22.02.1966
Efri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (2629)

110. mál, heimild til að veita nýjum iðju- og iðnaðarfyrirtækjum skattfríðindi

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hér er hreyft máli, sem er athyglisvert og raunar oft hefur verið rætt um manna á meðal, ekki hvað sízt í þeim sveitarfélögum, þar sem við erfiðleika er að etja atvinnulega, svo sem hv. frsm. gat um, og til eru þess dæmi meðal annarra þjóða, að slík hlunnindi séu að einhverju leyti veitt nýjum fyrirtækjum. Þess eru einnig dæmi, að þjóðir beinlínis laði að sér erlend fyrirtæki og fjármagn með algerlega hliðstæðum fríðindum og hér er talað um, þannig að hér er ekki verið að tala um neina hluti, sem hægt sé að segja að séu alveg út í hött, heldur drepið á vandamál, sem er þess virði, að því sé gaumur gefinn.

Málið er hins vegar harla flókið og erfitt í framkvæmd, og ég er ákaflega hræddur um, að það verði ekki auðvelt mál að finna reglur, sem hér geti þjónað sæmilega öllu réttlæti, án þess að valda þá um leið stórvandræðum. Mér er kunnugt um það, og er það nokkuð svipað og hv. flm. mun þekkja varðandi sveitarfélög á ýmsum stöðum á landinu, ekki hvað sízt í umdæmum, sem við höfum umboð fyrir, þar sem við slíka erfiðleika er við að stríða atvinnulega, að þar hefur á vissum tímum árs verið atvinnuleysi við að stríða, og hefur verið rætt þar um uppbyggingu ýmiss nýs atvinnurekstrar, og forráðamenn í þessum sveitarfélögum hafa stundum verið að impra á möguleikum í þessa átt. En hér er ekki auðvelt um vik, og öll útfærsla slíkra hugmynda hefur að verulegu leyti strandað á því, að það er auðvitað þannig háttað í flestum þessara sveitarfélaga, að þau fyrirtæki, sem fyrir eru á stöðunum, verða að bera mjög þung gjöld, vegna þess að þar er um erfiðleika að ræða, sem þá ekki hvað sízt koma niður á þeim atvinnurekstri, sem til er. Og ég hygg, að sveitarstjórnarmenn hafi verið ákaflega hræddir við það að fara út á brautir sem þessa einmitt með hliðsjón af því, að það yrði talið um að ræða mjög óheppilega mismunun, sem gæti leitt af sér margvísleg vandræði, leiðindi og erfiðleika heima fyrir, að gera mönnum það skiljanlegt, að þessi uppbygging væri þess eðlis, að hún mundi síðar koma öllum til góða. Það er nú einu sinni svo, að menn horfa ekki alltaf ákaflega langt fram í tímann hver um sig, þegar þeir eiga að gjalda eitthvað af hendi í staðinn.

Nú er um það rætt að gera framkvæmdaáætlanir fyrir víssa landshluta, og unnið er nú að slíkri framkvæmdaáætlun fyrir Vestfirði og hafin athugun slíkra áætlana fyrir Norðurland. Það mætti auðvitað hugsa sér, að innan ramma þeirra áætlanagerða væri gert ráð fyrir einhverri svipaðri uppbyggingu og hér er um að ræða. Mér sýnist enda, að það sé í nokkru samræmi við þá hugmynd, sem hv. flm. hafa að baki sínu máli, að þeir geri sér grein fyrir, að þetta verði að gerast eftir einhverju kerfi. Og ég er hræddur um, að það verði að koma til meira en meðmæli stjórnar tiltekins sjóðs, þegar um þetta er að ræða. Þetta yrði að vera að mjög vandlega íhuguðu máli samkvæmt uppbyggingaráætlun, sem menn vildu þá sætta sig við, og þá ekki hvað sízt þær sveitarstjórnir, sem hlut eiga að máli.

Það er kannske ekki ástæða til þess, að ég sé sérstaklega að ræða um þetta mál umfram aðra menn hér. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu, að hér er að þessu leyti efnislega um að ræða ýmsa vankanta, auk þess sem það vill nú svo til, sem betur fer, að það eru ekki ýkjamargir staðir, sem svona er ástatt með, og það þarf auðvitað fyrst og fremst að vinna að heilsteyptri atvinnuuppbyggingu á þeim stöðum, hvort sem nauðsynlegt verður að grípa til þessara aðgerða í því efni eða annarra. En ég er aðeins hræddur um það, eins og ég áðan sagði, að þessar aðgerðir verði mjög vandasamar í framkvæmd og geti skapað í ýmsum tilfellum meira illt en gott, jafnvel þó að hugsunin sé góð, sem að baki liggur.

En það er annað atriði formlega séð, sem ég vildi leyfa mér að vekja athygli hv. flm. á, og það er sú till. þeirra, að iðnmrh. veiti undanþágu frá sköttum og útsvörum. Það hygg ég að fái ekki staðizt, a.m.k. brýtur það í bága við alla eðlilega skipan mála, að ráðherra, sem málin heyra alls ekki undir, geti veitt undanþágur frá grundvallarlöggjöf, sem jafnvel heilum ráðuneytum er fyrst og fremst falið að leggja grunninn að og starfa eftir, og á ég þar við ríkið annars vegar, þ.e.a.s. það, sem heyrir undir fjmrh., og hins vegar tekjustofna sveitarfélaganna, sem einnig eru tæknilega mjög vandasamt mál og heyra undir félmrh. Hvor tveggja þessi löggjöf er þess eðlis, að ég hygg, að það mundi ekki þjóna neinu góðu a.m.k. að fara að fela ráðherra, með allri virðingu fyrir honum, hvað sem hann heitir og hvaða titil sem hann ber, hvort sem það er iðnaðar- sjávarútvegs- eða hvaða embætti sem hann hefur, vald til þess að veita slíka stórkostlega undanþágu frá lögum eins og hér greinir. Þetta er í rauninni grundvallaratriði, sem ég vildi benda á í meðferð málsins og biðja hv. n., sem fær málið til meðferðar, að gera sér grein fyrir, hvað af því kynni að leiða, ef slíkar heimildir sem þessar yrðu veittar. Það er að vísu gert ráð fyrir því varðandi sveitarfélögin, að sveitarstjórnirnar gefi meðmæli í þessu efni, en ég er ákaflega hræddur um það, að iðnmrh., hver sem hann væri, vildi mjög ógjarnan hafa í sinni hendi vald, sem hér er um að ræða, ekki hvað sízt varðandi sveitarfélögin, að eiga að úrskurða um það, hvað gert skyldi í þessum tilfellum.

Ég vildi aðeins koma þessari athugasemd fyrst og fremst á framfæri, auk þess, sem ég áðan vék að, að enda þótt hér sé um mjög nytsama og góða hugsun að ræða, sem stefni að því að efla atvinnulif, þar sem það er of einhliða og fullnægir ekki þörfum íbúanna, er hér engu að síður um að ræða mjög vandasamt mál, sem ég held að þurfi að athugast töluvert vel, áður en menn slá því föstu, hvaða úrræði séu heppilegust í þessu efni.