25.03.1966
Sameinað þing: 33. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2761)

159. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Helgi Bergs:

Gott kvöld, góðir áheyrendur. Jóhanni Hafstein var mikið í mun áðan að sýna fram á aukinn hagnað af raforkusölu til alúmínbræðslu. Augljóst er, að hann og félagar hans óttast, að íslenzka þjóðin sé ekki nægilega stórhuga til þess að virkja Þjórsá við Búrfell, eins og ákveðið hefur verið, fyrir sjálfa sig, án þess að selja útlendingum vænan hluta af þessari ódýrustu orku sinni. Orkan frá Búrfellsvirkjun mundi endast okkur einum til 1985, en með alúmínbræðslu aðeins til 1976, og ekkert liggur fyrir um það, hvað þá taki við. Aðeins hlýtur að verða að gera ráð fyrir, að sú orka mundi verða dýrari, þar sem Búrfellsvirkjun er talin ódýrasta virkjunin, sem völ er á. Birtar eru ýktar, villandi og beinlínis rangar frásagnir af því feiknafé, sem á að sparast við það að selja útlendingum ódýrustu orku okkar. Í Morgunblaðinu 24. febr. s.l. birti Jóhann Hafstein ráðh. grein, þar sem hann segir:

„Sé munurinn á rekstrargjöldum frá ári til árs lagður á 6% vöxtu, safnast í sjóð, sem árið 1976, er orðinn rúmar 300 millj. kr. og árið 1985 rúmar 600 millj. kr., ef bræðsluleiðin er farin.“

Og nú í kvöld er ráðh. kominn upp í 860 millj. kr. Hvort tveggja er rangt og villandi, í fyrsta lagi vegna þess, að reiknað er með 2.2 aurum á kwst. hærra rafmagnsverði frá bræðslunni fyrstu 6 árin en raunverulegt er, en þessir aurar eru millifærsla til Landsvirkjunarinnar af skatttekjum af verksmiðjunni, en gert er ráð fyrir, að fyrstu 6 árin renni 3/8 hlutar skattanna til Landsvirkjunarinnar. Með 6% vöxtum til 1985 nemur þessi munur tæpum 200 millj. kr. eða nákvæmlega 194 millj., miðað við samningsbundið orkumagn, og um þessa upphæð eiga útreikningar ráðh. í fyrsta lagi að leiðréttast. Í öðru lagi eru útreikningarnir villandi vegna þess, að orka Búrfells verður fullnotuð 1976, ef bræðsla verður byggð, og enginn veit, hvað sú orka, sem við bætist eftir það, kostar, því að engar viðhlítandi áætlanir hafa verið um það gerðar og enginn veit, hvar næst verður virkjað. Í þriðja lagi eru áætlanir um rekstrarkostnað virkjunarinnar vægast sagt ónákvæmar, m.a. vegna óvissunnar um ísmyndunina og þær truflanir, sem af henni leiðir. Þessi óvissa er viðurkennd af öllum sérfræðingum, sem um málið hafa fjallað, þó að mat þeirra á því, hversu varlegir eða óvarlegir útreikningarnir séu, sé mismunandi. En jafnvel þótt fallizt væri á þessa útreikninga, hvað kemur þá í ljós? Sparnaður ráðh. ávaxtaður með 6% til 1985 og leiðréttur vegna skattamillifærslunnar var í febrúar talinn 400 millj. og nú 660 millj. kr. Það er hægi að fá háar tölur með því að reikna vexti langt fram í tímann. En hvað þýðir þetta í tölum, sem auðvelt er að átta sig á? Hvað þarf að spara árlega héðan í frá til 1985, til þess að það verði 400 millj. kr. þá með 6% vöxtum? Svarið er 10.9 millj. kr. á ári, eða ef nýja talan er tekin, 660 millj. kr., verður svarið 18 millj. kr. á ári. Samkv. bjartsýnustu útreikningum ráðh. er þá meðalsparnaður á ári 10—18 millj. kr. frá 1966—1985. Þótt um þennan sparnað væri að ræða, fer því víðs fjarri, að hann réttlæti, að ráðizt verði í alúmínbræðslu, eins og nú er ástatt, og öðrum atvinnuvegum þar með stefnt í tvísýnu. Það er smápeningur miðað við það, sem í húfi er. En svo fer því raunar víðs fjarri, að þetta sé allt sparnaður. Það er nefnilega að verulegu leyti lán hjá framtíðinni. Ef við seljum ódýrustu orkuna útlendingum, förum við sjálfir fyrr að nota dýru orkuna. Af hverju skyldi ráðh. reikna dæmið til 1985, en ekki t.d. til 1995 eða þá til enda samningstímabilsins, ársins 2014? Það er af því, að upp úr 1985 fer að koma í ljós, hvernig þessi sparnaður hefnir sín, þegar við förum að nota dýrari orkuna sjálfir. Þá þarf að fara að borga lánið, sem nú á að taka fyrir rafmagnsreikningnum okkar hjá framtíðinni. Það verða önnur sjónarmið en rafmagnsgróði að ráða um það, hvort hér verður útlend stóriðja eða ekki.

Alþ. ákvað í fyrra að virkja Þjórsá við Búrfell. Spurningin nú er, hvort auka eigi virkjunarhraðann nú strax, til þess að selja orkuna til alúmínbræðslu. Það er því næsta kátlegt að sjá í blaði ídag, að miðstjórn Alþfl. lýsir nú stuðningi sínum við Búrfellsvirkjunina. Þeir eru einu ári á eftir tímanum. Sú ákvörðun var tekin í fyrra. Það var myndarleg, stórhuga og rétt ákvörðun. Við skulum ekki spilla henni nú með því að sleppa 60% af orku virkjunarinnar frá okkur til annarra. Læt ég þetta svo nægja til þess að svara alúmínmönnum í kvöld, það mál verður rætt síðar.

Nær allir atvinnuvegir eiga nú við mikla og vaxandi örðugleika að etja eftir samfellt góðæri um árabil. Iðnaðurinn dregst saman, og kennt er nm. aukinni samkeppni vegna lækkaðrar tollverndar. Því hefur þó verið lofað í hvert sinn, sem tollverndin hefur verið rýrð, að aðrar ráðstafanir yrðu gerðar til þess að efla samkeppnishæfnina. En þær hafa látið á sér standa, eins og raun ber vitni. Það er þó raunar ekkert nýtt, að íslenzkar iðnaðarvörur þurfi að keppa við erlendar. Það hafa alltaf verið erlendar iðnaðarvörur á markaðinum hér í samkeppni við innlendar. Það, sem erfiðleikana skapar fyrst og fremst, er það, að tilkostnaðurinn hér innanlands eykst í sífellu og framleiðslukostnaðurinn verður of hár. Það er dýrtíðin, sem grefur undan iðnaðinum. Bændurnir standa frammi fyrir tekjurýrnun, verðlagsramminn er sprunginn, marga milljónatugi skortir á, að útflutningsuppbæturnar, sem allan vanda áttu að leysa, geti tryggt grundvallarverð.

Annar aðaltalsmaður ríkisstj. í landbúnaðarmálum, Gylfi Þ. Gíslason menntmrh., ræddi hér áðan um vandamál landbúnaðarins. Hann sagði, að vandinn væri fólgin í því, að framleiðslan hefði aukizt meira en neyzlan á undanförnum árum. Hvílíkt óttalegt slys, að það skyldi nú ekki hafa getað verið öfugt! Það var ekki von, að þeir vísu menn gætu varað sig á því, að framleiðslan ykist í samfelldu góðæri ár eftir ár. En þetta er ekki heldur mergur málsins. Ef verðlagsþróunin hefði orðið með skaplegum hætti, mundi ekki skorta neitt á, að útflutningsbæturnar nægðu fyrir grundvallarverði, þó að framleiðslan hefði aukizt eins og hún hefur gert. Það er tilkostnaðurinn við framleiðsluna, sem er orðinn of hár. Það er dýrtíðin, sem hefur grafið undan landbúnaðinum líka. Það var strax í ársbyrjun 1964, að nauðsynlegt reyndist að veita sjávarútveginum uppbætur til þess að forðast stöðvun hans. Síðan hefur alltaf öðru hverju þurft að gera nýjar og nýjar bráðabirgðaráðstafanir í sama skyni, en dýrtíðin hefur gert þær jafnóðum að engu og grefur í sífellu undan sjávarútveginum eins og öðrum atvinnugreinum. Síðast nú þessa dagana er Alþ. að samþykkja nýjar bráðabirgðaráðstafanir, sem augljóst er að verða ekki þær síðustu.

Til þess að veita sjávarútveginum uppbætur, sem nema 80 millj. kr., er boðað, að lækka eigi niðurgreiðslur, svo að ríkissjóður verði skaðlaus af, og það verður ekkert smáræði, því að hverri niðurgreiðslulækkun fylgir hækkun á kaupgjaldsvísitölu, sem kemur fram í öllu verðlagi og framleiðslukostnaði í landinu. 25 aurar af hverri kr., sem ríkissjóður sparar íniðurgreiðslur, fara í auknar kaupgreiðslur hjá honum sjálfum. Kaupgjald og verðlag mun strax hækka um 21 1/2—3% og gefa dýrtíðarskrúfunni aukið snúningsafl, pyngja sjávarútvegsins mun fljótt leitast aftur um þessar 80 millj. kr. Með þessu ráðslagi gefur ríkisstj. frá sér síðustu slitrin af viðleitni sinni til viðnáms gegn dýrtíðinni.

Það þarf vissulega mikil brjóstheilindi til að fullyrða það, eins og Gylfi Þ. Gíslason gerði hér áðan, að hvorki afkoma atvinnuveganna né gengisskráningin væri í hættu af þeirri dýrtíðarþróun, sem orðin er. Ráðh. lýsti því einnig mjög hér áðan, hversu þjóðartekjurnar hefðu vaxið. Hann hefði átt að gera grein fyrir því, hvert sú aukning hefur farið. Ekki hefur hún farið til atvinnuveganna, ekki til launþega, en hvert?

En Magnús Jónsson þekkir orsakir verðbólgunnar. Þær eru aðallega kaupgjaldið og búvöruverðið, sagði hann hér áðan, og þá vita launþegar og verkamenn það.

Í þeim áróðurspésa, Viðreisn, sem stjórnin tók fé úr ríkissjóði til að prenta og senda inn á hvert heimili í landinu, segir með feitu letri og venjulegu yfirlæti orðrétt á bls. 23:

Ríkisstj. telur, að með þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem till. hennar fela í sér, muni nýtt viðhorf skapast. Útflytjendur verða framvegis að sæta ríkjandi gengi og geta ekki fengið aukinn launakostnað endurgreiddan í hækkuðum útflutningsbótum. Þá er það einnig ætlun ríkisstj. að leyfa engar verðhækkanir á innlendum vörum og þjónustu vegna launahækkana.“

Svo mörg voru þau orð. Laglega hafa þau verið haldin. Ríkisstj. boðaði aðgerðir í peningamálum og lofaði að nota þær til þess að skapa jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar, en hefur beitt þessum aðgerðum til þess að sölsa undir sitt harðsnúna og hlutdræga einræðisvald sem mest af fjármunum almennings til að ráðstafa þeim að geðþótta sínum. En jafnvægisviðleitnin var látin lönd og leið. Ríkisstj. lofaði stöðvun dýrtíðarinnar, en hefur staðið í þeirri mestu dýrtíðaróstjórn, sem hér hefur verið, síðan minnihlutastjórn Sjálfstfl. sat 1943. Hún hefur svikið flest, sem hún lofaði þjóðinni. Hún hefur brugðizt þeirri frumskyldu sinni að veita þjóðinni forustu í framfaramálum. Hún á ekki skilið traust þings eða þjóðar, og henni ber að fara frá. –Góða nótt.