21.02.1966
Neðri deild: 43. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (2537)

112. mál, sala eyðijarðarinnar Sperðlahlíðar í Suðurfjarðahreppi

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja héraðslækninum á Bíldudal eyðijörðina Sperðlahlíð í Arnarfirði er flutt skv. beiðni læknisins. Ætlun hans er að eiga þarna þægilegan samastað til hvíldar að sumrinu, fjarri ys og allri umferð. Hér er um smávægilegt mál að ræða, en þó ekki með öllu þýðingarlaust fyrir héraðsbúa þar vestra, því að aukin þægindi fyrir héraðslækninn þar innan héraðs styðja að því, að hann uni þar vel hag sínum. Hins vegar er við búið, ef læknir flytur á annað borð burt úr þessu héraði, að það verði ekki auðvelt að fá lækni í hans stað, því að þetta hérað þykir ekki eftirsóknarvert.

Þó að þetta eyðikot yrði selt héraðslækninum, er ekki miklu fórnað af ríkisins hálfu. Ég efast um, að lítilmótlegra býli sé til í ríkiseign. Eyðikotið Sperðlahlið, sem er nú búið að vera í eyði síðan 1940, er gersneytt öllum þeim kostum, sem á þarf að halda til búrekstrar, að öðru leyti en því, að það má hafa þar sæmilegt neyzluvatn. Í umsögn hreppsnefndar Suðurfjarðahrepps um jörðina segir m.a., að þar sé enginn húskofi, engin ræktun, svo að segja engin ræktunarskilyrði, vegalaust með öllu, hvorki sími né rafmagn, og annað eftir þessu. Síðan mælir hreppsnefndin með því, að læknirinn fái kotið. Ég tel sennilegast, að þessi jörð hafi aldrei brauðfætt neina fjölskyldu, heldur hafi þeir bændur, sem þarna hafa búið, haft lífsframfæri sitt af sjósókn úr verstöðvunum utar í Arnarfirði.

Ég vona, að þetta litla frv. eigi greiðan gang gegnum þingið, og ég legg til, herra forseti, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.