23.02.1966
Sameinað þing: 28. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (2683)

17. mál, markaðsrannsóknir í þágu útflutningsatvinnuveganna

Frsm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur haft til meðferðar þáltill. á þskj. 17 um markaðsrannsóknir og sölustarfsemi í þágu útflutningsatvinnuveganna og hefur orðið sammála um afgreiðslu till. Sams konar till. var flutt á s.l. Alþ. og allshn. varð einnig sammála um afgreiðslu hennar þá. En þar sem álit allshn. kom seint á þinginu, vannst ekki tími til að ræða till. þá, og var hún þess vegna flutt öðru sinni nú og liggur nú fyrir hér með breytingu allshn., sem ég mun nú leyfa mér að gera grein fyrir.

Þegar till. var hér fyrst til athugunar hjá allshn., var hún send til umsagnar 5 aðila. Þeir svöruðu allir bréfi allshn. um till. Ég vil leyfa mér í örstuttu máli að rekja þessi svör.

Í fyrsta lagi var till. send til umsagnar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Þeirra svar er dagsett 7. apríl 1965 og er í meginatriðum á þá lund, að samtökin telja veigamikið og æskilegt að efla markaðsrannsóknir og sölustarfsemi þjóðarinnar, eins og segir í ofangreindri till., og skipun mþn., er kveðji sér til samstarfs fulltrúa atvinnuveganna, er vinni í sameiningu að athugun þess, hvað vænlegt sé til að ná nefndu marki, að þessi tillöguflutningur sé rétt ráðstöfun, sem mæla beri með, eins og þar segir.

Till. var enn fremur send til umsagnar Sambandi ísl. samvinnufélaga. Það svar er dags. 5. apríl 1965. Efni þess er þetta: „Vér leyfum oss að mæla með samþykkt till., þar sem vér teljum þá athugun, sem hún gerir ráð fyrir að fari fram, bæði æskilega og nauðsynlega.“

Í þriðja lagi var till. send til umsagnar Félagi ísl. iðnrekenda. Þeirra umsögn er dagsett 26. apríl 1965, og inntak hennar er þetta: „Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu mjög efnahagsafkoma vor byggist á viðskiptum við önnur lönd. Á sviði markaðsöflunar og sölustarfsemi erlendis hefur þegar verið unnið þýðingarmikið starf á vegum helztu útflutningssamtaka, svo sem vörusýninganefndar og annarra. Vér teljum samt sem áður, að enn beri að efla þessa starfsemi og færa hana yfir á viðtækara svið. Mætti í því sambandi athuga, hvort við gætum ekki hagnýtt reynslu annarra þjóða í þeim efnum, svo sem Norðmanna og Dana.“ Þetta er inntakið í umsögn Félags ísl. iðnrekenda.

Þá var till. enn fremur send til umsagnar framleiðsluráðs landbúnaðarins. Umsögn þess er dags. 8. apríl 1965, og er frá því skýrt, að till. hafi verið lögð fyrir framkvæmdanefnd framleiðsluráðs og sú n. mæli eindregið með því, að þáltill. verði samþykkt.

Þessir fjórir aðilar, sem ég hef nú nefnt, mæla þannig allir með því, að till. verði samþykkt, en fimmti aðilinn, sem fékk hana til umsagnar, Félag ísl. fiskmjölsframleiðenda, telur sér ekki fært að mæla með samþykkt till., þar sem hún mundi hafa mikinn kostnað í för með sér, ef til framkvæmda kæmi, enda það verkefni, sem henni er ætlað að leysa, þegar að miklu leyti í höndum annarra aðila, eins og þar segir.

Allshn. hefur á grundvelli þessara umsagna og eigin athugunar komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé sameiginlegt álit, að markaðsrannsóknir og sölustarfsemi í þágu útflutningsatvinnuveganna sé þýðingarmesta viðfangsefni þjóðarinnar í dag. N. telur, að áherzlu beri að leggja á meiri úrvinnslu íslenzkra hráefna, en eftir því sem sá iðnaður eykst og útflutningsvörur verða meira unnar en áður, verði markaðsmálin að sama skapi bæði þýðingarmeiri og erfiðari viðfangs. Íslenzkar iðnaðarvörur til útflutnings mæti meiri samkeppni á erlendum mörkuðum en hrávörurnar og sala þeirra sé háðari breytilegum smekk hins almenna neytanda. Þess vegna verði það fyrir okkur enn brýnni þörf en fyrr að fylgjast með, hverjar eru þarfir og óskir þeirra neytenda, sem við ætlum að ná til, og þess vegna verðum við að vinna að markaðsrannsóknum í stærri stíl en þeim, sem ætla má að einstakir útflytjendur hafi tök á, enda þótt sumir þeirra hafi þegar unnið talsvert starf á hessum vettvangi. Það er því sameiginleg niðurstaða af þessari athugun, að n. telur eðlilegt, að ríkisstj. láti fara fram athugun á því í samráði við fulltrúa atvinnuveganna, hvernig þessum málum verði bezt fyrir komið, og leggi niðurstöðurnar fyrir Alþ. til ákvörðunar um það, hvernig nauðsynlegum stuðningi verði bezt fyrir komið.

Um það, hvað sé til ráða í þessu efni, skal ég fátt eitt segja hér. Það verður vitanlega úrlausnarefni þeirrar n., sem málið fær til meðferðar, ef till. verður samþ. En ýmislegt er þar eflaust, sem kemur upp í hugann. Það eru t.d. margir, sem hafa bent á það, að æskilegt væri, að við sendiráð landsins erlendis störfuðu viðskiptafulltrúar, sem væru samtökum útflytjenda til ráðuneytis um það, á hvern hátt bezt yrði unnið að markaðsöflun. Þá má enn fremur hugsa sér, að sett verði á stofn stofnun fyrir markaðsrannsóknir og markaðsleit og auglýsingastarfsemi. Það hlýtur að vera affarasælla, eða það er mín skoðun a.m.k., að það sé einhver einn aðili, sem hefur yfirumsjón og endanlegan ákvörðunarrétt um framkvæmd þessarar starfsemi, til þess að markvisst sé unnið. Fleira má eflaust nefna, sem kemur til athugunar í þessu sambandi hjá viðkomandi n., þó að ég skuli ekki tefja tímann á að fara lengra út í það að þessu sinni.

Í till. flm., eins og hún var upphaflega, var enn fremur gert ráð fyrir því, að gæðamatið yrði eflt, en allshn. hefur ekki á þessu stigi talið ástæðu til þess að álykta sérstaklega um það og leiðir það hjá sér. En vissulega getur það mjög komið til álita, ef markaðseflingarstofnun verður sett á stofn, að henni verði þá fengið það verkefni t.d. að setja stimpil sinn á gæðavöru, sem sérstaklega þarf að greiða fyrir og þegar fyrir liggur, að varan stendur undir þeim meðmælum, sem þar mundu til koma.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fyrir þessu lengri framsögu. Allshn. leggur einróma til, að till. um markaðsrannsóknir og sölustarfsemi útflutningsatvinnuveganna verði samþ. með þeirri breyt., sem hún hefur gert grein fyrir á þskj. 152.