16.02.1966
Sameinað þing: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (2918)

102. mál, skipting landsins í fylki er hafi sjálfstjórn í sérmálum

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) fluttum sams konar till. og þá, sem nú er tekin fyrir, á síðasta Alþ. Hún var eitt þeirra mála, sem þinginu vannst ekki tími til að afgreiða. Hins vegar er efni till. ekki síður brýnt, þó að eitt ár hafi liðið, jafnvel enn þá brýnna. Þess vegna er hún nú endurflutt af okkur sömu þingmönnum.

Till. fylgir allýtarleg grg., og leyfi ég mér að skírskota til hennar. Í fyrra fylgdi ég einnig till. úr garði með alllangri ræðu. Ég tel mig því geta verið fremur stuttorðan nú og þó einkum af þeirri ástæðu, að till. felur í sér það, sem er að verða samhugur um hjá þjóðinni, að nauðsyn beri til þess að finna ráð til þess að skapa það, sem ég vil kalla búseturó í landinu, leita skipulegra og heilbrigðra úrræða til þess að eyða orsökunum, er leitt hafa til allt of mikilla búferlaflutninga til eins landshluta.

Það veldur nú orðið, að mér virðist, engum ágreiningi milli flokka eða milli stétta þjóðfélagsins, að þessa þróun, sem átt hefur sér stað og yfir vofir í sívaxandi mæli að óbreyttum grundvelli, þurfi að hindra. Enginn vill, að hið íslenzka þjóðfélag verði borgríki, eða ég hef ekki orðið þeirra manna var, sem við það vilja kannast, að það sé æskilegt frá þeirra sjónarmiði. En hvað er ráðlegt að gera til að koma í veg fyrir þetta? Sú spurning er það, sem leita verður svara við og gera það strax, áður en enn þá meira sígur á ógæfuhliðina en orðið er. Nóg hefur þegar hallazt.

Till. okkar hv. 3. þm. Norðurl. e. er um það að taka málefni þessi til rannsóknar frá rótum með það fyrir augum að leitast við að stemma á að ósi.

Ýmislegt hefur verið gert af Alþ. til að hjálpa landsbyggðinni í samkeppni hennar við höfuðborgarsvæðið um fólkið, sérstaklega atvinnulega. Í því sambandi má t.d. nefna starfsemi atvinnubótasjóðs og fjárframlög til hafna, fáfarinna vega, samgangna á sjó og almennrar rafvæðingar. Þetta er allt gott og blessað. En reynslan hefur samt sýnt, að þetta er ekki nóg. Þetta hefur þurft að gera, og þetta þarf að halda áfram að auka. En þó að það verði aukið, þarf annað líka. Það þarf að skipa þannig málum, að þjóðfélagskerfið sjálft vinni gegn borgríkismyndun. Nú vinnur þjóðfélagskerfið að borgríkismyndun, þótt enginn þegn þjóðfélagsins telji sig vilja það eða sé þar að verki í þeim tilgangi. Þetta er það hættulegasta við að láta bíða að gera það, sem að verulegu gagni mætti koma til mótvægis þróuninni, sem er svo hröð í áttina til borgríkis.

En hvað er hægt að gera? Ég ætla enga tilraun að gera í þessari ræðu að svara þeirri spurningu í einstökum atriðum. Það er margt hægt að gera til mótspyrnu þessari óheillaþróun og verður áreiðanlega margt að gera. Um einstök atriði á byrjunarstigi umr. er hægt endalaust að deila, og ég vil alls ekki á þessu stigi málsins stofna til slíkrar þrætu. Það mundi aðeins drepa aðalatriðinu á dreif að fara að deila um einstök atriði, þ.e.a.s. deila af þeim mönnum, sem eru sammála um, að hér sé vandi á ferðum, sem þurfi að finna ráð við.

Aðalatriðið er, að það þarf að fara fram gagnger athugun á því, og það strax, hvernig hægt er að skapa þær festur í þjóðfélaginu úti um land, að þær hamli á sem sjálfvirkastan hátt á móti hinu sjálfvirka aðdráttarafli höfuðborgarsvæðísins, að þær takist á við það afl, sem togar til höfuðborgarsvæðisins. Og slíka athugun þarf að gera af góðri yfirsýn. Þar þurfa að koma skýrt fram sjónarmið landshlutanna hvers um sig, þar á meðal höfuðborgarinnar. Og svo þarf að koma þar fram sjónarmið löggjafarþingsins og landsstjórnarinnar. Allir þessir aðilar verða að eiga fulltrúa, er starfi að umræddri athugun. Þar á að vega og meta hin einstöku atriði, deila um þau, ef svo vill verkast, hafna og velja með tilliti til þess, sem bezt hentar frá þýðingarmestu sjónarmiðunum og í samræmi við heildaraðgerðir.

Till. okkar hv. 3. þm. Norðurl. v. er um, að Alþ. skori á hæstv. ríkisstj. að skipa 10 menn í n. til þvílíkrar gagngerðrar athugunar. Varla getur nokkrum fundizt of miklu til kostað með þeirri nefndarskipun, svo mikið sem er í húfi. Við flm. teljum rétt, að mál þessi séu sett á odd, þannig að n. sé ætlað að rannsaka, hvort ekki sé rétt að skipta landinu í allstór svæði, er nefna mætti t.d. fylki, eða öðrum nöfnum, ef betri fyndust. Þessi svæði hugsum við okkur, að hafi sjálfstjórn í sérmálum, allt eftir því sem viturlegt þætti og samkomulag yrði um að rækilegri athugun lokinni. Fyrirmyndir þessa skipulags er að finna hjá frændþjóðum okkar Íslendinga, t.d. Norðmönnum og Svíum. Þeirra skipulag er sjálfsagt fyrir slíka n. að gaumgæfa.

Með því að stofna til rannsóknar á grundvelli fyrir sterkari samstöðu og samtök á hverju umræddu svæði en nú eru þar og hvað til þess þarf að koma þar upp eðlilegri og áhrifaríkri heimastjórn, er gengið miklu róttækar í þessi mál en hingað til hefur verið gert og á breiðara sviði. Með till. eru markaðar útlínur, og innan þeirra er því margt eða jafnvel allt, sem ýmsir hafa bent á að gera þyrfti, er miði til umbóta, en gengur skemmra en till. okkar. Kemur þá vænt anlega til athugunar líka hjá n., verði hún skipuð, þetta allt, af því að það verður í leiðinni

Hugmyndin um fylkjaskipun fékk mikinn hljómgrunn hjá almenningi víðs vegar um land, þegar fjórðungssambönd Austfirðinga og Norðlendinga settu hana fram fyrir nálega tveim áratugum, að vísu nokkru umfangsmeiri en hér er gert. Og um langt skeið hafa fjórðungarnir austan, norðan og vestan haft hjá sér fundasamband, þar sem þeir hafa ályktað um sérmál sín. En sú samtakaviðleitni hefur enga stoð haft í lögum og því nánast verið aðeins til að gefa út viljayfirlýsingar, og þær viljayfirlýsingar hafa oftast orðið fokstrá á hærri stöðum. En þessi viðleitni hefur samt glögglega sýnt, að fólkið í fjórðungunum finnur til samtakaþarfarinnar, finnur, að sveitarfélög og sýslur eru of litlar heildir út af fyrir sig, eins og nú er komið, til að takast á við strauma þjóðlífsins og gæta hagsmuna fólksins. Í skjóli þeirra litlu heilda hefur fólkið ekki það félagslega öryggi og þá víðtæku samfélagsþjónustu, sem skapar því búseturó, sízt af öllu þá nærfærnu þjónustu, er sjálfstjórn í sérmálum veitir og þeir kunnáttumenn taka þátt í að skipuleggja, sem eru búsettir þar og hafa því heimasjónarmið, finna sjálfir, hvar skórinn kreppir, en horfa ekki frá skrifstofum í höfuðstaðnum á stað og stund.

Ráðstefna, sem stærri sveitarfélögin í Norðurlandsfjórðungi héldu á Akureyri s.l. vor og ætla að endurtaka með þátttöku smærri sveitarfélaganna eða sýslufélaga a.m.k. til þess að ræða málefni sin og stöðu sína í þjóðfélaginu, er lífandi tákn þess, að neðan frá rís nú vilji til svæðasamtaka, sem Alþ. á að mæta, a.m.k. með því að láta gera mjög rækilega athugun á því, sem till. þessi gerir ráð fyrir, hvort ekki eigi að stofna lögformlega til þess að skipta landinu í fylki með sjálfstjórn í ýmsum málum. Því yrði að fylgja mjög skipuleg og vel hugsuð dreifing valds og dreifing vísindalegrar og sérfræðilegrar þjónustu. Ef tækist að byggja upp sterkar og í mörgu sjálfstæðar svæðaheildir, mundi það efla búseturó í landinu, koma traustum fótum undir þjóðfélagið, gera ríkisheildina sterka, koma í veg fyrir, að þjóðfélagið vanskapist í borgarríki. Þetta er áreiðanlega þýðingarmikið og brýnt athugunarefni.

Till. þessari var eftir fyrri umr. í fyrra visað til hv. fjvn., en n. vannst ekki tími til að afgreiða hana. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mun hafa sent n. jákvæða umsögn um till. Ég tel nú liggja þráðbeint fyrir að vísa till. á ný til fjvn., legg því til, herra forseti, að till. verði að þessari umr. lokinni vísað til síðari umr. og hv. fjvn.