09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (2714)

64. mál, klak- og eldisstöð fyrir laxfiska

Flm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Á síðasta þingi fluttu þm. Norðurl. e. ásamt hv. 8. landsk. þm. eftirfarandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að stofnsett verði á Norðurlandi klak- og eldisstöð fyrir lax og silung. Skal í því sambandi athugað, hvort ekki sé heppilegt að hafa það fyrirtæki á vatnasvæði Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, m.a. vegna góðra skilyrða til hagnýtingar á volgu vatni frá jarðhita þar um slóðir.“

Till. þessari var vísað til hv. fjvn., en n. vannst ekki tími til að afgreiða hana. Í framsögu fyrir till. gerði ég m.a. grein fyrir eftirfarandi atriðum:

Á undanförnum árum hefur áhugi almennings fyrir lax- og silungsveiði stórum farið vaxandi. Með aukinni eftirspurn og almennari þátttöku en áður hefur gjald fyrir veiðirétt mjög mikið hækkað og þá sérstaklega hvað varðar laxárnar. Erlendir veiðimenn sækja það og fast að komast í ár hér á landi, og má telja víst, að svo verði áfram. Það er því ljóst, að aðsókn í íslenzkar veiðiár mun verða mjög mikil á komandi árum, en það þýðir sama og öruggar tekjur fyrir þá aðila um land allt, sem veiðiréttindi eiga. Aukin fiskigengd í ám og vötnum er því stórfellt hagsmunamál fyrir fjöldamarga landeigendur. Með því að stofna með sér veiðifélög og með öðrum aðgerðum hafa þeir leitazt við að vernda þessa hagsmuni sína og tryggja framtíð þeirra.

Víða erlendis hefur laxveiði farið minnkandi. Virkjanir og ýmiss konar úrgangur frá iðjuverum og milljónaborgum hafa spillt laxagöngum. Þá er laxveiði í sjó og stunduð af kappi, og skerðir hún að sjálfsögðu stofninn. Til þess að hamla upp á móti þessari þróun hefur í mörgum löndum verið byrjað á fiskirækt í ám og vötnum. Vísindi og tækni hafa verið tekin í þjónustu þessarar starfsemi, sem jafnt og þétt hefur fært út kvíarnar. Í þessum efnum höfum við Íslendingar ekki fylgzt með sem skyldi. Án efa stafar það af því, að lax- og silungsveiði hefur verið hér nokkuð jöfn í mörgum ám um árabil og því ekki orðið vart þeirrar hnignunar á stofnum þessara nytjafiska, sem annars staðar hefur gætt í ríkum mæli.

Nú má segja, að áhugi almennings fyrir fiskeldi hafi vaknað. Með því að hagnýta sér reynslu annarra þjóða sjá kunnáttumenn fram á, að með starfrækslu klak- og fiskeldisstöðva megi með tímanum auka mjög fiskisæld í ám og vötnum, jafnvel yrði unnt að ala upp sterka stofna í ám, sem hafa ekki skilað arði.

Í haust var hér á vegum landbrn. sænskur fiskifræðingur, sem um árabil hefur unnið að laxeldismálum í heimalandi sínu. Taldi hann aðstæður til laxeldis góðar hér á landi. Mun það vera almenn skoðun þeirra, sem kynnt hafa sér hér þessi mál.

Fyrir nokkru kom ríkið upp laxeldisstöð í Kollafirði, en haldið er áfram uppbyggingu hennar. Í sumar gengu 57 laxar úr sjó upp í stöðina, og samkv. upplýsingum veiðimálastjóra, Þórs Guðjónssonar, má vænta þar góðs árangurs. Flm. þessarar till. telja nú tímabært, að ríkið komi upp annarri klak- og eldisstöð laxfiska eða beiti áhrifum sínum svo, að til hennar verði stofnað. Leggjum við til, að sú stöð verði staðsett á Norðurlandi og athugað verði þá sérstaklega, hvort ekki sé heppilegt, að hún komi á vatnasvæði Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, sem er ein af beztu veiðiám landsins. Allar aðstæður eru þar góðar fyrir slíka stöð, t.d. hægt að fá þar vatn úr jarðhitalindum.

Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa þetta mál mitt lengra, en legg til, að umr. verði frestað og till. verði vísað til hv. fjvn.