26.04.1966
Neðri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (2580)

185. mál, verðlagsmál

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við

höfum leyft okkur, hv. 3. landsk. þm. og 5. þm. Austf. ásamt mér, að flytja hér frv. til l. um breyt. á l. um verðlagsmál. Innihald þessa frv. er það í fyrsta lagi að breyta verðlagsnefndinni, sem nú er skipuð 5 mönnum, þannig, að það verði 7 manna n., sem sé kosin hlutfallskosningu í Sþ. Í öðru lagi, að þessi verðlagsnefnd skuli ákveða hámarksverð á vöru og verðmæti og það skuli yfirleitt vera hennar skylda að gera slíkt og það þurfi samkomulag allra aðila til þess að hætta því að ákveða slíkt hámarksverð, m.ö.o.: til þess að gefa verðlag frjálst þurfi samþykki raunverulega allra verðlagsnefndarmanna.

Nú er það svo, að það er máske í þeim stóru málum ekki oft, sem við erum sammála hér á Alþingi. En ég býst við, að við séum allir sammála um eitt, og það er það, að sú óðaverðbólga, sem átt hefur sér stað hjá okkur, meira eða minna hjá öllum ríkisstj., undanfarna tvo áratugi, sé þjóðinni stórskaðleg og við verðum, ef þess er nokkur kostur, að gera tilraun til þess að reyna að stöðva hana, a.m.k. að minnka hana þannig, að hún yrði ekki meiri en í okkar næstu nágrannalöndum. Hæstv. ríkisstj. hefur líka viðurkennt það eins og raunar aðrar ríkisstj., að hún hafi haft fullan vilja á því að reyna að stöðva þessa verðbólgu eða draga úr henni, en henni hafi mistekizt það eins og öðrum ríkisstj.

Nú viljum við með þessu frv. í raun og veru rétta fram hjálparhönd í þessum efnum og segja: Eigum við ekki að reyna að taka saman höndum allir hér á Alþingi án tillits til þess, hvort við erum i stjórnarandstöðu eða ríkisstj., og vita, hvort ekki er hægt að gera eitthvað alvarlegt í því að stöðva verðbólguna eða draga þannig úr henni, að hún yrði ekki nema kannske 2—3% eða þar í kring?

Verkalýðshreyfingin hefur áður gert tillögu um þetta. Alþýðusamband Íslands samþ. fyrir tveim árum mjög ýtarlega ályktun, sögulega ályktun, sem öllum er kunn og varð grundvöllur júnísamkomulagsins svokallaða þá, að Alþýðusambandið vildi einmitt fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar reyna að vinna að því, að það yrði auðið að stöðva verðbólguna. Við höfum hins vegar slegið því föstu líka, að þetta hafi mistekizt hjá okkur.

Ég ætla hér ekki að fara að deila neitt um sökina á því eða slíkt, heldur aðeins segja eitt í sambandi við þetta frv.: Ef við ætlum að reyna að stöðva verðbólguna eða draga verulega úr henni, þá verðum við að reyna að stemma á að ósi, þá verðum við meira eða minna að afnema það kerfl, að verðlagshækkanir gerist sjálfkrafa. Svo lengi sem við höldum því kerfi, að verðlagshækkanir geti orðið sjálfkrafa, þá er það einu sinni svo, að hagsmunir þeirra aðila, ekki sízt atvinnurekenda og kaupmanna og slíkra, sem þarna eiga hlut að máli, valda því, að jafnóðum t.d. sem kaup hækkar, þá hækkar einnig verðlagið, og ef við ætlum að reyna að stöðva verðbólguna, verðum við að byrja þarna. Ég man líka eftir, að þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þá gaf hún einmitt yfirlýsingu um slíkt, að þetta væri hennar meining, og ég held, að við verðum að reyna að taka upp þann þráð og skapa þarna það aðhald að atvinnurekendum og þeim, sem með verzlun hafa að gera, að þeir geri sér ljóst, að þeir verða sjálfir að standa undir þeim kauphækkunum, sem þeir samþykkja, en geta ekki velt þeim yfir á almenning. Það þýðir, að þeir verði að gera slíkar umbreytingar á sínum rekstri, að í krafti slíkra endurbóta standi þeir undir hækkuðu kaupgjaldi.

Það var um tíma trú manna, — ég veit ekki, hvort það er enn þá, — sérstaklega hv. stjórnarliða, að frjáls samkeppni mundi leysa úr þessum vanda, og það hefur jafnvel verið trú samvinnumanna, sem við ýmsir teljum okkur til, að sjálf samvinnuhreyfingin gæti leyst þessi mál. Sannleikurinn er, að frjáls samkeppni hefur ekki leyst þetta. Við vitum það svo fullvel, að hækkanirnar hafa gengið fyrir sig af fullum krafti, jafnt skipafélögin sem kaupmenn hafa hækkað sínar vörur, og það mun ekki vera fjarri, að svo sé, að það séu bein samtök hjá kaupmönnum um slíka vöruhækkun, hvenær t.d. sem kaup hækkar og slíkt.

Hins vegar vitum við það líka, sem fylgjum samvinnustefnunni, að kaupfélögin hafa ekki heldur getað haldið þessu verðlagi í skefjum. Allir flokkar hér á þingi hafa meira eða minna með það að gera að stjórna samvinnufélögum, þó að Framsfl. náttúrlega skari þar fram úr öllum, og allir þekkja, hvernig aðstæðurnar eru í þessum efnum. Við vitum það ósköp vel, sem stöndum hér að ýmsu leyti að Kaupfélagi Reykjavikur og nágrennis, að það er erfitt að eiga að keppa hér í Reykjavík með litlum fjármunum gagnvart því gífurlega ríka verzlunarauðvaldi, sem hér er á hinn veginn. Og við skulum þess vegna ekki gera okkur neinar tálvonir í þessum efnum. Hvorki sú frjálsa samkeppni né okkar samvinnuhreyfing lagar þessi mál. Það, sem þarna verður að gerast, svo að kannske sé eitthvað hægt að gera við þessu hvoru tveggja, það er, að sá sjálfsagi, sem þjóðin skapar sér, komi þarna til, og þessi sjálfsagi getur ekki komið fram í öðru en að ríkið beinlínis, t.d. í gegnum sterka verðlagsnefnd, segi við aðilann: Það er ekkert sem heitir, að nú fáið þið sjálfkrafa að hækka verðlagið að sama skapi t.d. og kaupgjald og annað slíkt hækkar. Þið verðið knúðir til þess að reyna að gera slíkar breytingar í þessum efnum, að þið getið staðið undir þessum kauphækkunum með því að bæta ykkar eigin rekstur. — Hins vegar vitum við, að á þessu eru mjög mikil vandkvæði. Við skulum ekkert fara í grafgötur um það. Við vitum, hvað það er, sem gerist erlendis, þegar þessir hlutir eiga sér stað. Það, sem gerist erlendis og það í mjög harðvítugri samkeppni, það er, að mjög stórar verzlanir rísa upp, sem eru í senn heildsölu- og smásöluverzlanir, þar sem menn kaupa inn í heildsölu í mjög stórum stíl og hafa jafnvel eigin verksmiðjur til þess að framleiða meira eða minna og selja út í smásölu, og þessi stóru „magasín“, við skulum bara taka London sem dæmi, þau steindrepa hvern smákaupmanninn á fætur öðrum, þannig að þeir hrynja niður. Þetta er það, sem er að gerast bæði í Kaupmannahöfn, London og víðar í okkar nágrannalöndum, og við vitum hins vegar ósköp vel, að sviðið, sem hér er verið að keppa á, það er svo lítið, að það er erfitt að koma svona aðstöðu við. Ég veit ekki, hvernig menn tækju því, ef það ætti að heimila útlendum kaupmönnum jafnt verzlun hér sem öðrum, þá væri kannske hægt að koma svona við,en ég býst við,að það yrði sungið og kveðið, áður en við yrðum sammála um að fara inn á þess háttar aðfarir. Við verðum því að taka tillit til þess, að einmitt vegna þess, hve þeir kostir t.d., sem frjáls samkeppni jafnt og samvinnustefnan hefur, eiga erfitt með að fá að njóta sín í okkar fámenni, þá duga ekki þessi ráð, sem menn hafa trúað á. Það verður að koma þarna til allstrangt eftirlit af hálfu ríkisins.

Það hefur líka verið á það bent hér áður í ræðum, ekki sízt af hv. 5. þm. Austf., að okkar hagfræðingar, sem mesta trú hafa haft einmitt á þessum aðferðum, bæði peningalegum ráðstöfunum, frjálsri samkeppni og öðru slíku, þeir eru farnir að átta sig á þessu. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri segir í seinustu útgáfu seðlabankaskýrslunnar: „Ástæðurnar fyrir þessu (hve gengur erfiðlega að vinna við verðbólguna hér) liggja tvímælalaust að verulegu leyti í því, hve lokaður mikill hluti íslenzka hagkerfisins er fyrir utanaðkomandi samkeppni.“

Ég held þess vegna og við flm., að það ætti að gera alvarlega tilraun til að breyta þarna til, taka upp verðlagsákvarðanir og framfylgja þeim mjög stíft. Og ég vildi alveg sérstaklega beina því til hæstv. ríkisstj., hvort hún gæti ekki hugsað sér að vera með í því að gera slíka tilraun, –verkalýðshreyfingin er áður búin að lýsa samþykki við að fara inn á þessa leið, — ég skora á hana að gera slíkt og taka upp vissa samvinnu við hana í þessu sambandi. Það hefur mistekizt fram að þessu, vegna þess að þær aðferðir, sem beitt hefur verið, hafa ekki dugað. Ef við nú reynum þessa aðferð, sem að vísu hefur oft mistekizt líka áður vissulega, þá erum við þó að gera eina tilraunina til þess að vinna bug á þessu ægilega vandamáli.

Nú hef ég áður minnzt á það hér í sambandi við þetta, að Framsfl. hafi verið mjög andvígur þessu upp á síðkastið. Ég vil þó einnig beina þeirri fsp. til hans, af því að áður fyrr var hann í raun og veru kannske allra flokka mest inni á þessu kerfi, en upp á síðkastið virðist hann hafa mjög harðvítuglega haldið fram, að það ætti að gefa þetta allt saman sem allra frjálsast, ég vil einnig beina þeirri fsp. til hans, hvort hann geti ekki hugsað sér að gera þessa tilraun. Ég held, að þetta væri fyrsta og stærsta tilraunin til þess að reyna að stemma stigu við verðbólgunni.

Hin hugmyndin, sem hæstv. viðskmrh. raunar hefur sett fram hér áður, að stækka n. upp í 7, það er bara með það fyrir augum að reyna að skapa þarna samstarf allra þingflokka að því að vinna að þessu máli.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að að þessari umr. lokinni verði þessu máli vísað til hv. fjhn.