03.03.1966
Efri deild: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (2636)

110. mál, heimild til að veita nýjum iðju- og iðnaðarfyrirtækjum skattfríðindi

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þegar 1. umr. um þetta frv. hófst, gerð ég við það nokkrar aths., og til þess að fyrirbyggja allan misskilning í því efni, sem raunar hv. 6. þm. Sunnl. gekk út frá í sinni ræðu, fólu þær aths. ekki í sér efnisleg andmæli gegn því, að veitt yrði aðstoð nýjum iðnfyrirtækjum, þar sem nauðsynlegt er að byggja upp atvinnulíf víðs vegar um landið. Ég benti á viss atriði, em ég taldi annars vegar vera þess eðlis, að mæt í telja nánast formgalla eða a.m.k. þyrfti að athuga það nánar, t.d. varðandi það, hvern þetta ætti undir að heyra stjórnskipulega séð, til þess að skapa ekki vandræði í framkvæmd málsins. Það var ekki af neinum metnaði frá minn hálfu eða vegna míns embættis um það, að fjmrh. ætti endilega að fá þetta í hendur. Ég hygg, að það yrði enginn ráðh. öfundsverður af að fá það í hendur, ef slík heimild sem þessi yrði veitt, svo að það stafar ekki af þeim orsökum, heldur eingöngu því, sem ég veit að allir hv þdm. gera sér grein fyrir, að hér er farið inn nýja braut, sem nauðsynlegt er að gera sér strax í upphafi grein fyrir, hvert leiðir. Sú löggjöf, sem hv. fyrri flm. vitnaði hér réttilega til áðan, var að því leyti miklu einfaldari í framkvæmd, að þar var gert ráð fyrir, að þetta gilti um fyrirtæki í þeim greinum, þar sem ekkert slíkt fyrirtæki væri starfandi áður, þannig að þar voru nokkurn veginn fastar reglur, sem var hægt að fara eftir í því efni, hvaða ráðh. sem átti að framfylgja málinu.

Hins vegar held ég, og það er auðvitað kjarni málsins og miklu veigameira atriði, að það þurfi mjög rækilegrar skoðunar við, svo sem raunar hv. fyrri flm. vék að, hvort nákvæmlega er hér rétt að farið eða hvort aðrar brautir á að fara til þess að ná þessu marki. Ég held, að efnislega séum við öll sammála um það, að æskilegt sé að stuðla að þeirri þróun, sem hér er leitazt við að stuðla að og er þekkt úr mörgum löndum, að reyna að dreifa atvinnufyrirtækjum með margvislegri, sérstakri fyrirgreiðslu þeim til handa. En svo sem t.d. hv. 6. þm. Sunnl. benti hér á, eru ýmis önnur atriði, sem þarf að íhuga og vel getur verið, að séu bæði einfaldari í framkvæmd og skapi síður hættuleg fordæmi eða óánægju hjá fyrirtækjum, sem starfandi eru á viðkomandi stöðum, og einnig kunni að ver líklegri til að ná þeim tilgangi, sem þetta frv. stefnir að.

Um úrræði í því sambandi hefur oft áður verið rætt á Alþ., og m.a. um þær hugmyndir, sem uppi hafa verið og að nokkru leyti verið framkvæmdar til þessa, um sérstaka atvinnubótafjáraðstoð til fyrirtækja víðs vegar um landið, hefur hugsunin raunverulega verið þessi, að aðstoða við uppbyggingu nýrra fyrirtækja umfram það, sem slík fyrirtæki mundu fá að njóta, ef þau væru starfandi, þar sem næg atvinna er til staðar. Og það hefur verið frá því skýrt og mun nú innan mjög skamms tíma verða lagt fyrir Alþ. frv. um sérstakar ráðstafanir til eflingar slíkri starfsemi og aukningu þess sjóðs, sem til þessa hefur haft þetta verkefni, þar sem m.a. mun verða gert ráð fyrir því, að gerðar verði sérstakar framkvæmdaáætlanir fyrir einstaka landshluta, svo sem þegar hefur verið hafinn undirbúningur að eða er í framkvæmd varðandi Vestfirði og hefur nú verið falið Efnahagsstofnuninni að vinna að í sambandi við Norðurland.

Það er auðvitað ákaflega æskilegt, hvort sem verður farin skattafríðindaleið eða farin sú leið að veita einhverja aðra aðstoð nýjum fyrirtækjum, að það sé gert eftir einhverri fyrirframgerðri áætlun, því að menn munu komast að raun um, að það verður ákaflega erfitt að meta það, hvar í rauninni er atvinnuleysi, það getur verið þetta árið á þessum stað og hitt árið á hinum, þannig að það þarf að skoða þróunina og horfurnar á breiðari grundvelli en þeim, sem við blasir hverju sinni, og áætlanagerð er þess vegna mjög nauðsynleg til þess að gera sér grein fyrir þessum vanda. Við þekkjum tiltekna staði, þar sem hefur verið varanlegt atvinnuleysi af ýmsum ástæðum og þar sem getur verið alveg nauðsynlegt að endurskipuleggja alveg atvinnulífið. Og þar mundu t.d. vafalaust koma til greina fyrst og fremst þau hlunnindi, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og ég þykist vita, að hv. flm. hafa ekki hvað sízt haft slíkt ástand í huga, er þeir hugsuðu þetta frv. En það kemur auðvitað mjög til álita á slíkum stöðum, hvaða leiðir eru heppilegastar. Það getur vel verið, að það megi samræma það að veita í senn skattfríðindi og aukin lánaréttindi fyrirtækjum sem þar setja sig niður. En ég get ekki horfið frá því, sem ég sagði í minni upphaflegu ræðu og ég veit að hv. flm. er líka vel kunnugt um af reynslunni, að skattafríðindaleiðin er mjög hættuleg leið vegna viðhorfs þeirra fyrirtækja, sem fyrir eru á stöðunum og mundu ekki njóta þessara hlunninda. Það er auðvitað alveg hárrétt, sem bent hefur verið á, að til langs tíma kemur það einnig þeim að góðu gagni, ef hægt er að byggja upp atvinnulíf staðanna og þá um leið í framtíðinni létta af þeim kvöðum. En með því að þeir eru nú einu sinni þannig, að þeir hugsa kannske ekki svo ákaflega langt fram í tímann og sjá aðeins, hvað að þeim snýr í það og það skiptið, það og það árið, og þarf stundum ekki einu sinni svo langan tíma til, að menn átti sig ekki á þróun mála, þannig að ég mundi segja, að það væri a.m.k. mjög nauðsynlegt og það sýna þessar umr., sem hér hafa farið fram, enda hefur hv. 1. flm. líka tekið undir það, að þetta mál verði íhugað mjög rækilega, ekki eingöngu út frá því takmarkaða sjónarmiði, hvort eigi að halda sig algerlega við þá skattafríðindaleið, sem þarna er talað um, heldur hvort eigi ekki að skoða það á breiðara grundvelli, sem einnig hefur verið hér vikið að, sem sagt, hvaða úrræði væru tiltækilegust almennt séð til þess að stuðla að því, að það væri hægt að hvetja fyrirtæki til þess að setja sig niður á stöðum, þar sem við atvinnuörðugleika er að stríða. Það getur stundum verið á vissan hátt fyrir hendi jákvætt viðhorf í þessu, eins og t.d. er í dag, að það eru þekkt dæmi um það, að fyrirtæki hafi sett sig niður á slíkum stöðum, fyrst og fremst vegna möguleika þess að fá fólk til starfa, vegna þess ástands, sem er í þjóðfélaginu víða, að það er mjög erfitt um að fá vinnuafl. Og þannig geta mörg tilvik spilað inn í þessa þróun. En það, sem ég sem sagt vildi með þessum orðum aðeins leggja áherzlu á, er í fyrsta lagi, að það er síður en svo, að ég hafi á móti þessari hugsun. Hún er í samræmi við það, sem ég hef oft og tíðum vikið að í sambandi við umr. um atvinnujöfnunar- eða atvinnubótamál. Og það vill svo til, að ég hef alllengi átt sæti í n., sem einmitt hefur fjallað um þau mál og úthlutun þess fjár, sem til atvinnubóta hefur verið veitt, og þekki því nokkuð gerla, hvaða vandamál er við að stríða í því efni. Því fer víðs fjarri, að ég sé andvígur þeirri hugsun og hugmynd, sem hér er hreyft, en tel aðeins mjög nauðsynlegt, að þetta verði skoðað á breiðum grundvelli, enda þykist ég vita, að hv. flm. hafi það fyrst og fremst í huga að ná fram megintilgangi málsins, til þess að efla atvinnulifið á þessum stöðum, en ekki endilega, hvort þessi leið sé sú heppilegasta eða einhver önnur eða sambland af fleiri en einni leið.