25.03.1966
Sameinað þing: 33. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (2764)

159. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ýmsir hafa velt því fyrir sér síðustu daga, hvers vegna Alþb. krafðist útvarpsumr. nú strax, en gat ekki og vildi ekki bíða í örfáa daga, þangað til álmálið hefur verið lagt formlega fram á Alþ. Ég hygg, að við höfum fengið svarið í ræðum þeirra Lúðvíks Jósefssonar og Hannibals Valdimarssonar í kvöld. Þeim lá á að auglýsa stofnfund Alþb., sem halda á í Lídó eftir nokkra daga, og ég vona, að ríkisútvarpið sendi þeim ekki auglýsingareikning fyrir. En það er þó gleðilegt, að loksins skuli 10 ára gamall flokkur hafa fyrir því að stofna flokksfélög, svo að kjósendur í lýðræðisríki geti gengið í flokkinn og haft áhrif á það, hvað hinir sjálfskipuðu foringjar hans gera.

Í þessum umr. hafa þrír framsóknarmenn, formaður, varaformaður og ritari þess ágæta flokks flutt skörulegar ræður. Þær eru sögulegar að einu leyti, að nú minntist enginn þeirra orði á „hina leiðina“. Fyrir örfáum dögum sagði Helgi Bergs á einhverri ráðstefnu, að „eina leiðin“ væri „hin leiðin“. En í kvöld er það almælt hér í þingsölum, að „hin leiðin“ sé nú þegar orðin ófær og þeim þyki ráðlegt að minnast ekki frekar á hana.

Umr. í kvöld hafa leitt í ljós, að fyrirhuguð virkjun Þjórsár og bygging álbræðslu sunnan við Hafnarfjörð eru meginástæður fyrir till. um vantraust á ríkisstj., sem framsóknarmenn og Alþb.-menn flytja íbróðerni. Tel ég því rétt að gera nokkra grein fyrir stefnu Alþfl. í því máli, en miðstjórn flokksins hefur fyrir fáum dögum gert um það ýtarlega ályktun.

Þegar deilt er um svo miklar framkvæmdir, fer oft og tíðum svo, að fylgjendur málsins sjá ekkert nema kosti við það, en andstæðingar ekkert nema galla. Er þá von, að óbreyttum áheyrendum þyki erfitt að velja á milli. Það er megineinkenni á ályktun Alþfl., að þar kemur fram fullur skilningur bæði á kostum þess, að hér verði reist álbræðsla, og erfiðleikum, sem kunna að fylgja þeirri framkvæmd. Í heild er mat flokksins, að það sé tvímælalaust hagkvæmt fyrir þjóðina, að þessi verksmiðja verði reist, og þjóðin megi ekki láta það tækifæri ganga sér úr greipum. Hins vegar varar flokkurinn við hættum á þenslu í efnahagslífi og öðrum erfiðleikum, sem ríkisstj. verður að hafa og getur haft gætur á.

Fyrsta atriði þessa máls er að svara þeirri spurningu, hvort við viljum yfirleitt fá erlent fjármagn til landsins. Þess munu fá eða engin dæmi, að frjálsar þjóðir hafi neitað sér um erlent fjármagn, ef þær áttu þess kost til að hraða uppbyggingu nýrra atvinnuvega. Ófrjáls þjóð, sem berst fyrir frelsi, óttast erlent fjármagn í landi sínu. En með sjálfstæði öðlast þjóðin það vald, sem hún þarf til að hafa hemil á slíku fjármagni og hagnýta það, án þess að alvarlegar hættur stafi af, ef hún heldur vöku sinni.

Í raun réttri hygg ég, að allir flokkar á Alþ. séu fylgjandi því, að íslenzka þjóðin notfæri sér erlent fjármagn á einhvern hátt. Framsóknarmenn eru hlynntir notkun erlends fjármagns. En þetta er því miður eitt af mörgum málum, þar sem afstaða þeirra fer aðallega eftir því, hvort þeir eru í stjórn þá stundina eða ekki. Kommúnistar eru á móti vestrænu fjármagni, það vitum við. En kemur nokkrum manni til hugar, að þeir mundu ekki telja ágætt, ef okkur stæði til boða að fá t.d. Rússa eða Rúmena til að reisa olíuhreinsunarstöð hér uppi á Íslandi? Yrði svar þeirra nokkuð annað en: já takk?

Enda þótt allir flokkar séu undir niðri reiðubúnir til að styðja notkun erlends fjármagns með einhverju móti, er að sjálfsögðu ekki sama, hvernig slíkt er framkvæmt. Við heyrum hér á landi þá skoðun, að við eigum að opna allar dyr og bjóða hingað hverjum þeim, sem vill koma með fjármagn í fyrirtæki. Alþfl. hafnar þessari skoðun. Flokkurinn telur ekki rétt, að settar séu heildarreglur um erlent fjármagn á Íslandi, heldur beri okkur að meta hvert mál fyrir sig af gætni og varúð. Þess vegna er ekki rétt, þó að einhverjir einstaklingar hafi sagt það, að álmálið sé alger stefnubreyting og hljóti annað og meira að fylgja á eftir. Það verður að metast, ef frekari tækifæri gefast til slíkra hluta.

Þá er að kanna, hvort Íslendingum sé hagkvæmt að leyfa svissnesku félagi að reisa álbræðslu með þeim kjörum, sem nú standa til boða, og þar skilur leiðir. En Alþfl. hefur að mjög vel athuguðu máli komizt á þá skoðun, að þetta sé hugkvæmt. Meginástæðan fyrir því, að álbræðsla er Íslendingum hagkvæm, er bygging orkuversins við Búrfell. Það er betra að reisa stórt orkuver en lítið, raforkan verður þá ódýrari. Með því að hafa trygga sölu á miklu magni af raforku við föstu verði til langs tíma getum við ráðizt í stærri framkvæmdir, sem skapa okkar fjárhagslega möguleika til að hafa raforkuverð lægra en ella yrði eða ráðast ínýjar framkvæmdir mjög fljótlega á eftir þeim fyrstu. Að sjálfsögðu má deila um margt í þessu sambandi. Verð það, sem Svisslendingar eiga að greiða fyrir orkuna, er dálítið lægra en þeir greiða í Noregi, en miðlungsverð, þegar borið er saman við fleiri lönd. Meginatriði í þessu sambandi er í fyrsta lagi, að við þurftum að bjóða betur en Norðmenn, ef við vildum, að verksmiðjan yrði reist á Íslandi, en ekki í Noregi. Þetta er augljós staðreynd, en að öðru leyti er það, sem andstæðingar málsins hafa sagt hér í kvöld um samanburð við Noreg, yfirleitt vitleysa og blekking og þá alveg sérstaklega hjá síðasta ræðumanni. Mun það vafalaust verða borið betur saman, þegar nánari umr. verða. Ég get nefnt það sem dæmi, að í raun og veru borgar Alusuisse enga tolla af því, sem það flytur inn til Noregs í verksmiðju, og í raun og veru mun félagið enga skatta borga um alllangt árabil vegna þess, hvernig afskriftareglur eru þar ytra. Fleira mætti telja, sem mun sýna það, að fyrir utan raforkuverðið eitt er samanburður við Noreg miklu hagstæðari okkur heldur en stjórnarandstæðingar reyna að telja hlustendum trú um.

Í öðru lagi er það að nefna, að samkv. útreikningum sérfræðinga, innlendra og erlendra, er þetta rafmagnsverð hærra en framleiðsluverð, og nú er ekki lengur um neinar áætlanir að ræða, því að tilboð í orkuverið hafa verið opnuð, og er breytilegur innlendur kostnaður svo lítill, að hann á ekki að hagga endanlegri niðurstöðu. Höfuðatriði þessa máls er þá, að álbræðslan gerir okkur kleift að ráðast í stærra orkuver, greiða það fyrr með gengistryggingu á erlendu lánunum og loks að byrja mörgum árum fyrr en ella á enn nýjum virkjunarframkvæmdum. Ætti Helgi Bergs að kunna að meta það, því að þessar framkvæmdir munu að öllum líkindum fyrst og fremst hafa áhrif í uppsveitum Suðurlands.

Í öðru lagi mun álbræðslan reynast þýðingarmikil ný atvinnugrein, sem mun treysta stoðir íslenzkrar framleiðslu, veita atvinnu, örva viðskipti og auka gjaldeyristekjur. Þjóðinni fjölgar ár frá ári, en landbúnaður og sjávarútvegur okkar taka ekki við þúsundum manna til viðbótar þeim, sem þar starfa í dag. Það viðurkenna allir, sem vilja sjá. Við munum á komandi árum stórauka afköst og vinna afurðir okkar í þessum iðngreinum betur. Þannig fáum við meiri verðmæti en áður, en vélar munu taka við mörgum störfum af manna höndum. Því er skynsamlegt að kasta ekki frá sér tækifæri til að koma á fót nýrri atvinnugrein, einum af þeim þáttum stóriðnaðar, sem a hvað mesta framtið fyrir höndum. Deila má um, hvort við hefðum átt að reisa álbræðslu á eigin spýtur, verða meðeigendur eða láta Svisslendinga eiga bræðsluna eina. Í því sambandi er rétt að athuga, að hinn erlendi aðili tekur alla áhættu, ef hann á mannvirkið, og við Íslendingar getum notað okkar eigin fjármuni til að halda áfram að byggja upp eldri atvinnuvegi eða koma upp enn öðrum nýjum.

Ástæða er til að gefa gaum þeim áhrifum, sem bygging orkuvers og álbræðslu getur haft á vinnumarkað okkar. Bendir Alþfl. á þetta í ályktun sinni og leggur sérstaklega áherzlu á, að ríkisvaldið geri, þegar þar að kemur, ráðstafanir þær, sem þurfa virðist til að draga úr þenslu vegna þessara framkvæmda, og verður þá annað að koma á undan opinberum framkvæmdum. Enda þótt sjá megi fyrir erfiðleika á þessu sviði, er rétt að minnast þess, að á árunum 1965—1970 bætast yfir 8000 manns í raðir starfandi fólks í landinu. Erfiðleikarnir virðast því ekki svo miklir, að skynsamlegt sé að hætta við allt saman af þeim ástæðum. Orkuver og stóriðja eru mannvirki, sem undirbúin eru og reist á heilum áratug, og er ekki hægt að fresta þeim eða hætta við þau, þótt aflabrögð og atvinna séu með mesta móti í nokkur ár. Aðalatriðið er að minnast þess, að þrátt fyrir allt er engin vissa fyrir áframhaldandi þenslu á vinnumarkaði, eins og verið hefur á suðvestanverðu landinu um skeið. Dæmin eru nóg, sem minna okkur á, hve stutt getur verið yfir að mörkum atvinnuleysis.

Alþfl. hefur sem verkalýðsflokkur lagt sérstaka áherzlu á að fylgjast með því, sem snertir verkalýðssamtökin í þessu máli. Til greina hefur komið að flytja inn eitthvað af vinnuafli, ef það verður óhjákvæmilegt, og þá líklega helzt frá Noregi, þar sem verið er að byggja sams konar verksmiðju fyrir sama félag. Leggur Alþfl. áherzlu á, að í þeim efnum verði höfð full samráð við verkalýðsfélögin, hvert á sínu sviði, eins og raunar er venja. Þá er og augljóst, að gangi álbræðslufélagið væntanlega í atvinnurekenda- eða iðnrekendasambönd hér á landi, bætist þessum aðilum nýr og sterkur félagi með alþjóðlegan hring að baki sér. Mundi þetta styrkja svo mjög aðstöðu atvinnurekenda, m.a. í viðureign við samtök launþega hér á landi, að við það verður ekki unað, og er það því stefna Alþfl., að álbræðslufélagið gangi ekki í þessi samtök. Sambærilegt afl verkalýðs megin, fólkið, sem kemur til með að vinna þarna, eru Íslendingar, sem búa í þessu landi og hefðu unnið hér hvort eð er og verið í einhverjum verkalýðsfélögum, svo að styrkur verkalýðshreyfingarinnar er óbreyttur.

Það er gamall draumur á Íslandi og yrkisefni stórhuga skálda, að þjóðin geti virkjað fossa og hagnýtt aflið „frá landsins hjarta rót“ í stórverksmiðjum, sem framleiða nauðsynjar nútímalífs. Þessi draumur hefur enn ekki orðið að veruleika nema í smáum stíl, af því að við höfum ekki ráðið við að reisa stóru orkuverin sjálfir. Þau verða að vera íslenzk, af því að þau eru eins og hjarta í efnahagslífinu, en raforkan eins og blóð í blóðrás, sem gefur þrótt hverju líffæri. Öðru máli gegnir um eina verksmiðju, þótt stór sé. Hún verður alltaf endanlega á valdi þess, sem ræður rafmagninu. Við getum nú gert þennan draum að veruleika. Orkuver við Þjórsá og álbræðsla í Straumsvík eru aðeins tvö af mörgum áformum um framtíðina, sem við viljum hrinda í framkvæmd. Auðvitað tökum við á okkur margvíslega áhættu. Hjá því verður aldrei komizt. Auðvitað rísa margvísleg vandamál, en þau verður að leysa. Hvort tveggja eru aukaatriði miðað við kjarna málsins, að beizla stórfljótin á næstu áratugum og nota orkuna ekki aðeins til álbræðslu, heldur til margvíslegrar annarrar framleiðslu.

Það er í rauninni stórmerkilegt, að nú á tímum skuli stjórnarandstaðan finna það helzt til gagnrýni á ríkisstj., að hún ætli að gera of mikið, byggja landið of ört. Ekki getur sú ríkisstj. verið dáðlaus eða afturhaldssöm, sem verður fyrir slíkri gagnrýni.

Við megum ekki gleyma því, hve þjóðin stækkar ört. Þegar raforka byrjar að renna frá Þjórsá, þegar fyrsti málmurinn verður bræddur við Straumsvík, verða íbúar Íslands um 210 þús. Þegar síðari áfanga virkjunarinnar lýkur og síðari hluti verksmiðjunnar er tilbúinn, verða íbúar landsins um 230 þús. Hugsið um þetta, góðir hlustendur. Hugsið einnig um allt það, sem við þurfum að gera til að tryggja lífskjör næstu afkomenda okkar. Þetta er ekki í fjarlægri framtið. Þetta verður á okkar dögum og barna okkar á næstu 10 árum. Við þurfum meiri tækni, meiri framleiðni, meiri fjölbreytni í atvinnuvegum næstu ár. Þess vegna er ástæða til að segja við Íslendinga það, sem sýslumaður á Norðurlandi sagði við sitt fólk fyrir 1 1/2 öld eða svo: „Verið ekki fráleitir öllu nýju, fortakið ekki framundi, en látið ykkur heldur ekki finnast of mikið um það “

Við getum ekki lýst vantrausti á ríkisstj., af því að hún framkvæmi of mikið af draumum þjóðarinnar. Þess vegna er sjálfsagt að fella þá vantrauststill., sem framsóknarmenn og Alþb.-menn hafa flutt.