09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (2861)

48. mál, sumarheimili kaupstaðabarna í sveit

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 51 hef ég ásamt hv. 3. þm. Vestf., Sigurvin Einarssyni, og hv. 5. þm. Norðurl. e., Ingvari Gíslasyni, leyft mér að bera fram þáltill. um, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að skipa 5 manna mþn. til þess að gera till. um stofnun sumarheimila í sveitum fyrir börn úr kaupstöðum og kauptúnum. Tilefni þessa tillöguflutnings eru þær breytingar, sem orðið hafa á íslenzku þjóðlífi á síðustu áratugum.

Hér áður, þegar ég og mínir jafnaldrar vorum að alast upp, var það og löngum áður háttur kaupstaðarbúa að koma börnum sínum í sumardvöl á sveitaheimilum. Slíkar sumardvalir voru mjög eftirsóttar og þóttu hollar og þroskavænlegar fyrir börnin. Á þennan hátt komust þau í tengsl við náttúru landsins og lærðu að umgangast dýrin og kynntust framleiðslustörfum í sveitum, sjálfum sér til gagns og þroska og fólkinu í sveitunum yfirleitt til ánægju. Tengsli fólksins héldust og styrktust, þess, sem bjó í sveitunum, og hins, sem heima átti við sjávarsíðuna, og tilfinningin jókst fyrir því, að allir ættum við Íslendingar sameiginlega hagsmuni. Á þeim tíma, sem mér er minnisstæðastur í þessu sambandi, voru ástæður þannig, að sæmilegir möguleikar voru til þess í sveitunum að veita þessum sumardvalargestum viðtöku. Hlutföllin milli búsetu í sveitum og bæjum voru allt önnur þá en þau eru nú.

Núna er þetta allt saman gerbreytt, eins og allir vita. Möguleikar sveitaheimilanna til slíkrar starfsemi eru alveg hverfandi hjá því, sem áður var. Sveitaheimilum hefur farið fækkandi undanfarin ár, en auk þess hefur fólki á þeim heimilum, sem enn eru fyrir hendi, fækkað mjög, m.a. vegna aukinnar vélvæðingar í landbúnaðinum. Þar er því ekki lengur fyrir hendi sá vinnukraftur innan húss, sem nauðsynlegur er til að sinna þörfum aðkomubarna. Afleiðing þessa er auðvitað sú, að þeim börnum, sem eiga kost á sumardvöl í sveit, fer sífellt fækkandi.

En þörf kaupstaðarbarna er þó alls ekki minni en áður var. Þvert á móti vex hún auðvitað hröðum skrefum með auknum fólksflutningum til þéttbýlissvæðanna. Í Reykjavík einni eru nú búsett um 78 þús. manns, og á Faxaflóasvæðinu búa yfir 100 þús. manns, og víðar er þéttbýli en hér. Sveitabýli eru hins vegar um 5700 á öllu landinu. Þessar tölur sýna, hve langur vegur er frá því, að sveitaheimilin geti leyst allan þann vanda, sem hér er gerður að umtalsefni. Hér þurfa nýjar aðgerðir til að koma, ef kaupstaðarbörn eiga að fá að halda áfram að njóta sveitadvalar að sumrinu.

Ýmis félagasamtök í landinu hafa á virðingarverðan hátt leitazt við að bæta nokkuð úr þörfinni og orðið talsvert ágengt í því efni. Það er skylt að viðurkenna. Í þessu sambandi má t.d. nefna Kristilegt félag ungra manna og kvenna í Reykjavík. Þessi samtök hafa haldið uppi sumardvalarstarfsemi í Vatnaskógi og Vindáshlíð, og mörg börn héðan hafa notið dvalar á þessum stöðum. Þarna er þó aðeins um stuttan tíma að ræða fyrir hvert barn, ein og í mesta lagi tvær vikur. Þá má nefna Rauða krossinn og heimili hans að Laugarási, Silungapolli og víðar. Þjóðkirkjan hefur á síðari árum haldið uppi slíkri starfsemi og fleiri samtök, sem of langt yrði hér upp að telja. Alls eru þeir aðilar, sem Reykjavíkurborg t.d. hefur styrkt í þessu skyni, 9 talsins. Þessir 9 aðilar geta tekið á móti 980 börnum með 30 þús. dvalardaga, en aðrir aðilar, svo sem KFUM og þjóðkirkjan, sem ekki eru styrktir sérstaklega af Reykjavíkurborg, geta látið í té um 50 þús. dvalardaga.

Sameiginlegt öllum þessum heimilum er, að þar er enginn búskapur rekinn, en það teljum við flm. þessarar till. mikinn galla. Það er skoðun okkar, eins og fram kemur í till., að stefnt skuli að því, að á slíkum sumarheimilum hafi börnin viðfangsefni, er geti orðið þeim að sem mestum andlegum og líkamlegum þroska, þ. á m. ræktunarstörf, gæzla húsdýra og umgengni við þau, svo að eitthvað sé nefnt. Á þann hátt teljum við, að þessar sumardvalir verði líkari því, sem þær áður voru og við teljum að hafi reynzt vel, og þær hafi meira uppeldisgildi.

Þá þykir mér rétt að geta þess, að í Reykjavík hefur verið starfræktur undanfarin sumur vinnuskóli fyrir unglinga 12—15 ára, sem á s.l. ári tók á móti 542 unglingum til vinnu í takmarkaðan tíma. En í hverjum af þessum árgöngum, 12—15 ára, munu nú vera um 1600 ungmenni.

Hvort tveggja þetta, sem ég hef nú hér nefnt, vinnuskóli Reykjavíkurborgar og sumardvalarstaðir annarra aðila, er að sjálfsögðu góðra gjalda vert. En það leysir ekki nema að mjög takmörkuðu leyti það viðfangsefni, sem hér er við að fást.

Um ráðstafanir annarra sveitarfélaga en Reykjavíkur er mér minna kunnugt, en ég veit þó, að einnig þær eru viðast hvar ófullnægjandi. Af þessu leiðir auðvitað, að foreldrar í kaupstöðum og öðru þéttbýli hafa neyðzt til að koma börnum sínum til starfa á hinum almenna vinnumarkaði þann tíma, sem þau eru ekki í skóla, eða láta þau ganga iðjulaus og í hálfgerðum vandræðum með sjálf sig, en slíkt iðjuleysi er ungmennum áreiðanlega ekki hollt og getur leitt til óæskilegra hluta.

Að vísu er ég þeirrar skoðunar, að hæfileg vinna sé hverju ungmenni holl og margfalt betri en iðjuleysi. En því er þó ekki að neita, að barnavinna getur boðið margvíslegum hættum heim, og eru því miður dæmi þess, að börn hafa verið sett til þeirra starfa, sem ekki verða talin þeim hættulaus, hvorki andlega né líkamlega. Koma í hugann t.d. fregnir þær, sem birtust í Reykjavíkurblöðunum á s.l. sumri um barnavinnuna við Reykjavíkurhöfn og mörgum okkar eru eflaust enn í fersku minni.

Að áliti okkar flm. er hér um tvöfalda hættu að ræða: Annars vegar þá, að kaupstaðarbörn missa af þeim skóla, sem sveitin og sveitalífið hefur verið börnum landsins. Hins vegar ráðast þau til þeirra starfa við sjávarsíðuna, sem jafnvel geta orðið þeim viðsjárverð, eða þau hafa engin sérstök viðfangsefni við að fást, sem einnig er óæskilegt, eins og ég áðan sagði. Hér sýnist því vera verkefni, sem þarfnast úrlausnar.

Ég tel eðlilegt, að sú nefnd, sem skipuð verður, ef þessi till. verður samþ., hafi samráð við þá aðila, sem mest hafa að málum þessum unnið, og þess vegna eru í till. okkar nefndir þessir aðilar: borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórnir allra kaupstaða, sveitarstjórnir kauptúna, hreppa og barnaverndarráð. Vel má vera, að þessi upptalning sé ekki tæmandi, og kæmi þá til athugunar í þeirri nefnd, sem fengi málið til meðferðar, að bæta þar um, ef svo yrði talið.

Það er að sjálfsögðu mikið verkefni að koma upp nægilega mörgum dvalarheimilum í sveitum fyrir kaupstaðarbörn, þannig að viðhlítandi verði fyrir þessum málum séð, og lausn þess verður eflaust talsvert kostnaðarsöm. En hér er líka mikið í húfi. Við segjum oft, að æska landsins sé dýrmætasti þjóðarauðurinn, og ekkert verkefni er þá verðugra en það, sem stuðlar að auknum þroska æskunnar. Því verður að ætla, að skilningur allra, sem hér eiga hlut að máli, Alþingis, bæjar- og sveitastjórna og foreldra, á þessari þörf reynist svo mikill, að ekki verði horft í það, þótt framkvæmdirnar kosti nokkurt fé, og þess vegna verði fljótlega hafizt handa í þessum efnum. En okkur flm. er ljóst, að málið þarf gaumgæfilegrar athugunar við og mikið veltur á því, að það sé skipulega að málinu unnið. Því er gert ráð fyrir því, að n. verði skipuð til tillögugerðar um málið og hún verði skipuð þannig, að ráðh. nefni 4 menn eftir tilnefningu þingflokkanna, en fimmta manninn skipi ráðh. án tilnefningar og verði sá formaður nefndarinnar.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að hafa lengri framsögu um þessa till., en ég legg til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til síðari umr. og hv. allshn.