09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (2882)

74. mál, verkefna- og tekjustofnaskipting milli ríkisins og sveitarfélaganna

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir góðar undirtektir hans, enda bjóst ég við þeim eftir að hafa hlýtt á hann á ráðstefnu sveitarfélaganna og ræðu hans þá, sem ég sá ástæðu til þess að vitna sérstaklega til. Mér þótti mjög vænt um það, að þetta kom fram þarna á ráðstefnunni, því að það fól í sér beinar undirtektir við þá till., sem ég hafði beitt mér fyrir að lögð var fram hér á Alþ., og sýndi það, að till. var rétt hugsuð.

Ég hafði aldrei búizt við því, að slík till. sem þessi færi gegnum Alþ. öðruvísi en hún væri send til umsagnar Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég hef jafnan beitt mér fyrir því hér á Alþ., þegar málefni hafa verið í nefndum, sem ég hef átt sæti í, sem snerta sveitarfélögin, að þau væru send til umsagnar stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Hins vegar hefur Alþ. ekki alltaf gætt þess að gera það, og um það kom fram kvörtun á margnefndri ráðstefnu, og sú kvörtun var talin á þeim rökum reist, að ráðstefnan sá ástæðu til þess að álykta um það atriði. Og ég vil nú að gefnu tilefni vekja athygli þingheims á þessari ályktun, en hún er, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Ráðstefna Sambands ísl. sveitarfélaga um fjármál sveitarfélaga, haldin í Reykjavík 22.–24. nóv. 1965, leggur áherzlu á, að öll frv., sem Alþ. fjallar um og sveitarfélögin varða, svo og frv. að reglugerðum, sem snerta málefni, er varða sveitarfélögin í heild, verði send Sambandi ísl. sveitarfélaga til umsagnar.“

Mér finnst alveg einboðið, að sú n., sem væntanlega fær till., sem hér er til umr., til meðferðar, leiti álits stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, og ég tel ákaflega gott og heppilegt, að hæstv. fjmrh. hefur nú regar gert gangskör að því að kveðja embættismenn til að kanna þessi mál. Mér finnst það vænlegt fyrir málefnið hér á Alþ. að geta fengið þá til ráðgjafar um afgreiðslu málsins. En hitt vil ég samt leggja áherzlu á að gefnu tilefni frá hæstv. fjmrh., að ég tel, að skipun n. verði heppilegust þannig, að allir flokkar þingsins eigi þar fulltrúa. Ég tel það heppilegra en að nefndarstarfið og tillögugerðin í því sambandi verði gerð af embættismönnum ríkisins, — heppilegra að því leyti, að það tryggir málunum öruggari framgang, ef samkomulag fæst í n. milli fulltrúa stjórnmálaflokkanna og svo auðvitað annarra aðila, sem að málefninu vinna, og þá fyrst og fremst fulltrúa frá félmrn. og Sambandi ísl. sveitarfélaga. — Svo endurtek ég aftur þakkir mínar til fjmrh. fyrir undirtektir hans.