hv. þm. kunnugt, það hefur verið flutt hér áður, fer í stuttu máli fram á það, að skipuð verði sérstök n., tilnefnd af Alþ., ríkisstj., borgarstjórn Reykjavíkur og Arkitektafélagi Reykjavíkur, til þess að skipuleggja miðbæinn í Reykjavík.

Ég vil aðeins, um leið og þetta frv. fer til n., leyfa mér að taka það fram sem rök fyrir því, að það er raunverulega prófsteinn á afstöðu hverrar þjóðar gagnvart sinni fortíð, gagnvart sinni sögu og hennar minjum, hvernig hún lítur á slíkar minjar og hvað hún gerir til þess að varðveita þær. Reykjavík sem höfuðstaður landsins á alveg sérstaka kröfu til okkar hér á Alþ. um, að við reynum að sjá til þess, að það, sem við álítum geta orðið honum til sóma sem höfuðstað, sé gert, og því, sem þurfi að halda við af því gamla, sem í þeim bæ er, sé við haldið. Sú gamla Reykjavík er kvosin, eins og það var kallað í gamla daga, þ.e. miðbærinn hér, og þar er það raunverulega tvennt, sem við þurfum að hugsa um, þegar verið er að taka ákvarðanir um, hvernig meðhöndla skuli þann miðbæ. Í fyrsta lagi ber að sjá um að varðveita þar vissar gamlar byggingar, og því fer ákaflega fjarri, að menn séu alltaf sammála um, hvaða byggingar þetta séu og í hve ríkum mæli megi gera slíkt. Það er vitanlegt, að lóðaverð í bænum er gífurlegt og það eru ákaflega miklar tilhneigingar hjá þeim, sem eiga lóðir, til þess að fá að hagnýta þær sem mest til þess að byggja á þeim stór hús, sem hægt sé að leigja út fyrir mikla peninga. Og við vitum, að jafnvel hafa komið fram hugmyndir um það, að önnur eins hús og menntaskólann ætti að rifa, þannig að við verðum frá upphafi vega að gæta þess vel að láta ekki eyðileggja þær byggingar, sem við flestir efumst ekki um að okkar afkomendur mundu vilja að hér hefðu verið varðveittar. Ég hýst við, að það ríki nú ekki neinn ágreiningur um, að hús eins og menntaskólahúsið, stjórnarráðshúsið gamla, Alþingishúsið, dómkirkjan og önnur slík eigi að varðveita, og fleiri eru það, sem að mínu áliti á að varðveita líka, hús eins og Iðnó og önnur þess háttar. Ég hef áður tekið fram, þótt það komi ekki þessu máli við, að t.d. gata eins og Vesturgatan mundi eftir 100–200 ár þykja alveg dýrindisfögur, mundi vera eitt af því, sem menn, sem hefðu smekk, mundu segja, að það væri yndislegt að ganga eftir slíkri götu vegna þess, hve rómantísk hún væri. Þetta er ein af þeim fáu götum í Reykjavík, sem enn þá er tiltölulega lítið hreyfð. Okkur finnst hún vafalaust flestum gamaldags. En einmitt það, sem er gamaldags við þetta, er það, sem kemur til með að hrifa seinni tímann, sem kemur til með að geta byggt nóg af fögrum og myndarlegum, stórum steinhúsum, en kemur ekki til með að hyggja þær byggingar, sem þarna voru byggðar í sinni tíð. Við vitum líka, að t.d. gata eins og Tjarnargatan með gömlu embættismannabústöðunum frá því um aldamótin, ég tala ekki um Tjörnina sjálfa, þarna eru alls staðar hlutir, sem ber að varðveita, og þjóð, sem hefur nokkra rækt gagnvart sínum minjum, varðveitir slíka hluti. Og þar með á ég ekki aðeins við þær gömlu þjóðir Evrópu, heldur líka þær þjóðir, sem meira nýjabrum er af. Ég býst við, að líka t.d. New York búum þyki stolt að þeim hluta New York, sem enn þá á sína sögu aftur í 17. og 18. öld.

Hins vegar verðum við varir við, að það eru ákaflega miklar tilhneigingar, ekki aðeins til þess að eyðileggja hitt og þetta af þessu gamla, heldur líka til þess að skemma það með nýbyggingum. Við skulum bara taka t.d. hús eins og Útvegsbankahúsið, sem var eitt með fallegustu húsunum hérna í miðbænum og nú er búið að kássa ofan á 3—4 hæða steinbyggingu og svipta það þar með allri fegurð. Ég efast ekki um, að peningalega borgi það sig betur að hafa þetta svona. Frá sjónarmiði alls smekks og fegurðar er búið að eyðileggja það, sem var fagurt við þetta gamla hús. Ég er hræddur um a.m.k., að suður í Aþenu hefði ekki þótt smekklegt að byggja eitthvað slíkt ofan á einhverjar rústir í Akropólis.

Því miður er það nú svo með okkur, að Reykjavík er nú byggð á 7 hæðum, og vafalaust frá upphafi, af því að meginið af þessum hæðum hefur byggzt á okkar tíma, hefðu flestar þjóðir, sem hefðu haft einhverja verulega tilfinningu fyrir fegurðarsmekk, hugsað þessar hæðir út fyrir fram, og það voru jafnvel í gamla daga, um 1930, gerðar till. um slíkt viðvíkjandi Skólavörðuhæðinni. En allar þessar hæðir hafa verið byggðar þannig, að hvert einstakt hús á þeim hefur verið ákveðið út af fyrir sig, og ég veit ekki til þess, að nokkurn tíma hafi verið hugsað um nokkurn heildarsvip á þessum hæðum. Þær hefðu hver um sig getað verið með sínu sérstaka lagi, haft sinn sérstaka svip og sinn sérstaka blæ, ef það hefði verið hugsað um þetta fyrir fram af einhverri umhyggju fyrir fegurð höfuðstaðarins. En því fer fjarri. Það hafa verið allt önnur sjónarmið, sem hafa alltaf verið látin ráða í þessum efnum. Og þetta er mjög slæmt. Ég vil þess vegna vona a.m.k., að sú gamla Reykjavík fái að njóta þess, að við lærum eitthvað af öllum þeim vitleysum, sem búið er að gera í sambandi við byggingu Reykjavikur, ekki vegna þess, að það hafi ekki verið byggt mjög mikið af fögrum húsum í Reykjavík, heldur er það hitt, að okkar sterka einstaklingshyggja hefur fengið að njóta sín í sambandi við hvert hús um sig, þannig að það hefur verið fallegt, en okkar skilningur á heildinni hefur verið það slappur, að við höfum ekki hugsað, hvernig það tæki sig út, þegar þessi hús væru öll komin saman á einhvern ákveðinn blett. Við höfum ekki getað gert okkur heildarmynd af slíku. Þess vegna erum við búnir að fara með Skólavörðuhæðina eins og nú er. Þess vegna legg ég til í þessu frv., að hvað miðbæinn snertir í Reykjavík, takmarkaðan, eins og ég tel þar upp, af ákveðnum götum, sé nú gerð heildarhugmynd og heildarskipulagning, þannig að það sé í framtíðinni ákveðið, hvernig hann eigi að vera, en það sé ekki byggt svo að segja á hverri einstakri lóð eftir því, sem lóðareigandann langar til og byggingarnefndin með hvert einstakt hús leggur út í að samþykkja. Og af því að það virðist vera áhugi fyrir því og ákvarðanir um að byggja t.d. öll þau þrjú helztu stórhýsi, sem eiga að byggjast af því opinbera í Reykjavík, nú á næstunni í þessum miðbæ, sem sé Alþingishús, ráðhús og nýtt stjórnarráðshús, virðist mér það vera lítið að fara fram á, að menn hugsi um öll þessi hús í einu, að menn ákveði sameiginlega, hvar þau skuli staðsett og helzt hvernig þau skuli líta út, þannig að það sé tekið tillit til þess, hvernig þessi miðbær kemur til með að líta út í framtíðinni, þegar þessi hús eru ákveðin. Það hefur verið tilhneiging til þess að ákveða t.d. ráðhús út af fyrir sig, jafnvel að demba því í Tjörnina, eyðileggja þar með t.d., ef Alþingi skyldi vilja byggja á sínum lóðum, og þetta náttúrlega nær ekki nokkurri átt. Þessa hluti verður að ákveða sameiginlega, og hér er sú stofnun, sem ræður því, hvernig þetta er gert. Lögum samkv. er ekki hægt að ákveða það endanlega skipulag, án þess að félmrh. hafi með það að gera. Ég held, að það muni liggja nokkuð í augum uppi, hvar stjórnarráðshús verði byggt, það sé gengið út frá því, að það verði þar, sem gömlu húsin Gimli og þau eru, og í Bakarabrekkunni, sem sé milli gamla stjórnarráðshússins og menntaskólans gamla. En segjum nú svo, að það færi t.d. þannig, eins og sumum hefur jafnvel dottið í hug, að þar sem gamli barnaskólinn er nú, yrði byggt í framtíðinni, og ég mundi álita, að væri mjög góður staður fyrir ráðhús, en ég veit, að sumir hafa stungið upp á, að þar yrði byggt nýtt þinghús, en hvað svo sem gert yrði í framtíðinni, held ég, að það liggi nokkurn veginn í augum uppi, að Lækjargatan, sem ætti að vera, yrði þannig bókstaflega ein af höfuðgötum Reykjavíkur með stjórnarráðshús og þessi gömlu hús sitt á hvora hlið, og þá ætti að hugsa um það sem eina heild, hvernig sú gata kæmi til með að líta út, og að það hús, sem byggt yrði t.d. við endann á henni og næstum því lokaði henni, þar sem gamli barnaskólinn er núna, hvort sem það væri ráðhús eða eins og sumir vilja kannske þinghús, það yrði hugsað um þetta í einni heild, þannig að við gerðum okkur heildarmynd af því, hvernig þessi gata yrði. Ég held, að þetta mundi hver einasta þjóð gera, hver einasta þjóð, sem væri að skipuleggja sína höfuðborg og svo að segja miðpunktinn í henni.

Ég verð að segja, að mér finnst ákaflega leitt, hvernig við Íslendingar höfum hagað okkur í þessum efnum. Við höfum hvað okkar bókmenntir snertir sýnt, að við höfum haft á að skipa listrænum smekk, sem er til jafns við Grikki eða hvaða fremstu menningarþjóð heims sem væri. En hins vegar í byggingarlist höfum við, þó að við getum búið til mikið af einstökum húsum, aldrei getað hvað heildina snertir jafnazt á við þessar þjóðir, og það er tími til þess kominn, að við lærum eitthvað af þeim.

Ég held, að það sé mjög nauðsynlegt, að Alþ. setji nú þegar lög um þessi efni, lög, sem mundu þýða, að það væri ekki gert meira af byggingum í miðbænum, fyrr en búið væri að koma sér niður á heildarskipulag, vegna þess að það eru ákveðin, sterk öfl að verki, sem vilja láta fara að byggja þarna án þess að taka nokkurt tillit til framtíðarinnar, og slík öfl hafa verið að verki á undanförnum áratugum. Lóðirnar í miðbænum eru dýrar. Eigendur lóðanna vilja reyna að fá sem mest upp úr sínum peningum. Þeir eru nú í sífellu að byggja og það mjög há hús. Við munum eftir hér fyrrum, hvers konar deila stóð um, þegar Morgunblaðshöllin var byggð, og hvernig sú bygging í raun og veru kemur í veg fyrir það, sem annars hefði verið ákaflega skynsamleg skipulagning á því hverfi, sem þar er. Við vitum, að engum þeirra, sem skipulögðu upphaflega byggingu alþingishúss og landsbankahúss, datt í hug, að það yrði byggt hús þar á milli, hús eins og Jóns Þorlákssonar-húsið og önnur slík, enda verða þau vafalaust rifin í framtíðinni. Þessi hús eiga að standast á, eins og Alþingi og landsbankinn, hús byggð í svona gömlum stíl, og það væri ástæða til þess, en brasksjónarmiðin og það sérstaklega voldugra manna eru svo rík, að það er hrúgað upp húsum á stöðum, þar sem engin hús ættu að vera. Og sú tilhneiging er ákaflega rík hér í miðbænum, þannig að við verðum að taka þarna fram fyrir hendur brasksins í tíma, ef við eigum að sjá um, að hér verði byggt sæmilega. Ég ætla ekki að fara út í deiluna um þinghús. Ég veit, að það hafa komið fram till. um að byggja hérna vestan við okkur. Ég fyrir mitt leyti hef alltaf verið á móti því. Ég álít, að það nái ekki nokkurri átt. Lóðirnar hér fyrir vestan okkur eru rándýrar lóðir. Ég álit, að í framtíðarskipulaginu eigi ekki að leyfa að byggja á þeim lóðum, það sé alveg rangt. Ég álít, að dómkirkjan og alþingishúsið eigi að fá að halda sér, án þess að komi einhverjir 6—8 hæða steinkumbaldar hér við hliðina á, sem geri alþingishúsið eins og að litlum kofa. Ég álít, að Alþingi eigi sjálft sína lóð, sem Alþ. geti ákaflega vel byggt á. Ef menn vilja endilega fara að flýja úr þessu húsi og byggja nýtt þinghús, verð ég að segja, að að ýmsu leyti er sú hugmynd að byggja, þar sem gamli barnaskólinn er, skynsamleg frá tæknilegu sjónarmiði. En eitt verða menn alltaf að athuga, að allar slíkar umbreytingar slíta vissan þráð í sögunni. Og það mundi ekki nokkurri af Norðurlandaþjóðunum detta í hug að gera slíkt. Norska stórþingið er ekki sérstaklega vel sett, þar sem það er, en menn byggja frekar við það og tengja það nýbyggingu, og það hefur tekizt vel hjá þeim, heldur en eyðileggja það gamla hús sem þinghús og fara að byggja einhvers staðar nýtízku byggingu. Nýjabrumið er stundum of mikið í okkur þannig og okkar hugsun og okkar tengsl við okkar fortíð, okkar sögulegu minjar of lítil.

Ég held, að hér í miðbænum eigi fyrir utan þær stóru opinberu byggingar, sem eiga að rísa, eigum við ekki að láta byggja nema þá hverfandi lítið af verzlunar- og skrifstofuhúsum, því að það veitir vafalaust ekki af að reyna að varðveita einmitt auð svæði hér í kringum þau hús, bæði þau gömlu, sem eiga að standa, og þau nýju, sem koma upp.

Það er lagt til í þessu frv., að þessi n. vinni sem sé sameiginlega, þessir aðilar allir, sem útnefndir séu bæði af Alþ.. ríkisstj. og borgarstjórn og enn fremur af arkitektafélaginu, vinni sameiginlega, en þeir vinni ekki hver út af fyrir sig, búi hver sitt líkan til út af fyrir sig, skelli því síðan einhvers staðar niður án þess, að hugsað sé um, hvernig heildarmyndin verði. Það var smekkur í því, þegar gömlu embættismennirnir byggðu húsin við Tjarnargötuna, og ég efast ekki um, að þótt það eigi að breyta Fríkirkjuveginum, sé hægt að hugsa hann þannig fyrir fram, að þar verði hús, sem samsvarar sér mjög vel í framtíðinni.

Ég vil, um leið og ég bið hv. þm. um að athuga þetta frv. rækilega, brýna það fyrir hv. þm., að þegar um gömul hús er að ræða, stöndum við frammi fyrir hlutum, sem enn þá er á okkar valdi að varðveita, en ekki á okkar né neinna annarra valdi að skapa, ef þeir eru eyðilagðir. Framtíðin getur gert mikið. Hún getur skapað fögur og ný hús. En hún getur aldrei byggt aftur það gamla, sem rifið var. En við getum líka eyðilagt gömul hús með því að afskræma þau, bæta þannig við þau, að það sé eyðilagt, sem fagurt var í þeim. Við verðum sem sé að gæta þess, þegar við hugsum um þessa hluti, að við höfum ábyrgð gagnvart höfuðstaðnum og gagnvart framtíðinni.

Ég flyt þetta frv. persónulega. Það er ekki að neinu leyti á vegum okkar þingflokks. Og ég vil leyfa mér að vona, að hv. þm. geti tekið afstöðu til svona máls út frá stjórnarskránni, sem býður þeim að fara eftir sinni sannfæringu, í málum eins og þessum séu ekki nein flokkabönd, flokksagi, flokksfyrirskipanir eða neitt slíkt látið ráða. Það eru ekki neinir flokkshagsmunir, nein tilvera ríkisstj., nein afgreiðsla fjárl. eða neitt annað slíkt, sem venjulega eru pólitísk vandamál, þegar um svona mál er að gera. Það er bara um það að ræða, hvort hver einstakur þm. hefur tilfinningu fyrir því, hvernig vinna skuli að þeim hlutum, sem snerta fegurð og að sumu leyti skynsamlegan tæknilegan útbúnað miðbæjarins í Reykjavík og þeirra stórbygginga, sem þar eiga að rísa.

Ég geri svo að till. minni, herra forseti, að

að lokinni þessari umr. sé þessu máli vísað til allshn.